30.11.1960
Sameinað þing: 20. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1140 í D-deild Alþingistíðinda. (3102)

901. mál, rannsóknarmál ríkisins

Fyrirspyrjandi (Pétur Sigurðsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram fsp., sem hljóðar á þessa leið: „Hvað líður framkvæmd þál. frá 31. maí 1957 um athugun á stofnun lífeyrissjóðs fyrir sjómenn, verkamenn, bændur og útvegsmenn og aðra þá, sem ekki njóta lífeyristryggingar hjá sérstökum lífeyrissjóðum?“

Ég geri þetta af sérstöku tilefni. Þannig er mál með vexti, að stærstu samtök sjómanna hér á landi hafa farið fram á breyt. á l. um lífeyrissjóð togarasjómanna, þannig að allir starfandi sjómenn eigi aðgang að þessum sjóði. Hæstv. núv. félmrh. mun hafa skipað n. fyrir rúmu ári til þess að fjalla um þetta mál. en n. þessi klofnaði, þannig að í minni hl. lentu fulltrúar sjómannasamtakanna, sem halda fast við þessa ósk sína, en meiri hl., sem mun vera skipaður fulltrúum útgerðarmanna og Tryggingastofnunarinnar, mun hafa verið á annarri skoðun.

Ég geri mér fyllilega grein fyrir því, að þarna eru mörg ljón á veginum, og þess vegna hef ég borið fram þessa fsp., vegna þess að í sambandi við þessa þál. var skipuð n., sem átti að rannsaka, hvaða leiðir væru færar til að koma þessum sameiginlega lífeyrissjóði á stofn. Ég hef og borið hana fram vegna þess, að það hafa heyrzt mjög sterkar raddir nú upp á síðkastið frá samtökum launþega um stofnun lífeyrissjóðs fyrir launþega almennt.