19.12.1960
Neðri deild: 42. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 453 í B-deild Alþingistíðinda. (300)

130. mál, söluskattur

Frsm. 2. minni hl. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. sagðist nú ekki vilja ræða meira um söluskattinn og ekki vilja fara út fyrir það mál, eins og einhverjir aðrir slæmir ræðumenn hafi gert. Mér skildist frá upphafi, að þessi blessaði söluskattur væri þáttur í þrauthugsuðu kerfi, sem hér væri lagt fyrir. Það átti svo sem ekki að gera neitt af handahófi, þegar var verið að hefjast handa með allar breytingarnar fyrir 10 mánuðum. Þetta átti allt saman að vera heilt nýtt kerfi, sem ætti að taka upp. Söluskatturinn m.a. átti að passa ákaflega vel inn í þetta, og allt átti þetta að passa svo vel, að það væri ákaflega vel tryggt, hvernig þjóðfélagsframvindan yrði. Nú vill hæstv. fjmrh. allt í einu ekki ræða samhengið þarna á milli. Hann vill ekki ræða kerfið sjálft. Er það vegna þess, að hann sér, að kerfið er að brotna, og hann vill þess vegna halda sér við söluskattinn einan og ræða ekki nokkurn skapaðan hlut annan? Ég er hræddur um, að það verði ekki komizt hjá því. Þessi söluskattur og till. um að framlengja hann eru aðeins einn þáttur í efnahagskerfi ríkisstj. og einn þáttur í hruni þess efnahagskerfis, og það er óhjákvæmilegt að ræða það kerfi um leið.

Þá fer hæstv. fjmrh, inn á það, að það sé alveg rangt varðandi söluskattinn, sem við nú eigum að framlengja, að það hafi verið gengið út frá því í fyrra, að hann yrði ekki framlengdur, og minnti á, að í hví, sem ég hafi lesið upp úr grg., væri raunverulega aðeins átt við, að það sé m.a. af þessum sökum, að 3% skatturinn komi aðeins á 9 mánuði ársins, að það verði að útvega fé í viðbót. Það er sem sé bara verið að gefa til kynna, að það kunni kannske að vanta fé af einhverjum öðrum ástæðum. Hins vegar kemur eftir þetta: „Hefur því verið horfið að því til bráðabirgða að afla þess, sem á vantar, með viðbótarsöluskatti á innfluttar vörur,“ — til bráðabirgða. Hæstv. fjmrh. vildi láta líta svo út, að það hefði komið fyrir áður, að bráðabirgðaskattar hefðu verið framlengdir, og er svo enn. En hann fór ekki út í að reyna að svara því, sem ég sérstaklega beindi að í því sambandi, að nú væri allt öðru máli að gegna. Hingað til, þegar slíkir svokallaðir bráðabirgðaskattar hafa verið framlengdir, hefur almenningur fengið fulla uppbót þess, ef þeir hafa verið t.d. hækkaðir eða eitthvað annað slíkt. Hann hefur fengið uppbót þess í vísitölu, hækkuðu kaupgjaldi. Nú aftur á móti er verið að ákveða að framlengja þennan skatt, sem gefið var til kynna í fyrra að yrði tekinn af, án þess að almenningur fái sína bót. Mér fannst eiginlega á honum, þegar hann var að telja upp, hvernig hefði verið með ýmsa bráðabirgðaskatta á síðasta áratug, 1951 og fram eftir, að það kæmi fram hjá honum, sem ég held að hafi verið kallað í okkar gamla kristilega kveri einhvers konar forherðing, hann væri að venja sig við þetta, að það yrði bara að harka þetta af sér, að þó að söluskatturinn hafi verið bölvaður og hann hafi sjálfur verið einn þeirra manna, sem mest hafi barizt á móti honum og lofað því að afnema hann og kaupmenn hér í Reykjavík hafi alveg sérstaklega sett sína trú á hann og iðnaðarmennirnir ekki síður, þá sé hann að herða sig upp í þetta, að það hafi einu sinni áður og jafnvel ár eftir ár verið framlengdir slíkir skattar, — og hví skyldi hann ekki geta gert það eins? En hann vildi ekki fara í hitt, af hverju það er lakara og siðferðislega rangara núna að framlengja slíka skatta en hefur verið nokkurn tíma áður. Og mér liggur við að spyrja hann, ef hann hefur alltaf verið ákveðinn í því að framlengja þennan skatt: Af hverju kom hann ekki með þetta frv. í byrjun þings? Af hverju er hann nú á síðustu dögum þingsins að drasla þessu inn í þingið? Af hverju verðum við í fjhn. að taka þetta fyrir allra síðustu vikuna, þegar venjulega er mest að gera? Var það ekki vegna þess, að það var eitthvað í samvizkunni, sem var að mótmæla því að leggja þetta fram? Hann hefur ekki verið ákveðinn allan tímann. Þeir hafa verið að hugsa um það, hvort þeir ættu að þora að bregðast þeim vonum, sem menn höfðu gert sér og þeir höfðu gefið undir fótinn. Var það ekki vegna þess, að þeir kinokuðu sér ofurlítið við að bregðast þessum vonum, að þeir biðu svona lengi með það? Ef þeir hefðu verið alveg ákveðnir, alveg forhertir í upphafi, þá hefðu þeir skellt þessu inn með ýmsu öðru, sem framlengt er ár frá ári.

Svo skaut hæstv. fjmrh. sér austur á Volgubakka, vildi gjarnan fara að berjast þar, og ekki skal ég hafa á móti því, ef hann vill fara að flýja af heimavígstöðvunum og taka upp baráttu annars staðar. Hann var að tala um, að söluskattur mundi vera allmikill í Sovétríkjunum. Ekki er það nú kannske rétt hjá honum, að það sé fyrst og fremst. Það er rétt máske að upplýsa hann um það, að megintekjur, sem Sovétríkin hafa, eins og fleiri sósialistísk ríki, eru af öllum þeim þjóðnýttu verksmiðjum, sem starfa í þessum ríkjum, og ég vildi spyrja hæstv. fjmrh., hvort hann hygðist taka þann hátt upp hér að hagnýta fyrir almenning tekjurnar af þessum fyrirtækjum í landinu, taka það til ríkisins og nota það fyrst og fremst í þágu ríkisins og almennings. Ég er ekki þar með að segja, að hann þyrfti að byrja á að þjóðnýta allt, sem hér væri fyrir, en hann gæti byrjað á því t.d. að taka fyrir mestu stórgróðafyrirtæki ríkisins til að létta á hjá almenningi, t.d. eitthvað ofur lítið af þeim hundrað millj. kr., sem bankarnir koma til með að græða í ár og þá fyrst og fremst Seðlabankinn. Ég vildi þá líka spyrja hann að því um leið, fyrst hann heldur, að söluskatturinn sé svona óskaplega þungur þarna eystra, hvort hann treysti sér til þess að gera hérna heima sams konar kúnstir og þeir gera, þó að þeir hafi söluskatt. Þá mætti náttúrlega fara að athuga ýmislegt. Treystir hann sér þá og er það hér með samningur á milli okkar, sem við framkvæmum nú í janúar, að við setjum á 8% kauphækkun, 8% hækkun á öllu kaupi verkafólks, og það náttúrlega án þess að láta nokkra dýrtíð hækka, heldur þvert á móti? Vill hæstv. fjmrh. gefa í skyn, að það sé sjálfsagt að innleiða hér söluskatt og halda honum við, vegna þess að austur í Rússlandi sé söluskattur líka, og setja um leið í gegn 8% hækkun á öllu kaupi? Vill hæstv. fjmrh. gera það hér? Ef hann vill verja sig með þeirra framkvæmdum viðvíkjandi söluskatti, vill hann þá ekki framkvæma það, sem er hagkvæmt hjá þeim og gott fyrir almenning? Vill hann þá innleiða hér, og eigum við þá að sameinast um að flytja um það lagafrv. nú, að vinnutími á viku skuli vera 42 stundir, og náttúrlega hafi menn trygga vinnu hvern einasta dag og 8% kauphækkun frá því, sem menn hafa haft? Við skulum, ef við förum að ræða þau mál, taka allar hliðar þess máls. Ég er reiðubúinn til þess að ræða það við hæstv. fjmrh., ef honum þykir betra að ræða mun á því sósíalistíska og kapitalíska kerfi og ef hann vill heldur fara út í þær umræður en fara út í að ræða heildarefnahagskerfi hans eigin ríkisstj. hér á Íslandi.

Svo kom hæstv. ráðh. að vísitölunni og stagaðist á því sama sem hann hafði sagt áður, að það væri nú svo, að þessar fjölskyldubætur og niðurgreiðslan hjálpaði almenningi svo mikið og skattalækkanirnar, að það væri raunverulega engin kjaraskerðing, sem orðið hefði. Þá vil ég nú spyrja hæstv. ráðh.: Hvernig stendur á því, að hæstv. ríkisstj. fór að taka upp á því að breyta vísitölukerfinu 1. okt. 1960? Það var nýbúið að ákveða, í febrúar 1959, hvernig reikna skyldi vísitölu á Íslandi, sérstaklega unnið og samþ. af ríkisstj., sem Alþfl. og Sjálfstfl. sameiginlega stóðu að, og átti að vera mjög mikil endurbót að þessu, — hvernig stóð á því, að það var nauðsynlegt fyrir ríkisstj. að reyna að keyra það í gegn, að breytt yrði þessum vísitölugrundvelli, útreikningum hans, — hvernig stóð á því? Af hverju hafði ekki verið tekið tillit til þess í upphafi, sem þeim fannst rétt að fá þar inn í? Var það vegna þess, að útreikningarnir allir hjá sérfræðingunum og ríkisstj. hefðu brugðizt og það kom út allt annað úr dæminu en ríkisstj. vildi fá út? Það er ósköp þægileg aðferð, þegar mönnum líkar ekki útkoman úr einu dæmi, að breyta þá bara stærðfræðinni. Ég er hræddur um, að menn stæðust ekki mörg próf í skóla með því að fara inn á þá leið. Ég held þess vegna, að hæstv. ráðh. ætti að muna það, að þegar byrjað var að reikna þá vísitölu framfærslukostnaðar, sem nú gildir, þá var það eftir ákvæðum, sem samþ. voru hér og lögð til grundvallar hér á Alþ., og þegar breytt var um 1. okt. 1960, þá var það vegna þess, að ríkisstj. líkaði ekki útkoman og lét þess vegna breyta öllum reglum. En hún lét ekki breyta öðrum reglum um leið. Hún lét ekki breyta reglunum um, hvernig ætti að reikna húsnæðið. Og af hverju minntist ekki hæstv. ráðh. á það áðan, fyrst hann fór inn á vísitöluna? Af hverju vísaði hann ekki á íbúðirnar hér í Reykjavík, sem væri hægt að fá fyrir 10 300 kr. á ári, — sómasamlegar íbúðir handa fjögurra manna fjölskyldu fyrir 10 300 kr. á ári eða undir 1000 kr. á mánuði? Því lét hann ekki breyta þessu 1. okt.? Íbúðirnar í Reykjavík lækka ekki núna. Það lækkar ekki húsaleigan í Reykjavík núna, þegar flestir eru meira eða minna að stöðva byggingar. Húsaleigan í Reykjavík hefur ekki lækkað af völdum ríkisstj., eftir að 12% vextirnir voru settir á. En af hverju lætur hún ekki breyta þeim grundvelli? Af því að ríkisstj. er að gera ráðstafanir til þess að láta falsa vísitöluna. Af því að það, sem hún var búin að staðhæfa um kjararýrnun, reyndist vera miklu, miklu meira, og þegar hún stóð frammi fyrir því, þá lét hún falsa vísitöluna. Það er bara fölsun á vísitölunni að byrja að reikna þetta inn i, sem lækkar hana, og sleppa að reikna annað, sem hækkar hana, eins og afleiðingar af vöxtum eða öðru slíku.

Hæstv. fjmrh. svaraði því ekki heldur, hvernig Dagsbrúnarverkamannsfjölslylda, — og það eru margar, sem hafa lægri tekjur, — sem hefði 48 þús. kr. á ári fyrir sína 8 tíma vinnu, ætti að lifa í fyrsta lagi af þeim 68 þús., sem ríkisstj. með hennar framfærsluvísitölu svona falsaðri reiknar að þurfi, né heldur hinu, hvernig hún á að veita sér bara vörur og þjónustu, sem kosta 56 þús. kr. ómótmælanlega, og það verður greinilegasti og bezti mælikvarðinn á, hvað hún geti veitt sér. Það vantar 8 þús. kr. til þess, að Dagsbrúnarverkamannsfjölskylda geti keypt sér þann mat, sem hún þarf, þau föt, sem hún þarf að áliti hinnar opinberu hagstofu og er nauðsynlegt til að draga fram lifið, svo að maður reikni ekki með því, að hún hafi ekkert afgangs fyrir húsnæði og ekkert afgangs fyrir opinberum gjöldum, þó að hún fái niðurgreiðsluna og fjölskyldubæturnar.

Þetta er ástandið, sem á að horfast í augu við, og það er þetta ástand, sem hæstv. fjmrh. vill koma sér hjá að ræða. Það er þetta, sem hann þorir ekki að verja.

Svo sagði hæstv. ráðh. út af minni fsp., hvað ríkisstj. ætlaði sér að gera viðvíkjandi atvinnuleysinu, — hann sagði, að hún mundi halda uppi fullri vinnu og koma í veg fyrir atvinnuleysi. Það er nú gott að geta togað svona yfirlýsingu út. Þá langar mig til að spyrja að öðru: Reiknaði ríkisstj. með því atvinnuleysi, sem nú er, og hennar sérfræðingar? Vissi hún ekki, að þetta atvinnuleysi mundi koma sem afleiðing af hennar ráðstöfunum? Og hvaða ráðstafanir er hún búin að ákveða að gera til þess að halda uppi fullri vinnu, til þess að tryggja, að ekki verði neitt atvinnuleysi, og af hverju er hún ekki búin að setja þessar ráðstafanir í gang? Hafi ríkisstj. vitað, hvað hún var að gera, hafi hennar sérfræðingar kunnað að reikna rétt, þá víssu þeir af þessu atvinnuleysi. Hvar eru hennar ráðstafanir til að halda uppi fullri vinnu? Hvar eru þær ráðstafanir, sem gerðar hafa verið á Akureyri t.d.? Hvenær á að hefja þessar ráðstafanir? Það voru fluttar af hálfu stjórnarandstöðunnar í sambandi við fjárlögin tillögur til þess að gera ríkisstj. slíkt mögulegt. Þær voru felldar. Ég er hræddur um, að þessu verði hæstv. ráðh. að svara, ef við eigum að taka það gilt, að það sé stefna ríkisstj. að halda uppi fullri vinnu og koma í veg fyrir atvinnuleysi.

Ég hélt satt að segja, að það væri allt annað, sem væri stefna ríkisstj. Ég hélt, að það væri stefna ríkisstj. að láta atvinnureksturinn um það að standa á eigin fótum. Og ég hélt, að það væri hennar stefna að vera ekki að hafa ríkisafskipti af atvinnulífinu. Mér hefur skilizt a.m.k. á vissum háværum mönnum í flokki ríkisstj., að þessi afskipti af atvinnulífinu, ríkisafskipti af atvinnulífinu, séu uppspretta allrar bölvunar. Svo kemur hæstv, fjmrh. og segir hér: Við ætlum að halda uppi fullri atvinnu, koma í veg fyrir atvinnuleysi. — Hvernig ætlar ríkisstj, að fara að skipta sér af atvinnulífinu? Ætlar hún að gera það bara af því, að hún sé hrædd, eða er hún að brjóta stefnu, sem hún hefur lýst yfir, eða er ekkert að marka neinar yfirlýsingar, sem hún gefur? Hvað er að marka? Er að marka þessa yfirlýsingu hæstv. fjmrh., að það eigi að halda uppi fullri atvinnu og koma í veg fyrir atvinnuleysi? Eða er að marka þá yfirlýsingu ríkisstj., að hún ætli ekki að skipta sér af gangi atvinnulífsins? Ég hef hvað eftir annað tilkynnt það hér í þessum umr., sem orðið hafa um efnahagsmál, að ég álít, að það væri engri ríkisstj. stætt á Íslandi með því að hafa hér atvinnuleysi. Þó á það kannske vel við mig, að hæstv. fjmrh. skuli vera á þeirri skoðun. Það er dauðadómur yfir hverri ríkisstj. En afleiðingin af stefnunni, sem hún hefur tekið upp, og yfirlýsingunum, sem hún hefur gefið, að hafa ekki ríkisafskipti af atvinnulífinu, er sú, að það er að verða atvinnuleysi hérna, því að eigi einkaatvinnurekendurnir að fá að ráða í einu ríki, þá verður þar atvinnuleysi, þá verður fátækt. Það er lífsskilyrði fyrir þeirra völd. Og þeim hefur kannske þótt völdin oft og tíðum undanfarið of lítil, af því að það hefur ekki verið atvinnuleysi.

Svo segir hæstv. fjmrh.: Það er aðalatriðið fyrir launþega, að efnahagsaðgerðirnar takist. — Mér skilst, að út frá sjónarmiði sérfræðinganna, Jónasar Haralz og þeirra, hafi efnahagsaðgerðirnar tekizt, launin hafi verið lækkuð, atvinnuleysið sé komið, birgðirnar séu farnar að safnast fyrir, með því að hætt er að byggja íbúðir. Efnahagsaðgerðirnar hafa tekizt. Eigum við að bíða eftir að fá meira af svo góðu? Er það það, sem verið er að segja við verkalýðinn hér í Reykjavík: Bíddu, fáðu meira atvinnuleysi, góði. Bíddu, gengislækkun á eftir að koma fram allt næsta ár í hækkaðri dýrtíð. Bíddu dálitið, það eiga eftir að stöðvast fleiri byggingar. Það verður byrjað á færri í vor. — Er það þetta, sem verkalýðurinn á að bíða eftir?

Vill ekki hæstv. fjmrh. segja okkur, hvar það er í efnahagsráðstöfununum, í efnahagskerfinu, nýja kerfinu, hvar það er, sem maður getur eygt frá sjónarmiði alþýðu manna eitthvert ljós fram undan? Hvar er það? Ég get vel skilið, að peningamenn eigi ýmis ljós núna. Ég býst við, að okrararnir sjái grænt ljós núna. En hvað er það, sem alþýða manna á að hlakka til við það, að þessar efnahagsaðgerðir takist? Það er það, sem enginn hefur fengizt til að gefa neinar yfirlýsingar um hjá hæstv. ríkisstj. Það er verið að gefa ýmsar gyllivonir, ýmsar tálvonir um, að það verði byggt upp eitthvert annað efnahagskerfi hér á Íslandi og það verði svona og svona gott. Og það kerfi, sem þar er talað um, er það kerfi, sem fór á hausinn hér í kreppu 1930 og hefur aldrei komið aftur síðan, fyrr en einhverjir menn eru svo vitlausir núna, að þeim dettur í hug að fara að reyna að drasla því á. Þess vegna væri gott að fá það einu sinni fram hér. Hvað er það, sem alþýða manna á að sjá fram undan?

Ég skal fyrstur manna viðurkenna, að þær tilraunir, sem gerðar hafa verið á þeim 30 árum, sem liðin eru siðan heimskreppan mölvaði kerfi einkaauðvaldsins á Íslandi, hafi verið ákaflega fálmandi, þær hafi verið ákaflega misheppnaðar margar. Það hefur fylgt verðbólga svo og svo miklu af þeim. En þær hafa samt sem áður verið í verulegum atriðum sjálfsbjargarviðleitni fátækrar þjóðar, — viðleitni þjóðar til að bjarga sér, þegar einkaauðvaldið gafst upp, — viðleitni fólks úti um allt land að koma upp bæjarútgerðum, þegar braskararnir hlupu burt og skildu fólkið eftir atvinnulaust og fátækt á mölinni. Okkur er tilkynnt núna, að þessa bæjarútgerð eigi að drepa. Það hefur verið viðleitni þjóðar, þegar einkaauðvaldið kærði sig ekki um eða vildi ekki koma upp iðnaði eða efla sjávarútveg, til þess að kaupa inn sjálf sína togara, þegar enginn togaraeigandi í Reykjavík vildi kaupa þá 1944–1945, — viðleitni þjóðar til að byggja sér sementsverksmiðju eða áburðarverksmiðju, sem einkaauðvald hafði hvorki áhuga né vald til þess að geta komið upp. Það hefur verið sjálfsbjargarviðleitni þjóðar til að vinna ýmislegt slíkt. Og það er þetta, sem á að brjóta niður. Það er þetta, sem það nýja ríka auðvald í Reykjavík heimtar að fá að leggja undir sig og mölva þessa sjálfsbjargarviðleitni fólksins niður, af því að henni hefur ekki verið nægilega framfylgt, með nægilegri áætlun, nægilegum stórhug, nægilegri forsjá, af því að hún hefur verið svo að segja tilraunir, veikar fálmandi tilraunir á kapítalistískum grundvelli, en ekki vísvitandi sósíalistískur áætlunarbúskapur. Þess vegna væri æskilegt, að hæstv. ráðh. vildi benda á, hvar það er, sem hann sér fram undan batnandi kjör fyrir alþýðu manna sem afleiðingu af þessum efnahagsráðstöfunum. Sér hann það, ef hann kemur inn í Klúbbinn, þar sem það, sem átti að vera iðnaðarfyrirtæki til þess að auka framleiðslu almennings, var gert að brennivínsbúð, tákni viðreisnarinnar? Eru það vonirnar, sem almenningur á að gera sér?

Almenningur hér í Reykjavík hefur þrælað við að byggja upp þennan bæ. Hann hefur verið að tvöfalda Reykjavík á undanförnum árum. Hann hefur verið að reisa hér hvert húsið á fætur öðru, jafnvel í eftirvinnu og næturvinnu, unnið í orlofi sínu og helgidagana. Nú er honum bannað það. Viðreisnin hefur þegar áorkað því í fyrsta lagi, að menn fá ekki eftirvinnu, þó að menn vilji þræla þannig. Atvinnurekendurnir kaupa ekki vinnuaflið 50% dýrara en þeir geta fengið það. Þegar þeir eru búnir að fá sitt atvinnuleysi, sem þeir hafa heimtað af þessari ríkisstj., hætta þeir að kaupa vinnuaflið 50% dýrara en ella. Launþeginn getur þá ekki með því að þræla lengur en 8 tíma vinnudag unnið sér fyrir sinni íbúð. Í öðru lagi hefur ríkisstj. séð til þess að banna svo að segja útlán, til þess að hægt væri að koma upp íbúðum, og hækka vextina á sama tíma. Þegar menn alls staðar á Norðurlöndum geta fengið lán til 80 ára til að byggja sér íbúðir, 85% af kostnaðinum, helminginn með 2% og helminginn með 4% vöxtum, þá eru vextirnir settir þannig hér og tíminn styttur og lánin bönnuð, þannig að byggingarnar stöðvast. Er það þetta, sem fólkið á að eygja fram undan að stöðvíst enn þá meira?

Hæstv. ráðh. verður að gæta þess, að nú er ekki febrúar 1960. Það var hægt með öllum þeim áróðursmætti, sem m.a. Morgunblaðið hefur hér í Reykjavik, að útmála fyrir almenningi, að bara ef menn kæmust út úr verðbólgunni og öllu mögulegu, sem verið hefði undanfarið, þá rynnu hér upp einhverjir öryggis og gósentímar. Það er ekki hægt að útmála þannig núna. Það er ekki til neins að benda mönnum bara á að bíða og bíða eftir árangrinum af efnahagsráðstöfununum. Efnahagsráðstafanirnar eru búnar að verka í níu mánuði, og afleiðingarnar eru gífurleg lífskjararýrnun almennings, ekki aðeins rýrnun á sjálfri kaupgetu tímakaupsins, heldur með gífurlega minnkandi atvinnutekjum manna og um leið gífurlegum vöxtum af öllu því, sem menn þurfa að kaupa, og miklu erfiðara að ná sér í það, sem menn þurfa, t.d. ef þeir ætla að byggja yfir sig íbúð, heldur en áður. Það, sem voru vonir í vor, þegar hæstv. ríkisstj. var að tala svona, eins og hæstv. fjmrh. talaði núna, — voru vonir og við sögðum að mundu verða tálvonir, það eru orðnar lygar og blekkingar, þegar menn halda því fram nú. Nú tala staðreyndirnar sínu harðvítuga máli allt í kringum okkur. Nú er ekki til neins að koma með þess háttar hluti, eins og menn komu með í vor.

Það er verið að tala um tölur hagstofunnar. Þær tölur hagstofunnar, sem eru óhrekjanlegastar, eru þær, sem liggja fyrir í sjálfri vísitölunni. Það eru þær, sem hæstv. fjmrh. hefur ekki treyst sér á neinn hátt til þess að reyna að hrekja. Það þarf í nóvember 1960 56 þús. kr., til þess að 4 manna fjölskylda geti veitt sér það af matvörum, hita, rafmagni, fatnaði og álnavöru og ýmsum öðrum vörum og þjónustu, sem álitið er það minnsta, sem fjögurra manna fjölskylda þurfi. Það þarf 56 þús. kr. til þess. Húsnæðið og skattarnir kæmu þessu upp í 67 þús., ef menn ætluðu að búa í húsi fyrir utan að kaupa sér vörur og greiða skatta til þess opinbera. Þrátt fyrir allt, sem ríkisstj. borgar í fjölskyldubætur og annað slíkt, og fjölskyldubæturnar nægja ekki einu sinni fyrir vísitölufjölskylduna upp í skattana, — þrátt fyrir allt, sem ríkisstj. þannig reiknar og falsar húsaleiguvísitöluna, þá eru það 67 þús. kr., sem hagstofan álítur að fjölskyldan þurfi, fjögurra manna fjölskylda, til þess að lifa. Dagsbrúnarmaðurinn hefur 48 þús. kr. til að lifa af og fær ekki einu sinni núna að vinna hvern einasta dag, eins og hann gat, áður en viðreisnin kom.

Ég skil það ákaflega vel hjá hæstv. fjmrh., að hann vilji koma sér hjá hví að ræða þessi mál í samhengi. En það er bara dálitið samhengi á milli þess penings, sem verkamaðurinn borgar í söluskatt, og þess penings, sem hann aflar sér með sinni vinnu. Það er samhengi þarna á milli. Þetta er hvort tveggja einn þáttur í hans afkomu, í hans lífi. Og hefði ríkisstj. verði stolt af sínu kerfi, þá hefði hún náttúrlega verið til í að ræða það í samhengi. En af því að kerfið er að hrynja og þegar allt í pörtum, þá langar hæstv. ráðh, til þess að ræða hvern part út af fyrir sig, ekki sízt þegar partarnir eru eins þokkalegir og þessi.

Ég held þess vegna, að hæstv. ríkisstj. ætti að hugsa sig ofur lítið betur um, kynna okkur ofur lítið betur, hvað hún hyggst viðvíkjandi því að halda uppi fullri vinnu og koma í veg fyrir atvinnuleysi og annað slíkt. Það eru nú síðustu forvöð máske fyrir hana, áður en allt skellur yfir, sem hún hefur verið að undirbúa.