02.11.1960
Sameinað þing: 9. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1125 í D-deild Alþingistíðinda. (3074)

76. mál, veðdeild Búnaðarbankans

Fyrirspyrjandi (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. 18. maí s.l. var samþ. hér á Alþingi svo hljóðandi þál., með leyfi forseta:

Alþ. ályktar að skora á ríkisstj. að láta rannsaka fjárþörf veðdeildar Búnaðarbanka Íslands og undirbúa tillögur um, hvernig tryggja megi veðdeildinni starfsgrundvöll, með það fyrir augum, að hún geti gegnt hlutverki sínu fyrir landbúnaðinn á viðhlítandi hátt.“

Í ályktun þessari er fjallað um mjög mikilsvert hagsmunamál fyrir landbúnaðinn. Það er alkunnugt, að veðdeildina hefur skort fjármagn til þess að bæta úr lánsfjárþörf bænda á fullnægjandi hátt. Það hefur engan veginn verið hægt að sinna öllum lánsumsóknum, og lánsumsækjendur hafa oft lengi þurft að bíða afgreiðslu. Hámark lánsfjárhæðar, 35 þús. kr., er einnig orðið allt of lágt nú og fullnægir mönnum því alls ekki. Veðdeildin hefur þó reynt að sinna lánsumsóknum eftir beztu getu og í raun og veru sjálfsagt umfram getu með töku bráðabirgðalána. Tekjustofnar veðdeildarinnar, bæði hluti stóreignaskatts og hluti skyldusparnaðar, hafa ekki reynzt fullnægjandi. Vandræðin, sem stafa af vangetu veðdeildarinnar, eru vaxandi vegna hinnar almennu lánsfjárkreppu í landinu.

Með tilliti til þess, hve hér er um þýðingarmikið og aðkallandi vandamál að ræða, hef ég leyft mér að beina til landbrh. fyrirspurninni á þskj. 84, varðandi framkvæmd áðurnefndrar þál. En fsp. er á þessa lund : „Hvað líður framkvæmd þál. frá 18, maí 1960, um ráðstafanir til að tryggja starfsgrundvöll veðdeildar Búnaðarbankans?“ Þarf ekki um hana frekari skýringar.