02.11.1960
Sameinað þing: 9. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1128 í D-deild Alþingistíðinda. (3076)

76. mál, veðdeild Búnaðarbankans

Fyrirspyrjandi (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Ég vil þakka ráðh. fyrir hreinskilið svar og ýmsar gagnlegar upplýsingar, sem hann gaf hér í sambandi við þetta mál. Það er að vísu rétt, að það er ekki svo ýkja langur tími liðinn, síðan þessi till. var samþykkt, að í því er nokkur afsökun fólgin fyrir því að hafa ekki hafizt handa þegar um framkvæmd hennar. En í því sambandi vil ég þó minna á það, að þegar þessi till. var afgreidd hér á þingi, var flutt við hana brtt. frá hv. 1. þm. Norðurl. v., Skúla Guðmundssyni, og hún var á þá lund, að við tillgr. bættist svo hljóðandi viðauki, með leyfi forseta: „Enn fremur ályktar þingið að skora á ríkisstj. að útvega veðdeildinni nú þegar nokkra fjárhæð, til þess að unnt sé að bæta úr brýnustu þörfum.“ Þessi viðaukatillaga var felld, og ég fyrir mitt leyti a.m.k. lagði þann skilning í þá afgreiðslu hjá þeim hv. þm., sem greiddu atkv. gegn þessari viðaukatillögu, að þeir gerðu ráð fyrir því, að ríkisstj. mundi bregða svo snöggt við um framkvæmd þáltill., að þess gerðist ekki þörf að samþykkja þessa viðaukatillögu.

Eins og ég sagði áðan, komu nú fram hjá hæstv. ráðh. ýmsar gagnlegar upplýsingar í þessu máll. Hans upplýsíngar báru því vitni, sem reyndar var vitað, að veðdeildin á við erfiðan fjárhag að búa og það verður að gera sérstakar ráðstafanir til þess að greiða úr þeim erfiðleikum, þar sem hann upplýsti, að veðdeildin skuldaði nú yfir 19 millj. kr. En ef ég hef skilið ráðh. rétt, þá lýsti hann því þó yfir, að ríkisstj. hefði samþykkt það fyrir sitt leyti að greiða til veðdeildarinnar 3 millj. kr. Og ég vil þá vænta þess, að það verði gert á næstunni, og eftir upplýsíngum ráðh. gæti veðdeildin að fengnum þessum 3 millj. kr. lánað út nú á þessu ári um 6 millj. kr. án þess að auka skuldir sínar fram yfir það, sem áður hefur verið. Þó að þetta sé að vísu hvergi nærri fullnægjandi, þá vildi ég fyrir mitt leyti leyfa mér að mælast til þess og vænta þess, að það yrði gerð gangskör að því að veita þessi lán nú á næstunni því að það er liðið talsvert á árið 1960 og það eru areiðanlega margir búnir að bíða nokkuð lengi eftir afgreiðslu. Það er að vísu sjálfsagt nokkur fróun í því fyrir suma að vita, að mál þetta sé í athugun hjá ríkisstj. ásamt öðrum lánamálum landbúnaðarins, en samt sem áður verð ég að telja., að það sé full nauðsyn að fylgja þessari þál. fast eftir og gera gangskör að því að gera ráðstafanir til þess að tryggja framtíðarhag veðdeildarinnar, svo að hún geti sinnt sínu hlutverki á viðhlítandi hátt.