18.01.1961
Sameinað þing: 32. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 920 í D-deild Alþingistíðinda. (2900)

109. mál, kaup Seðlabankans á víxlum iðnaðarins

Flm. (Þórarinn Þórarinsson):

Herra forseti. Þetta mál er gamall kunningi hér á Alþ., og þarf þess vegna ekki að fylgja því úr hlaði með mörgum orðum. Till. fjallar um það. að Seðlabankinn endurkaupi framleiðslu- og hráefnavíxla iðnaðarfyrirtækja eftir ákveðnum reglum, er settar verði með svipuðu sniði og reglur þær, er gilda um endurkaup framleiðsluvíxla sjávarútvegs og landbúnaðar.

Þessu máli var fyrst hreyft hér á Alþ. veturinn 1958 af Sveini Guðmundssyni forstjóra, sem þá átti hér sæti. Hún fékk góðar undirtektir á Alþ. og var afgreidd að miklu leyti óbreytt eins og hann hafði flutt hana. Síðan eru liðin 21/2 ár, að Alþingi afgreiddi þessa till., án þess að um nokkrar fraankvæmdir hafi orðið að ræða af hálfu ríkisstjórnar ag viðkomandi banka. Þó hefur það gerzt á þessum tíma, sem síðan er liðinn, að gerðar hafa verið efnahagsráðstafanir, sem hafa stórlega aukið þörf iðnaðarins fyrir rekstrarfé, enda er nú svo komið, að stórfelldur samdráttur er hjá ýmsum iðnaðarfyrirtækjum, m.a. af rekstrarfjárskortí, og þess vegna er enn þá meiri þörf fyrir það en var þó fyrir 21/2 ári, að sú ráðstöfun sé gerð, sem till. fjallar um.

Í orði kveðnu er nú oft látið svo heita, að iðnaðurinn sé einn af þremur aðalatvinnuvegum þjóðarinnar. Hins vegar er ekki hægt að segja, að þetta hafi enn verið viðurkennt í reynd. Þegar borinn er saman aðbúnaður þessara þriggja atvinnuvega, sjávarútvegs, landbúnaðar og íðnaðar, þá er ekki því að neita, að iðnaðurinn er enn á mörgum sviðum hornreka, og það gildir ekki sízt varðandi það mál sem hér liggur fyrir. Í þessum efnum býr iðnaðurinn enn þá við önnur og verri kjör en hinir tveir aðalatvinnuvegir landsins. Það er ekki nema sjálfsagt réttlætismál að úr þessu sé bætt. auk þess sem það er enn meira hagsmunamál þjóðarinnar nú orðið en áður, vegna þess að lánsfjárskorturinn er nú farinn að þrengja svo mjög að iðnaðinum, að verulegur samdráttur hefur átt sér stað og atvinnuleysi er að skapast af þeim ástæðum. Þess vegna er þess að vænta, að Alþingi taki þessari till, ekki verr nú en fyrir 21/2 ári og stuðli þannig að því, að ríkisvaldið og bankavaldið láti hana koma til framkvæmda.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að hafa þessi orð fleiri að sinni. Á seinasta þingi var svipaðri till. vísað til fjvn. og hafði hún fengið afgreiðslu þar, þó að málið væri ekki endanlega afgreitt frá :þinginu. Ég leyfi mér þess vegna að leggja til, að umr. um till. verði frestað og henni vísað til fjvn. til athugunar.