31.01.1961
Neðri deild: 53. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1051 í D-deild Alþingistíðinda. (3024)

151. mál, fjárreiður Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna, skipun nefndar skv. 39. gr. stjórnarskrárinnar

Einar Sigurðsson:

Herra forseti. Ræða hv. 3. þm. Reykv. í gær einkenndist af ákunnugleika á starfsemi, skipulagi og málefnum SH yfirleitt, og var hún full af rangfærslum. Mun ég nú ræða það helzta lið fyrir lið.

Hv. 3. þm. Reykv. velti því mikið fyrir sér, hverjir væru raunverulegir eigendur hlutafjár Coldwaters, og hélt hann því fram, að þetta kæmi ekki fram í reikningum SH. Orðrétt sagði ég í ræðu minni: „Í þetta fyrirtæki hefur SH lagt 459300 dollara og er eigandi fyrirtækisins að áskildum formsatriðum þar í landi.“ Alveg á sama hátt var skýrt frá hlutafénu í fyrirtækjunum í Englandi. Þessi hlutafjáreign kemur öll fram í ársreikningum SH, nema síðasta hlutafjáraukningin í Coldwater, sem kemur fram á árinu 1960, en fyrir það ár hafa ársreikningar enn ekki verið samdir. Hlutaféð hefur komið fram í hækkuðu fiskverði til frystihúsanna, en þau hafa hins vegar lánað SH þetta fé til þess að leggja það fram sem hlutafé. Það er því ekkert vafamál að öll frystihúsin, sem standa að SH, eiga þetta hlutafé eins og allar aðrar eignir SH. Fullyrðingar hv. þm. um, að frystihúsin hefðu lagt þetta fé fram vaxtalaust, eru ekki réttar. Þau hafa alltaf fengið hæstu lögleyfða vexti á hverjum tíma á inneignum sínum í SH. Getsökum hv. þm. um, að þetta hafi ekki verið talið fram til skatts, er í raun og veru fullsvarað með því að skýra frá, að þetta sé í reikningum SH, sem vitanlega eins og annarra fyrirtækja eru árlega sendir skattinum. SH hefur engu að leyna í þessu sambandi gagnvart skattayfirvöldunum.

Hv. 3, þm. Reykv. sagði, að félagsmenn SH hefðu ekki aðgang að reikningum hinna erlendu fyrirtækja. Ég sagði í ræðu minni: „Coldwater sendir sína reikninga ársfjórðungslega til Sölumiðstöðvarinnar.“ Þar hefur stjórn og varastjórn, sem í eru 10 menn samtals, reikningana til athugunar. Á hverjum aðalfundi er svo kosin 7 manna fjárhagsnefnd til þess að athuga og kynna sem fjárreiður fyrirtækjanna og gera tillögur til aðalfundar um reikninga og þau mál er varða fjárhag þeirra, og þá ekki sízt fjárfestingu erlendis. Þarna eru 17 menn, sem athuga þessi mál á hverju ári af 56 félagsmönnum. 2 stjórn, varastjórn og fjárhagsnefnd skiptir um menn meira og minna á hverju ári, þannig að segja má, að meira en helmingur félagsmanna taki beinan þátt í meðferð og afgreiðslu þessara mála á 2–3 árum. Auk þess hefur svo hverjum og einum félagsmanni verið boðið að sjá Þessa reikninga á skrifstofu félagsins. Það er því alls ekki verið að halda neinu leyndu fyrir félagsmönnum í þessum efnum. Hitt er annað mál að ekki hefur þótt heppilegt að dreifa ársreikningum hinna erlendu fyrirtækja vegna samkeppnisaðstöðu þeirra gagnvart ýmsum erlendum aðilum. Það mætti kannske biðja hv. þm. að benda ú aðeins eitt fyrirtæki, þar sem hlutfallslega jafnmargir félagsmenn taka beinan þátt á afgreiðslu reikninga og fjármála fyrirtækis eins og gert er hjá SH.

Hv. þm. talaði um ofríki í skiptum stjórnarinnar við félagsmenn. Það er síður en svo, að slík fullyrðing hafi við rök að styðjast. Í stjórn SH hafa oftast verið menn, sem hafa litið á málin frá almennu sjónarmiði og verið menn frjálslyndir og jafnan reynt að bera hag félagsmanna almennt fyrir brjósti, enda er skipulag SH þannig, að sá smæsti ræður jafnmiklu og sá stærsti. Árlega verður stjórnin að standa reikningsskap gerða sinna fyrir félagsmönnum, sem þá fá tækifæri til að skipta um menn.

Hv. þm. eyddi miklum tíma í að ræða um áhættu í sambandi við útistandandi skuldir erlendis. Eins og ég sagði í ræðu minni, greiðist fiskurinn innan eins mánaðar, og ég get friðað hv. þm. með því, að ekkert hefur tapazt á þessum viðskiptum öll þessi ár.

Þá sagði hv. þm., að það væri gert að frystihúsunum forspurðum að selja fiskinn með þessu fyrirkomulagi. Það gefur auga leið, hvort það muni vera að frystihúsunum forspurðum að viðhafa þetta sölufyrirkomulag, þegar það hefur staðið í 16–17 ár eða síðan byrjað var á því að selja íslenzkan fisk í Bandaríkjunum árið 1944. Hefur fyrirkomulag þetta þvert á móti stöðugt færzt í aukana. Alveg sama á við um veð bankanna í þessu sambandi, sem hv. þm. virðist líka bera mjög fyrir brjósti. Hann hefur sjálfsagt lengst af átt sæti í bankanáði Landsbankans, og hefur ekki heyrzt, að hann hafa hreyft þar andmælum gegn þessu fyrirkomulagi, enda hefur það staðið með fullri vitund allra aðila, því að hvernig hefði annað átt að vera? Allar greiðslur fyrir þennan fisk hafa verið greiddar í Landsbanka Íslands, og er mér ókunnugt um, að bankarnir hafi orðið fyrir nokkru tapi í þessum viðskiptum öll þessi ár.

Hv. þm. nefndi það eins og einhverja firru, að Skreiðarsamlagið og Sölusamband ísl. fiskframleiðenda færu að selja fisk með sama hætti í Nígeríu og Brasilíu. Ég ætla ekki að fara að benda þessum aðilum á, hvernig þeir eigi að selja sinn fisk. En þyrfti það að vera nokkur fjarstæða, þótt þeir kæmu sér upp sínu eigin sölu- og dreifingarkerfi í markaðslöndunum? Er það líka ekki rétt, að þessir aðilar hafa stundum þurft að selja gegn gjaldfresti? Og hvernig er með söluna til sósialistísku landanna? Hefur ekki Tékkóslóvakía allt upp í 40 millj. kr. lán hjá íslenzkum bönkum, Austur-Þýzkaland upp í 45 millj. kr. lán og Pólland 30 millj. kr. lán eða meira? Oftast eru þessi lán fullnotuð og eru það nú. Nema þau alls 115 millj. kr. Hvaða munur er á þessum lánum fyrir þjóðarbúskapinn og þeim lánum, sem bankarnir hafa lánað út á fisk, sem fer til Bandaríkjanna og Bretlands? Eins og ég sagði í minni ræðu, er nú unnið að því að fá í Bandaríkjunum viðbótarlán til þess að greiða fyrir þessum viðskiptum. Verður þá væntanlega hægt að greiða þennan fisk við afskipun. Það er rétt að geta þess, að viðskiptin við Sovétríkin eru hins vegar oftast á þann veg, að Sovétríkin eiga innstæður.

Hv. þm. gaf í skyn, að SH hefði haft lítinn áhuga á viðskiptum austur á bóginn. Þetta er hreinn misskilningur. Þvert á móti hefur SH jafnan haft mikinn áhuga á þessum viðskiptum og notað þessa markaði til hins ýtrasta, þótt um það megi deila, hvort hagkvæmt hafa verið fyrir þjóðarheildina. Þessir markaðir hafa verið frystihúsunum hagstæðir að sumu leyti. Þeir hafa tekið á móti miklu fiskmagni t.d. rússneski markaðurinn. Sérstaklega voru kaup Rússa mikilvæg hvað karfann snerti, á meðan mest veiddist. En hins vegar verður að segja það eins og það er, að rússneska verðið er nú orðið langt undir heimsmarkaðsverði, enda ekki hreyfzt, svo að teljandi sé, árum saman, á meðan fiskverð hefur farið hækkandi á öðrum mörkuðum. Að því er varðar nýbreytni í viðskiptum, má geta þess, að bæði Rússum og Tékkum hafa verið boðnar fish-sticksverksmiðjur, ef þeir vildu gera tilraun til þess að framleiða fiskstengur og matreiddan fisk á sama hátt og gert er í verksmiðjum í Bandaríkjunum og Englandi. En þessu hefur ekki verið sinnt.

Um hina sósialistísku og vestrænu markaði mætti mikið segja. En frá sjónarmiði íslenzkra fiskframleiðenda veita hinir vestrænu markaðir meira öryggi, að svo miklu leyti sem hægt er að skapa eftirspurn neytenda eftir vörunni. Minna má á í því sambandi, að Sovétríkin hættu að kaupa freðfisk af Íslendingum, þegar kommúnistar fóru úr nýsköpunarstjórninni. Það er því eðlilegt, að frystihúsin leggi nokkuð á sig til þess að styrkja aðstöðu sína á þessum mörkuðum. En það er meira en öryggið, sem hér er um að ræða. Það er líka von um nokkurn ábata af því að getra fylgt vörunni sem lengst eftir til neytandans. Það er því í hæsta máta einkennilegur málflutningur og ólíkur fyrri afstöðu hv. þm., þegar hann hvetur nú til beinna viðskipta með íslenzka fiskinn til erlendra auðhringa.

Fyrsta krafa hringanna væri að fá fiskinn í þeirra eigin umbúðum og með eigin vörumerki, sem þeir að sjálfsögðu sköpuðu eftirspurn eftir án tillits til þess, hvaðan fiskurinn væri kominn. Það væri ekki hátt verð eða tryggur markaður, sem Íslendingar byggju við með slíku fyrirkomulagi. í þessu sambandi má segja frá því, að hér var á ferð einhverju sinni samninganefnd frá einu vöruskiptalandanna, og sögðust þeir fá fiskinn frá Danmörku fyrir 30% lægra verð en þann íslenzka. Gáfu þeir þá skýringu, að það væri af því, að seljendurnir væru svo dreifðir og unnt væri að etja þeim hverjum gegn öðrum og þvinga þannig verðið niður. Það má líka í þessu sambandi geta þess, að norska freðsíldin er 45% ódýrari í þessum löndum en sú íslenzka, af því að framboðið er á margra höndum. Það má líka minna á ástandið í saltfiskmálunum 1930, áður en Sölusambandið var stofnað. Þegar mikið fiskaðist, bauð hver niður fyrir annan. Það er ekki heldur allt of gott ástandið í þessum efnum í fiskmjölinu, sem er selt af ótal aðilum. Ætli það hefði verið eins mikið verðfall á mjölinu, ef t.d. Sölumiðstöðin eða samlag mjölframleiðenda hefði annazt þessa sölu og komið sér upp fóðurblöndunarverksmiðju með eigin sölukerfi í tveimur eða þremur markaðslöndum?

Í þessu sambandi má taka það fram, sem alþjóð á þó að vera kunnugt, að það er ekki einkaréttur til útflutnings á neinum íslenzkum útflutningsvörum nema saltfiskinum. Samband ísl. samvinnufélaga flytur t.d. út um 20% af freðfiskinum. Og fram að síðasta ári flutti Fiskiðjuverið út sjálft sinn fisk. Á sínum tíma flutti Ingólfur Espólín einnig út frosinn fisk. Hitt er annað mál að frystihúsin álíta sínum hag bezt borgið með því að standa saman um söluna.

Afstaða hv. þm. til þessara mála er óskiljanleg. Það er ekki laust við, að það hlakkaði í honum, þegar hann var að lýsa baráttu litla íslenzka fyrirtækisins við Unilever og aðra brezka fiskhringa um markaðinn í Englandi og hvernig hringunum hafði tekizt að fylla búðirnar á sölusvæði SH í krafti þess mikla fjármagns, sem þeir hefðu yfir að ráða, svo að litla fyrirtækið hefði e.t.v. tapað einhverju í Englandi. Eða ætli þessum hörðu keppinautum SH þar og annars staðar þætti ekki matur í að fá birta opinberlega reikningana og sjá, hversu beysinn bógur íslenzku fyrirtækin væru?

Enn fremur má hér benda á, að SÍS hefur dyggilega fetað í fótspor SH í uppbyggingu markaða erlendis, að því er snertir sölufyrirkomulag. SÍS hefur t.d. sitt eigið bandaríska fyrirtæki Icelandic Product Corporation — til að selja fiskinn, alveg á sama hátt og SH, og hefur nú nýlega komið á fót verksmiðju til að framleiða þar úr sínum fiski. Heldur hv. þm., að þetta sé gert út í bláinn?

Hv. þm. er að býsnast yfir því fé, sem SH hefur lagt í fyrirtæki erlendis til þess að framleiða þar soðinn mat úr íslenzkum fiski. Það fé, sem farið hefur í uppbyggingu í Bandaríkjunum, er þó ekki meira en það, sem þetta sölufyrirkomulag og verksmiðjustarfsemi hefur skilað íslenzkum frystihúsunum umfram það verð, sem þau hefðu annars fengið greitt. Allt hlutafé SH erlendis er sem svarar rúmlega andvirði hálfs togara eða fjögurra vélbáta eða meðalfrystihúss. Er það nú einhver goðgá, þar sem hér er um að ræða sölu á verulegum hluta af framleiðslu 56 frystihúsa?

Hv. þm. hafði orð á, að fyrirtækið í Ameríku mundi vera stærsta fyrirtæki í eigu Íslendinga. Frystihúsaeigendur eru stoltir af því að hafa byggt upp myndarlegt þjóðþrifafyrirtæki, sem fyllilega stenzt samkeppni við önnur hliðstæð fyrirtæki í Bandaríkjunum. Brautryðjandastarf Skúla Magnússonar landfógeta með Innréttingunum þótti merkilegt á sínum tíma. Hver mun dómur sögunnar um þessa starfsemi SH og hver mun dómur sögunnar um þá menn, sem í blöðum og jafnvel í sölum Alþingis reyna að sakfella þetta fyrirtæki, sem hefur átt meiri þátt í að bæta lífsafkomu íslenzku þjóðarinnar en jafnvel nokkurt annað fyrirtæki í landinu og á þó vonandi eftir að gera enn betur?

Hv. þm. reyndi að gera tortryggilegar þær upplýsingar, sem ég gaf um fjárhagsaðstöðu stjórnenda SH, og vildi halda fram, að ég hefði verið að reyna að dulbúa skuldir þeirra á bak við ógreiddan fisk. Þetta er eins og margt fleira byggt á ókunnugleika á SH. Ég sagði orðrétt um þetta, „að þegar tekið er tillit til viðskipta ársins 1960, munu allir stjórnendur eiga innstæður hjá fyrirtækinu og flestir sem nemur hundruðum þúsunda.“ Við útborgun á fiski er alltaf haldið eftir 5% af áætluðu söluverði til þess að mæta skakkaföllum, ef söluáætlun, sem gerð er í ársbyrjun, skyldi ekki standast. Þegar ég því talaði um að taka tillit til viðskipta ársins 1960, á ég við þessi 5%, sem haldið er eftir. Nú er séð fyrir endann á sölu ársins 1960 og þar með, að frystihúsin fá hið áætlaða verð nokkurn veginn. í vor og sumar, þegar fjárhagserfiðleikar frystihúsanna voru hvað tilfinnanlegastir, var flestum frystinúsum greitt upp í reikning upp í þessi 5%, og myndaðist þá að sjálfsögðu skuld á viðskiptareikningum viðkomandi frystihúsa, Þar sem þessi 5% eru ekki færð inn í reikningana, fyrr en framleiðslan er endanlega gerð upp. Upphæðir þessar eru að sjálfsögðu mismunandi háar eftir framleiðslu hvers og eins.

Þá spyr hv. þm.: Hvernig hefur Tryggingamiðstöðin notað þetta fé? Í ræðu minni sagði ég: Skuld Tryggingamiðstöðvarinnar við SH er nú álíka og Miðstöðvarinnar, 4–5 millj, kr. Þessi skuld er mynduð vegna þess, að það er mjög algengt, að tryggingafélög láni til báta- og skipakaupa gegn viðskiptum, og þar sem þetta er ungt félag, hefur það ekki getað myndað neitt eigið fé, en hins vegar hefur þótt nauðsynlegt að veita því aðstöðu til þess að afla sér slíkra viðskipta, þótt í smáum stíl væri. Eru slík lán að sjálfsögðu aðeins veitt gegn venjulegum og fullum tryggingum.“ Enn fremur sagði ég: „Þess ber þó að geta, að sumir þeirra“ — þ.e. stjórnendanna — „hafa eins og aðrir fengið lán hjá Tryggingamiðstöðinni til skipakaupa gegn venjulegu veði“. Þetta svar hefur ekki verið fullnægjandi fyrir hv. þm.

Tryggingamiðstöðin hefur lánað útgerðarmönnum til að greiða fyrir bátakaupum, 150–250 þús. út á hvern, gegn veði í bátunum og oftast fasteign líka. Önnur tryggingafélög hafa mörg hver lánað hærri upphæðir í þessu skyni. Enn fremur hefur Tryggingamiðstöðin lánað 2 millj. kr. á sama hátt til að greiða fyrir kaupum á einum togara. Það lán er tryggt með handveði í ríkistryggðum skuldabréfum og veði í fasteignum. Einn stjórnarmeðlimur hefur fengið lán til kaupa á einum vélbát, og það var stjórnarmeðlimur, sem fékk lánað til togarakaupanna, og þarf ekki að fara í grafgötur með, hver það er. Áður kom til tals að veita öðrum aðila þetta lán, en það varð ekki úr því, af því að sá aðili gat fengið hærra lán hjá öðru tryggingafélagi. Ég er næstum því viss um, að allir nýju togararnir fimm hafa fengið slík lán hjá tryggingafélögunum gegn því að tryggja hjá þeim skipin. Þetta eru ekki lítil viðskipti. Iðgjöld af skipinu einu, fyrir utan önnur viðskipti, eru nokkuð á aðra milljón króna á ári.

Skömmum og níði hefur ekki linnt á stjórnendur SH marga undanfarna mánuði í flokksblöðum hv. 3. þm. Reykv., og nú hefur hann sjálfur tekið að sér að flytja þennan óhróður inn í sali Alþingis. Hvað er hér á ferðinni, þegar árásirnar á SH og stjórnendur hennar yfirgnæfa allt annað? Maður gæti freistazt til að halda, að fjöregg kommúnista væri í húfi, ef ekki tækist að hnekkja vexti og viðgangi SH og þeim áformum, sem þar er verið með á prjónunum. Sú var þó tíðin, að SH var ekki illa séð af hv. 3. þm. Reykv. og fleiri hans félögum. Skyldu kommúnistar sjá fram á, ef SH tekst sú markaðsuppbygging í Bandaríkjunum, Bretlandi og sex velda bollabandalaginu, sem að er stefnt, að fljótlega kunni að draga úr viðskiptum við sósialistísku löndin? En það er hreinn misskilningur hjá hv. 3. þm. Reykv., ef hann heldur, að þessari uppbyggingu sé á einhvern hátt stefnt gegn viðskiptunum austur á bóginn. Við þurfum á öllum okkar mörkuðum að halda, og ef við getum selt meira, er ekki annað en auka bátaflotann.

Hv. þm. segist flytja þessa till. til þess að fá úr því skorið, hvort í starfsemi Sölumiðstöðvarinnar sé falið fé, sem betur væri komið í hækkuðu kaupgjaldi. Eins og ég hef rakið lið fyrir lið, liggur það ljóst fyrir, að svo er ekki. Orsakanna til þess, að ekki er unnt að hækka kaupið, er ef til vill víða að leita, en m.a. í því, að kommúnistar ráða mikið yfir verkalýðshreyfingunni og hafa oft og einatt sóað miklum verðmætum fyrir íslenzku þjóðinni með skefjalausum verkföllum, sem mjög hafa haft á sér pólitískan blæ. Þeir hafa minna hugsað um það að auka verðmæti þjóðarframleiðslunnar, en á henni byggjast að sjálfsögðu lífskjörin.

Ég ætla að leyfa mér að leiða sem vitni í þessu máli mann, sem hv. 3. þm. Reykv. ætti að taka mark á. Það er flokksbróðir hans, Jóhannes Stefánsson, forstjóri Samvinnufélags útgerðarmanna í Neskaupstað og frambjóðandi Alþb. Hann fór til Englands og Bandaríkjanna s.l. haust til þess að skoða starfsemi SH þar. Hann skrifaði síðan langa grein í flokksblað þeirra hv. 3. þm. Reykv., Austurland. Farast honum m.a. þannig orð um starfsemina í Bretlandi, með leyfi hæstv. forseta.

„Mun þessi verksmiðja vera hin fyrsta sinnar tegundar í Bretlandi. Ég veitti vinnuhraðanum athygli. enda kerfisbundin vélavinna, þar sem enginn má skerast úr leik, svo að heildarafköst haldist.”

Um starfsemina í Bandaríkjunum farast honum þannig orð m.a., með leyfi hæstv. forseta. „Skrifstofa Coldwaters er í Chryslerbyggingunni á 20. hæð, og vinna þar 30 manns. Var fyrirtækið stofnað fyrir 12 árum, og hefur uppbygging þess verið að mestu verk Jóns Gunnarssonar. Árið 1955 hófst framleiðsla á tilbúnum réttum í verksmiðju fyrirtækisins í Nanticoke. Hefur neyzla tilbúins matar aukizt hröðum skrefum, sem sést glöggt á því, að þessi verksmiðja Íslendinga seldi 1 milljón punda 1955, en í ár 141/2 milljón punda, og næsta ár er áætlað, að salan verði 20 millj. punda. Heildarfisksala Íslendinga til Bandarfkjanna 1955 var 24.3 millj. punda, en 1959 44 millj. Þar af fer fiskurinn í vaxandi mæli til vinnslu í eigin verksmiðju SH, því að tilbúnu réttirnir, soðinn og steiktur fiskur, vinna stöðugt á, og hafði verksmiðja SH 16.1% af öllum tilbúnum fiskréttum s.l. ár, en mun hafa í ár 19.3%. Hafa Íslendingar að sumu leyti haft forustu í þessu efni. Bandaríkjamenn hafa 10 punda fiskneyzlu á hvern íbúa á ári, en þeim fjölgar um 4 millj. árlega. Kváðu framkvæmdastjórar Coldwaters, að það fyrirtæki eyddi minna í auglýsingar en sambærileg fyrirtæki. Baráttan um markaðinn væri hörð og auglýsingar væru mjög dýrar, en án þess að leggja mikið í þær yrði lítill árangur. Fiskur væri tiltölulega dýr til neytenda, og þó mundi íslenzki fiskurinn seldur á nokkru hærra verði en sá kanadiski.”

Og enn heldur Jóhannes Stefánsson áfram og er nú kominn þangað, sem verksmiðjan er, með leyfi hæstv. forseta.

„Komum við á heimili Jóhannesar“ — þ.e. verksmiðjustjórans, — „og var mjög ánægjulegt að hitta þessa landa okkar, sem vinna af dugnaði að því að koma útflutningsframleiðsluvöru okkar á sem hagkvæmastan hátt til neytenda. Framleiðir þessi verksmiðja nú, en hún er ein af 30 slíkum þar í landi, um 1/5 hluta af tilbúnum ósteiktum fiski í landinu. 1959 afkastaði verksmiðjan 4500 tonnum, en forráðamennirnir telja, að næsta ár hafa afköst þessi tvöfaldazt, en það eru fullnaðarafköst þessarar verksmiðju. Verður þá að byggja nýja verksmiðju, ef á að halda mörkuðunum, og það sennilega í öðru ríki Bandaríkjanna, því að vinnuaflið er fullnýtt í Nanticoke. Þarna vinna um 300 manns, þar af 4 af hverjum 5 svertingjar. Ég hef hvergi séð jafnmikinn vinnuhraða og í þessari verksmiðju. Algerlega var bannað að reykja í vinnutíma og sækja þurfti um leyfi til að fara frá. Það var mjög lærdómsríkt að sjá þessa fiskverksmiðju, stórbrotinn rekstur hennar, meðhöndlun freðfisksins, gæði hans og galla, sjá, hvernig þessum fiski er breytt eftir kröfum markaðsins á hverjum tíma, kynnast því, að það eru Íslendingar sjálfir, sem fullvinna sinn fisk frá fyrstu hendi til lokastigsins í matvælabúðina og raunverulega á disk neytandans. Einnig var ánægjulegt að kynnast mikilvægu starfi þeirra manna, sem við höfum sem fulltrúa okkar í Bandaríkjunum. Gaf sú stutta kynning vissu um, að þeir ynnu af dugnaði og fylgdust vel með tímanum.“

Niðurlag greinar Jóhannesar Stefánssonar er á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta.

„Æskileg kynnisför, en ekki lúxusflakk: Ferðalög sem þessi eru dýr, og komið hefur fram í blöðum og víðar, að þetta hafa verið íburðarmikið lúxusflakk. Vil ég ekki ræða í þessari frásögn um skoðanir gagnrýnenda, en að lokum segja þetta. Ef við Íslendingar ætlum okkur að standast samkeppni við aðrar þjóðir á hinum ýmsu mörkuðum erlendis og selja á bezta verði 96% útflutnings okkar, sem sjávarútvegurinn lætur í té, þá verða þeir, sem að framleiðslunni standa hér heima og ábyrgð bera á henni, að kunna nokkur skil á kröfum neytenda og ekki sízt að þekkja þau fyrirtæki, sem Íslendingar hafa stofnsett og reka á eigin ábyrgð til að gera framleiðsluna verðmætari.

Ég leyfi mér að fullyrða, að í þessu ferðalagi var ekki um neinn íburð að ræða á neinn hátt eða óþarfa eyðslu, enda gætt hófsemi í hvívetna af fararstjóra og öllum ferðafélögunum.“

Þá lýkur grein Jóhannesar.

Ég er sannfærður um, að ekki er hægt að hafa betra sölufyrirkomulag í Bandaríkjunum en SH og SÍS hafa nú, ef ná á hæsta fáanlegu verði fyrir fiskinn. Þótt hv. þm. vilji svo vera láta sem hann hafa trú á viðskiptum við fiskhringana erlendis sem heillavænlegustu leiðina fyrir íslenzka freðfiskframleiðendur, er ég sannfærður um, að hann meinar það ekki í hjarta sínu. Við getum tekið hér ekki óhliðstætt dæmi, sem allir Íslendingar geta dæmt um sjálfir, það er olían. Á kreppuáratugnum fyrir stríð voru Rússar að reyna í frjálsri samkeppni að brjótast með framleiðsluvörur sínar inn á íslenzka markaðinn. Þetta gekk mjög erfiðlega. En leiðin, sem þeir fóru til þess að selja t.d. benzínið, var að setja upp geyma og dælur, þar sem nokkur von var til að selja. Þeir hefðu ekki selt dropa af benzíni, ef þeir hefðu beðið eftir því, að hringarnir keyptu af þeim. En svo komu markaðserfiðleikar Íslendinga, sem opnuðu rússneska benzíninu leið í benzíngeyma og dælur hringanna.

Íslendingar hafa lengst af þurft að stríða við að koma út sínum markaðsvörum. Það getur vel verið, að nú hilli undir breytingu í þessum efnum, einmitt fyrir hið merkilega brautryðjandastarf SH í miklum markaðslöndum fyrir íslenzkan fisk, ekki sem óunna eða hálfunna vöru, heldur sem matreiddan fisk, tilbúinn til þess að neyta hans, aðeins eftir að hann hefur verið hitaður upp. Fyrir hráefnið, fiskblokkirnar, í þennan fisk fá Íslendingar um þriðjungi hærra verð en fyrir þann fisk, sem þeir selja t.d. til Sovétríkjanna. Og þó er það spá mín, er fram líða stundir og búið er að sigrast á byrjunarerfiðleikunum víðar en í Bandaríkjunum, því að þar er sigurinn unninn, að þessi starfsemi eigi eftir meira en nokkuð annað að færa íslenzku þjóðinni betri lífskjör en hún býr við í dag. Ég vona, að Íslendingar lofi kommúnistum einum að hafa heiðurinn af því að leggja stein í götu þessarar merku starfsemi.