20.10.1960
Sameinað þing: 5. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1119 í D-deild Alþingistíðinda. (3064)

56. mál, rafstrengur til Vestmannaeyja

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Fsp. um þetta mál er sennilega eðlileg, enda þótt ég hafi, eins og hv. fyrirspyrjandi gat um, talað um það í fyrra við hv. fyrirspyrjendur, á hvaða leið þetta mál væri.

Lagning rafstrengs til Vestmannaeyja þarf mikinn tæknilegan undirbúning. Það er fyrsti rafstrengurinn, sem lagður er á svo djúpu vatni eins og er á milli lands og Eyja og þarf að standast þá strauma og áföll, sem af því leiðir að liggja þar. En ég vil rifja hér upp gang þessa máls með því að lesa hér með leyfi hæstv. forseta, bréf, dags. 7. marz, s.1., sem hljóðar svo:

„Eins og yður er kunnugt, herra raforkumálastjóri, var samþ. á Alþ. hinn 16. apríl 1958 svo hljóðandi þingsályktun um rafveitulínu frá Hvolsvelli til Vestmannaeyja.

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að hraða, svo sem unnt er, lagningu rafveitulínu frá Hvolsvelli til Vestmannaeyja, samkv. heimild í lögum nr. 65 1956, sbr. lög nr. 53 1954 og lög nr. 5 1956.“

Með skírskotun til þessarar þál. og viðtals við rafmagnsveitustjóra vill ráðuneytið hér með fela yður að gera ráðstafanir til kaupa á efni til veitunnar og annað til undirbúnings framkvæmdum. Um efniskaup verði haft samráð við ráðuneytið.

Ingólfur Jónsson.

Gunnlaugur Briem.“

Ég hef síðan fylgzt með gangi þessa máls og vitað, að rafmagnsveitustjóri, Eiríkur Briem, hefur unnið mikið að undirbúningi málsins. Hann hefur leitað tilboða hjá ýmsum verksmiðjum og fyrirtækjum, sem líkleg eru til þess að geta útvegað þennan streng, bæði traustan og ódýran, og nú. eftir að fsp. kom fram, bað ég hann um að staðfesta í bréfi til mín, hvað gerzt hefur í þessu máli og á hvaða stigi það er. Eiríkur Briem segir, með leyfi hæstv. forseta

„Með vísun til viðtals við yður, hæstv. ráðh., leyfi ég mér að staðfesta eftirfarandi:

Í nóvemberlok 1959 spurðuð þér mig, hvað liði lagningu Vestmannaeyjaveitu. Ég svaraði því, að tæknilegur undirbúningur veitunnar væri ekki nægilegur og að ekki yrði unnt að leggja hana á árinu 1960.“ — Ég held, að það hafa öllum verið ljóst allt þetta ár og líka í fyrravetur, að það væri ekki unnt að leggja strenginn 1960, vegna þeirra svara, sem Eiríkur Briem gaf, að tæknilegur undirbúningur væri ekki á því stigi og ekki enn vitað, hvaða verksmiðja gæti útvegað strenginn á viðunandi verði. — Eiríkur Briem heldur áfram: „Í framhaldi af þessu og fleiri viðtölum og með vísun til þál. frá 16. apríl 1958 fóluð þér mér með bréfi. dags. 7. marz s.l., að undirbúa framkvæmdir og gera nauðsynlegar ráðstafanir til kaupa á efni. Eins og ég tjáði yður munnlega fyrir nokkru, telja rafmagnsveiturnar tæknilegum undirbúningi veitunnar nú lokið, og er þá eftir að ganga frá kaupum á efni og gera orkusölusamning við rafveitu Vestmannaeyja.“ — Það er eftir að ganga frá kaupum á efni, en öllum tæknilegum undirbúningi er lokið, og nú er vitað, hvar hagkvæmast er að kaupa strenginn. Það mun vera hjá danskri verksmiðju. Eiríkur Briem heldur áfram: „Er nú unnið að þeim málum og sé ég ekki ástæðu til að ætla annað en að unnt verði að leggja sæstrenginn í júlílok næsta sumar, sem er hentugasti tíminn til þessa verks, og að ljúka veitunni þá um haustið.“

Þetta er það, sem Eiríkur Briem rafmagnsveitustjóri segir. Hann telur, að nú sé ekki annað eftir en að ganga frá kaupum hjá ákveðnu dönsku fyrirtæki og að það sé ekkert því til fyrirstöðu að leggja strenginn í júlílok næsta sumar, sem er hentugasti tíminn til þess að vinna þetta verk.