22.03.1961
Sameinað þing: 55. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 825 í D-deild Alþingistíðinda. (2791)

70. mál, fiskveiðar við vesturströnd Afríku

Frsm. minni hl. (Karl Guðjónsson):

Herra forseti. Það er rétt sem hv. frsm. meiri hl. gat hér um, að í fjvn. mun ekki vera neinn ágreiningur um það, að Íslendingum beri að halda uppi fiskileit og fiskirannsóknum til aðstoðar fyrir fiskiflotann, svo sem frekast er kostur á og svo sem líklegast er, til þess að góður árangur geti náðst í veiðunum. Hér liggur hins vegar fyrir þáltill. um að fela ríkisstj. að láta fram fara athugun á því, hvaða möguleikar séu á, að íslenzk fiskiskip geti hafið veiðar við vesturströnd Afríku, og í framhaldi af þeim athugunum, ef þær reyndust álitlegar, að heimila henni að senda veiðiskip á þær slóðir til þess að gera tilraunir um veiðar þar. Það hefur hins vegar orðið ágreiningur í fjvn. um þessa till. sem slíka. Ég og hv. framsóknarmenn í þeirri nefnd höfum ekki talið, að þetta væru þær líklegustu rannsóknir, sem hugsazt gætu til þess að færa aukna björg í íslenzka þjóðarbúið, heldur lítum við svo á, að ýmis verkefni séu bæði nærtækari og líklegri til þess að skila arði, til þess að skila aukningu fiskveiðanna, heldur en það að senda veiðiskip suður til Afríku.

Því er ekki að leyna, að fyrsti flm. till., sem hefur mikla reynslu í að fara yfir skýrslur um fiskveiðar, hefur komið auga á það, að sumar þjóðir hafa gert tilraunir á þessum slóðum, og þá dottið í hug, að máske væri hér líka verkefni fyrir Ísland, og er allt slíkt góðra gjalda vert, og ekki sízt hefur það máske valdið einhverju um, að ráðizt var í flutning till., að einmitt á þeim tíma, sem verið var að leggja hana fram hér í þingi, þá mun hv. fyrsti flm. hafa verið aðili fyrir ríkisstj. hönd að samningsgerð við Breta, sem þá fyrirsjáanlega hefur stefnt í þá átt, að þrengjast mundi um fyrir íslenzka flotann á heimamiðum, sem nú er og í ljós komið með landhelgissamningnum við Breta, þar sem íslenzk stjórnarvöld leyfa Bretum afnot af verulegum hafsvæðum í okkar landhelgi, og verður þar af leiðandi óhægara fyrir íslenzka flotann um vik hér á heimaslóðum.

Mér finnst það hins vegar nokkru furðulegra, að nú, eftir að till. hefur legið hér um nokkurt skeið og bæði flutningsmenn og þeir aðrir, sem um málin fjalla hér á þingi, hafa átt þess kost að kynna sér árangurinn t.d. af veiðitilraunum Norðmanna á þessum slóðum, skuli enn haldið fast við það. að samþykkja beri þessa till., og þá taka að sjálfsögðu á sig þá ábyrgð, að þeim fjármunum, sem íslenzka ríkið getur varið til aukningar fiskirannsóknum, fiskileit eða aðstoð við íslenzkan fiskiflota að öðru leyti, verði varið í það að endurtaka þær tilraunir, sem t.d. Norðmenn eru nú nýbúnir að gera á þessum slóðum og ég skal víkja að örlítið síðar. Ég held, að það væri íslenzkum fiskiflota miklu meiri hagur, að lagt væri kapp á það að rannsaka fiskveiðar á ýmsum þeim slóðum, sem nær okkur liggja og þar sem aðrar þjóðir hafa náð talsverðum árangri að undanförnu, en við höfum ekki lagt verulegt fjármagn í að kanna eða gera tilraunir til veiða á. Á ég þar t.d. við hafsvæðið austan við Ísland, bæði norðaustur af Íslandi og suðaustur af Íslandi þar sem aðrar þjóðir fiska verulegt magn af síld, en okkur hefur ekki tekizt til þessa að hagnýta okkur að neinu ráði. Þá vil ég og minna á það, að íslenzki togaraflotinn hefur á undanförnum árum verið að fikra sig út á mið við Grænland og vestur við Nýfundnaland, og þau mið eru alls ekki fullkönnuð enn þá, og af Íslands hálfu hefur ekki verið mjög mikið gert til þess að kanna þá möguleika, sem þar kunna að liggja, frekar en orðið er, en þar mun svo til eingöngu um það að ræða, að sendir hafa verið togarar með venjulegan veiðiútbúnað og lítið þar fram yfir til þess að leita að fiskimiðum á þessum slóðum. Það hefur stundum tekizt ágætlega og fært þjóðinni stórkostlegt fjarmagn, og tel ég, að hér sé alls ekki um fullkannaða möguleika að ræða og að líklegt sé og a.m.k. miklu líklegra en við Afríkustrendur, að á þessum slóðum getum við fundið hagnýtanleg fiskimið.

Eins og ég gat um áðan, hafa Norðmenn gert út leiðangra suður að Afríkuströndum til þess að reyna að hagnýta fiskimiðin þar. Ég hef ekki í höndum neinar opinberar skýrslur frá stjórnarvöldum Noregs um það, hvernig þetta hefur til tekizt, en í norskum blöðum hafa komið frásagnir um þetta. Nú er það að vísu svo, að þeir, sem vanir eru að lesa íslenzku blöðin, hafa máske tilhneigingu til þess að vefengja blaðafréttir almennt, en ég hygg ,þó, að ekki séu norskar blaðafréttir af þessum leiðöngrum Norðmanna langt frá því að vera réttar, og vil ég leyfa mér að drepa á örfá atriði. sem komið hafa fram í norskum blöðum varðandi veiðarnar við vesturströnd Afríku.

Leiðangur Norðmanna, sem frá segir í norskum blöðum nú rétt upp úr s.l. áramótum og þá var að ljúka könnunum sínum, var þrjú fiskiskip, allstór og vel búin, ásamt norska fiskirannsóknarskipinu Finn Hjort, en þar var um borð einn frægasti og kunnasti fiskifræðingur Norðmanna, Finn Devold. Þessi leiðangur hafði um skeið leitað fyrir sér um fiskveiðar við Afríkustrendur, og þar reyndust vera ærið mörg tormerki á, að leiðangurinn gæti náð árangri. Það var nú eitt fyrir sig, að sjávarhiti á þessum slóðum reyndist gjarnan vera upp undir 30° C, eða 27° C, og varð það valdandi þess, að öll venjuleg veiðarfæri úr baðmull eða hampi dugðu ekki, þau soðnuðu. Sömuleiðis bráðnaði öll tjara, sem í þau hafði verið borin, og varð þetta valdandi miklum erfiðleikum, og má telja, að veiðarfæri úr þessu efni hafi ekki gagnað. Skipin sjálf þoldu hitann ekki heldur vel, og varð að gera á þeim viðgerðir vegna hita. Fiskimennirnir þoldu hitann líka illa, og varð að lagfæra loftræstingar í skipunum, og af þessu öllu saman hlauzt ærinn kostnaður.

Fisktegundirnar, sem þarna var aðallega reynt við veiðar á, voru styrja og túnfiskur ásamt síld og nokkrum fleiri hitabeltisfiskum. Þótt illa aflaðist hjá Norðmönnum og nær ekkert, þá voru þeir samt reynslunni ríkari eða telja sig vera reynslunni ríkari um það, hvenær þessara fiska sé helzt að leita á þessum slóðum, og það kemur í ljós, að síldveiðar á þessum slóðum fara helzt fram yfir sumarið og fram í septembermánuð, þ.e.a.s. nákvæmlega á sama tíma og okkar síldveiðiskip hafa miklu, miklu meiri veiðimöguleika hér heima, svo að ekki er það uppörvandi fyrir Íslendinga til þess að sækja á skipum sínum yfir stóra hluta jarðarkúlunnar og í þau skilyrði, sem ég hér hef lýst og eru ákallega óhagkvæm okkur og hvorki okkar veiðiskip eru búin í né okkar menn þjálfaðir til starfa í.

Það má segja, að veiði Norðmanna af styrju og túnfiski eða öðrum hitabeitisfiskum þar suður frá hafi engin orðið, sem teljandi sé. Hins vegur munu þeir hafa orðíð síldar lítillega varir, en engan veginn í þeim mæli, sem þeir gerðu sér vonir um, og þegar um einhverja síldveiði var að ræða, þá komu í ljós gífurlegir erfiðleikar á því að gera verðmæti úr aflanum, bæði geymist hann sérlega illa og auk þess reyndust þeir markaðir, sem þeir þurftu að treysta á, ekki færir um að taka við neinu teljandi magni af afla, án þess að verðið félli.

Í fæstum orðum, þá held ég, að það gefi einna beztar hugmyndir um árangurinn af Afríku-veiðitilraunum Norðmanna að skýra bara frá einni spurningu og einu svari, sem birtist 4. jan. s.l. í blaðinu Fiskeren í Noregi, þar sem blaðamaður frá því blaði hafði átt tal við stýrimann á skipi einu, sem hafði verið þarna suður frá við veiðarnar um missirisskeið. Blaðamaðurinn spurði: Hvað hafið þið að segja um norsku fiskveiðitilraunirnar við Vestur-Afríku? Þær voru 150% mislukkun, svaraði stýrimaðurinn á stundinni.

Ég efast ekkert um það, að þessar og aðrar frásagnir frá þessum veiðum og því, hvernig þær hafa gengið, hafa ekki farið fram hjá flutningsmönnum þessarar till., og tel ég þess vegna, að það hefði kannske verið hyggilegast að lofa till. að liggja óafgreiddri. En það virðist vera, að meðal tillögumanna og þeirra stuðningsmanna annarra sé mikill áhugi fyrir því að afla ríkisstj. einmitt þessarar heimildar, að senda skip suður til Afríkustrandi, og virðist þá ekki bóla svo mjög á því, að þröngt sé í búi um fjármagn. Þess vegna held ég, að rétt væri, að við reyndum heldur að nota það fjármagn, sem annors færi í að endurtaka tilraunir Norðmanna, í það að greiða fyrir fiskiflotanum á þeim fiskimiðum, sem líklegri eru til að gefa árangur í veiðunum, og hefur minni hl. fjvn. gefið út sérstakt nál., þar sem þær hugmyndir eru skýrðar og gerð till. til breyt. á tillgr., þannig að till. yrði á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að auka fiskleitar-, fiskirannsókna- og aðstoðarstarfsemi við íslenzka fiskiflotann helma fyrir og á fjarlægum miðum og verði sú þjónusta framkvæmd í nánu samráði við fiskideild atvinnudeildar Háskóla Íslands.“

Í samræmi víð, að tillgr. orðist þannig, verði fyrirsögn till. breytt. Leggjum við í minni hl. fjvn. til, að till. verði samþ. þannig breytt.