25.01.1961
Sameinað þing: 34. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 898 í D-deild Alþingistíðinda. (2880)

103. mál, rannsókn fiskverðs

Flm. (Karl Guðjónsson):

Herra forseti. Fátt er það í íslenzku efnahagskerfi, sem eins miklum deilum hefur valdið og eins viðkvæmt má telja og ákvörðun fiskverðs. Hv. alþm. munu allir kannast við það, að bæði fyrr og síðar og einmitt einnig nú í þessum töluðum orðum er uppi í landinu mikil deila um fiskverðið. Það veldur ekki hvað minnstu um mismunandi sjónarmið manna í þessum efnum, að vitað er, að fiskverð á íslenzkum fiski er í miklu ósamræmi við það fiskverð, sem greitt er í okkar nágrannalöndum, sumum hverjum a.m.k. Hér hefur einkum verið lítið til Noregs, sem virðist að ýmsu leyti vera eðlileg fiskveiðiþjóð til samanburðar við okkur um fiskverð, og þar er raunin sú, að fiskverð það, sem greitt er fiskimönnum eða útgerðarmönnum, er miklum mun hærra en íslenzka fiskverðið.

Lengi var það á mjög miklu deilustigi, hvað fiskverðið í Noregi raunverulega væri. Það má segja, að óþarft sé að deila um það beinlinís nú, eins og komið er, því að hér hafa verið birtar óvefengdar skýrslur um norska fiskverðið í fjölanörgum atriðum, hvað það er í krónutölu, en á hinn bóginn er það svo flókið mál að ekki er auðvelt að gera sér grein fyrir því, hvað meðaltal

fiskverðsins er þar í landi. Þar er fiskur keyptur á breytilegu verði. t.d. eftir fiskstærð, eftir þeim landshlutum þar sem fiskinum er landað, eftir því, í hvers konar vinnslu hann á að fara, og fleira kemur þar til greina, sem gerir fiskverðstöfluna norsku ærið flókna, og liggur stundum ekki alveg í augum uppi, hvað eðlilegast er að bera saman. Engu að síður höfum við flm. þess máls, sem hér er nú til umr., leyft okkur að gera örlítinn samanburð á þskj., sem fyrir liggur, og tekið þar samanburðinn með þeim hætti, að við höfum borið saman hæsta fiskverð d Noregi á s.1. vetrarvertíð og hæsta fiskverðíð á Íslandi með sambærilegum hætti, þannig að í báðum tilfellunum er miðað við fisk, sem er bæði slægður ag hausaður. og norskum krónum breytt í íslenzkar krónur samkv. gengisskráningu. En í þeim samanburði kemur fram. að frystihúsin í Noregi virðast hafa greitt fiskverð, sem á þorski var um 45% hærra en hér, á ýsu virðist verðmunurinn nema um 35%, og á löngu virðist verðmismunurinn hafa numið 55%. Ætla má því, að meðalverðmunur á fiski í Noregi og hér á s.l. vetri hafi numið um 45%, sem hann var greiddur hærra verði þar en hér.

Það má því segja, að það sé kannske ekki hin mesta þörf að rannsaka sjálft fiskverðið. Ég tel, að í því hafi verði unnið nokkurt verk. Rannsókn sú, sem tillagan, sem hér er til umræðu, gerir ráð fyrir, ætíð því að beinast fyrst og fremst að því, á hvaða stoðum fiskverðið hvílir í Noregi. Hafa þeir komið einhverju því skipulagi á sín fiskverkunar- og fisksölumál eða hafa þeir náð betri mörkuðum, sem gefa þeim betra endanlegt fiskverð en við fáum, eða hvað er það, sem réttlætir það, að íslenzka fiskverðið þurfi að vera þessu lægra? Það er ekki vitað, að slíkur munur sé á vörugæðum, að hann geti réttlætt þennan verðmismun.

Til þess að gera sér örlitla grein fyrir því, hvernig þessi mismunur verkar á rekstur frystihúsa og útgerð vélbáta, höfum við flm. þessarar till. bent á það, að frystihús, sem kalla mætti af meðalstærð, frystihús, sem vinnur úr um það bil 3 þús. lestum af hráefni, slægðum fiski með haus, eins og almennt er miðað við í fiskkaupum hér á landi, mundi greiða í Noregi 31/2 millj. kr. meira fyrir það hráefni, sem það kaupir inn, heldur en jafnstórt frystihús hér gerði á s.l. vetri. Fiskibátur, sem aflaði 600 lestir af slægðum fiski með haus, mundi hljóta fyrir sitt aflaverðmæti í Noregi 700 þús. kr. meira en sams konar bátur hlaut hér á s.l. vetri.

Af þessu má ráða, að hér er um gífurlegar upphæðir að ræða, og segja má raunar, að ef við hefðum þær á milli handa, ef frystihúsin hér gætu greitt út upphæðir, sem næmu svona miklum mun hærri upphæð en þau raunverulega gerðu á s.l. vetri og ef fiskibátarnir fengju fyrir afla sinn svona geysilega miklum mun meira verð en á s.l. vetri var, þá væri efnahagsvandi útgerðarinnar á Íslandi, eins og hún stendur í dag, leystur. En það þarf ég ekki að rifja upp fyrir hv. alþm., sem undanfarna daga hafa þreytt kappræður eða hlustað á kappræður um þá staðreynd, að íslenzk útgerð var í miklum kröggum að afloknu s.l. ári. og stjórnarvöldin hafa viðurkennt þessa staðreynd með því að efna til sérstakrar lánastarfsemi, sem raunar er skuldaskilastarfsemi að eðli til, vegna þess arna.

Mönnum hefur dottið ýmislegt í hug sem skýring á þessu verðmisræmi. Lengi vel hefur því verið haldið fram, að þessi verðmunur á fiski mundi geta stafað af því, að kaupgjald hér á landi væri of hátt og hærra en í okkar nágrannalöndum. Hafi það einhverju sinni verið, þá er það ekki lengur fyrir hendi. Þvert á móti liggja fyrir tölulegar upplýsingar um það, að vinnulaunagreiðslur í Noregi, þar sem þetta hærra fiskverð er borgað, eru allmiklum mun hærri en hér á landi. Um samanburð á kaupgjaldi þar og hér gegnir í rauninni nokkuð svipuðu máli og um fiskverðið sjálft, að það er nokkur vandi að finna út, hverjar tölur þar eru sambærilegastar. Það mun vera útbreiddara þar við fiskverkun en hér, að unnin sé ákvæðisvinna, en að svo miklu leyti sem þar er unnið í tímavinnu, sambærilegri því, sem hér tíðkast, þá virðist heildarniðurstaða samkv. upplýsingum starfsmanns Fiskifélags Íslands, Más Elíssonar, sem skrifað hefur greinargott yfirlit um þessi mál í tímaritið Ægi, — þá virðist tímavinnukaupstölurnar benda til þess, að kaup karla þar sé um 12.3%n hærra en hér, en kvennakaupið þar um 15.3% hærra en hér, svo að ekki getur fiskverðsmismunurinn í Noregi og á Íslandi legið í því, að vinnulaun séu lægri þar en hér, því að því er öfugt farið. En um hitt er uppi mikill grunur, að það, sem gerir frystihúsunum hér erfitt fyrir um að greiða hátt fiskverð, liggi m.a. í því, að vextir af lánum, sem slíkur rekstur þarf mjög á að halda af eðlilegum ástæðum, séu miklum mun hærri hér en þar, og þar gufi upp nokkur partur af fiskverðinu. Þá hefur einnig því verið haldið fram, og ég hygg, að þær hugmyndir séu réttar, að sölukostnaður á fiskafurðum hér á landi sé miklum mun hærri en þar, Enn fremur hygg ég, að íslenzkur fiskiðnaður og íslenzk fiskframleiðsla búi við miklum mun óhagstæðari iðgjaldakjör á sínum tryggingum en þar í landi tíðkast, og ýmislegt fleira er það, sem líklegt er að valdi þessum verðmismun. En með því að fiskverð skiptir svo miklu máli sem ég hef hér lýst fyrir okkur Íslendinga í öllu okkar efnahagskerfi, þá tel ég það óverjandi af stjórnarvaldanna hálfu að gera ekki ráðstafanir til þess að rannsaka þetta mál til hlítar, ekki einasta verðlagið sjálft, heldur og máske fyrst og fremst stoðir þær, sem hið erlenda verðlag hvílir á, og freista þess, hvort við getum ekki eitthvað lært af þeirri rannsókn til þess að ná samræmi í fiskverðið hér og þar. Ég vil að sjálfsögðu ekkert um það fullyrða, hvort þetta er möguleiki eða ekki. En ég tel það óverjandi með öllu að láta ekki fram fara á þessu rannsókn sem allra ýtarlegasta til þess að freista þess, að við getum samræmt okkar fiskframleiðslu því hagkvæmasta, sem þekkist í okkar nágrannalöndum, og fengið árangur, sem vænta má að yrði til þess að yfirstiga ýmsa þá efnahagsörðugleika, sem okkur hafa verið mjög þungir í skauti á undanförnum árum. Þess vegna hef ég ásamt hv. d. þm. Austf. flutt hér tillögu um það, að Alþingi kjósi fimm manna nefnd til þess að rannsaka þann mismun, sem er á fiskverði í Noregi og á Íslandi, eins og segir í okkar tillögu á þskj. 115.

Það skal tekið fram, að þessi till. er flutt á s.l. ári og þær tölur, sem hér eru til nefndar, eru að sjálfsögðu miðaðar við s.l. vertíð. Nú standa hins vegar yfir samningar um fiskverð, sem eru til nokkurrar breytingar frá því, sem þá var, og mundi sú nefnd, sem framkvæmdi þessa rannsókn, að tillögu þessari samþykktri að sjálfsögðu verða að samræma sínar athuganir því ástandi, sem nú ríkir í hvoru landinu um sig í þessum efnum.

Að lokum vil ég geta þess, að í sambandi við annað mál sem afgreitt var á Alþingi í fyrravetur, var af hálfu Alþb. flutt brtt., sem var svipaðs efnis og sú tillága, sem hér er flutt. Ég þykist muna það rétt, að hæstv. sjútvmrh. hafi við atkvgr. um það mál tekið það fram, að rannsókn á vegum ríkisstj., að því er mér skildist, stæði fyrir dyrum eða jafnvel væri hafin, en niðurstöður þeirrar rannsóknar hafa ekki verið lagðar fyrir enn þá, og ég vænti þess. að hæstv. sjútvmnh. geti gefið einhverjar upplýsingar um málið. Máske er einhver slík rannsókn yfirstandandi enn þá, og vænti ég þess þá, að Alþingi fái nú að heyra, hvenær álits eða niðurstöðu af þeim rannsóknum sé að vænta. Ég legg annars til, að á einhverju stigi umr. verði umr. um þetta mál frestað og málinu vísað til allshn. til athugunar.