13.12.1960
Neðri deild: 36. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 473 í B-deild Alþingistíðinda. (310)

134. mál, efnahagsmál

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Þetta frv. til l. um breyt. á l. nr. 4 20. febr. 1960, um efnahagsmál, felur í sér tvö meginatriði. Annað er það, að útflutningsskatturinn, sem ákveðinn var í lögunum um efnahagsmál. skuli felldur niður frá 1. jan. n.k. af þeirri framleiðslu, sem unnin er á árinu 1961 og síðar. Í öðru lagi eru í frv. ákvæði um það, hvernig með skuli fara það fé, sem afgangs verður í útflutningssjóði, þegar hlutverki hans sem slíks er lokið.

Það var tvennt líka, sem vakti fyrir með setningu laganna um þennan útflutningsskatt, þegar hann var ákveðinn með efnahagsmálalögunum. Í fyrsta lagi var það að fá inn í efnahagskerfið nokkurs konar öryggisventil, sem grípa mætti til, ef erfiðleikar steðjuðu að atvinnuvegunum, og var það, að ég verð að segja, fyrst og fremst vegna þess, að gengisbreytingin, sem ákveðin var, var ákveðin eins lítil og frekast var hægt að gera sér vonir um að mundi duga. Þess vegna var það ekki óeðlilegt, að menn gætu hugsað sér þann möguleika, að sitthvað kynni að geta komið fyrir, sem torveldaði framkvæmdina á þessum grundvelli, svo sem aflabrestur, markaðserfiðleikar, hækkaðir gjaldaliðir eða annað af þessu tagi, sem gerði það örðugra fyrir atvinnureksturinn að ná endunum saman. Þess vegna var það hugsunin að fella þennan skatt niður að meira eða minna leyti, ef eitthvað slíkt steðjaði að.

Hitt atriðið, sem haft var í huga, þegar skatturinn var settur, var það, að honum var ætlað það hlutverk að ganga til greiðslu á þeim hala, sem útflutningssjóðurinn hafði dregið á eftir sér að undanförnu og sýnt var að þurfti að mæta með einhverju móti. Þessi hali útflutningssjóðs var bættur í fyrsta lagi með gengishagnaði af þeirri vöru, sem framleidd var fyrir gildistöku efnahagslaganna, en flutt út eftir gildistökuna, og síðan með þessum skatti.

Þegar kom fram á árið, sem nú er að líða, árið 1960, kom það í ljós, að erfiðleikar mundu vera þegar fyrir útgerðina að ná endunum saman með 5% skattinum, og var þá borin fram sú ósk af útgerðarmanna hálfu, að skattinum yrði breytt, að hann yrði lækkaður í 21/2%, en látinn gilda þeim mun lengur, sem þyrfti til þess að útflutningssjóður gæti innt af hendi sínar skuldbindingar. Og með góðu samkomulagi var þessi skattur þá lækkaður úr 5% niður í 21/2%. Nú hefur það hins vegar komið í ljós, að hagur útflutningssjóðs er allmiklu betri en menn ætluðu að hann mundi verða, og sýnilegt, að í honum verða eftir allháar upphæðir, þegar hann hefur innt af hendi sínar skuldbindingar.

Um fyrri breytinguna, sem í frv. felst, afnám skattsins, skal ég taka það fram að þegar hafa að útgerðinni steðjað svo miklir örðugleikar, að það er sýnt, að það verður að grípa til þessara ráða, sem gert var ráð fyrir í upphafi, að nema skattinn algerlega úr gildi við næstu áramót, og er það þess vegna gert í frv. Hins vegar hefur það orðið að ráði að halda áfram innheimtu á skattinum eftir næstu áramót af framleiðsluvöru ársins 1960, en afnema hann á þeirri vöru, sem framleidd verður á árinu 1961. Ástæðan til þess, að haldið er skattinum á framleiðsluvörum ársins 1960, er í fyrsta lagi sú, að hráefnisverðið til fiskvinnslustöðvanna á árinu 1960 hefur verið miðað við það, að þessi skattur væri tekinn af útflutningnum, og eru útvegsmennirnir þess vegna, að segja má, á víssan hátt búnir að borga þennan skatt fyrir sitt leyti af ársframleiðslunni 1960 og þess vegna óeðlilegt, að hann verði felldur niður á birgðunum, sem enn eru til í landinu frá þessu ári. Önnur ástæða til þess, að þetta er gert, er sú, að það hefur orðið að ráði í ríkisstjórninni að leggja til, að það, sem afgangs kynni að verða í útflutningssjóði, yrði notað í þágu þeirra atvinnuvega, sem lagt hafa fé í sjóðinn, og þá það fé, sem sjávarútvegurinn hefur lagt fram, notað í samráði við forsvarsmenn sjávarútvegsins. Þeir hafa aftur óskað þess, að þetta fé væri notað til greiðslu vátryggingariðgjalda ársins 1960. Og þar sem nokkuð getur orkað tvímælis, hvort það, sem eftir verður í sjóðnum, nægi til að greiða að fullu þessi vátryggingariðgjöld, hefur þess verið óskað af útgerðarmönnum, að þessum greiðslum yrði haldið áfram af allri framleiðslu ársins 1960, til þess að komast eins nærri því og mögulegt er að fá upp í vátryggingariðgjöldin. En ríkisstjórnin hefur aldrei léð máls á því að láta af hendi annað eða meira fé í þessu skyni en það, sem verður afgangs í sjóðnum.

Þetta afgangsfé útflutningssjóðs er vitaskuld að langmestu leyti til orðið af framlögum sjávarútvegsins. En þó eru nokkrar millj., eða nánar tiltekið rétt um 4 millj., sem runnið hafa í sjóðinn sem útflutningsskattur af landbúnaðarafurðum, og er auðvitað gert ráð fyrir því, að þeirri upphæð verði varið í þágu þess atvinnuvegar, en verði ekki látin renna til sjávarútvegsins eða hans þarfa í einu eða neinu formi.

Sem sagt, ríkisstj. leggur til, að heimilað verði að nota þetta fé, sem eftir kann að verða í útflutningssjóðnum, til þess að aðstoða þá atvinnuvegi, sem lagt hafa fram féð, og því ráðstafað í þágu þeirra. Ég ætla, að málið liggi svo ljóst fyrir, að ég þurfi ekki að hafa um það fleiri orð. En ég vildi leyfa mér einnig í tilefni af flutningi þess að óska eftir því við þá nefnd, sem það fær til athugunar, að því yrði hraðað eins og kostur er, til þess að unnt verði að afgreiða málið fyrir jólafrí og það geti komið til framkvæmda fyrir eða um áramótin.

Ég leyfi mér svo að leggja til, herra forseti, að málinu verði vísað að umr. lokinni til hv. fjhn.