08.02.1961
Sameinað þing: 37. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 910 í D-deild Alþingistíðinda. (2886)

103. mál, rannsókn fiskverðs

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Það er nú augljóst að mínum dómi, að það þarf að fá þetta mál rannsakað á hlutlausan hátt, og ég segi það aðeins, að það undrar mig stórlega, að sjávarútvegsmálaráðherra á Íslandi skuli flytja þetta mál eins ag hann gerir hér. Hann virðist sem sagt ætla að reyna að halda því fram, að fiskverð á Íslandi sé hærra en í Noregi. Það er það, sem hann ætlar sér að reyna að sanna. En þessu er öðruvísi farið, og það er auðvelt að sanna það.

Hæstv. ráðh. margendurtekur í sinni ræðu, að fiskverðið í Noregi sé hámarksverð. Hvaðan hefur hæstv. ráðh. þessar upplýsingar? Í öllum ritum, sem hann getur fengið um þetta, sér hann, að þar er auglýst lágmarksverð, og það er getið um það æ ofan í æ, og ég skal gjarnan nota tækifærið til þess að lesa yfir hæstv. ráðh. upp úr þekktum norskum fiskveiðiritum, hvernig fiskverðið er þar oftast nær miklu hærra en hið auglýsta lágmarksverð. Svo talar hann hér æ ofan í æ um það, að þar gildi hámarksverð. Nei, þar er aðeins um lágmarksverð að ræða, og þess er tölur, sem hann tekur, eru líka furðulegar, vegna þess að Fiskifélag Íslands hafði einmitt birt skýrslu frá starfandi hagfræðingi hjá Fiskifélaginu Má Elíssyni, hafði birt í tímaritinu Ægi skýrslu um fiskverð í Noregi, og tölurnar, sem við tókum upp. voru teknar nákvæmlega upp úr riti Fiskifélagsins, Ægi, eftir þennan hagfræðing Fiskifélagsins, sem hafði kynnt sér málið sérstaklega. Okkar tölur eru teknar þaðan, beint upp úr tímaritinu Ægi, og þar stendur þetta, að víðast hvar hafi fiskverð verið 85–90 aurar norskir á síðustu vetrarvertíð sem lágmarksverð. Það skiptir vitanlega ekki öllu máli í þessu, hvort hér hefur verið um að ræða 82 aura norska eða 85–90 aura, eins og ég held fram og tímaritið Ægir skýrir frá eftir manni, sem hafði verið sendur sérstaklega til Noregs til þess að athuga málið, en þetta fiskverð gilti sem lágmarksverð í Noregi á vetrarvertíðinni í fyrra og á að berast saman við það verð, sem gilti á Íslandi þá, en ekki nú.

Hæstv. ráðh. segir, að sínar nýjustu upplýsingar segi, að það sé ekki búið að semja endanlega um fiskverðið fyrir veturinn í vetur í Noregi. Ég sagði það ekki heldur, að það væri búið að semja um það. Ég sagði, að það verð, sem nú væri rætt um í Noregi, í nýjustu blöðum þaðan, væri 1.05, og ég skal afhenda hæstv. ráðh. þetta blað, ef hann vill það er mjög þekkt blað, Fiskaren, sem fjallar einmitt um þessi mál sem skýrir frá því, að þetta sé það verð, sem nú er gengið út frá. En það skýrir frá því að það hefði ekki tekizt endanlegt samkomulag hjá þeim aðilum, sem þarna fjölluðu um, og það er ekkert nýtt hjá þeim. Hins vegar er samið um þetta fiskverð í Noregi á mörgum stöðum. og það er breytilegt fyrir hin ýmsu svæði.

Það er líka mesti misskilningur, að þetta fiskverð í Noregi byggist sérstaklega á innanlandsmarkaðinum þar. Það eru ekki þau skilyrði, þar sem aðalfiskveiðisvæðið er norðan til í Noregi og þetta fiskverð er t.d. tekið frá, að þeir geti búið að innanlandsmarkaðinum í hinum stærri bæjum og hækkað sitt fiskverð nokkuð fram yfir það, sem við gerum. Það er ekki um það að ræða.

Nei, fiskverðið, eins og tímarit Fiskifélagsins, Ægir hefur gefið upp, er nákvæmlega það, sem segir í grg. okkar frv.. 85–90 aurar sem lágmarksverð, en það viðmiðunarverð, sem við miðuðum við, er það hámarksverð, sem gilti hér á landi s.1. vetrarvertíð, það hæsta verð, en á meiri hluta ársins gilti víðast hvar á landinu miklum mun lægra verð, eins og hæstv. ráðh. hlýtur að vita, — miklum mun lægra verð, svo að tölur okkar eru allar alveg fullvaldaðar í þessu og hann getur ekki hreyft neina þeirra til. En það, sem hæstv. ráðh. er svo að tala um nú, þar sem út hafa verið gefnar nýlega reglur um að flokka allan fiskinn niður í fimm mismunandi verðflokka, allt frá kr. 1.69 á kg og upp í kr. 3.11, og hann ætlar sér svo að halda sér aðeins í verðið kr. 3.11 og bera það saman við lágmarksverðið, sem var í Noregi í fyrra og alls ekki er talað um af neinum manni nú, það er vitanlega rangur samanburður, sem fær ekki staðizt. Það er einmitt þvert á móti. Það eru miklu meiri líkur til þess, að verðmunurinn sé miklum mun meiri en hann er tilfærður hér í grg. þessarar tillögu, en ekki minni. Mikið hefur hæstv. ráðh. við sinn tíma að gera, ef hann sér eftir því, þó að hann kynni sjálfur að þurfa að eyða einhverjum örlitlum tíma í það að fylgjast með störfum þingnefndar, sem athugar slíkt stórmál eins og þetta er. Eða er það kannske þannig, að hann sé eitthvað hræddur við þessa rannsókn, við útkomuna? Hvað er það, sem hann óttast?

Mér kemur ekki til hugar að búast við öðru en að hæstv. ráðh. viti vel um ýmsa liði, sem eru okkar framleiðslu miklum mun óhagstæðari en þeir liðir eru í Noregi. Hann veit um það, það kemur ekki annað til mála, og það má gjarnan draga athyglina að þessum liðum. Það er sjálfsagt, að það komi fram, hvar skakkar á okkar tilkostnaði. Jafnvel þó að það séu hinir heilögu vextir, sem hér þurfa að vera þrefalt hærri en þar, þá má gjarnan koma fram, ef það eru þeir sem valda miklu hærri framleiðslukostnaði hér en í landi okkar aðalkeppinauta. Það er líka auðvitrað allsendis röng reikningsaðferð í þessum efnum, vegna þess að niðurgreiðslur í Noregi hafi verið frá 5 aurum á kg upp í 17 aura, að ætla að taka meðaltal af þessum tölum og telja, að þannig sé fundin sú niðurgreiðsla, sem er raunverulega á þann afla, sem öllu máli skipti í sambandi við það, þegar við erum að gera samanburð á þorskafla þeirra á vertíðinni og þorskafla okkar. Þessi tala segir engan veginn neitt rétt um það, hvað niðurgreiðslurnar eru raunverulega miklar, enda hafa þær verið áætlaðar af öðrum mönnum, sem þetta hafa kynnt sér, miklum mun lægri en þetta, sem hæstv. ráðh. nefnir. En jafnvel þó að maður taki þá tölu, 11 aura á kg, þá er, eins og ég segi, það skýrir ekki nema aðeins lítinn hluta af þeim gífurlega mikla verðmun, sem hér er á milli þess fiskverðs, sem gilti í Noregi á síðustu vertíð og gilti hér, og þess, sem nú er rætt um í Noregi og nú er rætt um hér, því að á þessu tvennu er mikill munur. Og samanburðurinn á vitanlega aðeins að gerast þannig, en ekki að við berum saman verðlag, sem ráðgert er hér á landi nú fyrir árið 1961 og var í hinu landinu 1960. Það er ekki sambærilegt. En það, sem þó skiptir mestu máll fyrir hæstv. ráðh. til að glöggva sig á í þessum efnum, er, að hann kynni sér, að það verð, sem hann hefur hér nefnt, 82 aurar á kg, er ekki hámarksverð, heldur er það lágmarksverð og ég veit, að hann getur aflað sér upplýsinga um það að verðið hafi í framkvæmd yfirleitt verið miklum mun hærra. Það skiptir hér öllu máli.

Með þessari till. er aðeins að því vikið, að það sé nauðsynlegt fyrir okkur að fá hlutlausa athugun á þessu máli. Um þetta hefur verið rætt og ritað hér allmikið og ýmsar skýringar gefnar á þessu, og mér er alveg ljóst, að þó að ég gefi eina skýringu og hæstv. ráðh. gefi aðra á þann hátt, sem hér hefur verið gert, þá dugir það ekki mönnum. Það eina, sem fyllilega dugir í þessum efnum, er einmitt, að það verði gert, sem lagt er til í þessari till., að Alþingi kjósi sérstaka nefnd, sem láti fara fram hlutlausa athugun á málinu og gefi Alþingi skýrslu um málið. Það er það eina, sem getur skýrt út málið fyrir mönnum. Og hér er sannarlega um svo stórt mál að ræða, að það er eyðandi í það nokkrum tíma og nokkrum kostnaði að fá úr þessu skorið. Hitt þykir mér boða heldur illt, að sjútvmrh. í landinu skuli telja hér um óþarft mál að ræða og hann skuli ganga svo gersamlega rammvilltur í þessu máli eins og hans ræða hér bar vitni um, því að að mínum dómi bar hún vitni um það, að hann hafi ekki kynnt sér þetta mál nema svo lauslega, að hann fer hér með alrangan samanburð, sem hlýtur að vera alvíllandi um verðlagið þar og verðlagið hér. Ég vil vænta, að hæstv. ráðh. kynni sér nú þetta mál betur og við nánari athugun komist hann að raun um, að það er réttmætt að láta þessa athugun fara fram.

Ég vil svo leggja til, að þessu máli að lokinni umr. verði vísað til allshn.