27.01.1961
Neðri deild: 51. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 997 í D-deild Alþingistíðinda. (3016)

151. mál, fjárreiður Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna, skipun nefndar skv. 39. gr. stjórnarskrárinnar

Einar Sigurðsson:

Herra forseti. Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna var stofnuð árið 1942 af 15 frystihúsum. En ekki leið á löngu, þar til öll frystihúsin, önnur en frystihús kaupfélaganna, voru orðin félagar. Meginatriði í lögum félagsins, en lögunum hefur sáralítið verið breytt frá upphafi, er, að allir geta gerzt félagsmenn, er hafa aðstöðu til að framleiða frosinn fisk. Eru engin dæmi þess, að einstaklingi eða félagi hafa verið meinað um inntöku. Annað meginatriði 3 lögunum er, að allir hafa jafnan atkvæðisrétt án tillits til framleiðslumagns eða framlags til uppbyggingar félagsins hér eða erlendis:

Þróun frystiiðnaðarins þessi tæp 20 ár hefur verið mjög ör, og hefur Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna átt mjög mikinn og góðan þátt í þessari uppbyggingu. Þegar S.H. var stofnað, var ársframleiðsla frystihúsa S.H. á frystum fiski og síld um 6 þús. lestir, en er nú 60 þús. lestir. Nú eru starfandi frystihús innan S.H. 56 talsins. Eru þau með alls konar rekstrarformi sem þekkist hér á landi: einstaklingar, sameignarfélög, hlutafélög, samvinnufélög, bæjarfélög og sjálft ríkið. Þrátt fyrir hin ólíku rekstarform og ólíkar stjórnmálaskoðanir hefur ekki verið neinn ágreiningur innan samtakanna um framkvæmdir, sem S.H. hefur ráðizt í hér heima eða erlendis.

Það fór fljótt að bera á því, að félagsmenn höfðu löngun til þess að vera sem sjálfstæðastir og búa sem mest að sínu í þessum atvinnurekstri. Þannig annaðist S.H. þegar í upphafi innkaup á öllum umbúðum og nauðsynjum frystihúsanna. Þá varð mönnum fljótt ljóst, hve mikilvægt það var fyrir frystihúsin að geta haft hönd í bagga með farmgjaldatöxtunum og veita sem bezta þjónustu, sérstaklega með tilliti til smærri hafnanna. Því var það, að allir félagar S.H. voru samtaka um að leggja fram nokkurt fé til stofnunar skipafélags þegar árið 1945. Hlutaféð var 500 þús. kr., og veittu frystihúsin félaginu jafnframt 800 þús. kr. lán, sem nú er að fullu greitt. Þessi framlög voru í hlutfalli við viðskiptaveltu hvers eins fram að þeim tíma. Þessu félagi var gefið nafnið Jöklar. Félagið byrjaði með eitt skip, mótorskipið Vatnajökul sem er 924 rúmlestir brúttó og er enn í eigu félagsins. Árið 1952 keypti félagið annað enn minna skip, nokkurra ára gamalt, sem var gefið nafnið Drangajökull 621 rúmlest brúttó. Þetta skip fórst á s.l. ári, en áður hafði félagið eignazt nýbyggt skip, Langjökul sem er 2000 lestir. Nú á félagið í byggingu annað skip í stað Drangajökuls.

Þetta hefur félagið framkvæmt allt af eigin rammleik og á engan hátt verið baggi fyrir frystihúsin heldur hvert á móti nokkrum sinnum beitt sér fyrir farmgjaldalækkun. Til skipakaupanna hefur félagið fengið lán erlendís eins og önnur hliðstæð félög, og jafnframt veitti Landsbankinn félaginu 700 þús. kr. lán, þegar Vatnajökull var keyptur, en það lán er nú löngu endurgreitt. Jöklar skulda S.H. ekkert.

Fyrstu árin eftir styrjöldina voru miklir erfiðleikar á að selja fisk nema í vöruskiptum, og neyddust frystihúsin þá til að mynda innkaupafyrirtæki til þess að greiða fyrir þessum viðskiptum. Fyrirtækinu var gefið nafnið Miðstöðin, og var það stofnað á sama hátt og Jöklar, að frystihúsin lögðu fram hlutafé í hlutfalli við veltu sína og voru öll með. Nam hlutaféð 300 þús. kr. Félag þetta gegndi mikilvægu hlutverki á sínum tíma með því að greiða fyrir aukinni fisksölu og hærra verðlagi, en síðan ríkið fór að gera viðskiptasamninga við vöruskiptalöndin og semja um ákveðna yfirdráttanheimild, hefur hlutverk Miðstöðvarinnar orðið lítið og gagnsemi hennar fyrir frystihúsin lítil sem engin. Fyrirtækið hefur þó ekki verið selt, eingöngu af ótta við, að til þess þyrfti að grípa aftur á líkan hátt og áður.

S.H. festi á sínum tíma nokkurt fé, eða 41/2 millj. kr., hjá þessu fyrirtæki vegna þessara viðskipta, enda lá Miðstöðin með miklar vörubirgðir frá þessu tímabili árum saman, því að vörurnar voru ekki allar jafnauðseljanlegar, þar sem kaupa þurfti mikið magn úr tiltölulega litlu úrvali. Fyrirtækið hefur engin föst lán fengið í bönkunum, og með ranglátu skattafyrirkomulagi og veltuútsvari hefur það opinbera hirt allar tekjurnar og vel það oftast, svo að fyrirtækið hefur ekki getað eignazt neina sjóði sjálft.

Þriðja félagið, sem S.H. hefur stofnað, er Tryggingamiðstöðin h/f. Hún var stofnuð í árslok 1956. Miklar tryggingar eru á vegum frystihúsanna á framleiðslunni, vélum og tækjum, fiskinum í flutningi, bátum og veiðarfærum og starfsfólki frystihúsanna. Lágu hér til grundvallar sömu sjónarmið og við stofnun Jökla, að veita frystihúsunum sem ódýrasta þjónustu. Að sjálfsögðu er frystihúsunum frjálst að tryggja hjá hvaða tryggingarfélagi sem er. Hlutaféð var 1 millj. kr., og var það lagt fram á sama hátt og við stofnun hinna félaganna. Skuld Tryggingamiðstöðvarinnar við S.H, er nú álíka og Miðstöðvarinnar, 4–5 millj. kr. Þessi skuld er mynduð vegna þess, að það er mjög algengt, að tryggingarfélög láni til báta- og skipakaupa gegn viðskiptum, og þar sem þetta er mjög ungt félag, þá hefur það ekki getað myndað neitt eigið fé, en hins vegar hefur þótt nauðsynlegt að veita því aðstöðu til að afla sér slíkra viðskipta, þótt í smáum stíl væri. Eru slík lán að sjálfsögðu aðeins veitt gegn venjulegum og fullum tryggingum.

Það hefur löngum veríð keppikefli allrar kaupsýslu að geta fylgt vörunni eftir sem lengst til neytandans. Bæði hefur það verið tryggast upp á markaði að gera og eins þannig von um hæst verð. Að selja vöru sína í eigin umbúðum og með eigin vörumerki tryggir líka markað og öruggari eftirspurn, þegar um góða vöru er að ræða. Því var það, að S.H. fór nokkuð snemma að huga að leiðum til þess að komast inn á hina stóru frjálsu markaði.

Í stríðinu var þetta allt neglt í viðjar. Englendingar keyptu þá mestallan freðfisk okkar, en stríðið var þó ekki á enda, þegar S.H. réð Jón Gunnarsson sem framkvæmdastjóra til þess að selja freðfisk í Bandaríkjunum. Var það árið 1944. Fyrstu árin hafði S.H. þar sína skrifstofu á eigin nafni til að annast þessa sölu, en árið 1948 stofnaði S.H. fyrirtæki Coldwater Seafood Corporation í New York til að annast þetta. Í þetta fyrirtæki hefur S.H. lagt 459300 dollara og er eigandi fyrirtækisins vitanlega að áskildum formsatriðum þar í landi.

Fyrstu árin gekk rekstur upp og niður. Veltan var ekki mikil, og við mikla byrjunarörðugleika var að stríða við að brjótast inn á þennan vandlátasta markað í heimi. En síðan hefur þar alltaf verið unnið á jafnt og þétt, og nýtur nú framleiðsla S.H, trausts og álits í Bandaríkjunum. Eru Íslendingar næststærstu innflytjendur fisks í Bandaríkjunum, koma næst á eftir nágrönnum Bandaríkjanna, Kanadamönnum. S.H. seldi á síðasta ári í Bandaríkjunum nær 16 þús. lestir af flökum, eða um þriðjung af flakaframleiðslunni. Þetta er mjög mikilvægur markaður fyrir íslenzkan freðfisk, þar sem verðið, miðað við kíló, er hærra en nokkurs staðar annars staðar. Að vísu er þar meira til kostað í umbúðum og vinnu en á mörgum Evrópu-pakkningum, en það munar líka miklu á söluverði. Meðalverð á því, sem áætlað er að selja til Bandaríkjanna á þessu ári, er kr. 16.90 pr. kg fob., en meðalverð þess, er selt var til Sovétríkjanna s.l. ár, var kr. 12.55 pr. kg fob.

Fyrir nokkrum árum var í Bandaríkjunum byrjað á að matreiða fisk í verksmiðjum og frysta hann síðan á eftir og selja hann tilbúinn til neyzlu til neytendanna. Coldwater var vakandi fyrir þessari nýjung í fisksölunni og keypti gamlar verksmiðjubyggingar, sem notaðar höfðu verið til að sjóða niður ostrur og tómata, fyrir 94 þús. dollara. Þarna var hafin framleiðsla á fiskstöngum í smáum stíl. Þessi starfsemi óx hröðum skrefum og varð fjölbreyttari og framleiðslan sífellt aukin. Nú vinna þarna milli 200 og 300 manns. Íslendingar hafa þar yfirstjórn. Gildar ástæður eru fyrir því, að þetta er ekki framleitt hér á Íslandi. Það er lágur tollur á blokkum, sem notaðar eru til þessarar framleiðslu, eitt cent pr. pund, í stað 21/2 cents á venjulegum fiskflökum, sem seldar eru til neytenda, og enn hærri á matreiddum fiski. Flutningsgjald mundi verða miklu hærra vegna þess, hve fiskurinn er rúmfrekur soðinn. Þá mundi þurfa að geyma miklu meiri birgðir en þegar hægt er að framleiða eftir hendinni. Og að lokum það, sem mundi ráða úrslitum í þessu sambandi en það er, að geymsluþol matreidda fisksins er lítið og hann þarf að vera sem ferskastur á markaðnum.

Fyrirkomulag fisksölunnar í Bandaríkjunum er þannig, að Coldwater hefur sína umboðsmenn um öll Bandaríkin, 60 talsins, sem selja fiskinn úr kæligeymslu, hver á sínu svæði. Er þetta hið viðurkennda sölufyrirkomulag í Bandaríkjunum á tilsvarandi Vöru. Fiskurinn er eign S.H., þar til hann er seldur. Þetta sölufyrirkomulag krefst þess, að jafnan séu miklar birgðir fyrirliggjandi, þar sem fiskinum er dreift í frystigeymslur á öllum sölusvæðum í Bandaríkjunum. Fiskbirgðir S.H. Í Bandaríkjunum voru 1. jan. 1960 4310 lestir og 1. jan. 1961 31961/2 lest. Áætlað fob-verðmæti þessara birgða í ársbyrjun 1961 er 54 millj. kr.

Þess er hér að geta, að 30. sept. s.l. átti Coldwater útistandandi fyrir seldan fisk, sem venjulega greiðist innan mánaðar frá úttektardegi, 1 millj. 674 þús. doilara. Enn fremur voru þá fiskbirgðir í verksmiðjunni, bæði unnar og óunnar, fyrir 600 þús. dollara. Af þessu sést, að sölufyrirkomulagið í Bandaríkjunum krefst mikils fjármagns, og hefur Coldwater fengið nokkurt lán hjá viðskiptabanka sínum í New York. Er nú unnið að því að fá í Bandaríkjunum viðbótarlán til þess að greiða fyrir þessum viðskiptum.

Coldwater sendir sína reikninga ársfjórðungslega til Sölumiðstöðvarinnar. Sölumiðstöðin gerir gjaldeyrisskil til gjaldeyriseftirlitsins missirislega, og er gjaldeyriseftirlitinu að sjálfsögðu opinn aðgangur að öllum gögnum S.H. í sambandi við erlend viðskipti. Þess má geta, að Coldwater er stærsti innflytjandi á freðfiski í Bandaríkjunum.

Árið 1956 var hafizt handa um að komast inn á enska markaðinn með því að lába eigin fyrirtæki annast söluna eins og í Bandaríkjunum. Voru stofnuð tvö fyrirtæki, annað sem fiskdreifingar- og framleiðslufyrirtæki og hitt til að reka smámatsölustaði, sem selja eingöngu fiskmeti. Fyrra fyrirtækið nefnist Frozen Fish Ltd., og nemur hlutafé þess 60 þús. pundum. Er það eign S.H. að áskildum formsatriðum þar í landi. Þetta fyrirtæki keypti gamalt frystihús niðri við Thames, þar eð fjármagn var ekki fyrir hendi til að byggja nýtt, eins og æskilegt hefði þó verið. Þarna var hafin matreiðsla á soðnum matvælum, eða líkt og í verksmiðjunni í Bandaríkjunum. 27. ágúst s.l. skuldaði þetta fyrirtæki S.H. 87500 pund og átti þá birgðir að verðmæti 41 því. pund auk útistandandi skulda fyrir seldan fisk.

Þessi starfsemi er ekki gömul og hefur átt við ýmsa byrjunarörðugleika að etja, eins og raun varð á í Bandaríkjunum.

Hitt fyrirtækið, sem hefur matsölustaðina, heitir Snacks Ross Ltd. Var það stofnað með hlutafé að upphæð 10 þús. pund. Það hlutafé er einnig eign S.H. að tilskildum formsatriðum. Fiskmatsölustaðirnir eru 12 talsins. Gekk þessi starfsemi ekki allt of vel til að byrja með, en er nú farin að sýna hagnað. 27. ágúst s.l. skuldaði þetta fyrirtæki S.H. 5300 pund, sem er eign félagsins.

Bæði þessi fyrirtæki senda reikninga ársfjórðungslega til S.H.

Talið er, að 75% af öllum fiski, sem seldur er í Bretlandi, sé seldur í slíkum búðum, og eru þær Þar í tugþúsunda tali. Til Bretlands voru seld á s.l. ári 5500 tonn af fiski.

Þriðja markaðslandið, sem S.H. er að glíma við að skapa sér sjálfstæða tilveru í, er Holland. Að vísu mætti frekar segja, að þar væri verið að gera tilraun til að ryðja freðfiskinum braut inn á markað sex velda tollabandalagsins. þ.e. Hollands, Belgíu, Lúxembúrgar, Þýzkalands, Frakklands og Ítalíu. Búið er að fá stað fyrir verksmiðjuna á landamærum Hollands og Þýzkalands, yfirfærðar hafa verið 2 millj. kr. frá Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna til þessara framkvæmda. Alþingi samþykkti við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1960 heimild til handa ríkisstj. að ábyrgjast fyrir Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna lán allt að 400 þús. pund til að reisa hraðfrystistöð í Hollandi, við þeim lánskjörum og gegn þeim tryggingum, sem ríkisstj. teldi viðunandi. Vonir standa til að verksmiðjan geti orðið fullgerð í haust. Að sjálfsögðu hafa fengizt gjaldeyrisleyfi fyrir öllum yfirfærslum í sambandi við þessar framkvæmdir.

Ég fullyrði, að sölufyrirkomulag S.H. erlendis hafi jafnan tryggt félagsmönnum hæsta fáanlegt verð fyrir framleiðslu sína og sparað fyrir frystihúsunum stórfé, sem þau annars hefðu þurft að greiða til annarra, sem hefðu annazt söluframkvæmd á afurðum þeirra. Er því síður en svo, að nokkurt fé hafi verið dregið út úr rekstri sjávarútvegsins vegna þessarar uppbyggingar, sem átt hefur sér stað erlendis.

Þótt margir geri sér nú leik að því að gagnrýna Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, þá er það spá mín, að er fram líða stundir, verði það starf, sem lagt hefur verið í öflun markaða og byggingar dreifingarkerfis erlendis á undanförnum árum og enn er verið að vinna að, eitt það merkasta, sem unnið hefur verið í atvinnu- og víðskiptamálum þjóðarinnar.

Flm. þáltill. á þskj. 268, hv. 3. þm. Reykv., hefur spurt, hversu mikið fé Sölumiðstöðin hefur lánað einstökum stjórnendum hennar. Það er í hæsta máta óviðurkvæmilegt að spyrja á Alþ. um skuldir einstakra, tiltekinna manna hjá fyrirtæki. Þó get ég skýrt frá, að þegar tekið er tillit til viðskipta ársins 1960, munu allir stjórnendur eiga innstæðu hjá fyrirtækinu og flestir svo að nemur hundruðum þúsunda. Þess ber þó að geta að sumir þeirra hafa eins og aðrir fengið lán hjá Tryggingamiðstöðinni til skipakaupa gegn venjulegu veði. Eina lánið, sem S.H. hefur frá bönkum landsins, er 6 millj. kr. yfirdráttarheimild hjá Landsbanka Íslands vegna umbúðabirgða, sem fengin var á fyrstu árum fyrirtækisins og hefur staðið óbreytt síðan. Þessi yfirdráttur nam í árslok 1960 kr. 5345440.82.

Um lán bankanna til einstakra félaga S.H. og félaga í Vinnuveitendasambandi Íslands er ekki á mínu valdi að skýra frá.