15.12.1960
Neðri deild: 40. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 417 í B-deild Alþingistíðinda. (290)

130. mál, söluskattur

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Eins og hér hefur verið rifjað upp, var því lýst yfir, þegar efnahagsmálaráðstafanirnar komu fram í fyrravetur — og fjárl. þó raunar öllu heldur, að ekki yrði hækkaður söluskattur í innflutningi. En ekki var langt liðið á veturinn, þegar fram kom frv. um að hækka þennan skatt, ekki bara lítils háttar, heldur meira en tvöfalda skattinn og bæta þar ofan á það, sem fyrir var, um 170–180 millj. yfir árið. Það hafði orðið einhver skekkja í áætlanagerð hæstv. ríkisstj., svona smávægileg, og þurfti að koma með þetta á eftir, þvert ofan í gefnar yfirlýsingar. Þegar þetta lá fyrir, var því skotið við, að ástæðan til þess, hve illa tókst til að standa við yfirlýsinguna, væri sú, að eftir væru aðeins 9 mánuðir af árinu, þegar nýju álögurnar kæmu í framkvæmd, og það þyrfti að bæta upp hina þrjá mánuðina, sem liðnir voru, með þessari fjárhæð. Jafnframt var þessu gefið nafnið bráðabirgðasöluskattur og öllum málflutningi hagað þannig, að enginn gat álitið annað en það væri fullur ásetningur hæstv. ríkisstj., að þessi skattur skyldi ekki gilda áfram. Það mætti færa fyrir þessu margar tilvitnanir, að öllum málflutningnum var hagað í þessa stefnu. Þetta hlaut að verða skilningurinn, þó að þess væri jafnframt vandlega gætt að segja þetta aldrei svo nákvæmlega, að það væri með berum orðum sagt, að ekki kæmi til greina, að skatturinn yrði framlengdur. En öllum málflutningnum, öllum rökstuðningnum var hagað á þá lund, að þjóðin fengi skýrt að vita, menn fengju það glöggt á meðvitundina, að hér væri aðeins um bráðabirgðaskatt að ræða til að fylla upp í tekjutap þriggja mánaða. Stjórnin hafði þá sem sé séð það, að næsta ár mundi verða tólf mánuðir! Hún hafði komið auga á það. Menn gætu því verið rólegir, var tónninn í því, sem sagt var. Þetta þyrfti ekki að endurtaka sig, einmitt vegna þess, að þá yrði árið 12 mánuðir, en þetta „stjórnarár“ mundi að þessu leyti ekki verða nema 9 mánuðir.

Hæstv. ríkisstj. mun hafa haldið á lofti þessum skilningi nokkuð lengi fram eftir árinu, því að það kemur mjög greinilega fram í því, sem hagfræðingur norskur, sem hingað kom, segir um þessi mál, að honum hefur verið sagt, — og þá mun hafa verið komið fram á sumar, — að þessi skattur væri aðeins til bráðabirgða.

Þessum hagfræðingi leizt illa á þetta allt, eins og kemur glöggt fram í raun og veru í hans áliti. Þegar þess er gætt, í hvaða skyni hann er hingað pantaður og yfir honum var setið og legið, þá er það náttúrlega augljóst af hans áliti, að honum leizt framúrskarandi illa á aðfarir hæstv. ríkisstj. Álitið ber það alveg glögglega með sér. Um sum atriði tekur hann afstöðu beint á móti því, sem ríkisstj. er að fara. Hann segir t.d. um vaxtapólitík hæstv. ríkisstj., að þvílíkar ráðstafanir, sem þar eru á ferðinni, hafi yfir höfuð ekki gefizt vel. Hann segir líka, að sér blöskri alveg sú kjaraskerðing, sem þarna sé stofnað til, en það dragi þó ofur lítið úr, að sér sé sagt, að innflutningssöluskatturinn eigi að hverfa, aðeins að vera til bráðabirgða, og jafngildi það 3% kjarabót, ef hann verður felldur niður. Sé það nokkur bót í máli.

Þá ræðir hann nokkuð um það, hagfræðingurinn, í þessu áliti, hvort hin gífurlega kjaraskerðing, sem stofnað hefur verið til, fái staðizt. Hann dregur sem sé ekki fjöður yfir það, þó að hæstv. ráðherrar vilji halda öðru fram af og til og að þetta gangi allt saman upp, það hafi eiginlega verið hægt að leggja þetta allt saman á þjóðina, án þess að nokkur finni fyrir því. Hagfræðingurinn norski hefur alls ekki getað hugsað sér slíkan málflutning og tekur því mjög greinilega fram, að hér sé um mjög mikla kjaraskerðingu að ræða. En hann segir, að sér hafi verið sagt, — honum var sagt æðimargt, — honum hafi einnig verið sagt, að á þessu hafi verið ákaflega rík nauðsyn vegna þess gífurlega halla, sem hafi verið á þjóðarbúskapnum og jafnaður hafi verið með erlendum lánum. Svo hafi honum verið sagt, að það væri ekki framar hægt að fá nein erlend lán og þess vegna yrði að byggja þjóðarbúskap Íslendinga á næstu árum á því að taka engin erlend lán, hvorki til framkvæmda né annars. Þess vegna yrði að herða svona að þjóðinni, eins og gert væri í ráðstöfunum ríkisstj. Þetta hafi sér allt verið sagt, og á þessu verði hann að byggja sitt álit og hugleiðingar. Síðan segir hann, að sér blöskri alveg kjaraskerðingin, en það sé þó sú bót á, að það eigi mjög fljótlega að minnka kjaraskerðinguna um 3% með afnámi bráðabirgðasöluskattsins.

Síðan er tónninn sá, að ekki sé nú gott að gera, þegar augljóst sé, að því er honum hafi verið sagt, að Íslendingar geti ekki fengið meiri lán og yrðu að fara að flytja út fjármagn í stórum stíl. Þetta passar allt við þær falsröksemdir, sem hér voru fluttar í fyrra fyrir efnahagsmálaráðstöfununum og hagfræðingnum norska hefur verið skýrt frá, en þær voru, að Íslendingar gætu hvergi fengið lán og ættu ekki að taka meiri lán, og það þýddi, að það yrði að herða svo að þjóðinni, að hún gæti staðið undir allri fjárfestingunni sjálf og flutt út til viðbótar nokkrar milljónir dollara á ári í afborgunum af föstum lánum. Þetta var hagfræðingnum sagt og þetta var íslenzku þjóðinni sagt. Og þetta var notað með fleiru sem skálkaskjól fyrir þeirri gífurlegu samdráttar- og kjaraskerðingarstefnu, sem hér var tekin upp.

Hvað var svo satt í þessu, sem þjóðinni var sagt og hagfræðingnum var sagt? Þjóðinni var sagt ósatt, og norska hagfræðingnum var líka sagt ósatt. Það kemur glöggt fram á því, að nú er auðvitað hugsunin sú hjá hæstv. ríkisstj. að taka veruleg lán erlendis til framkvæmda og líka að vísu í öðru skyni. Það, sem sagt var um nýja stefnu í lánamálum, sem ætti að taka upp og ætti að byggjast á útflutningi fjármagns, var ósatt, og það sem verra var, að það var vísvitandi sagt ósatt. Það stóð aldrei til að taka upp slíka stefnu, enda gersamlega óframkvæmanlegt. En þetta var notað að skálkaskjóli til að færa fram sem tylliástæðu fyrir þeim gífurlega samdrætti og kjaraskerðingu, sem efnt var til að ófyrirsynju, eins og margsinnis hefur verið sýnt fram á, vegna þess að það voru færð fram þau ósönnu rök, að það þyrfti að rétta af mörg hundruð milljón króna halla í íslenzkum þjóðarbúskap, sem var ekki til.

Ég verð að segja, að ég býst fremur við því, að þegar hæstv. ríkisstj. var að flytja mál sitt fyrir söluskattsálagningunni, hafi hún gert ráð fyrir, að hún þyrfti ekki á öllu þessu gífurlega viðbótarfé að halda framvegis til að fleyta ríkisbúskapnum — að hún hafi m.ö.o. ekki gert sér fyllilega grein fyrir því, hvað hún var að fara, — að hún hafi ekki fullkomlega gert sér grein fyrir því, hversu geigvænlegar afleiðingar mundu verða af þeirri fávíslegu samdráttar- og kjaraskerðingarstefnu, sem hún hafði tekið upp. Ég er t.d. alveg sannfærður um, að hæstv. ríkisstj. og ráðunautar hennar gerðu ráð fyrir því í fyrra, þegar þeir efndu til efnahagsmálaafgreiðslunnar og fjárlagaafgreiðslunnar, að þeir væru að afgreiða fjárlög, sem mundu skila mörg hundruð millj. kr. greiðsluafgangi. Mér er alveg ljóst. að þeir gerðu ráð fyrir því. Þeir vissu að vísu, að það mundi verða mikill samdráttur af því, sem þeir voru að aðhafast, en því fór svo fjarri, að þeir hefðu nokkurt samhengi í því, sem þeir voru að gera, eða nokkra heila hugsun. Þeir gerðu sér sýnilega alls ekki grein fyrir því til neinnar hlítar, að það var óhugsandi að setja á efnahagsmálaráðstafanir, sem hlutu að hækka verðlag í landinu um á annan milljarð, án þess að öll framleiðslan lamaðist stórkostlega og þjóðartekjurnar drægjust saman og efnahagsmálin kæmust í stórfelldan hnút. Þetta var fyrirsjáanlegt. En þeir vildu ekki sjá það, og það vantaði alveg samhengi í þá mynd, sem þeir voru að reyna að draga upp. Þess vegna gerðu þeir ráð fyrir því í fyrra, þegar þeir voru með þessi mál, að þeir væru að gera svo hraustlega fyrir hugsanlegri „afdrift“, eins og sagt er á sjómannamáli, að þeir væru að afgreiða fjárlögin með mörg hundruð millj. kr. greiðsluafgangi, mundu þar af leiðandi geta staðið við fyrirheit sín, a.m.k. að verulegu leyti, um söluskattinn, og kannske gert aðrar ráðstafanir til þess að draga úr þeim árásum, sem þeir höfðu gert á lífskjör manna og stuðning við framkvæmdir. En nú er okkur sagt úr herbúðum hæstv. ríkisstj., að þetta sé allt að fara talsvert á aðra lund, það sé ekki útlit — segja þeir — fyrir neinn greiðsluafgang á þessu ári, sem sýnir þá, að samdrátturinn er miklu stórfelldari en jafnvel við, sem vorum á móti þessu, gerðum ráð fyrir. Ég hef ævinlega gert ráð fyrir því, að það hlyti að verða á þessu ári verulegur greiðsluafgangur á ríkisbúskapnum. Og ég er ekki farinn að trúa því enn, að það verði ekki verulegur greiðsluafgangur á þessu ári. Ég trúi því ekki enn, að ráðstafanir ríkisstj. til samdráttar hafi orðið svo geigvænlegar á aðeins 9–10 mánuðum, að það verði ekki greiðsluafgangur á þessu ári, — trúi því ekki, fyrr en ég sé það, að þannig hafi verið farið með þessi mál.

En hæstv. ríkisstj. segir okkur, að útlitið sé svo svart, að það verði að gera ráð fyrir því, að hún þurfi á næsta ári á þessum 170–180 millj. að halda til þess að halda ríkisbúskapnum aðeins á floti og það með hörmungum, — með því að skera stórkostlega niður verklegar framkvæmdir frá því, sem þær voru fyrir breytingarnar, og með því að draga úr þeim framlögum yfir höfuð, sem gengið hafa til uppbyggingar í landinu.

Það er í raun og veru ekki hægt að hafa á því neina skoðun, hvort ríkisstj. segir þarna rétt frá eða ekki, og það af þeirri einföldu ástæðu, að hæstv. ríkisstj. hefur haldið leyndum fyrir stjórnarandstæðingum þeim upplýsingum, sem þarf að hafa til þess að geta myndað sér á þessu nokkra skoðun. Og ég hygg það sé í fyrsta skipti, sem slíkar vinnuaðferðir hafa verið við hafðar.

Þrátt fyrir eftirgangsmuni hefur alls ekki fengizt fram lögð í fjvn. Alþingis gjaldeyrisáætlun fyrir næsta ár. Þar með hefur algerlega verið neitað um að fá upplýsingar um fyrirhugaða stefnu hæstv. ríkisstj. í lánamálum, varðandi erlendar lántökur og hvaða fé hún kunni að eiga von á erlendis frá inn í þjóðarbúskapinn. En það vita engir betur en hæstv. ráðherrar og hennar menn, að það er hrein fásinna, að nokkur maður geti áttað sig á áætlun um þjóðarbúskap eða ríkissjóðstekjur án þess að hafa hugmynd um, hvað fyrirhugað er um erlendar lántökur. Vegna þess að innflutningurinn gefur feiknatekjur í ríkissjóð, hljóta þær að fara mjög eftir því, hversu mikið erlent lánsfé verður til ráðstöfunar. Ef hæstv. ríkisstjórn ætlaði að fara að framkvæma þá stefnu, sem hún þóttist ætla að hafa, á meðan hún var að reyna að blekkja þjóðina til þess að taka á sig efnahagsaðgerðirnar, — að hætta að taka erlend lán, þá gæti maður skilið, að innflutningsáætlunin yrði að vera lág og það yrði að þjarma að með nýjum sköttum og nýjum tollum, til þess að ríkisbúskapurinn gæti staðizt, — jafnvel draslað. En nú vitum við, að þetta er alls ekki ætlunin. En ef þetta væri hugsunin, þá væri stefnan sú, eins og ég tók fram áðan, að þjóðin ætti að greiða af árstekjum sínum alla neyzlu ársins, alla fjárfestinguna og þar að auki greiða mjög niður skuldir við önnur lönd. Við vitum að þetta er alls ekki ætlun hæstv. ríkisstj., og við erum að öðru leyti leyndir því, hvað hún ætlast fyrir.

Þess vegna getum við ekki gert okkur neina hugmynd um það, hvað af því eru hreinar blekkingar, sem hæstv. ríkisstj. heldur uppi varðandi tekjuáætlun ríkissjóðs á næsta ári, og hvað kann að vera byggt á sterkum líkum. Við höfum enga aðstöðu til að dæma um þetta. En hæstv. ríkisstj. boðar sjálf með framlengingu þessa skatts og með áætlun sinni um fjárlögin áframhaldandi aukna kjaraskerðingu og aukinn samdrátt, og mundi þó mörgum finnast, að nóg væri komið. Tekjuáætlun fjárlaganna, sem framlenging þessa söluskatts er framhald af, er sem sé miðuð við enn meiri samdrátt en enn hefur orðið og enn meiri kjaraskerðingu.

Eins og komið hefur fram af því, sem sagt hefur verið um þennan innflutningssöluskatt, sem nú á að framlengja, er hann aðeins einn hlekkur í því samdráttar- og kjaraskerðingarhelsi, sem hæstv. ríkisstj. kom á þjóðina á þessu ári, og þess vegna er alveg einsýnt fyrir þá, sem vilja berjast á móti þessari stefnu, að vera einnig á móti þeim þætti hennar, sem felst í framlengingu söluskattsins. Það kemur auðvitað ekki annað til mála. Það væri furðuleg framkoma af þeim, sem berjast á móti þessari stefnu, ef þeir léðu máls á að una því, en gerðu ekki allt, sem þeir gætu, til að berjast gegn því, að þessi söluskattur verði framlengdur.

Það er þessi stefna, sem hæstv. ríkisstj. hefur tekið upp og útfært eða reynt að útfæra fram að þessu, sem veldur því, að nú þarf að stórauka tollaálögurnar að hennar eigin dómi til þess að fá sömu tekjur og áður, — ekki til að fá meira fjármagn í ríkissjóð til að verja því t.d. í framkvæmdir eða til eflingar þjóðarbúskapnum á einhvern hátt, — nei, það þarf raunverulega að stórauka álögurnar frá því, sem þær áður voru, til þess að halda í horfinu.

Ekkert er gleggri vottur um þau háskalegu áhrif, sem samdráttarstefnan hefur haft á þjóðarbúskapinn, en einmitt þetta og þar á meðal framlenging þessa skatts.

Það er ástæða til í framhaldi af þessu að minnast aðeins á, hvernig þessi stefna hefur komið niður, sem hefur orðið til þess að minnka svo mjög þjóðartekjurnar, að þetta blasir við. Við sjáum, að ráðstafanir hæstv. ríkisstj. hafa orðið til þess að gera framleiðslunni erfiðara fyrir í öllum greinum. Framleiðslan hefur beinlínis minnkað frá því, sem hún hefði ella orðið og hefði þurft að vera, til þess að hægt væri að halda uppi jafnkröftugum þjóðarbúskap og var, áður en þessi stefna var tekin upp. Mörg fyrirtæki hafa orðið að draga starfsemi sína stórkostlega saman, bæði í sjávarútvegsiðnaði og fleiri greinum, frá því sem áður hefur verið. Öll fjárfestingarstarfsemi hefur minnkað mjög verulega. Og afleiðingarnar eru farnar að koma fram í minnkandi tekjum þjóðarinnar allrar, sem stafar af minnkuðum tekjum almennings. Eftirvinna, sem menn lifðu mjög af áður, fer ört minnkandi. Við vitum, að sú mikla vinna, sem hér var, eftirvinna og alls konar slík vinna, jók þjóðarframleiðsluna stórkostlega og menn lifðu að verulegu leyti af þessari vinnu. Afleiðingarnar af stjórnarstefnunni eru þær, að eftirvinnan fer stórminnkandi. Þannig hrapa niður tekjur heimilanna, alþýðuheimilanna í landinu, og þar með þjóðartekjurnar.

Og það er ekki því að leyna, að atvinnuleysi er að byrja að gera vart við sig, sem við sem betur fer höfum ekki þekkt um langan tíma. Þessi hræðilega ófreskja, sem haldið hefur verið frá dyrum manna nú langtímum saman í íslenzkum þjóðarbúskap, drepur nú á dyr, en engin ófreskja er verri en atvinnuleysið.

Ég veit, að það er erfitt að baga þjóðarbúskapnum þannig, að stefnan sé eftir ströngustu kröfum beint í jafnvægisátt. Það er eitthvað svipað sennilega og stýra skipi í stórsjó. Það vill „svansa“, sem kallað er. Því vill slá til annarrar hvorrar handar. En ég segi alveg hiklaust, og það er alveg bjargföst skoðun mín, að ef eiga á eitthvað á hættu um, að „svansi“ eða beri út af leið, sem í þessu tilfelli er þá annaðhvort of mikill samdráttur og þar með fylgjandi atvinnuleysi, — eða nokkur þensla, þar með nóg atvinna, eftirvinna og háar tekjur, en nokkur hætta á verðbólgu, - að ef um þetta tvennt er að ræða, þá er ég alveg hiklaust þeirrar skoðunar, að það beri að velja síðara kostinn, sem ég nefndi, en ekki þann fyrri. Það er miklu stórkostlegra þjóðarböl að hafa atvinnuleysi og of mikinn samdrátt en eiga hitt á hættu, að einhver verðbólga eigi sér stað, ef því getur fylgt öflugra atvinnulíf, meiri framleiðsla, betri lífskjör og meiri þjóðartekjur. En þetta er alveg þveröfugt við það, sem núv. hæstv. ríkisstj. hefur einsett sér.

Ég minntist á, að dregið hefði úr framleiðslustarfseminni sjálfri, eftirvinna hefði minnkað og atvinnuleysið væri byrjað að gera vart við sig. Meira að segja sverfur nú það alvarlega að ýmsum fyrirtækjum, að þau eru farin að loka um stundarsakir og segja fólki upp, vegna þess að dregið hefur þannig úr sölu þeirra á nauðsynjavörum vegna ráðstafana ríkisstj., að þau treysta sér ekki til að halda áfram. Þannig mætti lengi telja, og er þetta þó aðeins byrjunin, því að hættan er sú, að hæstv. ríkisstj. hafi hér leyst úr læðingi öfl, sem hreyfa niður á við. Það er hætt við því, meira að segja, að hæstv. ríkisstj. hafi leyst hér úr læðingi öfl, sem hreyfa niður á við og hún eigi mjög erfitt með að hafa stjórn á. Ég efast um, að hæstv. ríkisstj. hafi stjórn á því, hvert þau öfl, sem hún hefur leyst úr læðingi og hreyfa niður á við, bera hana og þjóðarbúið, áður en langt um líður. Það er ekki annað sýnilegt en að þessi öfl, sem hæstv. ríkisstj. hefur leyst úr læðingi, samdráttar- og kjaraskerðingaröflin, séu byrjuð að skrúfa þjóðina niður í fen fátæktarinnar.

Ég veit, að sumir segja, að þær aðferðir, sem áður voru við hafðar, hafi haft í för með sér verðbólguhættu, og það er ekki hægt að neita því. Það var náttúrlega atriði, sem þurfti sífellt að hafa í huga og reyna að hafa hemil á. En sú stefna var öflug og þróttmikil framfarastefna, sem hækkaði þjóðartekjurnar og bætti lífskjör almennings og hún átti rétt á sér þrátt fyrir þá hættu, sem ég var að minnast á. En þessi stefna, sem nú er tekin upp, á engan rétt á sér, og ég efast um, að hæstv. ríkisstj. hafi gert sér grein fyrir, hvað hún var að gera, þegar hún leysti út þær ófreskjur, ef svo mætti orða það, sem hún hefur hleypt af stað með ýmsu af því, sem hún hefur verið að gera.

Ég minntist á, hvernig væri um þjóðartekjurnar, atvinnuna, kjaraskerðinguna og almennt um afleiðingar af stefnu ríkisstj. Þegar verið er að ræða hér um söluskattinn, er hæstv. fjmrh. vanur að koma með töflu eða dæmi, sem hann er mjög státinn af. Ég efast ekkert um, að hann kemur með hana hér í dag eða þá á morgun. Þetta dæmi er gjarnan birt í blöðum ráðherrans við hátíðleg tækifæri, eins og t.d. þegar svona skattur er framlengdur. Það var birt í morgun. Þar á að sanna, að ráðstafanir ríkisstj. í skattamálum hafi svo sem síður en svo verið óhagstæðar fyrir alþýðu manna í landinu. Það hafi verið reiknuð út af hagstofunni, að hækkunin á söluskattinum, þ.e. 3% söluskatturinn nýi og tvöföldunin á innflutningssöluskattinum, nemi ekki meira fyrir vísitölufjölskyldu, sem kölluð er, en því, sem tekjuskattur og útsvar hafi verið lækkað, og svo fjölskyldubótunum nýju. Þetta geri saman meira en að bæta vísitölufjölskyldunni upp þau áföll, sem hún hafi orðið fyrir af ráðstöfunum ríkisstj. í þessum efnum. Þetta er uppáhaldsdæmi hæstv. ráðh. Og þetta á náttúrlega, þó að það sé ekki tekið fram af ráðh. hendi, að skiljast þannig, að þarna hafi menn myndina af ráðstöfunum ríkisstjórnarinnar. Það er aldrei tekið fram, þegar þetta dæmi er flutt, að þetta sé aðeins örlítill þáttur af því, sem hæstv. ríkisstj. hefur verið að aðhafast. Þó er það auðvitað aðalatriðið. Það skiptir ekki aðalmáli í þessu sambandi að slíta út úr því, sem hæstv. ríkisstj. hefur verið að aðhafast, þrjú atriði á annan bóginn og önnur þrjú á hinn bóginn og bera þau saman og segja svo: Þarna hafa menn það. — Það eina, sem skiptir nokkru máli í þessu sambandi, eru heildaráhrif þeirra ráðstafana, sem hæstv. ríkisstj. hefur verið að gera, á búskap einstaklinga og þjóðarinnar allrar. Það er hið eina, sem máli skiptir. Það skiptir engu máli, þó að hæstv. ráðh. sé við hátíðleg tækifæri að láta slita út 3 atriði á annan bóginn og 3 á hinn. Það eina, sem skiptir máli, eru áhrifin í heild. Það væri mjög æskilegt, að hæstv. ráðh. vildi taka þetta til greina. Hitt er alveg út í bláinn. Það er vitaþýðingarlaust.

Það hefur fleira verið gert en hækka söluskattinn. Færðar hafa verið inn í ríkissjóðinn álögur, sem áður voru notaðar í útflutningsuppbætur og áttu með réttu lagi að falla niður, þegar gengislækkunin var gerð. Þetta eru nýjar álögur, því að þær eru færðar til almennra þarfa ríkisins, koma sem nýjar byrðar á menn. Það er gengislækkunin sjálf og vaxtahækkunin og allar þessar ráðstafanir, sem gerðar hafa verið, í heild, sem máli skipta. Auk þess er þess að gæta, að þegar hæstv. ráðh. er að láta birta þetta uppáhaldsdæmi sitt í blöðunum innrammað, þá er það miðað við eitthvað, sem kallað er vísitölufjölskylda, sem á að hafa 66–68 þús. kr. í tekjur. En hefur hæstv. ráðh. athugað, hvað verkamönnum og bændum er ætlað að hafa í tekjur, eins og nú er komið? Þeir hafa engar 66–68 þús. kr., eins og þessi fjölskylda, sem hæstv. ráðh. setur í rammann. Ég veit ekki betur en mánaðarkaup verkamanna sé um 4000 kr. fyrir 8 stunda vinnudag og því aðeins, að aldrei falli niður nokkur dagur, aðeins með því, að vinna fáist hvern einasta dag í 8 stundir. Ekkert atvinnuleysi má koma til greina, ekkert óhapp, enginn lasleiki og ekki neitt, þá getur verkamaður haft 48 þús. kr. á árl. Mundi ekki hæstv. ráðh. vilja innramma, hvernig dæmið lítur út fyrir þennan mann, ef allar ráðstafanir hæstv. ríkisstj. í heild í efnahagsmálunum eru teknar, ekki tveir eða þrír liðir?

Eða atvinnuástandið. Á hverju hafa þeir menn lifað undanfarið, sem hafa svona kaup? Á hverju hefur þetta fólk framfleytt sér, t.d. fjölskyldufólk? Það hefur verið á eftirvinnunni, sem hæstv. ríkisstj. er að bisa við að koma fyrir kattarnef, sem hún miðar allt við að eigi að hverfa til þess að ná því, sem hún kallar jafnvægi í eftirspurn á vinnumarkaðinum.

Við vitum vel, hvað þeir, sem framfylgja þeirri stefnu, sem hæstv. ríkisstj. er að framkvæma núna, telja undirstöðuatriðið. Undirstöðuatriðið í öllu saman er í þeirra huga, að það sé meira framboð á vinnuafli en eftirspurn, m.ö.o.: að það sé „hæfilegt atvinnuleysi“, eins og það heitir á þeirra máli, því að annars leiði til ójafnvægis á nýjan leik. Og það, sem hæstv. ríkisstj. og hennar flokkar eru að reyna, það er að minnka vinnuna þannig, að eftirvinnan dragist saman og að það myndist í landinu „hæfilegt atvinnuleysi“ til þess að skapa það, sem kallað er „jafnvægi á vinnumarkaðinum“.

Á hverju á þá sá fjölskyldumaður að lifa, sem hefur 4000 kr. á mánuði mest? Vill ekki hæstv. fjmrh. segja okkur það? Hefur hann engar áhyggjur af þessu? Og hvað ætlar hæstv. fjmrh. og hans stjórn að gera í þessu? Það sjá allir, að þetta stefnir beint í vegginn. Hver getur hugsað sér, að þetta geti staðið óbreytt, og hvað ætlar hæstv. ríkisstj, að gera til þess að koma í veg fyrir, að kaupið þurfi að hækka? Eða er það kannske álit þeirra, sem hér að standa, að þetta geti staðizt? Ég bara spyr. Hvaða ráðstafanir ætlar hæstv. ríkisstj. að gera, til þess að það sé hugsanlegt, að þetta geti staðizt, ef hún ætlar ekki einu sinni að afnema þennan söluskatt? Það kom þó mjög greinilega fram hjá hagfræðingnum norska, sem leit á þessi mál fyrir hæstv. ríkisstj., að eina glóran, sem hann sá, var þó það, að honum hafði verið sagt, eins og svo margt fleira, sem honum var sagt, að þessi skattur hyrfi, og þar kæmu þó kjarabætur strax.

Nú er mönnum sagt, að þetta standi allt í járnum, stjórnin sé búin að koma þessu þannig fyrir, að þetta standi allt í sjálfheldu, það sé engu hægt að breyta. En væri ekki hugsanlegt, að hæstv. ríkisstj. gæti breytt einhverju af þeim óhæfilegu ráðstöfunum, sem hún hefur gert til þess að þjaka íslenzkt atvinnulíf og koma í veg fyrir, að framleiðslan geti gengið, eins og t.d. vaxtaokrinu? Ég spyr: Í hvers þágu er að heimta mörg hundruð milljónir króna af afurðavíxlum framleiðslufyrirtækjanna inn í Seðlabankann og leggja féð þar fyrir? Í hvers þágu er þetta gert? Er þetta gert fyrir íslenzkt atvinnulíf, fyrir íslenzkan þjóðarbúskap? Og svo er sagt, að það sé alls ekki með nokkru lifandi móti hægt að slaka nokkuð til nokkurs staðar, svona verði þetta að vera. Hver hefur kveðið upp þann dóm, að íslenzkir framleiðendur eigi að borga 9.9% af afurðavíxlunum og 111/2% af öðrum víxlum? Hefur hæstv. ríkisstj. aldrei látið sér til hugar koma, að bara vaxtahækkunin ein nemur hjá mörgum fyrirtækjum meira en 10–20% af öllum kaupgjaldsgreiðslum þeirra? Hefur það aldrei hvarflað að ríkisstj., að óhugsandi er, að þetta geti staðizt? Og ofan á allt annað er svo hæstv. ríkisstj. núna að bollaleggja alls konar aðferðir til þess að lána mönnum fé til að greiða þessa okurvexti. Ætli það væri ekki nær að fara að reyna að gera einhverjar ráðstafanir til þess að draga úr þeirri stórkostlegu kjaraskerðingu, sem hefur bókstaflega verið framkölluð með þessum ráðstöfunum hæstv. ríkisstj., bókstaflega búin til með almennum ráðstöfunum til þess að draga með öllu hugsanlegu móti úr veltunni? Það er það, sem verið er að gera, — með öllum hugsanlegum ráðstöfunum verið að draga úr veltunni í þjóðarbúskapnum. Og þar er einn liðurinn þessar gífurlegu vaxtaálögur, sem eru lagðar á framleiðsluna. Síðan er sagt við menn: Framleiðslan þolir ekki meira. — En hún þolir að borga þessa vexti!

Ég vil enn þá einu sinni benda hæstv. fjmrh. á það, sem fram undan hlýtur að vera í þessum efnum og hann hlýtur að sjá, að þetta getur ekki staðizt. Hvorki tekjur bænda né tekjur verkamanna geta staðizt, eins og þær eru, og ef hæstv. ríkisstj. ætlar að koma í veg fyrir, að það verði hækkanir, allsherjarhækkanir, þá verður hæstv. ríkisstj. að finna leiðir til þess að draga úr þeirri kjaraskerðingu, sem hún hefur innleitt.

Það hefur verið upplýst frá Alþýðusambandinu, og ég hef ekki séð það véfengt, að sé sett upp vísitala fyrir kaupmátt tímakaupsins, sé hún 86 miðað við 97 í október 1958. Það þýðir, að kaupmáttur tímakaupsins hafi lækkað um 12% á þessu tímabili. Til viðbótar kemur svo minnkuð atvinna, minnkuð eftirvinna og vaxtabögglarnir, sem hæstv. ríkisstj. hefur bundið ekki aðeins framleiðslunni, heldur einnig heimilunum. J;g skil ekki í, að hæstv. ríkisstj. láti sér koma til hugar, að þetta geti staðizt, og þess vegna verður í alvöru að leita að einhverjum leiðum til að ráða fram úr þessum vanda. Það er alveg vonlaust verk að berja höfðinu við steininn og látast ekki sjá, hvernig ástatt er. Og í því sambandi hafa þessar rammamyndir um einstaka þætti, slitnar út úr samhengi, sem birtar eru í aðalmálgagni ríkisstj., svo sem eins og í hátíðaskyni, í hvert skipti sem eitthvað er hér um að vera, enga þýðingu.

Það má bæta því þarna við, svona rétt til skýringar um þann málflutning, fyrir utan annað, sem ég hef bent á, að þegar verið er að reikna áhrif söluskattsins á útgjöld vísitöluheimilisins, þá gefur það út af fyrir sig ekki mikla hugmynd um þau að taka bara hækkunina, sem kemur á neyzluvörur þessa heimilis strax. Það er af þeirri einföldu ástæðu, að það er ekki nema nokkur hluti söluskattsins, sem kemur beint á heimilin strax. Mjög mikið af honum kemur fyrst niður á alls konar rekstri í landinu og þar næst á heimilin, t.d. í lægra kaupi en menn mundu annars fá og með öðru móti. Það er því alveg sama, frá hvaða sjónarhóli litið er á þessa uppáhalds rammamynd hv. fjmrh. Eftir því sem oftar er á hana litið og frá fleiri hliðum, sést betur, hversu þýðingarlítið gagn hún er. Og auðvitað hlýtur það að hefna sín, ef hæstv. ríkisstj. álítur, að það leysi vandann að birta slíkar upplýsingar, þar sem einstök atriði eru slitin úr samhengi. Það er miklu meiri alvara á ferðinni en svo, að hægt sé að setja nokkurt traust á þess konar málflutning.

Ég skal svo ekki hafa þessi orð fleiri, en láta hér staðar numið.