26.10.1960
Sameinað þing: 7. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1122 í D-deild Alþingistíðinda. (3069)

953. mál, virkjunarrannsóknir á vatnasvæðum Hvítár og Þjórsár

Fyrirspyrjandi (Björn Fr. Björnsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér, ásamt þeim hv. 2. þm. Sunnl. og 6. þm. Sunnl., að bera fram á þskj. 59 fsp. til ríkisstj. á þessa leið: „Hvað líður virkjunarrannsóknum á vatnasvæðum Hvítár og Þjórsár?“

Nokkur undanfarin ár mun rannsókn hafa farið fram á vegum raforkumálastjórar ríkisins í þessu efni. Nú er svo komið, að Sogsvirkjuninni í Árnessýslu er að mestu lokið. Raforkulþörfin á Suðurlandi, í Reykjavík og í nágrenni Reykjavíkur vex óðfluga. Dreifingarkerfið stækkar, og hraða verður útaukningu þess. Vestmannaeyjar kalla á raforku úr landi og hafa lengi beðið. Loks kemur það til, að ekki fer á milli mála, að í náinni framtíð verður að hefjast handa í virkjunarmálum í því skyni, að upp rísi iðja og iðnaður í stærri stíl en áður hefur þekkzt á landi hér. Við höfum þegar stigið mikilsverð skref á þeirri braut, þar sem eru t.d. áburðar og sementsverksmiðjurnar. Það er komið í ljós, sem vita mátti fyrir, að þessi framleiðslustarfsemi hefur orðið til ómetanlegs gagns fyrir alþjóð, fært okkur fram efnahagslega, sparað drjúgan erlendan gjaldeyri og aflað beinlínis þess gjaldeyris. Fyrirtækin hafa líka — og það er ekki sízt um vert — styrkt okkur í trúnni á þá möguleika, sem nýta má til hagsældar, ef rétt er að farið og dug og áræði ekki skortir. Það er nokkurn veginn ljóst, að sjávarútvegur og landbúnaður fá vart staðið undir hinni öru fólksfjölgun í landinu. Þar þarf fleira að koma til, ef tryggja skal svo sem bezt má verða, aukinn hag og velmegun landsmanna. Iðja og iðnaður, sem byggir á raforku úrvatnsorkuvirkjunum og hagnýtir sem allra mest innlend efni, hlýtur að koma til hjálpar og verða veigamikill þáttur í þjóðarbúskapnum. Stórvirkjun á Suðurlandi, þar sem vatnsaflið er mest í landi hér, er því mál sem krefst úrlausvar og það fyrr en seinna. Áður þurfa að sjálfsögðu m.a. að eiga sér stað umfangsmiklar rannsóknir, hversu mikið virkjanlegt vatnsafl er til staðar, hvernig háttar virkjunarmöguleikum, hvar aðstaða er álitin bezt eða talin líklegust að vera það o.s.frv. Allt er þetta hið mikilsverðasta rannsóknarefni, sem sérfræðingar munu um skeið hafa haft með höndum. Til þess nú að fá vitneskju um það, á hverju stigi þessar rannsóknir eru, er fsp. fram borin. Hitt er eigi síður mikilvægt úrlausvarefni, með hverjum hætti hagkvæmust yrði notkun hins mikla afls, sem væntanlega má virkja úr þessum nefndu fallvötnum og þá sérstaklega Þjórsá, og þar kemur sjálfsagt margt til og deildar kunna að verða skoðanir um þær leiðir, sem fara á í því efni. Þetta er vandamál sem liggur að vísu fyrir utan þessa fsp., sem hér hefur verið fram borin, en verðurbrennandi spurning, þegar virkjunarrannsóknum er komið það á veg, að segja má nokkurn veginn fyrir um orkuvinnslumöguleika.