19.10.1960
Sameinað þing: 4. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1109 í D-deild Alþingistíðinda. (3045)

951. mál, lántökur erlendis

Fyrirspyrjandi (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Fyrsti liður er svo hljóðandi: „Hve mikið fé hefur nú verið tekið að láni hjá Evrópusjóðnum og með hvaða skilmála um endurgreiðslu? Eins og mönnum er í fersku minni fékk hæstv. ríkisstj. heimild hjá Alþ. til að taka lán í þessum sjóði, og er spurningin af því tilefni.

2. tölul. hljóðar þannig: „Hve mikið hefur verið tekið að láni hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og með hvaða kjörum?“ Gildir alveg sama um þá spurningu og tilefni til hennar, en það er lánsheimild sú, sem stjórnin útvegaði sér í fyrravetur.

Í þriðja lagi er spurt, hverjar lántökur opinberra aðila hafa verið leyfðar á þessu ári af bönkum og ríkisstjórn. Tilefni þessarar spurninga er, að í lögum um skipan innflutnings- og gjaldeyrismála, í 7. gr., er svo hljóðandi ákvæði, með leyti hæstv. forseta „Ekki mega opinberir aðilar né einkaaðilar semja um lán erlendis til lengri tíma en eins árs nema með samþykki ríkisstj. Til lána telst í þessu sambandi einnig hvers konar greiðslufrestur á vörum og þjónustu til lengri tíma en eins árs.“ Síðan segir: „Erlend lán til skemmri tíma en eins árs, þar með talinn hvers konar greiðslufrestur á vörum og þjónustu, skulu háð reglum, sem ríkisstj. setur.“ Af þessu tilefni leyfi ég mér að gera fsp. Þá, sem er í 3. liðnum. sem sé, hverjar lántökur opinberra aðila hafa verið leyfðar á þessu ári af bönkum og ríkisstj.

Þá er það loks 4. liðurinn. Hann er einnig fram kominn vegna þessarar sömu lagagreinar, en samkvæmt þeirri lagagrein hefur ríkisstj. gefið út reglur um erlendar lántökur í auglýsingu frá 31. maí s.l., og er ákveðið í þeirri auglýsingu, að menn geti keypt vörur með gjaldfresti, enda semji þeir við viðskiptabankana um greiðslu á þeim vörum, sem þannig eru keyptar, ef gjaldfresturinn er þrír mánuðir eða minna. En síðan er tekið fram, að ef gjaldfresturinn er 3–12 mánuðir, skuli sækja sérstaklega um leyfi eða þá skuli sérstakt samþykki viðskiptabankanna koma til eftir nánari reglum. sem ríkisstj. setur. Sýnist samkvæmt þessu þurfa samþykki fyrir öllum slíkum lánum, og af því tilefni er þessi 4. tölul. settur fram. En hann hljóðar þannig: „Hve miklu nema þær lántökur einkaaðila samtals, sem leyfðar hafa verið á þessu ári af ríkisstj. og bönkum?“ Er þd átt við að sjálfsögðu þau lán sem falla undir ákvæðin, sem ég var að rifja upp.