08.02.1961
Sameinað þing: 37. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 904 í D-deild Alþingistíðinda. (2884)

103. mál, rannsókn fiskverðs

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Svo hafði atvikazt hér, að ég gat ekki verið viðstaddur fyrri hluta þeirrar umr., sem fram hefur farið um þessa till., en mér hefur skilizt af því, sem ég sá haft eftir í blöðum um þær umr., að hæstv. sjútvmrh. hefði jafnvel talið, að þessi rannsókn þyrfti ekki nauðsynlega að fara fram, sem hér er lögð til með þessari till., þar sem segja mætti í rauninni, að fiskverð hér á Íslandi væri fyllilega eins hátt og það fiskverð, sem okkur er nú kunnugt um að er í Noregi. Og í þeim efnum sá ég m.a. í blaði hans nokkrar tölur uppfærðar í þessu sambandi þar sem gerð var nokkur grein fyrir þessari skoðun. Mig furðar að vísu nokkuð á þessum niðurstöðum, ef þær eru rétt skildar, hjá mér, því að ég held, að það leiki enginn vafi á því, að verðmunur á nýjum fiski hér á landi og í Noregi er gífurlega mikill og jafnvel meiri en við bendum á í grg. þessa frv., þar sem allar þær tölur, sem þar eru tilfærðar, eru byggðar á því, að miðað sé við skráð lágmarksverð í Noregi og það lægsta, sem þar er um að ræða, þó að hins vegar sé vitað, að þar sé mjög mikill hluti af fiskinum seldur langt fyrir ofan hið skráða lágmarksverð, en aftur á móti það verð, sem við tilfærum hér í landi, þar er tekið það hæsta verð, sem greitt hefur verið aðeins hluta úr árinu, en alls ekki miðað við það verð, sem mætti telja sem meðaltalsverð hér á landi, sem hefur verið mikinn hluta af árinu miklum mun lægra. í grg. till. okkar segir, að það verð, sem miðað hafi verið við í Noregi á s.l. ári, hafi verið 85–90 aurar norskir á hvert kg af hausuðum og slægðum fiski, þorski, en það gerir kr. 4.54–4.81 fyrir kg, allt miðað við hausaðan fisk. En á sama tíma var verðlagið hér á landi, þetta hæsta verð, sem hér þekkist greitt, þá var það á sambærilegum fiski, líka miðað við hausaðan fisk, kr. 3.16–3.29 á kg. Hér er því um gífurlega mikinn mun að ræða. En eins og ég sagði áðan, er raunverulega munur á milli þessara landa miklu meiri í framkvæmd en þessar tölur segja til um.

Ég sá svo, að blað hæstv. sjútvmrh. túlkaði hans mál þannig, að hann tæki það verð, sem nú er talað um hér á landi, það hæsta samkv. nýjum verðflokkunarreglum, sem gefnar hafa verið hér út, þ.e.a.s. ekki það hæsta verð, sem var á s.l. ári greitt fyrir fisk, heldur miklum mun hærra verð, sem nú er í verðhæsta flokknum, sem á að gilda fyrir árið 1961, og bæri það fiskverð saman við það, sem var í Noregi í fyrra, þar að auki. En slíkt er vitanlega alrangt, og það sést m.a. bezt með því að taka þá til samanburðar aftur það fiskverð, sem nú er í Noregi.

Ég las í norsku fiskveiðiriti nú alveg nýlega, að lágmarksverðið í Noregi nú í vetur yrði kr. 1.05 á kg, miðað við hausaðan fisk, en ekki 85 aurar, eins og við reiknuðum með og hafði verið lægst á árinu á undan, en það verð, kr. 1.05 norskar, gerir kr. 5.61 á kg. En þó að við tökum það allra hæsta verð, sem hér er talað um nú, á úrvalsfiski nú á þessu ári, þá er verðið ekki nema kr. 3.89 á nákvæmlega sambærilegum grundvelli. Það er því augljóst mál að um gífurlega mikinn mun er að ræða á fiskverðinu hér, sem verið hefur og á að verða, og því, sem hefur verið í Noregi á s.l. ári, og því, sem nú er rætt um að þar verði. Ég sá það einnig í þessu fiskveiðiriti norsku, að í fyrra, þegar lágmarksverðið var 85 aurar norskir, þá var mjög algengt, að greitt væri fyrir fisk þar í kr. til kr. 1.05 fyrir kg.

Það er alveg rétt og hefur komið hér fram, að í Noregi er hafður sá háttur á, að þar eru greiddar nokkrar verðuppbætur, og skýrir það vitanlega nokkurn hluta af þessum mikla verðmun, að Norðmenn eru þar með uppbótakerfi og telja það ekkert guðlast í þessum efnum, til þess að geta rekið sinn sjávarútveg með skaplegum hætti, þó að þar sé um nokkrar uppbótagreiðslur að ræða. En slíkar uppbótagreiðslur eða stuðningur við sjávarútveginn í einu eða öðru formi eru í öllum nálægum löndum við okkur, þó að það hafi nú verið talinn dauðadómur hér á Íslandi. Slíkt hefur verið bæði í Vestur-Þýzkalandi, í Bretlandi og í Noregi og styrkurinn greiddur í mörgum myndum, ýmist beint sem verðuppbætur á fisk eða sem annar beinn stuðningur greiddur framleiðslunni.

En uppbótagreiðslurnar, sem greiddar eru í Noregi á fisk og eru að vísu allmiklar, skýra vitanlega ekki þennan mikla verðmun nema að litlu leyti. Mönnum er gjarnt að vitna til þess hér, að ein skýringin sé sú, að sá fiskur sem fiskkaupendur í Noregi hafa til þess að vinna úr, sé miklu betri fiskur en okkar fiskur. Og það virðist nú vera alveg sérstök tízka hér á landi að tala um það, hvað fiskurinn okkar sé vondur, og það þekkist varla a.m.k. sá landkrabbi, að hann tali ekki um þetta í tíma og ótíma. En ég er alveg sannfærður um það, hef enda séð hvort tveggja, að okkar fiskur, sem kemur hér til vinnslu, er að öllum jafnaði mun betri en þeirra. Yfirgnæfandi meiri hluti af þeim fiski, sem norsku frystihúsin fá til vinnslu, er einmitt upp úr ís. Fiskur, sem er tekinn upp úr ís og hefur venjulega verið geymdur þar í 7 sólarhringa eða yfir, það er rétt, að hann er alveg eins og fiskur hjá okkur. Hann er góður, þegar komið er með heldur lítinn fisk að landi í hverri sjóferð og hægt er að fara um þetta mjúkum höndum. En það verður eins með þá og okkur, það getur enginn aðili ráðið við, þegar afli hrúgast að landi í jafnríkum mæli og á sér stað í vissum verstöðvum hér á landi, þegar aflinn berst mest að landi, að þar geti allt farið í fyrsta flokk. Og það vita þeir, sem þar til þekkja, að yfirgnæfandi meiri hluti af skemmdunum, sem eiga sér stað í fiski, fer fram, eftir að hann kemur á land. Nei, það er ekki því til að dreifa, að það fái skýrt þetta í neinum aðalatriðum. Við höfum marga vinnslustaði hér á landi, sem taka í rauninni eingöngu við úrvalsfiski. Hitt er alveg rétt, að það er engin leið til þess að gera fyrsta flokks vöru allan þann fisk, sem kemur að landi í okkar stærstu verstöðvum, Þegar mest berst þar að, og við verðum eflaust að sætta okkur við það í slíkum afla að verða að verka allmikið af þeim fiski á lakari markaði í lakara gæðaflokki.

Ég held, að það væri mjög þarft verk. ef hæstv. ríkisstj. vildi einmitt sinna þessari till., sem hér liggur nú fyrir til umr., og vildi láta fara fram þá athugun, sem hér er lagt til að gerð verði, og einlægast og bezt væri. að Alþingi kysi sérstaka nefnd til þess að kanna þetta mál sem varðar okkar þjóðarbúskap allan jafnmikið, eins og menn vita, að við fáum glöggan og greinargóðan samanburð á fiskverði, t.d. í Noregi og hér, og samanburð til skýringar á því, hvernig stendur á því, að svona miklu þarf að skakka á fiskverðinu þar í landi og hér. Við vitum að vísu um ýmsa þætti, og þeir, sem hafa kíkt á þessi mál hafa gert sér nokkra grein fyrir þessu, en eigi að síður er málið þannig, að menn eru ekki fyllilega á það sáttir, hvernig þessu sé í raun og veru varið. Af því þarf einmitt hlutlaus rannsókn að fara fram og greinargóð skýrsla að birtast um málið, svo að tekinn verði af vafi um það, í hverju þetta raunverulega liggur.

Ég fyrir mitt leyti er alveg sannfærður um það, að hér er um mjög skýranlega hluti að ræða, og sumir eru alveg augljósir. Það er t.d. ekki nokkur vafi á því, að þeir gífurlega háu vextir, sem okkar framleiðsla verður að greiða, sem munu vera yfirleitt um þrisvar sinnum hærri en þeir, sem gilda í Noregi fyrir fiskvinnsluna þar, þeir vitanlega éta hér allmikinn hluta af og lækka okkar fiskverð í framkvæmd alveg óhjákvæmilega, og það er enginn vafi á því, að lánakjör þau, sem hér gilda almennt til fiskvinnslufyrirtækja og þau verða vitanlega að miða allar sínar afskriftir við, afborganir og vextir af stofnkostnaði öllum, vélakaupum og öðru slíku, þetta er gersamlega á öðrum grundvelli en keppinautar okkar í Noregi búa við, og þetta kemur líka fram á okkar fiskverði. Það er heldur enginn vafi á því að mínum dómi, að við búum hér við miklum mun óhagstæðari flutningskostnað á okkar framleiddu vöru til markaðslandanna heldur en þeir búa við. Í sumum tilfellum liggja þeir að vísu betur við, en 9 öðrum tilfellum ekki. En þó að við jafnvel liggjum betur við markaðslöndum eða m.ö.o. það sé styttra frá okkur til markaðslandanna, þá verðum við eigi að síður að borga miklum mun hærri flutningsgjöld en Norðmenn borga, og hefur þetta verið athugað í ýmsum tilfellum. Þannig eru til ýmsir alveg greinilegir hlutir, sem hægt er að skýra þennan mikla mismun á, en það þýðir lítið um það að þrátta hér, á meðan menn verða ekki sæmilega á það sáttir, og af því er langeðlilegast að fá úr þessu skorið með slíkri athugun, sem lagt er til með þessari tillögu.

Ég skal svo ekki hafa um þetta fleiri orð að sinni, en legg eindregið til. að þessi till. verði samþ. og athugun af þingkjörinni nefnd varði látin fara fram öllum til glöggvunar á þessu máli.