19.12.1960
Neðri deild: 42. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 439 í B-deild Alþingistíðinda. (295)

130. mál, söluskattur

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Í sambandi við þetta frv. um framlengingu á 8% söluskattinum ætla ég ekki að fylgja fordæmi nokkurra hv. þm., sem hér hafa talað og rætt almennt um efnahagsaðgerðirnar. En ég tel rétt að leiðrétta nokkur ranghermi, sem komið hafa fram hjá ræðumönnum í sambandi við þetta mál.

Hver eftir annan tönnlast þeir á því, að þessi 8% söluskattur hafi verið settur í fyrra einvörðungu af einni ástæðu og sú ástæða eða röksemd hafi verið sú, að smásöluskatturinn, 3%, hafi ekki getað gilt nema 3/4 þessa árs. Hv. síðasti ræðumaður endurtók þetta einnig Þessi staðhæfing er alröng. Í fyrsta lagi afsannaði þessi hv. ræðumaður það sjálfur, þar sem hann vitnaði í grg. frv., þar sem þessi ástæða var nefnd meðal annarra. Samt sem áður leyfir hann sér að segja: Það er einvörðungu þessi ástæða og engin önnur.

Í umr. í fyrra um þetta mál kom það svo greinilega fram sem frekast mátti verða, hverjar voru ástæðurnar til þess, að 8% söluskatturinn var á lagður. Og bæði hv. síðasti ræðumaður og aðrir, sem hér hafa talað, vita þetta ákaflega vei. Ástæðurnar voru þrjár. Ein var sú, að við undirbúning söluskattsfrv. var í fyrsta lagi ákveðið að undanþiggja stóra flokka þessum 3% söluskatti, og nefni ég þar fyrst og fremst mannvirkjagerð, og raunar ýmislegt fleira, sem í öndverðu hafði komið til orða að láta 3% skattinn ná til, en þótti rétt að athuguðu máli að undanþiggja. Þessi ástæða gerir að verkum, að smásöluskatturinn gaf allmiklu minna í tekjur en í öndverðu hafði verið gert ráð fyrir. Fyrst og fremst var það sem sagt mannvirkjagerð og byggingastarfsemi, sem ákveðið var síðar að undanþiggja. t öðru lagi var gart ráð fyrir því, að smásöluskatturinn þyrfti að vera 4 eða jafnvel 5% í upphafi til að ná þessari upphæð, sem um er að ræða, en það var ákveðið að hafa hann ekki hærri en 3%. Í þriðja lagi var það svo einnig, að þar sem þessi söluskattur gat ekki komið til framkvæmda, fyrr en þrír mánuðir voru liðnir af árinu, þá þurfti að grípa til þessa 8% skatts. Þessar voru þrjár ástæðurnar fyrir því, að 8% skatturinn var lögleiddur, og þetta er þessum hv. þm. fyllilega ljóst.

Í annan stað er því haldið fram með þessu ranghermi um, að aðeins ein ástæða hafi legið til 8% söluskattsins, sem sagt, að 3% söluskatturinn kom ekki til framkvæmda fyrr en 3 mánuðir voru af árinu, — þessi röksemd er búin til til að rökstyðja það einnig, að ríkisstj, hafi lofað því og lýst því yfir sem hreinu loforði, að söluskatturinn yrði ekki framlengdur. Þetta er alrangt, og þessir hv. þm. vita það sjálfir, að það er rangt. Í umr. um söluskattinn hér á Alþ. í fyrra tók ég það skýrt fram í báðum deildum og oftar en einu sinni að gefnu tilefni, að því færi fjarri, að ríkisstj. vildi gefa nokkur loforð um það, að þessi 8% skattur yrði ekki framlengdur. Ég hef hér t.d. fyrir mér ræðu, sem ég flutti í þessu máli 14. marz s.l. Þar segir svo m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Varðandi 8% innflutningssöluskattinn er ekki annað lagt til að þessu sinni en að hann standi þetta ár. Um það, hvað við tekur á næsta ári, skal ég ekkert segja hér nú. Eins og ég hef áður skýrt frá á hv. Alþ., er tollskráin og öll löggjöf um aðflutnings- og innflutningsgjöld í sérstakri athugun. Ætlunin er fyrst og fremst að samræma þetta kerfi og gera það einfaldara en verið hefur. En um það, hvað verður um innflutningssöluskattinn á næsta ári og framtíð hans, skal ég ekkert fullyrða á þessu stigi.“

Hér er það svo skýrt tekið fram sem verða má, og í öðrum yfirlýsingum nefndi ég sérstaklega, að það, hvort innflutningssöluskatturinn þyrfti að standa á árinu 1961, ylti allt á því, hvernig gengi að koma saman fjárl., og um það yrði ekkert hægt að segja fyrr en á haustþinginu, þegar fjárlögin yrðu til meðferðar. Hér er sem sagt annað meginranghermi, bæði hv. síðasta ræðumanns og annarra, sem hér hafa talað.

Þá hafa sumir hv. þm. viljað leggja það inn í orðalagið bráðabirgðaskattur, að í því felist loforð um, að hann verði ekki framlengdur. Það er sannast sagna broslegt, þegar hv. 1. þm. Austf. kemur hér upp í stólinn og virðist leggja þann skilning í orðalagið, að þetta hafi auðvitað ekki átt að framlengjast og það séu brot gegn fyrirheitum að framlengja það. Nú vill þannig til, að þessi hv. þm. var fjmrh. hér samfleytt í 9 ár, frá 1950 snemma og til ársloka 1958. Það er eitt af fyrstu verkum hans, eftir að hann varð fjmrh. að nýju 1950, að flytja frv. um að framlengja um eins árs skeið þann söluskatt, sem þá var í lögum. Og það er tekið fram í því frv., sem hv. þm. flutti og fékk samþykkt, að þessi söluskattur skuli gilda fyrir árið 1951. Maður skyldi þó ætla eftir þessum skoðunum hans og samherja hans, að á næsta þingi hefði ekki komið til mála að framlengja þennan skatt. Hann flutti samt, sem áður nýtt frv. um það, að þessi söluskattur skyldi einnig gilda á árinu 1952. Og eftir hans skilningi og samherja hans hefði átt í þessu að felast loforð um það, að hann yrði ekki oftar framlengdur. Á næsta þingi flytur hann sams konar frv. um, að þessi skattur skuli einnig gilda á árinu 1953. Og á næsta þingi flytur hann nýtt frv. um, að skatturinn skuli gilda á árinu 1954. Og þannig heldur hann áfram alla sína tíð sem fjmrh. að flytja á hverju einasta þingi frv. um það, að þessi söluskattur skuli gilda fyrir næsta ár.

Þegar hann og samherjar hans leyfa sér svo að koma hingað og berja sér á brjóst, telja vera goðgá, að framlengdur sé skattur, sem kallaður hafi verið bráðabirgðaskattur og hafi verið ákveðið um gildi hans í eitt ár, þá er nánast sagt ekki hægt að taka slíkt alvarlega. Þegar bæði hv. framsóknarmenn og hv. síðasti ræðumaður, hv. 3. þm. Reykv. tala hér nú af miklum móði á móti söluskatti almennt, er varðandi framsóknarmennina ekki hægt að taka það alvarlega, því að þegar þeir hafa farið með fjármálin og stjórnað landinu, hafa þeir alltaf byggt afkomu ríkissjóðs að verulegu leyti á söluskatti í meira en áratug. Varðandi svo Alþb. og hv. 3. þm. Reykv., sem varla á nógu sterk orð og sterkan róm til þess að lýsa hneykslun sinni á söluskattinum, þá kemur þetta dálítið einkennilega heim við það, þegar maður veit það og hefur sannanir fyrir því, að hans fyrirmyndarríki, Sovétríkin, notar nú einmitt söluskatta sem aðaltekjustofn hins kommúnistíska samveldis. Ég skal ekki fara langt út í það mál hér. Þessi hv. þm. veit ákaflega vel, að það er fyrst og fremst verzlunarálagning ríkisins og söluskattar, sem eru meginuppistaðan í tekjustofnum Sovétríkjanna. Og það eru engir smávegis söluskattur. Það er ekki verið að láta sér nægja 3% og 8%, eins og við erum að tala um hér. Við skulum taka sem dæmi eina vörutegund, sem við seljum þó nokkuð af til Sovétríkjanna. Það er saltsíld. Eftir síðustu upplýsingum, sem ég hef fengið, mun íslenzka síldin komin til Rússlands, komin í höfn þar, kosta þar um 0.8–0.9 rúblur. Í útsölu í verzlunum er kg selt á 16.40 rúblur. Það er um tuttugufalt verð. Þessi álagning eða söluskattur eða hvað það er kallað nemur ekki 3% og ekki 8%, heldur 1900%. Ég veit ekki, hvort er fremur hægt að taka það alvarlega, þegar þessi mikli og ötull málsvari Sovétríkjanna og þess skipulags, sem þar gildir og byggir svo mjög á söluskatti, kemur hingað í ræðustól á Alþingi og hneykslast yfir 3% eða 8% söluskatti.

Það hefur verið sýnt fram á það áður, að þær skattalagabreytingar, sem núv. ríkisstj. hefur beitt sér fyrir, þ.e.a.s. breyt. á söluskatti, breyt. á tekjuskatti og útsvarslögum, koma ekki verr við meðalfjölskyldu, heldur betur en áður. Þetta hefur ekki verið hrakið. Þetta hefur verið reiknað út af hagstofunni og liggur fyrir skjallega sannanlegt. Þar er útkoman þessi, að sú lækkun, sem hefur orðið á tekjuskatti, útsvari og afnámi 9% söluskatts fyrir meðalfjölskyldu, — að þessar lækkanir nema hærri upphæð en 3% og 8% söluskattinum, sem á hefur verið lagður, þannig að þegar skattalagabreytingarnar út af fyrir sig eru metnar, þá er þetta ekki í óhag, heldur í hag meðalfjölskyldu.

Ég skal ekki fara fleiri orðum um þetta mál og ekki almennt út í umr. um efnahagsmál og gjaldeyrismál og annað þess háttar. En aðeins út af ummælum hv. 3. þm. Reykv., sem voru þess eðlis, að þau eru tæplega svaraverð að vísu, þá vil ég nú taka það skýrt fram, eins og margsinnis hefur komið fram, að það er að sjálfsögðu stefna ríkisstj. að halda uppi fullri vinnu og koma í veg fyrir, að til atvinnuleysis komi.