01.02.1961
Sameinað þing: 35. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 932 í D-deild Alþingistíðinda. (2944)

146. mál, sjálfvirk símstöð í Borgarnesi

Flm. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Ég þarf ekki mörgum orðum að till. á þskj. 246 að eyða, því að hliðstæð mál og þetta nafa verið til meðferðar hér í sameinuðu þingi, þar sem mjög er nú á það sótt að fá sjálfvirkt símkerfi til hinna ýmsu staða. Það er kunnara en frá þurfi að segja, að þetta er mikið hagræði fyrir viðskiptalífið og knýjandi nauðsyn.

Eins og fram kemur í grg. fyrir þessari till., er nýbyggt símstöðvarhús í Borgarnesi, og þar er gert ráð fyrir því, að sjálfvirk símstöð verði sett upp. Ástæðan til þess, að þessi till, er flutt, er fyrst og fremst sú, að viljayfirlýsing Alþingis gæti orðið til þess að hraða málinu, og í sambandi við till. fengjust upplýsingar um það, hvernig málið stæði. Ég hef rætt þetta mál allmikið við póst og símamálastjóra, og mér er kunnugt um það, að það er unnið að þessari framkvæmd, en því fyrr, því betra, er hugsun okkar, er að þessu máli stöndum.

Ég ætla ekki að orðlengja um till. frekar að sinni, þar sem tillagan skýrir sig sjálf, en legg til, herra forseti, að umr. verði frestað og málinu vísað til hv. fjvn.