05.02.1961
Sameinað þing: 35. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 862 í D-deild Alþingistíðinda. (2817)

84. mál, byggingarsjóðir

Jón Skaftason:

Herra forseti. Ég hef tekið að mér í fjarveru 1. flm., hv. 7. þm. Reykv. (EA), að mæla fyrir till. til þál., sem hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að útvega nú þegar byggingarsjóði ríkisins það lánsfé, sem húsnæðismálastjórn telur nauðsynlegt til að bæta úr brýnustu þörf: enn fremur að útvega nú þegar byggingarsjóði Búnaðarbankaas fé til þess, að hann geti bætt úr aðkallandi þörfum vegna íbúðabygginga í sveitum.”

Efnislega svipaða þáltill. þessari fluttum við nokkrir þm. Framsfl. á síðasta Alþingi, en sú till. dagaði uppi í n. Höfum við því leyft okkur að flytja hana aftur í svo til óbreyttu formi.

Á s.l. ári voru útlán úr hinu almenna veðlánakerfi úr byggingarsjóði ríkisins um 71 millj. 798 þús. kr. Er þetta verulega miklu hærri upphæð en áður hefur verið veitt til íbúðalána á vegum þessarar stofnunar, siðan hún var sett á stofn árið 1955. Hér er ekki eingöngu um ný lán að ræða, því að rúmar 12 millj. kr. af þessari upphæð eru breytingar á víxillánum, sem ýmsir húsbyggjendur höfðu, en var nú breytt í föst lán.

Þó að upphæð þessi sé krónulega nokkru hærri en lánað hefur verið áður, er það öllum augljóst mál að eftir þær gífurlegu hækkanir, sem urðu á s.l. ári á byggingarkostnaði, muni þessi fjárhæð ekki hafa komið húsbyggjendum að meira liði en þau lán, sem veitt hafa verið á undanförnum árum á vegum hins almenna íbúðalánakerfis, hafa gert.

Áætluð lánsþörf á árinu 1961 úr byggingarsjóði ríkisins, ef miðað er við það, að hver umsækjandi geti fengið hámarkslán, sem er samkvæmt lögum 100 þús. kr., og ef einungis er miðað við þær umsóknir, sem fyrir liggja hjá húsnæðismálastjórn í árslok 1960, annaðhvort umsóknir, sem enga afgreiðslu hafa fengið, eða þá umsóknir, sem aðeins hafa fengizt smávægileg lán út á, — áætluð lánaþörf byggingarsjóðs á árinu 1961, miðað við þetta, er um 126 millj. kr. En þó er þess að geta, að hjá húsnæðismálastjórn lágu um s.l. áramót nm 92 umsóknir, sem stjórnin viðurkenndi ekki, voru gallaðar, og ef þær eru taldar með, mun lánaþörf byggingarsjóðsins á næsta ári út á þær umsóknir, sem þegar liggja fyrir, nema um 135 millj. kr.

Nú er talið að beztu manna yfirsýn, að tekjuvon sjóðsins á þessu ári muni ekki fara fram úr 30–35 millj. kr., þannig að öllum er ljóst, að hér skortir verulega á, mjög verulega á um, að hægt sé að fullnægja þeim umsóknum. sem fyrir lágu um s.l. áramót, hvað þá að nokkuð sé hægt að greiða upp í þær umsóknir, sem kynnu að berast byggingarsjóðnum á þessu ári.

Þegar menn virða þetta fyrir sér og meta ástand það, sem í dag er hjá fjölmörgum húsbyggjendum, sem er í fáum orðum það, að fjöldi þeirra, sem byrjað hafa á byggingum á undanförnum árum, eru hreinlega að gefast upp á sínum byggingum í miðjum klíðum, vegna þess að byggingarkostnaðurinn hefur vaxið svo gífurlega og erfiðleikar eru sennilega meiri nú en þeir hafa nokkru sinni áður verið fyrir þetta fólk að ná í nokkurt lán, — þegar þetta er haft í huga, geta menn séð, að hér er um verulegt og knýjandi verkefni að ræða.

Ég vil leyfa mér til upplýsingar fyrir hv. þm. að gefa hér nokkrar upplýsingar, sem ég hef aflað mér um ástand þessara mála, miðað við síðustu áramót, og þá vildi ég upplýsa í leiðinni um tölu umsókna og hvað hefur komið á hvern stað af peningum úr húsnæðismálastjórn á s.l. ári.

Um síðustu áramót voru lánaðar rúmar 43 millj. kr. í kaupstöðum landsins á 1005 umsækjendur. Þá lágu fyrir hjá byggingarsjóði um 655 umsóknir úr kaupstöðum landsins sem enga afgreiðslu höfðu fengið. Ef ætti að vera hægt að fullnægja 100 þús. kr. lánum út á hverja þessara umsókna, sem lágu fyrir um s.1. áramót, þyrfti til þess tæpar 102 millj. kr.

Í hreppsfélögunum er ástandið þannig, að þar hafa verið lánaðar á vegum byggingarsjóðs eða húsnæðismálastofnunarinnar um 13.7 millj. kr. á s.l. ári, út á 306 umsóknir. Þá lágu fyrir um 118 umsóknir frá hreppsfélögum, sem enga peninga höfðu fengið. En ef ætti að fullnægja þeim í hámark, þyrfti til þess rúmar 10.4 millj. kr., eða samtals yrði þetta um 24 millj, kr., sem tekjuþörf byggingarsjóðsins væri, ef ætti að vera hægt að fullnægja lánsumsóknum úr hreppsfélögum á landinu, sem lágu fyrir hjá húsnæðismálastjórn um síðustu áramót.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fara fleiri orðum um þessa þáltill. Efni hennar er ljóst, og þær upplýsingar, sem ég hef gefið hér og ég hef fengið frá mönnum, sem bezt þekkja til sýna, að hér er um mjög verulega knýjandi verkefni að ræða. Ég vil leyfa mér að lýsa því yfir, að ég tel ástæðulaust á þessu stigi málsins að vantreysta því fyrir fram, að hæstv. ríkisstj. geri eitthvað í að afla byggingarsjóðnum einhverra viðbótartekna á þessa ári, svo að hann geti staðið sæmilega í ístaðinu. Ég vil svo leyfa mér, herra forseti, að leggja til, að umr. um mál þetta verði frestað og því vísað til hv. fjvn.