22.02.1961
Sameinað þing: 41. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 972 í D-deild Alþingistíðinda. (2971)

153. mál, vaxtakjör atvinnuveganna

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Það mun hafa verið 15. febr., sem hv. 11. þm. Reykv. (ÓB) hélt ræðu sína í þessu máli og deildi þá fast á stjórnarandstöðuna fyrir ábyrgðarleysi, sem hún sýndi í ýmsum málum, og sagði hann í þeirri ræðu, að bezta dæmið um óábyrga afstöðu stjórnarandstöðunnar væri afstaða stjórnarandstöðunnar í kaupgjaldsmálum. Hann rakti það síðan, að stjórnarandstæðingar héldu því fram, að nú væri ekkert því til fyrirstöðu, að atvinnuvegirnir gætu greitt 15–20% hærra kaup, enda væru það þær kröfur, sem verkalýðshreyfingin gerði til atvinnuveganna. Rétt er það, þessar kröfur gerir verkalýðshreyfingin til atvinnuveganna og er sannfærð um, að hún sé ekki með því að bera fram óbilgjarnar eða ósanngjarnar kröfur. Þessa kröfu vildi þó hv. þm. flokka undir hið skýrasta dæmi um ábyrgðarleysi þessu til stuðnings hélt hann því fram, að vinstri stjórnin hefði ekki haustið 1958 talið ráðlegt að hækka kaupið. Það kann að vera, að einhverjir af meðlimum vinstri stjórnarinnar haustið 1958 hafa verið þeirrar skoðunar, að ekki mætti hækka kaupið. En svo mikið er víst, að það var ekki viðurkennd afstaða vinstri stjórnarinnar í held, heldur var það þvert á móti skoðun ýmissa í þeirri stjórn, að atvinnuvegirnir þyldu það vel, enda hefur atvinnulifið á Íslandi aldrei staðið með meiri blóma en á árinu 1958, og fær það fullkomna staðfestingu af skýrslum, sem síðar hafa borizt um afkomu þess árs.

Mér þótti alveg furðulegt, hversu vísindamaðurinn í hv. 11. þm. Reykv. gat farið þarna fljótt yfir sögu og ónákvæmt. Mér datt í hug það, sem annar æfður stjórnmálamaður sagði einu sinni, þegar hann sagði þveröfugt við það, sem hann vissi að var staðreynd, og bara glotti við tönn og sagði: Já, ég vissi það nú, en ég kærði mig ekki um að hafa það nákvæmara en þetta. — Og það var sannarlega ástaeða til þess að láta sér detta þetta í hug, þegar hv. 11. þm. Reykv. ræddi um þetta og stiklaði þar á heldur stóru. Man ekki hv. 11. þm. Reykv. það, að kaupið haustið 1958 var ekki 20.67 kr. á klst. í almennri verkamannavinnu, eins og það er nú, og ekki 16.40 kr. í almennri verkakvennavinnu, eins og það er nú. Þá var kaupið 23.86 kr. í almennri verkamannavinnu, eða 3.19 kr. hærra á klst. en það er nú, og 2.48 kr. á klst. hærra hjá verkakonunni en það er nú. Og af hverju er það lægra nú? Af því að það hafa komizt þarna maðkar í mysuna. Það hefur verið ríkisstj. að völdum, tvær raunar, sem hafa nýtt kaupið niður síðan.

Það var á árinu 1959 framkvæmd kauplækkun, sem nam 13.4%, með valdboði löggjafans, og átti hv. þm. vist hlut að, og þess vegna hefði hann ekki átt að gleyma því. Þarna var hann að rýra laun manna, sem bjuggu við lakari kjör en hann lifði við sjálfur. En þetta nægði ekki, að lækka kaup verkafólksins um 13.4%, á tíma, þegar ekkert var að halla undir fæti fyrir atvinnulífinu. Nei, það þurfti að lækka kaupið meira. En þá reyndi á kappana, og þeir þorðu ekki að lækka kaupið beint meira. Þá var gripið til annarra ráða, ráða, sem hagfræðingar og þ. á m. hv. 11. þm. Reykv. hefur oft komið við sögu að ráðleggja, gengislækkunar. Það er hægt að lækka kaupið með gengislækkun. Við þurfum ekki að ráðast beint að kauptöxtunum og breyta þeim með lögum, við getum gert það með gengislækkun, þá ber minna á því. Og svo var framkvæmd gengislækkun ofan á 13.4% kauplækkunina frá 1959. Og hvað er hún búin að valda mikilli lífskjaraskerðingu hjá launastéttunum? Það er kannske ekki til nákvæmur mælikvarði á það, en vísitala vöruverðsins, sem var sett sem 100 í marzmánuði 1960, um leið og gengislækkunin var framkvæmd, segir, að hún sé nú komin upp 1 118, og það hygg ég að sé algert

lágmark að miða við. Allar líkur benda því til. að í viðbót víð hina fyrri kjaraskerðingu sé, með seinni kauplækkuninni í formi gengislækkunar, þ.e.a.s. í formi óbreytts kaupgjalds við hraðvaxandi verðlag á öllu, búið að lækka kaupið í viðbót um 18%, ef ekki meira. Og þegar svo er komið, koma postular stjórnarstefnunnar fram og segjæ Nú er allt í sjálfheldu, því að það er búið að þjarma svo að atvinnulífinu, að það getur ekki borgað hærra kaup, og þess vegna er ekki til neins að heimta kauphækkanir af því. Atvinnulífið hefur aldrei staðið hallari fæti en nú. — Ekki er þetta alveg í samræmi við opinberar skýrslur samt. Það er það ekki, því að nýútkomin Fjármálatíðindi Landsbankans segja, að framleiðsluaukningin á árunum 1959 og 1960 hafa verið 6.3% hvort árið um sig. Og hingað til hafa hagfræðingar einmitt viljað halda því fram, að þegar framleiðsluaukning verði í þjóðfélaginu, þá sé hægt, án þess að verðbólga myndist, að hækka kaupgjald, svo að hlutur launþeganna í framleiðslu þjóðarinnar haggist ekki, gangi ekki niður á við. Á þessum tveímur árum ættu því að hafa skapazt möguleikar fyrir því, þar sem undangengin ár voru líka með sams konar þróun, aukning framleiðslunnar, framleiðsluverðmæta, að það hefði átt að vera hægt að hækka kaupgjaldið. En því hefur verið haldið ekki aðeins eins og það var haustið 1958, heldur lækkuðu með lagaþvingun og síðar gengislækkun. Eðlilegast hefði verið við þá framleiðsluaukningu, sem við höfum búið við, að kaupgjaldshækkun hefði orðið stig af stigi, ár frá ári, og það kæmi auðvitað heilbrigðar og jafnar niður á atvinnulífið. En gegn því hefur verið staðið. Nú hefur verið óbreytt kaupgjald í meira en tvö ár, og það verður því að taka þá kauphækkun, sem nauðsynleg og óumflýjanleg er, í einu stökki, og ég veit, að það verður atvinnulífinu óþegilegra en ella. En þar er um að kenna skammsýni stjórnmálamanna stjórnarforustunnar, sem ráðið hefur þessari blindu og óskynsamlegu stefnu um kaupgjaldsmálin.

Enn kemur þriðja atriðið til, og það er: Hefur ekki hæstv. núv. ríkisstj. talið sig vera að gera ráðstafanir til að bæta um fyrir atvinnulífinu? 2% vaxtalækkun á árinn, sem nú er að líða, frá árinu í fyrra ætti að auka þol atvinnuveganna nokkuð til þess að bera hækkað kaupgjald. Það virðist líka vera hækkandi verðlag á heimsmarkaðinum á íslenzkum sjávarafurðum, og loforð hafa verið gefin um það og einhver framkvæmd er nú líklega byrjuð á því að útvega sjávarútveginum hagkvæmari lán til lengri tíma, til þess auðvitað að gera hann rekstrarhafari og auka þol hans til að borga sómasamleg laun sínu starfsfólki.

Að öllu þessu athuguðu ætti atvinnulífið í landinu einmitt að hafa meira burðarþol til þess að bera jafnvel hærra kaup en var 1958, en það var, eins og ég áðan sagði, á fjórðu krónu hærra á klst. en kaupið er nú hjá verkamanninum og hálfri þriðju krónu hærra kvennakaupið heldur en nú. Það væri þess vegna ekki fram á mikið farið a.m.k., þó að kaupinu væri komið upp í það sama og það var 1958, og ætti þá burðarþol atvinnuveganna að þola — undir góðri stjórnarstefnu, skulum við segja, og ágætu árferði til sjávarins að þola nokkra viðbót við það.

Í umr. var á það bent réttilega af hv. 4. þm. Austf., að framleiðslutekjur þjóðarinnar hefðu vaxið um 6.3% nokkuð mörg undanfarin ár, ár hvert. Og launþegarnir eiga að fá hlutdeild í þessari aukningu og hljóta að gera kröfu til þess, og ég hygg, að enginn hagfræðingur leyfa sér að mótmæla því, að það sé réttmætt. Auk þess kem ég svo að einu, og það er það: Er ekki rétt hjá mér, að hv. 11. þm. Reykv. sé framámaður í Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja og að hann hafa verið á þingi þessara samtaka s.l. haust og hafi þar tekið undir, en ekki greitt atkv. á móti því, að opinberir starfsmenn gerðu launakröfur, sem næmu 20–25%? Fer ég rangt með það? (ÓB: Ég greiddi atkv. á móti því.) Greiddi hv. þm. atkv. á móti því? Þá tek ég það sem sannleika. En a.m.k. samtök, sem hann er í, gera kröfur, sem eru hærri í launamálum en þær kröfur, sem verkalýðshreyfingin gerir nú, — 15–20% höfum við sagt, 20–25% hafa hans samtök sagt. Og þess minnist ég einnig, að þegar hann var forseti þeirra samtaka og prédikaði sem hagfræðingur, að launahækkanir ætu sig sjálfar upp, eins og hann gerir nú, þá gerði hann jafnframt kröfur innan samtakanna um að hækka kaup. (Forseti: Venjulegur fundartími er nú liðinn. Á ræðumaður mikið eftir?) Nei, örlítið. (Forseti: Meira en fimm mínútur?) Nei, ekki meira. (Forseti: Þá er rétt að lofa honum að ljúka máli sínu.) Ég tel mig með þessu hafa nægilega sýnt fram á það, að teoría og praksis hefur ekki alltaf fylgzt að hjá hv. 11. þm. Reykv., hvorki meðan hann var forseti Bandalags starfsmanna ríkis og bæja né síðan, þegar hann var hér hv. þm. á Alþ. annars vegar og þátttakandi í þessum samtökum hins vegar. En svo mikið er víst, að ekki fékk hans stefna hljómgrunn í Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja s.l. haust, og hefur hann þó vafalaust túlkað hana þar, að það væri óskynsamlegt að gera núna kauphækkunarkröfur. Hann hefur verið hafður þar að engu og hans skoðanir, svo mikið er vist. (ÓB: 60 atkv. gegn 50.) Já, þrátt fyrir það, þó að hv. þm. boðaði þar þessa kenningu óbreytts kaupgjalds, þá hafði sú afstaða hans sem sérfræðings ekki hljómgrunn. Svo rík þótti mönnum í hans launþegasamtökum ástæðan til þess að gera hækkandi kaupkröfur og það hærra en verkalýðssamtökin, — 20–25% voru kröfurnar settar þá, — og mér er sagt, að nú hafa ríkisstj. verið skrifað og farið fram á hærra en þetta. Er það ekki rétt? (Gripið fram í.) Ekki veit hann um það, það kemur í ljós seinna.

Ég skal svo láta máli mínu lokið að tilmælum forseta. Aðeins vil ég segja það um þær hótanir, sem nú eru bornar fram af hendi ríkisvaldsins og atvinnurekenda um, að nú skuli gengislækkunarsvipan dynja á launþegunum aftur, ef þeir vogi sér að knýja fram hækkað kaup, þá vil ég í fyrsta lagi segja það: Ég held, að það sé ekki hyggilegt gagnvart atvinnulífinu í landinu að hafa mjög á lofti þessa svipu, því að í hinu orðinu eru atvinnurekendur að segja Nú þurfum við að fá langa samninga, samninga til langs tíma. — Hvaða verkalýðsfélagi mundi detta í hug að semja til langs tíma við þá menn, sem eru að hóta gengislækkun á næstu grösum? Nei, þeir þurfa ekki að gera sér vonir um langa samninga, ef þeir ætla að hampa gengislækkunarsvipunni og þar með að boða holskeflu nýrrar dýrtíðaröldu yfir fólkið, til þess að gleypa þá kauphækkun, sem það fái. Þá verða slíkir samningar að vera stuttir, og það eru engin gæði fyrir atvinnulífið. Á sama hátt vil ég segja það að lokum, að þegar þeir hafa talið það einn helzta ávinning sinnar stjórnarstefnu, ef það mætti takast að auka sparifjárinnstæður manna, þá held ég, að þeir geti ekki eyðilagt möguleika til þess að fá aukið sparifé betur með annarri kenningu en að hampa því, að nú ætli þeir að ráðast á spariféð á ný innan skamms, séu með gengislækkunarplön í huga. Með öðru ráði geti þeir ekki betur tekið fyrir viðleitni manna til þess að leggja fé fyrir. Held ég því, að það sannist enn. sem Jón Þorláksson skáld sagði, að „eitt rekur sig á annars horn, eins og graðpening hendir vorn.“