15.02.1961
Sameinað þing: 39. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 930 í D-deild Alþingistíðinda. (2934)

138. mál, sjálfvirk símstöð á Siglufirði

Jón Þorsteinsson:

Herra forseti. Við fjórir þm. úr Norðurlandskjördæmi vestra höfum á þskj. 205 flutt till. til þál. um sjálfvirka símstöð á Siglufirði og bætta símaþjónustu við Siglufjörð. Í fjarveru fyrsta flm. vil ég leyfa mér að fylgja þessari till. úr hlaði með nokkrum orðum.

Till. fjallar um það tvennt að bæta símaþjónustuna milli Siglufjarðar og annarra landshluta og hins vegar það að koma upp sjálfvirkri símstöð á Siglufirði fyrir kaupstaðinn. Verði þetta, hvort tveggja m.a. gert með því að reisa sem fyrst nýtt símstöðvarhús á Siglufirði. Hús það, sem póstur og sími hefur aðsetur í á Siglufirði, er yfir 50 ára gamalt. Er þar mjög þröngt um starfsemi símans og afleit aðstaða til góðrar þjónustu. Póst og símamálastjórnin hefur fyrir löngu lagt drög að því að byggja nýtt hús yfir starfsemina á Siglufirði, en framkvæmdir hafa dregizt mjög úr hömlu, og er það ekki viðunandi.

Þá hefur langlínusamband milli Siglufjarðar og annarra landshluta lengi verið mjög slæmt. Um síldveiðitímann skortir oft mikið á, að landssíminn geti afgreitt þau símtöl. sem um er beðið, vegna þess að línurnar, sem til Siglufjarðar liggja, eru of fáar. Þurfa menn þá jafnvel að bíða dögum saman eftir símtali. Er þó ljóst, að það er ekki eingöngu hagsmunamál Siglfirðinga, að úr þessu verði bætt, heldur einnig hagsmunamál flestra þeirra manna, sem síldarútveg stunda hér a landi. Samfara byggingu nýs símahúss á Siglufirði er eðlilegt að koma þar upp sjálfvirkri stöð, svo að Siglfirðingar njóti að þessu leyti sömu þjónustu og íbúar flestra annarra af stærri kaupstöðum landsins njóta nú þegar.

Ég legg svo til. að umr. um þetta mál verði frestað og till. vísað til hv. allshn.