25.01.1961
Sameinað þing: 34. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 901 í D-deild Alþingistíðinda. (2881)

103. mál, rannsókn fiskverðs

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Það er út af fyrir sig mjög eðlilegt, að reynt sé að gera sér grein fyrir því, í hverju liggur sá talsvert mikli mismunur, sem á yfirborðinu virðist vera á fiskverði hér á Íslandi og í Noregi. Það kom fram í framsöguræðu hv. flm., að í Noregi væri fiskverðið miklum mun hærra en á Íslandi. og í grg. þáltill. segir, að verðmunurinn sé svo mikill, að á ekki mjög stóru frystihúsi muni hann nema upp undir 31/2 millj. kr., og fyrir vertíðarbát, sem vefði 600 lestir, miðað við slægðan fisk með haus, nemi þessi verðmunur rétt um 700 þús. kr. að verðmæti. Þessi niðurstaða, sem fundin er við mjög yfirborðskennda athugun, leyfi ég mér að segja, fær ekki staðizt.

Hv. þm. sagði, að það væri óverjandi að rannsaka ekki þetta mál og ég er honum alveg sammála um það. Enn fremur sagði hann, að málið væri flókið, og ég er líka sammála honum um það, því að það, sem verið er að bera saman hér á Íslandi og í Noregi, er ekki svo sambærilegt, að það sé hægt að lesa út úr því þessar tölur, sem hv. flm. þáltill. vilja vera láta.

Hins vegar er það rétt, að það er nokkur aðstöðumunur hjá Norðmönnum og hjá okkur hvað viðkemur vinnslu aflans. Við fiskum á svipuðum miðum og þeir, og við seljum á svipaðan markað og þeir, en þó ekki nema svipaðan, hann er ekki fullkomlega sambærilegur, og skal ég koma að því síðar, svo að ef um mismun er að ræða á þeirra aðstöðu og okkar, þá hlýtur hann að liggja að einhverju leyti í vinnsluaðstöðunni og flutningamöguleikum, og hann gerir það að nokkru leyti. Hann gerir það í fyrsta lagi að því leyti, að Norðmenn standa betur að vígi en við að selja fiskinn ferskan eða ómeðhöndlaðan, ísaðan fisk, eins og kallað er. Það er ekkert leyndarmál og það vita alveg eins þessir hv. flm. þáltill. og aðrir að ísaður fiskur selst yfirleitt til beinnar neyzlu og hann selst yfirleitt á hærra verði en unninn fiskur. Og það er áreiðanlegt, að þessi aðstaða Norðmanna, betri aðstaða þeirra til þess að koma fiskinum nýjum, ísuðum, á markað, bæði heima hjá sér og í útlöndum, á sinn þátt í því að gera þeim aðstöðuna hægari. Það er tiltölulega miklu meira af aflafeng Norðmanna neytt í landinu sjálfu en hér hjá okkur, og það eru miklu betri sambönd, bæði á landi og á sjó, við ýmsar Evrópuþjóðir, bæði England, Þýzkaland og raunar fleiri, meiri möguleikar til þess að koma aflanum ísuðum á markað og njóta þess vegna á þann hátt þess hærra verðs, sem mögulegt er að fá fyrir fiskinn ísaðan en unninn.

Hv. þm. sagði líka, að vinnulaunin væru ekki til hagsbóta Norðmönnum. Ég leyfi mér að efast um þessa fullyrðingu. Það er rétt, að tímakaupið hjá þeim, þ.e. lægsta tímakaupið, er eitthvað hærra en hjá okkur og þó lítillega, en það veit þessi hv. þm., að vinna í frystihúsum er ákaflega mikið unnin í eftirvinnu og næturvinnu, og næturvinnu og eftirvinnuálagið er miklu hærra hjá okkur en hjá þeim. Þess vegna er ekki allt sagt með því, þó að fullyrt sé, að lægsti tímakaupstaxti sé lítið eitt hærri hjá Norðmönnum en hjá okkur. Ég held, að kaupgjaldið sé a.m.k. ekki okkur í hag eða fiskvinnslustöðvunum hér.

Þá er mér sagt, — ég þekki það nú ekki sjálfur, en mér hefur verið sagt það, að staðsetning vinnslustöðvanna í Noregi sé yfirleitt hagkvæmari en hjá okkur og flutningskostnaður minni, skipulagning ag afköst séu líklega meiri vegna meiri ákvæðisvinnu hjá þeim en hjá okkur.

Allt þetta gerir það að verkum, að það ætti að vera mögulegt að greiða fyrir norska fiskinn ívið hærra verð en hægt er á Íslandi, þegar þetta er tekið með í reikninginn.

En það, sem mestu veldur um þann verðmismun, sem hér hefur verið undirstrikaður og réttilega bent á að er fyrir hendi, það er það, að ekki er verið að bera saman sambærilega hluti. þegar hámarksverðið á norska fiskinum er borið saman við meðalverð á íslenzka fiskinum. Þetta verð, sem í frv. er talið, sýnist mér vera það verð, sen norska Ráfisklaget, eins og það heitir, hefur ákveðið, og það er raunar sagt í grg. þáltill., ef ég man rétt, frá 19. sept. s.l. Þar við er að athuga, að verðlagið á vertíðinni sem leið eða vertíðinni næst á undan var ekki ákveðið eftir þessum lista, en mér er sagt, að þetta verð frá 19. sept. sé grundvöllur undir samninga um fiskverðið n.k. vertíð en ekki samþykkt fiskverð. Þar við er líka að athuga, að þetta verð, sem hér er nefnt, er verð á hæsta verðflokki, en hjá okkur hefur verðlagið á fiskinum á árinu 1960 verið miklu minna „graderað”, eins og það er kallað, eða mismunur gerður á lélegum fiski og góðum, en á því er ákaflega mikill munur hjá Norðmönnum. Mér er t.d. sagt, að verðmismunurinn frá hæsta flokknum og til næsta flokks sé um 25% og þaðan af miklu meiri á hinum lélegrí tegundum. Þess vegna má ekki, þegar verið er að bera saman verðið hér, eins og gert er í þessari þáltill., við norska verðið, miða við okkar meðalverð og bera það saman við verðíð á bezta norska fiskinum.

Það gefur algerlega skakka mynd af því, sem verið er að bera saman.

Enn má geta þess, að í Noregi eru greiddar uppbætur til fiskimanna og það mjög verulegar, og þetta verð, sem á norska fiskinum er skráð opinberlega, helgast af því, að kaupendurnir fá greitt úr ríkissjóði svo og svo mikið af þessa fiskverði, sem þeir borga fiskimönnunum.

Í skýrslu, sem ég hef fengið um þetta, — því að ég hef látið rannsaka málið, og það hefur verið meira að segja mjög ýtarlega rennsakað, — í skýrslu, sem ég hef fengið í nóvembermánuði s.l.. — ég skal taka það fram, að það er ekki sú alveg nýjasta, — er sagt, að fyrir þorsk séu greiddir 5–17 aurar eftir verðlagssvæðum í uppbótagreiðslur úr ríkissjóði, fyrir ýsu til frystingar 13–25 aurar norskir á kg, og það er ekkert lítill peningur, það er á aðra krónu íslenzka, fyrir ufsa 5–9 norskir aurar á kg fyrir löngu og keilu 5–10 norskir aurar á kg og fyrir steinbít 10 norskir aurar á kg.

Ef við athugum þorskinn fyrst, — og það er kannske ekki möguleiki til þess að fara miklu lengra nú, — þá er meðalverðið, sem greitt hefur verið í Noregi fyrir beztu tegund af þorski, fyrsta flokks fisk, á s.l. ári, á árinu 1960, 82 aurar norskir, — meðalverðið, — það fer að vísu hærra upp sums staðar og lægra niður annars staðar. en meðalverðið er talið 82 norskir aurar. 82 norskir aurar verða með rengi kr. 5.30 á norska krónu kr. 4.35 íslenzkar. En þessi fiskur, sem skráður er, er hausaður, og það gerir allmikinn mismun, eins og kunnugt er, því að hausinn er talinn um fimmti partur af þunga fisksins. Við skulum fyrst draga frá það, sem verðið er niðurgreitt, en það er á þorsk 17 aurar, eða að meðaltali 11 norskir aurar. Það þýðir, að þessir 82 aurar eru pá ekki nema 71 eyrir, sem fiskkaupendurnir raunverulega greiða fyrir hann. Ef við tökum verðið 82 aura, sem er meðalverð, og tökum það með gengi kr. 5.30, þá er það kr. 4.35 íslenzkar á kg. Þessir 11 aurar norsku, sem borgaðir eru niður. gera í íslenzkum peningum 58 aura, þannig að verðið, sem útgerðarmennirnir borga, er kr. 3.77 fyrir fiskinn hausaðan. Ef hausinn er tekinn frá nemur það 75 íslenzkum aurum, og þá er verðið á kg kr. 3.02 íslenzkar.

Nú er þess að geta, að hér hefur verið tekinn upp sami reikningsmáti og í Noregi, þannig, að fiskimennirnir fá mismunandi greiðslu eftir því, hver vara það er, sem þeir selja, meira fyrir góðan fisk og minna fyrir lélegan fisk, en greiðslan fyrir bezta fiskinn núna er ákveðin kr. 3.11, þ.e.a.s. hún er ákveðin hér :hjá okkur á Íslandi, þrátt fyrir þann aðstöðumun, sem við höfum að ýmsu leyti með tilliti til sölu og vinnslu, 9 aurum hagstæðari fyrir íslenzka fiskimanninn heldur en þann norska, svo að allt tal um það að leysa allan vanda íslenzkra útvegsmála eins og hv. þm. taldi sig sennilega mundu geta, ef þetta væri fært til samræmis, það fær náttúrlega svo lítið staðizt eins og hægt er að hugsa sér, þar sem verðið á íslenzka fiskinum raunar, eins og það er ákveðið í dag, er orðið hærra en verðið á tilsvarandi norskum fiski.

Það, sem hefur verið gert í þessu máli, er það, að það hafa verið bornir saman hlutir, sem alls ekki er hægt að bera saman, af því að þeir hafa ekki verið sambærilegir. Það hefur verið borið saman íslenzkt meðalverð við norskt hámarksverð, og það hefur verið borinn saman hausaður fiskur og slægður, eins og hann er í Noregi metinn, og óhausaður fiskur og slægður á Íslandi. Ef þetta hvort tveggja er dregið frá og nýja íslenzka hámarksverðið borið saman við, þá sýnir það sig, að munurinn er tiltölulega ekki mikill en sá munur, sem er, hann er íslenzka fiskinum eða íslenzku fiskimönnunum í vil.

Ég hef svo í dag fengið síðustu skýrslu um þetta mál Þar sem gert er upp árið 1960. Ég skal ekki fara út í að lesa mikið úr henni, en ég vil aðeins geta þess, að þar kemur í ljós, að svarandi til 89 aura norsks verðs á Lófótþorski ætti íslenzka verðið á árinu sem leið, að vera kr. 2.97. Svarandi til Finnmerkurþorsks, þar sem verðið er talsvert lægra, þá ætti verðið að vera kr. 2.49 og meðalverðið að vera kr. 2.81. Þetta er samkvæmt nýjustu tölum, sem ég hef um þetta fengið. Ég hef nú ekki, að vísu, kannað þessa skýrslu nákvæmlega, því að hún var að berast í mínar hendur alveg nýlega, en hún styður þetta, sem hefur orðið niðurstaðan af mínum athugunum á málinu, að fiskverðið sé raunar á Íslandi nú, með því breytta mati eða breyttu aðferð í verðlagningu fisksins, orðið hærra a.m.k. hvað hámarkið snertir en hliðstætt verð er í Noregi.

Ég skal raunar taka það fram, að samkvæmt upplýsingum, sem ég fékk í sumar beint frá norska fiskmatinu eftir viðtal við einn af framkvæmdastjórum þess, sem seinna hefur verið staðfest, þá er meiningin hjá þeim að stofna enn nýjan gæðaflokk, sem er hærra metinn en sá flokkur, sem nú er í hámarki, og gera til hans enn strangari kröfur. Hvað úr því verður og hvað mikið í hann kemst, skal ég ekki segja um, því að mér er ekki kunnugt um, hvaða aukakröfur verða til hans gerðar. En það er ekki ómögulegt, að hann komist enn eitthvað hærra en þessi fyrsti flokkur Norðmannanna hefur verið á árinu 1960 og á árinu 1959, sem þær skýrslur fjalla um, sem ég hef fengið.

Ég sé, að fundartíminn er liðinn. Það mætti um þetta mál segja talsvert miklu meira, en ég skal stilla mig um það. Ég vil aðeins taka undir það, sem hv. þm. sagði. að málið er flókið, og það er ekki hægt að ganga eins beint að því og gert hefur verið, því að það gefur áreiðanlega misvísandi niðurstöðu, eins og ég tel að bæði komi fram í grg. þáltill. og í ræðu hv. flm. og eins í umtali, sem um þetta mál hefur átt sér stað, síðan þessar upplýsingar komu hér fyrst fram.