09.11.1960
Sameinað þing: 12. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 876 í D-deild Alþingistíðinda. (2832)

87. mál, styrkir til landbúnaðarins

Flm. (Jón Þorsteinsson):

Herra forseti. Ég vildi aðeins gera örstutta aths. við ræðu síðasta hv. þm. Hann spurði m.a., hvað væru styrkir til landbúnaðarins og ég held, að hann hafi vitnað hér í ræðu, sem haldin var í þinginu um visst atriði, sem var haldið fram að væru styrkir til þessa atvinnuvegar. Það getur auðvitað verið, að í vissum tilfellum geti það verið vafaatriði hvað sé styrkur til landbúnaðar og hvað ekki. Þar eru auðvitað vafatilfelli eins og víða annars staðar. En það, sem átt er við með þessari till., er, að nefndin, sem á að rannsaka þetta mál á auðvitað að skera úr því. Þess vegna er einmitt kvödd til nefnd sérfróðra manna. Það eiga ekki að vera neinir stjórnmálamenn eða slíkir, sem hafa kannske pólitíska hagsmuni af að segja til um það, hvað séu styrkir og hvað ekki. Ég ætlast einmitt til þess, að þetta séu hlutlausir menn, eftir því sem þá er hægt að fá.

Þessi hv. þm. sagði t.d., að niðurgreiðslur á landbúnaðarvörum væru ekki styrkir til bænda. þetta væru styrkir til neytenda. Ég álít raunverulega, að þetta séu styrkir til beggja. Ég a.m.k. álít, að bændur teldu sig allmiklu verr haldna en áður, ef þessir styrkir féllu niður, og það hlýtur að vera augljóst mál eins og þeir eru miklir. Þá mundi sala á landbúnaðarvörum minnka talsvert mikið, og það hlyti náttúrulega að verða bændunum í óhag. En þetta, er auðvitað eitt af þeim atriðum, sem nefndin á að meta.

Þá vildi þessi hv. þm. taka sér hér í munn kjörorð sjálfstæðismanna um ,.stétt með stétt”, þessi till. gengi alveg í öfuga átt, það væri stétt gegn stétt. Ég tel þetta vera misskilning. Þessi rannsókn á einmitt að vera til þess að kveða stéttastríðið og stéttaágreininginn niður. En ég held einmitt, að vanþekkingin kyndi undir stéttaatriðinu, en rannsókn og þekking kveði það niður.

Ég verð svo að lokum að láta það í ljós, að ég er eiginlega undrandi og verð fyrir vonbrigðum með það, hvað bændafulltrúarnir hér á Alþ. taka þessari till. illa. Það er alveg eins og þeir vilji hreint ekki, að þessi rannsókn fari fram. Ég efast um, að þeir geri stétt sinni og umbjóðendum sínum nokkurn greiða með slíkri afstöðu, og vonast til þess, að þeir hugsi þetta nú betur, áður en málið kemur hér til síðari umr., og taki þessari till. þá vinsamlegar.