20.10.1960
Sameinað þing: 5. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1117 í D-deild Alþingistíðinda. (3063)

56. mál, rafstrengur til Vestmannaeyja

Fyrirspyrjandi (Karl (Guðjónsson):

Herra forseti. Þegar gengið var frá hinni stóru áætlun um rafvæðingu landsins, voru Vestmannaeyjar þar settar í þeirri framkvæmdaröð, að það var áætlað að þær skyldu síðastar allra kaupstaða landsins komast í samband við raforkuveitur ríkisins eða á árinu 1960. Þessi ráðstöfun var að sjálfsögðu af Vestmanneyingum nokkuð umdeild, og mörgum fannst, að þar væri óháflega seint gert ráð fyrir því, að Vestmannaeyjar yrðu aðnjótandi þess raforkukerfis, sem byggðist á vatnsvinkjunum landsins. Þóttu það vera nokkur rök í málinu, að ástæða væri til að flýta raforku til Vestmannaeyja, að þar var þá mjög í uppbyggingu fiskiðnaður, sem þurfti mikils rafmagns við, auk þess sem staðurinn var stækkandi og aðstaða öll til rafmagnsframleiðslu var þar sú, að ekki varð viðkomið neinu öðru en dísilstöðvum, en á þeim tíma var rafmagn a.m.k. allmiklu dýrara frá slíkum stöðvum en á þeim stöðum var, þar sem samband var við vatnsvirkjanirnar.

Ýmsir gerðu sér reyndar vonir um, að Vestmanneyingar þyrftu ekki eins lengi að bíða eftir því að komast í samband við raforkukerfi ríkisins og þessi áætlun benti til því að strax á árinu 1952, eða áður en út var gefin hin stóra tíu ára áætlun, hafði þm. Vestm. þáv., Jóhann Þ. Jósefsson, fengið á Alþ, samþykkta 10 millj. kr. ábyrgð til handa ríkisstj. til þess að festa kaup á sæstreng til rafleiðslu milli lands og Eyja. En svo liðu árin og þessi heimild var ekki notuð, og Vestmanneyingar urðu að bíða eftir sínum rafstreng. Af Vestmanneyinga hálfu voru gerðar ýmsar ráðstafanir til þess að reyna að flýta málinu. T.d. mun bæjarstjórnin í Vestmannaeyjum nokkurn veginn árlega hafa sent stjórnarvöldum landsins áskorun um að flýta máli þessu. En við það sat, og má kannske segja, að með því að við vorum settir svo seint á áætlun, Vestmanneyingar, sem raun ber vitni, þá var þess ekki mikil von, að við kæmumst í samband við rafveitukerfi ríkisins fyrr en að okkur kæmi í raforkuáætluninni.

En þá er þess næst að geta um framgang þessa máls, að árið 1958, þegar allir kaupstaðir landsins aðrir en Vestmannaeyjar voru þegar tengdir við rafveitukerfi ríkisins, þá var mjög tekið að tala um, að það mundi þurfa að endurskoða framkvæmd raforkuáætlunarinnar og jafnvel fresta einhverjum framkvæmdum af þeim, sem fyrirhugaðar höfðu verið. Á þingi 1953 fluttum við af þessu tilefni, ég og hv. þáv. þm. Vestm., Jóhann Þ. Jósefsson, þáltill. þess efnis, að Alþ. skoraði á stjórnarvöldin að hraða svo sem unnt væri lagningu Vestmanneyjaveitu. Sú till var samþ. hér á Alþingi í aprílmánuði 1958, og taldi ég þá og við flm. báðir, að þar með hefði Alþ. slegið því föstu, að það væri þess vilji, að rafveita til Vestmannaeyja dragist a.m.k. ekki lengur en ráðgert var í raforkuáætluninni.

Árið 1959 birtist svo hér á Alþingi endurskoðuð tíu ára rafvæðingaráætlunin, og þar kom í ljós, að gert var ráð fyrir, að Vestmannaeyjaveita, frá Hvolsvelli til Vestmannaeyja, yrði lögð á árinu 1960, eins og upphaflega hafði verið ráð fyrir gert, og kostnaður við hana áætlaður 12.7 millj. kr. þegar á s.l. vetri áttum við þm. Sunnl. tal saman um þetta mál og fengum þá þær upplýsingar hjá hæstv. núv. raforkumrh., að hann hefði þegar í fyrravetur í sínu húsbóndavaldi yfir raforkumálum þjóðarinnar gefið raforkumálaskrifstofunni fyrirskipun um að festa kaup á sæstreng til Vestmannaeyja, svo fljótt sem verða mætti, og var mjög gefið í skyn, að sá strengur yrði keyptur þá um veturinn. Svo hefur þó ekki orðið, og liggja nú fyrir upplýsingar um, að hvorugt hefur enn skeð, að fest hafa verið kaup á þessum sæstreng, sem leggja átti samkv. raforkuáætluninni s.l. sumar, né heldur, að hreyft hafa verið við þeirri framkvæmd að leiða rafmagn frá Hvolsvelli fram í Landeyjasand, sem er þó annar aðalþátturinn í þessari rafveitu.

Með því að Alþ. hefur sjálft gert ályktun í þessu máli og óskað eftir því, að stjórnarvöld landsins hröðuðu framkvæmd á þessu, og að því er ætla verður þar með slegið því föstu, að það væri ekki í samræmi við þingviljann, að þessar framkvæmdir drægjust fram yfir það, sem áætlun raforkumálastjórnarinnar, sú sem í gildi er, og endurskoðun hennar gerðu ráð fyrir, þykir mér ástæða til þess. að hér á Alþ. komi fram bein svör við því, hvað hér er á seyði, hvers vegna hér hefur dregizt úr hömlu framkvæmd og hvort hér sé um svo alvarlega hluti að ræða, að horfið hafa verið frá þessari framkvæmd, eða yfirleitt hvenær þess sé að vænta að hún komist í framkvæmd. Þess vegna hef ég, ásamt hv. 2. og 4. þm. Sunnl., borið fram þá fsp., sem prentuð er á þskj. 59, þannig orðaða: „Hvað líður lagningu rafstrengs þess til Vestmannaeyja. sem samkv. rafvæðingaráætlunin átti að leggja sumarið 1956?“ Vænti ég þess, að um þetta mál verði gefnar ýtarlegar upplýsingar.