14.12.1960
Efri deild: 37. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 401 í B-deild Alþingistíðinda. (283)

130. mál, söluskattur

Ólafar Jóhannesson:

Herra forseti. Það er aðeins örstutt aths. í tilefni af ummælum hv. 11. þm. Reykv.

Ég benti á það við 2. umr. þessa máls, að viðreisnin hefði harla lítinn árangur borið, og ég taldi upp nokkur málefni, sem ég taldi sýna, að svo væri. Þessu hefur lítið verið svarað, nema hvað hv. 11. þm. Reykv. hefur gert tilraun til þess og hann hefur bent á eitt atriði, þar sem hann telur, að viðreisnin hafi borið árangur, þ.e.a.s. efnahagsaðgerðirnar sýnt tilætlaðan árangur. Það var í sambandi við bætta gjaldeyrisstöðu. Hann nefndi í því sambandi ákveðnar tölur.

Það er rétt hjá hv. 11. þm. Reykv., að gjaldeyrisstaða bankanna hefur farið nokkuð batnandi upp á siðkastið, og ég ætla ekki á þessu stigi að rengja neitt þær tölur, sem hv. þm. nefndi í því sambandi. En ég vil aðeins segja það í því sambandi, að það eru enn áreiðanlega ekki öll kurl komin til grafar. Það eru viss atriði í því sambandi, sem enn eiga eftir að koma þar til og munu hafa allveruleg áhrif á gjaldeyrisstöðu bankanna. Hins vegar veit ég ekki til þess, að skuldir ríkissjóðs eða aðrar fastaskuldir út á við hafi lækkað á þessu tímabili, síðan núv. hæstv. ríkisstj. var mynduð. Og það er alveg rétt, að þær skuldir eru miklar og afborganir og vextir af þeim eru allhá, og það skyldi nú ekki vera, að það væri eftir að færa eitthvað af þeim á þessu ári. En hvað sem því liður, þá er það alveg rétt, að byrðin af þessum skuldum og þessum lánum er mikil, sérstaklega á 2–3 næstu árum, en þá fer hún að óbreyttum aðstæðum minnkandi. En það, sem gaf mér tilefni til að standa upp, var þetta, að hv. 11. þm. Reykv. sagði, að efnahagsaðgerðirnar hefðu borið írangur í þá átt að bæta gjaldeyrisaðstöðuna. Og hann sagði og viðurkenndi í því sambandi, að það hefði þurft að kreppa að og herða á ólinni, eins og hann orðaði það, og hann sagði: Það eru ekki til önnur ráð til þess að bæta gjaldeyrisstöðuna við útlönd heldur en að herða á ólinni. — Þarna er ég á öndverðu máli, og þarna er um meginstefnumun að ræða, sem ástæða er til einmitt að undirstrika í þessu sambandi og benda á. Það er alveg rétt hjá hv. 11. þm. Reykv., að efnahagsaðgerðir núv. ríkisstj. eru byggðar á þessum hugsunarhætti, að það séu ekki til önnur ráð til þess að bæta gjaldeyrisaðstöðuna gagnvart útlöndum heldur en að herða ólina, heldur en að draga saman. En ég er þar á öndverðum meið. Að vísu getur verið skynsamlegt að draga eitthvað úr innflutningi í víssum tilfellum. En við höfum haldið því fram, framsóknarmenn, að það væri einmitt helzta ráðið til þess að bæta gjaldeyrisstöðuna og ætti að vera helzta ráðið að auka framleiðsluna, m.ö.o.: ég álít, að þegar á að reyna að lækna þetta mein, sem hv. 11. þm. Reykv. taldi vera, slæma stöðu gagnvart útlöndum, þá eigi að leggja áherzlu á þá hliðina að auka útflutninginn, auka gjaldeyristekjurnar, en ekki einhliða að leggja áherzluna á það að draga úr innflutningnum og draga úr gjaldeyrisneyzlunni. Þarna er mikill meginmunur á, og í þessu er í raun og veru, að ég held, meginmunur á þeirri stefnu, sem hæstv. ríkisstj. heldur fram, og á þeirri braut, sem hún hefur gengið inn á, og á þeirri leið, sem við framsóknarmenn vildum fara í þessum efnum. Við vildum ekki lækka seglin. Við vildum reyna að halda áfram að bæta og auka útflutningsframleiðsluna og auka þjóðartekjurnar og auka gjaldeyristekjurnar og bæta þannig gjaldeyrisstöðuna. En auk þess var sjálfsögð leið, sem áttí að fara í þessu efni, að reyna að jafna þeim erlendu skuldum, sem á ríkinu og ríkisstofnunum og öðrum hér innanlands hvíla, á lengri tíma og gera eða reyna að gera nýja samninga um þau lán, þannig að greiðslubyrðin yrði ekki jafnþungbær og raun ber vitni á tiltölulega fáum árum. En mér er ekki kunnugt um, að það hafi verið gerðar neinar ráðstafanir í þá átt að fá breytingu á þeim lánakjörum og fá því dreift yfir á fleiri ár.

Ég vildi vekja athygli á þessum ummælum hv. 11. þm. Reykv., sem mér finnst vera alveg táknræn og einkennandi fyrir þá stjórnarstefnu, sem nú er fylgt.