19.10.1960
Sameinað þing: 4. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1110 í D-deild Alþingistíðinda. (3046)

951. mál, lántökur erlendis

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég bið afsökunar á því, að mér skuli hafa seinkað nokkuð til fundarins, en ég var bundinn við áríðandi símtal.

Fyrsta spurningin, sem hv. 1. þm. Austf. hefur beint til mín, hljóðar þannig: „Hve mikið fé hefur nú verið tekið að láni hjá Evrópusjóðnum og með hvaða skilmála um endurgreiðslu?”

Yfirdráttarheimild Íslands hjá Evrópusjóðnum er 12 millj. dollarar eða 458 millj. ísl. kr. Þar af hafa verið notaðar 7 millj. dollara eða 266 millj. ísl. kr. síðan 5. marz 1960, og verður að endurgreiða þessa upphæð fyrir 20. febr. 1962. Hinn óhreyfði hluti heimildarinnar, 5 millj. dollara eða 190 millj. kr., var til ráðstöfunar frá og með 1. ágúst 1960 og verður að endurgreiðast innan tveggja ára frá þeim tíma, að svo miklu leyti sem til notkunar hans kynni að koma. Vextir og kostnaður er 1/4% í þjónustugjald auk 4% ársvaxta af þeirri upphæð, sem notuð hefur verið.

Önnur spurningin hljóðar svo: „Hve mikið hefur veríð tekið að láni hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og með hvaða kjörum?"

Yfirdráttarheimild Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum nemur 8437500 dollurum eða 320.6 millj. kr. Þar af hafa verið notaðir 6812500 dollarar eða 258.9 millj. ísl. kr. Þar af voru 91.2 millj. kr. notaðar til þess að greiða skuld vegna gullframlags Íslands til sjóðsins, sem talið er til eignar, þegar aðstaða Íslands gagnvart sjóðnum er gerð upp. Af yfirdráttarheimildinni hafa því raunverulega verið notaðar 167.7 millj. kr. Yfirdráttarheimildin gildir í eitt ár frá 23. febr. 1960 að því er tekur til þeirrar upphæðar, sem er umfram gullframlag Íslands til sjóðsins, að fjárhæð 2.8 millj. dollara eða 91.2 millj. ísl. kr. Skilyrðið er, að það, sem dregið er hverju sinni á sjóðinn, skuli endurgreiðast innan þriggja ára. Vextir og kostnaður eru 1/2% í þjónustugjald og 2%–4% í ársvexti, eftir lengd lánstímans og eins eftir því, hve mikið er notað af heimildinni, miðað við framlag Íslands til sjóðsins. Ef heimildin er t.d. aðeins notuð í eitt ár, reiknast 2% í vexti á ári.

Af svarinu við þessum tveim spurningum kemur fram, að það, sem búið er að nota af 760 millj. kr. yfirdráttarheimildunum hjá Evrópusjóðnum og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, er samtals 433.7 millj. kr., 266 millj. hjá Evrópusjóðnum og 167.7 millj. hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

Þegar notkun þessara yfirdráttarheimilda er athuguð eða þegar um hana er rætt, verður einnig að athuga, hver breyting hefur orðið á yfirdráttarskuldum bankanna, en yfirdrættir þeirra hafa lækkað síðan í febrúarlok á þessu ári um 442.6 millj. kr., eftir að tekið hefur verið tillit til þeirrar sölu á verðbréfum, sem átt hefur sér stað á þessum sama tíma, en verðbréfasalan hefur numið 88.6 millj. kr. Heildarlækkun yfirdráttarskuldanna nam 515.5 millj. kr., en þegar minnkun verðbréfaeignarinnar, 88.6, hefur verið dregin frá, reynist nettóminnkun yfirdráttarskuldanna 426.9 millj. kr. frá því í febrúarlok, en á tímabilinu frá því að gengisbreytingin var gerð og til febrúarloka nam lækkun yfirdráttarskuldanna 15.7 millj. kr., þannig að heildarlækkun þeirra frá gengislækkunardegi nemur 442.6 millj. kr. Lækkun yfirdráttarskulda gjaldeyrisbankanna nemur því 8.9 millj. kr. meira síðan 22. febr. s.l. en það fé nemur, sem búið er að nota af yfirdráttarheimildunum hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum í Washington og Evrópusjóðnum París.

Af þessu er augljóst mál, að þær 433.7 millj. kr., sem notaðar hafa verið af yfirdráttarheimildunum hjá þessum tveim alþjóðastofnunum, hafa allar gengið til þess að lækka yfirdráttarskuldir bankanna erlendis, sem voru orðnar mjög háar eða námu nettó 557.9 millj. kr. og raunar 8.9 millj. kr. betur.

Þriðja spurningin hljóðar þannig: .,Hverjar lántökur opinberra aðila hafa verið leyfðar á þessu ári af bönkum og ríkisstjórn?“

Í lögum um skipan innflutnings- og gjaldeyrismála frá 25. maí 1960, í 7. gr. þeirra laga, er kveðið svo á, að hvorki opinberir aðilar né einkaaðilar megi semja um lán erlendis til lengri tíma en eins árs í senn nema með samþykki ríkisstj. Er hér um nýmæli að ræða, að því er einkaaðila snertir, en sams konar lagaákvæði hafði verið í gildi um opinbera aðila frá því 1945, en ekki verið framfylgt. Frá og með gildistöku laga um skipan innflutnings- og gjaldeyrismála hinn 1. júní s.l. hafa umræddar lántökur hins vegar allar verið háðar samþykki ríkisstj. Frá þeim tíma hafa opinberir aðilar fengið heimild til lántöku erlendis til lengri tíma en eins árs sem hér segir:

1) Framkvæmdabanka Íslands hafa verið heimilaðar eftirtaldar Lántökur erlendis: a) Lán að upphæð 2740950 kr. vegna Baader-þjónustunnar, þ.e. kaup á flökunarvélum. Lán að upphæð 639555 kr. til kaupa á niðursuðuvélum. c) Lán að upphæð 8828500 kr. til vörukaupa í Sviss. d) Lán að upphæð 11877450 kr. til kaupa á fiskiðnaðarvélum í Vestur-Þýzkalandi, e) Lán að upphæð 7309200 kr. til vélakaupa í VesturÞýzkalandi.

2) Rafveitu Hafnarfjarðar hefur verið veitt heimild til lántöku erlendis að upphæð 2966896 kr. til kaupa á rafbúnaði í nýja aðalspennistöð.

3) Rafmagnsveitum ríkisins hefur verið veitt heimild til lántöku erlendis að uppnæð 3220500 kr. til kaupa á 2 dísilvélasamstæðum.

4) Vita- og hafnarmálastjórn hefur verið veitt heimild til lántöku erlendis að upphæð 7439040 kr. vegna smíði á nýju vitaskipi.

Fjórða og síðasta spurningin hljóðar þannig: „Hversu miklu nema þær lántökur einkaaðila samtals, sem leyfðar hafa verið á þessu ári af ríkisstj. og bönkum?“

Að því leyti er missögn í fyrirspurninni, að það er eingöngu ríkisstj., sem veitir heimild til lántöku samkvæmt ákvæðum laganna. En lán þau, sem einkaaðilum hefur verið heimilað að taka frá 1. júní 1960 til lengri tíma en eins árs, nema alls 25701110 kr.