29.03.1961
Sameinað þing: 61. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 885 í D-deild Alþingistíðinda. (2846)

91. mál, hlutdeild atvinnugreina í þjóðarframleiðslunni

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Þessi till., sem hér liggur fyrir, er um rannsókn á hlutdeild hinna einstöku atvinnugreina í þjóðarframleiðslunni. Samkv. till. á að fela ríkisstj. að láta fara fram rannsókn á nokkrum atriðum varðandi það mál sem nánar er nefnt í tillgr.

Í grg., sem till. fylgir, segja flm., að það geti verið vandasamt verkefni og flókið að framkvæma þessa rannsókn. Þeir benda á það, að hagskýrslur svari ekki öllum spurningum um þessi efni. En hverjar eru spurningarnar, sem hv. flm. vilja fá svarað? Ég tel ástæðu til að óska nánari upplýsinga hjá tillögumönnum um spurningarnar. Hvað er það, sem þeir vilja vita? Hvernig á að svara þeirra spurningum?

Í grg. segja þeir, að þeir telji það nauðsynjamál, að framkvæmd verði gagnger og nákvæm rannsókn á því, hvern hlut atvinnuvegir landsmanna í heild eiga í framfærslu og lífskjörum þjóðarinnar. Ef þjóðin fær fé frá öðrum þjóðum án þess að borga það með vörum eða vinnu, þá má líklega segja, að þær tekjur séu ekki afrakstur af atvinnuvegunum, sem venjulega er kallað a.m.k. En mér skilst, að tekjur þjóðarinnar að öðru leyti, allar heimafengnar tekjur, séu það, sem framfærsla og lífsafkoma þjóðarinnar byggist á.

Í fyrsta lið tillögunnar er farið fram á, að það sé rannsakað, hve mikill sé hlutur hverrar atvinnugreinar í þjóðartekjunum, svo sem landbúnaðar, fiskveiða, iðnaðar og þjónustustarfa alls konar. En hvernig ætlast flm. til. að þetta sé reiknað út? Landbúnaður er talinn þarna fyrstur. Við skulum íhuga það. Hvernig á að reikna út hluta hans í þjóðartekjum? Á að miða við söluverð landbúnaðarafurðanna, heildarsöluverð þeirra? Og hvaða verð á þá að miða við? Á að miða við hið ákveðna útsöluverð, áður en niðurgreiðslurnar koma til lækkunar á því? Að vísu var það svo, að hv. 6. landsk. þm. var í gærkvöld að fræða landslýðinn um það, að núv. hæstv, ríkisstj. hefði afnumið uppbætur og styrki. En fjárlögin fyrir þetta ár segja aðra sögu. Ef ég man rétt er gert ráð fyrir því í fjárl., að á þessu ári verði varið 302 millj. og 900 þús. kr. til niðurgreiðslu á vöruverði. Hvað segja flm. till. um það? Á að selja landbúnaðarvörurnar með því verði, sem nefna mætti brúttóverð eða heildsöluverð þeirra, áður en niðurgreiðslurnar eru dregnar frá? Og með hvaða verði á að reikna það, sem framleiðendur nota sjálfir? Fleira kemur, sem þarf að svara, áður en útreikningar eru hafnir. Með hvaða verði á t.d. að reikna mjólkina, hvað af mjólkurverðinu eru tekjur af landbúnaði og hvað af iðnaði? Mikið af mjólkurframleiðslunni fer í mjólkurbú, þar sem unnar eru úr henni söluvörur. Hvernig á þetta að skiptast á milli landbúnaðar og iðnaðar? Og hvað er að segja um þá mjólkurvinnslu, sem fer fram á heimilunum? Hvernig á að telja þá mjólk? Á að telja hana eingöngu tekjur af landbúnaði eða að einhverju leyti tekjur af iðnaði? Og þá má nefna sauðfjárræktina. Að hve miklu leyti er andvirði kjöts, skinna og ullar af sauðfénu tekjur af landbúnaði? Ég sé ekki betur en einhverjar reglur þurfi að setja, sem farið verði eftir við þennan útreikning. Og mér finnst, að hv. flm. till. þurfi að gera grein fyrir því hvernig þeir telja, að þær reglur eigi að vera. Því miður er þetta ekki gert í þeirri grg., sem till. fylgir, ekki nema a.m.k. þá á mjög ófullkominn hátt. Og hv. n., sem um þetta hefur fjallað, eða meiri hl. hennar, sem hefur skilað nál. á þskj. 600, nefnir það ekkert, hvernig eigi að haga þessum útreikningi.

Ég var að tala um landbúnaðinn. Í grg. með till. segir m.a., að flm. líti svo á, að skógræktina eigi að telja í sérstökum lið eða a.m.k. ekki með landbúnaði. Þeir segja, að skógræktin sé starfsemi í þágu langrar framtíðar. Þetta er alveg rétt hjá þeim. Og þeir segja, að skógræktin eigi a.m.k. ekki að teljast með landbúnaði. En hvað er að segja um sandgræðsluna? Á þá að telja hana með landbúnaði, úr því að ekki á að telja skógræktina með landbúnaði? Og hvað er að segja um aðra ræktun landsins? Það gildir bæði um sandgræðsluna og aðra ræktun jarðarinnar, að þar er að verulegu leyti um að ræða starfsemi í þágu langrar framtíðar, eins og þeir segja um skógræktina. Að vísu koma tekjur af hinni venjulegu ræktun, t.d. túnrækt, miklu fyrr en af skógræktinni. Hvernig vilja flm., að þetta sé talið? Á að telja þetta allt með landbúnaðinum, eða á t.d. að telja ræktunina í þessum útreikningi sem sérstakan lið og reyna þá að finna það út, hvað ræktunarmennirnir sjálfir leggja mikið fram til að rækta landið og hver hlutur hins opinbera er í þeirri starfsemi? Þetta tel ég að þyrfti að ákveða nánar, og svo er um margt fleira.

Ég hef hér minnzt á landbúnaðinn, en næsti liður í þessum tölulið í tillgr. er um fiskveiðar. Og hvað er að segja um það? Hvað eru tekjur af fiskveiðum? Ég skal taka dæmi: Skip siglir með eigin afla til útlanda og selur hann þar. Er allt andvirði aflans tekjur af fiskveiðum? Útgerðarfyrirtæki saltar og herðir fiskinn, sem á land berst. Er allt andvirði hans, þegar sala fer fram, tekjur af fiskveiðum? Ef ekki, á þá að telja hluta verðsins fyrir saltfiskinn og skreiðina tekjur af iðnaði? Og hvernig á að skipta heildarandvirðinu á milli þessara greina?

Í 1. tölulið er næst talað um iðnað. Þar koma einnig ýmsar spurningar, sem þarf að fá svör við, áður en farið er að reikna. Hvernig á að reikna út tekjur af iðnaðarstarfseminni? Hvað af heildarverðmæti seldrar iðnaðarvöru eru tekjur af iðnaði? Næst er svo talað um þjónustustarfsemi alls konar, og þar getur verið einnig þörf að setja um reglur og er vafalaust.

2. töluliður í tillgr. er um skiptingu þjóðarinnar eftir atvinnu, þ.e. mannfjölda, sem starfar við hverja atvinnugrein og framiæri hefur af henni og hvers konar þjónustustörfum. Flm. vilja, að ríkisstj. láti fara fram rannsókn á þessu. En þarna kemur einnig vandasamt viðfangsefni á margan hátt. Við vitum, að það er svo í okkar þjóðfélagi. að margt af fólki starfar við fleiri en eina atvinnugrein, og það getur verið á ýmsan hátt vandasamt að reikna þetta út.

Hv. meiri hl. fjvn. hefur lagt fram brtt. í nál. sínu á þskj. 600. Meiri hl. n. leggur þar til. að breyt. verði gerð á síðari hluta till. 3. töluliður í till. er nú þannig: „Heildarfjármagni, sem bundið er í atvinnuvegunum hverjum um sig, notkun rekstrarfjár, ætti ríkis og lánsstofnana í verðmætasköpuninni“. Þetta vilja tillögumenn, að ríkisstj. láti rannsaka. En meiri hl. fjvn. leggur til. að í staðinn fyrir þennan 3. tölulið komi tveir töluliðir, 3. og 4. Þeir vilja í fyrsta lagi láta athuga, hvað mikið heildarfjármagn sé bundið í atvinnuvegunum hverjum um sig og notkun rekstrarfjár hjá atvinnuvegunum. Það er sjálfsagt óljóst nokkuð, hvernig tekjurnar skiptast á einstakra atvinnugreina, og sama er að segja um fjármagnið, sem hjá þeim er bundið. Þar er um að ræða eigin fjármuni þeirra, sem við atvinnureksturinn dást, og svo lánsfé. Sjálfsagt væri æskilegt að sundurliða þetta, en um það er ekki talað í till. eða brtt. Þá vill meiri hl. hv. fjvn., að gerður verði samanburður á beinum og óbeinum framlögum og styrkjum af hálfu hins opinbera til einstakra atvinnustétta og atvinnuvega. Hvað eru bein og óbein framlög og styrkir? Það er ekkert vikið að því. Vilja flm. lýsa því nánar eða meiri hl. fjvn., sem stendur að brtt. og vill fá rannsókn á þessu atriði? Ég vildi mega óska eftir því, að þeir gerðu grein fyrir því, hvað það er, sem þeir nefna bein og ábein framlög og styrki. Og ef um slík bein og óbein framlög og styrki er að ræða, þá kemur til athugunar að sjálfsögðu um leið hvaða atvinnugreinar þar njóta góðs af. Hvað segja flm. eða meiri hl. fjvn. t.d. um jarðræktarframlagið? Telja þeir, að það eigi að reikna sem framlag til landbúnaðar? Eins og ég hef vikið að áður, telja þeir, að framlög til skógræktar eigi ekki að teljast til landbúnaðar. Hvað segja þeir um framlög til sandgræðslu? Hvað segja þeir um jarðræktarframlagið samkv. jarðræktarlögum?

Ég hef hér nefni nokkur atriði, sem mér finnst að séu undirstöðuatriði í þessu máli, en liggja svo ákaflega óljóst fyrir, að menn sjá ekki við lestur till. og greinargerðar nema nokkuð óglöggt, hvað vakir fyrir hv. flm.

Nú má gera ráð fyrir því, að þessi rannsókn hafi kostnað í för með sér. Ég skal taka fram, að ég tel það vel geta komið til mála að leggja í kostnað við þessa útreikninga, því að þetta er fróðlegt og þetta getur verið gagnlegt. En menn verða, áður en út í það er farið, að gera sér grein fyrir því, hvernig á að haga útreikningnum, hvað það er, sem verið er að leita að. Hvað er það sem verið er að spyrja um? Hvað eiga niðurstöðurnar að sýna, þegar þær liggja fyrir? Þetta tel ég að sé alveg nauðsynlegt að gera sér ljóst, áður en til framkvæmda kemur, hvernig á að haga rannsókninni. Sé þetta vanrækt, gæti svo farið, að rannsóknin yrði með öðrum hætti en tillögumenn hafa ætlazt til og öðruvísi en Alþingi teldi gagnlegast.

Ég hef óskað hér skýringa um ýmis atriði og svara við spurningum. Hvort það verður tími til nú áður en þingi lýkur, að svara þessu, ég skal ekki segja um það, en ég tel, að það sé nauðsynlegt, að það liggi greinilegar fyrir en það gerir nú, hvernig á að haga þessari rannsókn og þessum útreikningum, áður en lagt er í kostnað við þetta.