22.02.1961
Sameinað þing: 41. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 934 í D-deild Alþingistíðinda. (2953)

148. mál, nýtt símstöðvarhús á Selfossi og sjálfvirkt símakerfi á Suðurlandi

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það er rétt, sem hv. flm. þessarar till. sagði hér áðan, að póst- og símamálastjórnin vinnur að því eða réttara sagt hefur unnið að því að gera heildaráætlun um framkvæmdir í símamálum víðs vegar um landíð og gert sér grein fyrir því, hvaða staðir það eru, sem hugsanlegt er að koma fyrir sjálfvirkum símastöðvum á. Það hefur verið reiknað út, hversu mikill sparnaður það er fyrir rekstur landssímans að koma slíku sjálfvirku símakerfi upp sem víðast, og er talið, að það megi spara 400–500 stúlkur hjá landssímanum, þegar slíkar stöðvar eru komnar upp á hinum þéttbýlli stöðum. Það er því mjög arðbær fjárfesting hjá landssímanum að gera þetta.

Í sambandi við þessa till. vil ég aðeins upplýsa það, að í þeirri áætlun: sem nú hefur verið gerð, er gert ráð fyrir, að á Selfoss komi upp sjálfvirk stöð á árunum 1963–64 og í þorpin á Suðurlandi, ekki aðeins í Árnessýslu, heldur einnig í símstöðina á Hvolsvelli. þannig að eftir því sem póst- og símamálastjóri segir, þá liggur þetta mjög vel við og leiðir til sparnaðar. Og þannig er gerð áætlun hringinn í kringum landið. Ég hef ekki þessa till. hjá mér nú, en af þeim ástæðum, sem ég áður nefndi, hvað þetta leiðir til mikils sparnaðar í rekstri. þá er vitanlega sjálfsagt að flýta þessum framkvæmdum víðs vegar um land, eftir því sem mögulegt er.