27.03.1961
Sameinað þing: 56. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 830 í D-deild Alþingistíðinda. (2794)

70. mál, fiskveiðar við vesturströnd Afríku

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Efni þessarar till. er að fela ríkisstj. að láta fara fram athugun á því, hvaða möguleikar séu á því, að íslenzk fiskiskip geti hafið fiskveiðar við vesturströnd Afríku. Í grg. till. segir m.a.:

„Á undanförnum árum hafa ný skip í bátaflotanum farið stækkandi. Allmikið hefur verið byggt af skipum 150–250 rúmlestir. Þessi skip eru ef dýr, bæði í stofnkostnaði og rekstri, til þess að þau geti byggt afkomu sína eingöngu á veiðum hér við land.”

Ég verð nú að játa, að þegar ég sá þessa till. hér fyrst á Alþingi, varð ég nokkuð undrandi á efni till. sjálfrar og þá ekki siður þeirri grg., sem till. fylgir. Því er sem sagt slegið hér föstu, að allmikið af þeim nýju fiskiskipum, sem við höfum verið að kaupa nú að undanförnu, 150–200 tonna skip, þau séu of dýr, til þess að hægt sé að gera þau út hér við Ísland. Og vegna þess að keypt hafi verið of dýr skip til útgerðar hér frá Íslandi einvörðungu, verði menn að leita víða um heimshöfin eftir nægilega góðum fiskimiðum, til þess að hægt sé að reka slík skip sem þessi, og dettur mönnum þá helzt í hug að bera niður við vesturströnd Afríku. Ég tel, að það geti varla annað verið, sem staðið hefur á bak við, að þessi till. er hér flutt, en að það sé ætlunin, að íslenzka ríkisstj. láti fara fram tilraunaútgerð af hálfu Íslendinga á þessum slóðum, því að það þurfti ekki að gera neina samþykkt hér á Alþingi um það að fylgjast með því. sem opinbert kann að verða um niðurstöður annarra í þessum efnum, og allra sízt hefði fyrsti flm. þessarar till., fiskimálastjóri landsins, þurft að flytja hér till. um það, því að þetta er vitanlega eitt af verkefnum Fiskifélags Íslands, að fylgjast með öllum nýjungum, sem mættu verða okkur að gagni í þessum efnum, og þarf enga sérstaka þingssamþykkt til að fela því það. En hitt þurfti vitanlega, að gera hér um þingssamþykkt, ef ætlunin var að framkvæma hér sjálfstæða athugun af Íslendinga hálfu með tilraunaútgerð.

Ég verð að vísu að segja, að mér þykir það vera allfjarri réttu lagi að halda því fram, að þessi nýja gerð af fiskibátum, sem við höfum keypt talsvert af til landsins, 150–200 tonna skip, sé svo dýr, að það sé ekki mögulegt að gera þau út hér við Ísland. Ég er á allt annarri skoðun. Ég tel, að það séu tvímælalaust meiri möguleikar á að gera út einmitt þessi skip nú við Ísland heldur en mikið af þeirri bátastærð, sem við notuðum hér mest áður. Ástæðan er m.a. sú, að verðmismunur einmitt á þessum 150 tonna bátum og á þeim 60–70 tonna bátum, sem hér var mest af áður, er sáralítill.

En eins og hér hefur komið fram í umr. um þetta mál, liggja nú fyrir þó nokkrar upplýsingar um það, hvers konar veiðar það eru, sem hafa átt sér stað við vesturströnd Afríku og hugur hv. þm., sem að þessari till. standa, beinist nú einkum að í vandræðum íslenzkrar útgerðar. Það hefur komið hér fram, að Norðmenn hafa sent tilraunaflota nú á s.1. ári til vesturstrandar Afríku og kannað veiðimöguleika þar. Þangað voru send þrjú veiðiskip og auk þess fiskirannsóknarskip og birgðaskip, og einn fiskibátur norskur mun hafa verið leigður þangað eða gerður út af öðrum en Norðmönnum að verulegu leyti. Það kom í ljós við þessa athugun Norðmanna. að þeir höfðu af þessu mikinn kostnað og engan árangur. Eitt af fiskveiðiritunum í Noregi hafði það eftir stýrimanni, sem kom úr þessum leiðangri, að þessi leiðangur hefði verið 150% mislukkaður frá upphafi. Það var sem sagt enginn vafi á því, að þarna tókst ekki að fá neina veiði, en við mjög margs konar erfiðleika var þarna að stríða. Það kom í ljós við þessa athugun Norðmanna, að þær veiðar, sem þarna eru aðallega stundaðar, sem hafa að langmestu verið styrjuveiðar, þær eru stundaðar að okkar áliti á mjög frumstæðan hátt og með þeim veiðarfærum, sem allajafna gefa heldur lítil afköst, og það þarf að útbúa veiðiskipin með alveg sérstökum hætti og á allt annan hátt en okkar veiðiskip eru útbúin. Tilraunir Norðmanna til þess að nota afkastameiri veiðarfæri við þessar veiðar mislukkuðust algerlega, og virðist ekkert benda til þess, að þessi veiðarfæri, sem þeir reyndu þar og við þekkjum, geti hentað við slíkar veiðar. Hins vegar kom í ljós, að það er hægt að veiða síld á þessu svæði, nokkuð af síld, og þá gæti væntanlega kunnatta okkar síldveiðimanna komið þarna að nokkrum notum. En þessar síldveiðar eru einmitt á þeim tíma, sem aðalsíldveiðarnar eru hér, og bendir ekkert til þess, að það sé hægt að veiða þar nokkuð svipað magn því, sem við þekkjum hér við land. Reynslan varð líka sú, að ef þessir fáu bátar, sem þarna voru, fengju meira en 400 mál af síld, þá var útilokað að fá nokkurt verð fyrir síldina, vegna þess að það voru engar aðstæður til þess að taka við henni í höfnum. Aðrar veiðar virtust líka einmitt vera á þeim tíma, sem veiðar eru einna mestar hér við land, eða á okkar vetrarvertíðartíma, svo að það virðast vera harla litlir möguleikar fyrir okkur að hafa mikil not af því.

Auðvitað er því ekki að neita, að við vesturströnd Afríku eins og víða annars staðar á heimshöfunum, eru án efa til fiskimið, sem litið hafa verið nýtt eða notuð enn þá, og það er reyndar vitað um það víða, að til eru góð fiskimið fjarri okkur, sem hægt væri að fá á talsverðan afla, en yfirleitt er okkur ekki kunnugt um, að það séu til fiskimið, sem gefi að öllum jafnaði meiri og betri veiði en miðin í kringum Ísland, svo að ég hygg, að það sé næsta einkennilegt að ætla að fara að leita langar leiðir og það til jafnólíkra staða á hnettinum og suður undir miðbaug til fiskveiða þar af þjóð, sem býr hér við mestu og beztu fiskimið í heimi og velt það mætavel, að hún hefur ekki enn þá komizt nema lítils háttar áleiðis með að fullnýta sín fiskimið eða rannsaka þau til hlítar. En það er eins og alltaf vill verða, að leit að nýjum fiskimiðum og tilraunir á nýjum slóðum eru talsvert kostnaðarsamar. Það er ekki auðvelt að láta slíkt bera sig í byrjun, jafnvel þó að það geti gefið góða raun, þegar nægileg þekking hefur fengizt á öllum aðstæðum.

Þetta vitum við líka, að er hér við Ísland. Það er enginn vafi á því, að hér eru mjög miklir möguleikar til fiskveiða, sem við höfum ekki enn þá fært okkur í nyt eða, við höfum ekki enn þá lagt út í að kynnast, svo sem við hefðum þurft, af eigin raun, og hefur allajafna einmitt verið borið við fjárskorti í þessum efnum. Ég vil t.d. nefna hér aðkallandi verkefni fyrir okkur að sinna í þessum efnum, sem eru margfalt nærtækari en að fara að taka þátt í fiskveiðitilraunum við vesturströnd Afríku. Ég vil nefna það dæmi, að við vitum, að hér við Ísland er um allmiklar síldargöngur að ræða á þeim tímum, þegar við höfum stundað síldveiðar tiltölulega lítið. Seinni hluta síldveiðitímans að sumrinu til, eða þegar komið er fram á haust, hafa erlendir síldveiðiflotar verið hér allfjölmennir nærri ströndum Íslands, austur og norðaustur af landinu. Við vitum, að þar hafa stundað veiðar með góðum árangri norsk síldveiðiskip, færeysk síldveiðiskip og rússnesk síldveiðiskip og veitt þar oft og tíðum mjög mikið af síld, sem þau hafa saltað. Íslenzk veiðiskip hafa tekið að mjög litlu leyti þátt í þessum veiðum. En oftsinnis hefur verið á það bent, að það væri nauðsynlegt, að íslenzka ríkið vildi hlaupa þarna undir bagga að einhverju leyti og stjórna leiðangri, sem fylgdi síldargöngunum eftir seinni hluta sumarsins, svo að við gætum einmitt með þá sérstöðu, sem við höfum, sem næst liggjum þessum miðum, orðið þessarar veiði aðnjótandi fremur en síldveiðimenn þeirra þjóða, sem verða þarna að sækja langar leiðir að. En þó að við höfum þarna vitað um talsvert ríkulega veiði, höfum við látið þetta bíða. Við höfum ekki treyst okkur í að gera út leiðangur á þessi mið og fá þær upplýsingar um þessar veiðar, sem við þyrftum, því að við vitum, að þetta mundi í byrjun kosta nokkuð. Ég vil einnig benda á, að við höfum vitað vel um það, að hér við Ísland, mjög nærri ströndinni. hefur verið mikið um síld yfir veturinn fyrir Suðurlandi og snemma á vorin. Það hafa verið gerðar nokkrar athuganir á þessu og jafnframt fengizt upplýsingar um það, að um mikið magn af vetrarsíld væri að ræða einmitt víða fyrir Suður- og Suðausturlandi mikinn hluta af vetrinum og snemma á vorin, en veiðileiðangrar hafa ekki verið gerðir út á þessi svæði, sem neitt er teljandi, þó að mjög miklar líkur bendi til þess, að þarna mætti fá mikla veiði. Svipað er að segja um athuganir á fiskimiðum á djúpmiðum í nánd við Ísland. Það er álit þeirra, sem þar þekkja bezt til, að þar séu ýmsar auðugar fiskislóðir, sem við þekkjum lítið til enn þá. Þar vitum við lítið meira en okkar togarafloti hefur getað fært okkur upplýsingar um, en skiljanlega hafa ekki verið tök á því hjá togurunum, að þeir gætu stundað miklar tilraunaveiðar, því að til þess er allur rekstur þeirra allt of dýr, að einstök fyrirtæki geti staðið undir slíkum tilraunaveiðum. Hins vegar hefur það fé, sem ríkið hefur látið af höndum á hverju ári til þess að aðstoða togaraflotann í þessum efnum, að finna nýjar fiskislóðir, verið sáralítið og ekki dugað nema mjög skamman tíma, og því miður hefur þetta fé farið stórminnkandi á undanförnum árum, eða nú á seinustu tveim árum, vegna hækkaðs rekstrarkostnaðar, á sama tíma sem fjárveitingin hefur verið hin sama að krónutölu nú um nokkur ár undanfarið.

Það er ekki nokkur vafi á því, að þetta verkefni er mjög nærtækt og aðkallandi fyrir okkur, að stofna til fiskileitar hér á djúpmiðunum við Ísland og einnig við Grænland, og það væru miklar líkur til þess, að það gæti fært okkur mikla veiði. Aðrar fiskveiðiþjóðir hafa sent allmörg rannsóknarskip á þessar slóðir og oft og tíðum fundið auðug fiskimið, sem við höfum síðan sótt nokkra veiði í á eftir, og sýndist mér, að það væri ólíkt nærtækara og eðlilegra, að við Íslendingar snerum okkur að þessum verkefnum, heldur en fara að senda tilraunaveiðiflota suður til Afríkustranda.

Til viðbótar við þau verkefni, sem ég hef hér aðeins minnzt á, eru auðvitað miklum mun fleiri verkefni, sem oft hefur verið bent á af íslenzkum fiskimönnum. Ég skal nefna eitt enn. Við vitum um það, að víða við Ísland eru til allmikil og góð fiskímið af ufsa, en við höfum vegna ýmissa sérstakra ástæðna ekki getað sinnt þeim nema að sáralitlu leyti og ekki einu sinni til jafns við ýmsar erlendar þjóðir, sem hingað hafa sent sín veiðiskip, og við verðum að játa, að þau eru jafnvel kunnugri í þeim efnum á okkar eigin miðum en við erum, varðandi göngur á þessum fiski og möguleika til þess að veiða hann. Við vitum, að hér er allmikið af þessum fiski, en það er nauðsynlegt að framkvæma hér á nauðsynlega fiskileit og fiskirannsóknir til þess að búa í haginn fyrir okkar veiðiflota. Svona eru verkefnin í rauninni alls staðar hér í kringum okkur.

En svo er annað. sem menn verða að hafa í huga varðandi hugsanlegar fiskveiðar við Afríku. Jafnvel þótt svo vildi nú vel til, að við Íslendingar fyndum auðug fiskimið við vesturströnd Afríku og við gætum sent eitthvað af okkar fiskiflota og breytt honum, auðvitað með ærnum kostnaði, þannig að hann yrði hæfur til þess að stunda veiðar á þessum slóðum, þá er að gæta að allri aðstöðunni í þessum efnum. (Forseti: Afsakið, má ég spyrja hv. þm., hvort hann á mikið eftir af ræðu sinni? Ég spyr sökum þess, að það er komið að þeim tíma. sem ráðgert hafði verið að ljúka þessum fundi.) Já, ég á talsvert eftir. (Forseti: Þá verð ég að biðja hv. þm. að fresta framhaldi ræðunnar til næsta fundar.) Já, verður hann í dag, sá fundur? (Forseti: Hann verður væntanlega á morgun.)