22.03.1961
Sameinað þing: 55. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 978 í D-deild Alþingistíðinda. (2990)

192. mál, jarðboranir að Leirá í Borgarfirði

Jón Árnason:

Herra forseti. Við hv. 1. þm. Vesturl., Daníel Ágústínusson, sem var hér á þingi sem varaþm. um tíma, höfum leyft okkur að flytja till til þál. á þskj. 369 um jarðboranir að Leirá í Borgarfirði. Tillgr. hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta fara fram borun eftir heitu vatni að Leirá í Borgarfirði, svo fljótt sem auðið er, í þeim tilgangi, að orkulindir þær, sem þar kunna að vera, verði hagnýttar til hitaveitu fyrir Akranes.“

Frá því fyrsta, er um getur í fornum ritum um landlýsingu og fleira, er frá því skýrt, að heitar uppsprettur hafa verið að Leirá í Borgarfirði. Uppsprettuvatn það, sem hér um ræðir, hefur á s.l. áratugum verið sem næst 60° heitt, og hefur vatnsmagnið, sem var um sekúndulítrar, verið bæði jafnt og stöðugt.

Í sumum fornum ritum greinir frá því, að á Leirá hafa verið heitur hver, sem gaus eða skvetti vatninu, og í námunda við núverandi uppsprettu má í dag sjá verksummerki, sem vel gætu gefið til kynna, hvar hinn umtalaði hver hefur verið. Árið 1957 var það svo fyrir forgöngu Akraneskaupstaðar og landeigenda, að Gunnar Böðvarsson verkfræðingur var fenginn til þess að athuga jarðhitasvæðið að Leirá. Var það álit hans, að öll einkenni bentu til þess, að ef borað yrði eftir heitu vatni á þessum stað, þá mætti vænta þess, að allverulegu vatnsmagni mætti ná.

Það var svo seint á árinu 1959, sem nokkur tilraun var gerð til þess að bora eftir heitu vatni að Leirá. Verkið var unnið af jarðborunardeild raforkumálaskrifstofunnar, en kostnaður var greiddur af Akranesbæ, landeigendum og hreppsfélögum þeim, sem nú eru að hefja byggingarframkvæmdir á helmavistarskóla að Leirá. Borholan, sem hér um ræðir, er aðeins um 133 m að dýpt, en úr henni kemur stöðugt rennsli, um 7–8 sekúndulítrar af 80° heitu vatni.

Hér er um að ræða eitt af þeim málum, sem til einna mests velfarnaðar horfa fyrir hvert það byggðarlag, sem á þess kost að verða slíkra lífsþæginda aðnjótandi. Það er álit sérfróðra manna, að vatnsmagnið þurfa að auka upp í 55 sekúndulítra, til þess að grundvöllur sé fyrir hendi til að leiða vatnið til Akraness og byggja í því sambandi hitaveitu fyrir kaupstaðinn.

Með samþykkt þessarar till er miklu hagsmunamáli Akranesbæjar veittur mikilsverður stuðningur, sem ég vil leyfi mér að vænta að hv. alþm. staðfesti með samþykki sínu.

Að svo mæltu vil ég leyfa mér að leggja til, að umr. verði frestað og till vísað til hv. fjvn.