15.12.1960
Neðri deild: 39. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 402 í B-deild Alþingistíðinda. (286)

130. mál, söluskattur

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Á síðasta þingi voru sett lög um söluskatt, og fjölluðu þau um þrenns konar söluskatt: Í fyrsta lagi 3% á smásölu og þjónustu innanlands, í öðru lagi um 7% söluskatt af innfluttum vörum, en sá skattur hafði verið í gildi þá um nokkurra ára skeið, og í þriðja lagi um 8% söluskatt af innfluttum vörum.

Ákvæðin um tvo hina fyrst nefndu voru ótímabundin. Um 8% skattinn var svo ákveðið í lögunum, að hann skyldi gilda á árinu 1960. Í umr. um þetta frv. var það tekið fram, að þegar fjárlög yrðu samin fyrir árið 1961, yrði að taka ákvörðun um það, hvort þessi 8% innflutningssöluskattur yrði framlengdur að einhverju leyti eða öllu. Á því stigi, sem lögin voru til meðferðar í fyrravor, var ekki unnt að segja neitt um það ákveðið.

Við undirbúning fjárlagafrv. fyrir árið 1961 kom í ljós, að til þess að afgreiða hallalaus fjárlög án þess að leggja á nýja skatta eða aðflutningsgjöld væri óhjákvæmilegt fyrir ríkissjóð að halda þessum tekjustofni. Á því er fjárlagafrv. byggt og það tekið fram í grg. þess. Við meðferð fjárlagafrv. hér á þingi hefur einnig verið byggt á því, að þessi tekjustofn yrði að standa á næsta ári. Það frv., sem hér liggur fyrir, felur það í sér að framlengja þennan 8% innflutningssöluskatt, þannig að í stað „ársloka 1960“ komi: ársloka 1961.

Ég legg til, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. fjhn.