23.11.1960
Sameinað þing: 18. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1137 í D-deild Alþingistíðinda. (3091)

900. mál, niðursuða sjávarafurða á Siglufirði

Fyrirspyrjandi (Gunnar Jóhannsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. sjútvmrh. gefvar upplýsingar. Það kemur þar í ljós, að þær eru mjög takmarkaðar, þær upplýsingar, sem hann getur gefið, og liggur það meðal annars í því, að sú nefnd, sem falið var að rannsaka þetta, hefur skilað áliti svo seint. Væntum við þess, að hæstv. ráðh. tali þessu máli áfram, því að eins og ég sagði áðan, þá er þetta mál mjög mikið á dagskrá heima í okkar héraði, og eins og atvinnuástandi er þar háttað, þá er engum vafa undirorpið, að það mundi stórlega bæta úr, ef þar væri reist myndarleg niðursuðuverksmiðja.

Ég hef nýlega átt tal við menn, sem þessu eru mjög kunnugir, og seinast í morgun rætt við mann, sem hefur svolitið með niðursuðu að gera, og hann fullyrðir við mig, að það séu miklir möguleikar einmitt á sölu slíkra afurða, bæði í Vestur- og Austur-Evrópu, og það mun velta mjög mikið á því, hvort hægt er að selja þessar afurðir, hvaða afstöðu hæstv. ríkisstj. tekur til þeirra viðskipta, sem við höfum haft við AusturEvrópulöndin. Það er vitað, að bæði Austur-Þjóðverjar og Tékkar og fleiri þjóðir hafa mikinn áhuga á því að kaupa niðursuðuvörur héðan. Það er líka vitað, að það hráefni, sem Norðurlandssíldin er það er eitthvert bezta hráefni, sem hægt er að fá til slíkrar framleiðslu. Einmitt norðlenzka síldin er eitt allra bezta hráefni til niðursuðu. Hingað til hefur þetta verið flutt út að mestu leyti óunnið. Við seljum síld í tugum þúsunda tunna bæði til Svíþjóðar og Finnlands, sem er svo lögð niður í dósir og send út um allan heim. Við höfum leyft okkur það undanfarin ár að selja þessa framleiðslu út úr landinu sem óunnin matvæli, en allar líkur benda til, að við getum unnið hana sjálfir sem fullunnin matvæli, sem væri svo hægt að selja á borð húsmæðranna í viðkomandi löndum, sem vörurnar keyptu.

Ég tel, að niðursuðumálið yfirleitt sé eitthvert allra þýðingarmesta mál fyrir sjávarútveginn nú, eins og sakir standa, og ég vil ítreka þá ósk mína til hæstv. ráðh., að hann haldi þessu máli áfram og vinni að því, eftir því sem hægt er. Hér er um stórkostlegt hagsmunamál að ræða, ekki eingöngu fyrir Siglfirðinga, heldur fyrir þjóðina alla. Ég hef þá trú, að hæstv. ráðh. séu mér sammála um, að nauðsyn beri til að breyta til um þær verkunaraðferðir, sem hingað til hafa gilt í síldariðnaðinum, og önnur leið mun ekki vera handnægari til breytingar en sú að koma upp mjög öflugum niðursuðu- og niðurlagningariðnaði, bæði á Siglufirði og annars staðar. Slíkt mál sem þetta þolir enga bið. Þjóðarhagsmunir krefjast þess, að niðursuða og niðurlagning á síld sé hrundið í framkvæmd nú þegar eða svo fljótt sem ástæður leyfa.