30.11.1960
Sameinað þing: 20. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1142 í D-deild Alþingistíðinda. (3109)

902. mál, stofun lífeyrissjóðs fyrir sjómenn, verkamenn, bændur o.fl.

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Hinn 20. apríl 1955 samþ. Alþingi nál. um kosningu mþn. til að gera till. um nýjar atvinnugreinar og hagnýtingu náttúruauðæfa. Hefur n. þessi síðan verið kölluð atvinnumálanefnd ríkisins. Í n. voru kjörnir þessir menn: Davíð Ólafsson fiskimálastjóri, Eggert G. Þorsteinsson alþm., Einar Olgeirsson alþm., Hermann Jónasson alþm., Jóhann Jakobsson efnafræðingur, Magnús Jónsson alþm. og Vilhjálmur Þór bankastjóri. Formaður n. var kjörinn Hermann Jónasson, en eftir að hann varð forsrh. 1956, tók Vilhjálmur Þór við formennsku.

Í fyrstu var Þorbjörn Sigurgeirsson eðlisfræðingur, framkvæmdastjóri rannsóknanáðs ríkisins, framkvæmdastjóri n., en þegar hann var skipaður prófessor við háskólann. en Steingrímur Hermannsson verkfræðingur ráðinn eftirmaður hans, tók hann einnig við framkvæmdastjórastörfum fyrir nefndina.

Í þál. var þessari n. enn fremur falið að gera tillögur um, hvernig bezt væri til frambúðar skipulögð og samræmd starfsemi þeirra rannsóknarstofnana, sem nú vinna að rannsóknum á náttúruauðafum landsins, og leitað úrræða til að auka og endurbæta afköst í ýmsum atvinnugreinum. Skyldi n. einnig endurskoða gildandi lagaákvæði um þessar stofnanir.

Í apríl s.l. lauk n. við samningu frv. til laga um rannsóknir í þágu atvinnuveganna, og skyldi það frv. koma í stað núgildandi laga um rannsóknaráð ríkisins, atvinnudeild háskólans og landbúnaðarrannsóknir, sem eru frá árinu 1940. Allir nm. nema einn stóðu að samningu frv. Einn þeirra, Einar Olgeirsson, lýsti sig því hins vegar andvígan. Einn nm., Eggert G. Þorsteinsson, hafði og fyrirvara, sem laut að því, að hann óskaði eftir aðild verkalýðssamtaka að stjórn hinna ýmsu rannsóknarstofnana, og kvað sig fúsan til að samþykkja hliðstæða aðild vinnuveitendasamtakanna að henni, en um það varð ekki samkomulag í nefndinni.

Þetta frv. er allmikill lagabálkur í 56 gr. og gerir ráð fyrir gagngerri endurskipulagningu á rannsóknarmálum á Íslandi. Það hefur verið í athugun síðan í apríl hjá ríkisstj. Þeirri athugun er ekki lokið enn að fullu. Ríkisstj. er hins vegar þeirrar skoðunar, að brýna nauðsyn beri til að endurskipuleggja rannsóknarmál þjóðarinnar. m.a. með nýrri lagasetningu. Hún mun, jafnskjótt og athugun hennar í málinu er lokið, leggja frv. um nýskipan rannsókna í þágu atvinnuveganna fyrir hið háa Alþingi.

Í frv. n. er gert ráð fyrir fimm stofnunum, þ.e.a.s. rannsóknaráði ríkisins, rannsóknarstofnun byggingariðnaðarins, rannsóknarstofnun iðnaðarins, rannsóknarstofnun landbúnaðarins og rannsóknarstofnun sjávarútvegsins. Gert er ráð fyrir mjög verulegri breytingu á skipun rannsóknaráðs í stað þriggja manna ráðs, sem valið sé af stærstu flokkum Alþingis, er gert ráð fyrir 17 manna rannsóknaráði undir forsæti forsrh. eða annars ráðh., sem hann tilnefni. En auk þess eiga þar sæti 5 alþm., kosnir af Alþingi, 5 fulltrúar atvinnuveganna og framkvæmdalífsins og 6 fulltrúar rannsóknarstofnananna. Gert er ráð fyrir, að rannsóknarstofnanirnar séu undir yfirstjórn hlutaðeigandi ráðh., en stjórn þeirra að öðru leyti í tengslum við þá atvinnugrein, sem hverri er ætlað að þjóna.

N. hefur gert sér ljóst, að þótt endurbætur á skipulagi rannsóknarmálanna séu að sjálfsögðu mikilvægar, er hitt þó enn mikilvægara, að aukið fé sé veitt til rannsóknarstarfseminnar. Þótt í frv. séu ekki ákvæði, sem feli í sér auknar fjárveitingar eða nýja tekjuöflun til rannsóknarstarfseminnar, er gert ráð fyrir því í frv., að tekjur hinna einstöku rannsóknarstofnana verði meiri en þær fjárveitingar, sem veittar eru á fjárl., og er fyrst og fremst gert ráð fyrir álagi á framleiðsluvörur þeirra atvinnugreina, sem hlutaðeigandi stofnanir eiga fyrst og fremst að þjóna.

Það getur ekki leikið á tveim tungum, að brýna nauðsyn ber til þess að endurbæta skipulag rannsóknarmálanna. Hitt er þó enn mikilvægara, að auka rannsóknarstarfsemina sjálfa, en það verður að sjálfsögðu ekki gert án þess að nota til hennar aukið fé. Fyrir skömmu var í blöðum og útvarpi skýrt frá rannsókn, sem rannsóknaráð ríkisins hefur látið framkvæma á fé því, sem hér á landi er varið til rannsókna, og var það borið saman við þær upphæðir, sem varið er í slíku skyni í ýmsum öðrum löndum, í hlutfalli við þjóðarframleiðsla. Var niðurstaðan sú, að Íslendingar stæðu öðrum þjóðum langt að baki í þessum efnum. Mér þykir rétt að nota þetta tækifæri til þess að gera nokkrar aths. í sambandi við þessa staðhæfingu og skýra hinu háa Alþingi frá staðreyndum, sem vissulega eru ekki síður mikilvægar en þær, sem margundirstrikaðar hafa verið í blöðum undanfarið í framhaldi af skýrslu rannsóknaráðs og eru að ýmsu leyti ekki fallnar til þess að auka hróður Íslendinga meðal annarra þjóða.

Í fyrsta lagi væri það að sjálfsögðu ekki undarlegt. þótt Íslendingar stæðu að baki nágrannaþjóðum sínum og þó einkum iðnaðarþjóðunum í þessum efnum. Hér á Íslandi hefur á rúmri hálfri öld verið byggt upp frá grunni nútímaþjóðfélag. Lífskjör eru hér orðin sambærileg því, sem gerist í nálægum löndum. Framfarir hafa líklega orðið hér örari en dæmi eru um annars staðar á jafnskömmum tíma á þessari öld. Það er því í sjálfu sér ekki undarlegt, þátt einhver svið í uppbyggingu nútímaþjóðfélags séu ekki orðin það, sem þau ættu að vera, og sambærileg því, sem á sér stað hjá öðrum þjóðum.

Í öðru lagi er þess að geta, að allur samanburður við önnur lönd í þessum efnum er mjög varhugaverður vegna ólíkra aðstæðna, hugsanlegrar ónákvæmni í skýrslugerð og ósambærilegra upplýsinga. Mér dettur í hug, að samtímis því, sem rannsóknaráð ríkisins sendir frá sér skýrslu um, að Íslendingar standi öllum öðrum þjóðum langt að baki í rannsóknarmálum, sendir Menningar- og vísindastofnun Sameinuðu Þjóðanna, UNESCO, frá sér alþjóðlega skýrslu um framlög einstakra þjóða til fræðslumála á mann. Röð 10 efstu þjóðanna er þessi: Sovétríkin, Bandaríkin, Kanada, Ísland, Noregur, Belgía, Bretland, Frakkland, Danmörk og Þýzkaland. Einhver mundi nú eflaust segja, að verið gæti, að hvorugar upplýsingarnar væru fullkomlega nákvæmar eða ef þær væru réttar, eigi skýringin á því, að við Íslendingar höfum ekki enn gert allt það, sem við viljum gera í rannsóknarmálum, rót sína að rekja til þess, hversu mikið við höfum verið að gera á skyldu sviði, þ.e.a.s. í fræðslumálunum.

Í þriðja lagi, — og það er einkum það atriði, sem ég vill leggja áherzlu á og skýra hinu háa Alþingi frá, — er það svo, að upplýsingar um, að hér á landi sé hlutfallslega minna fé varið til rannsóknarstarfa en í nálægum löndum, gætu valdið misskilningi, ef ekki eru látnar fylgja sérstakar skýringar og þær undirstrikaðar jafnsterklega og sjálf meginstaðreyndin. Sú staðreynd, sem mestu máli skiptir um ástand rannsóknarmála hér á landi nú, er sú, að íslenzkir atvinnuvegir, íslenzk fyrirtæki verja hér nær engu fé til rannsókna, þegar frá er skilið útflutningsgjald á sjávarafurðum, sem varið hefur verið til rannsókna í þágu sjávarútvegsins. Þessi staðreynd er meginskýringin á því, að fé það í heild, sem varið er til rannsóknarmála, er hér hlutfallslega minna en í nálægum löndum. Langmestur hluti þess fjár, sem hér er varið til rannsókna, er frá ríkisvaldinu. Þessa er að vísu getið í skýrslu rannsóknaráðs, en ekki lögð á það sú áherzla, sem vera ber. Það er m.ö.o. ekki undirstrikað svo sem vert væri, að það, sem fyrst og fremst vantar, eru stóraukin framlög frá íslenzkum atvinnuvegum til rannsókna í þágu þeirra sjálfra. Þá yrði og hægara um vik að auka fjárveitingar af hálfu hins opinbera til þessara þarfa, svo sem ég tel mjög æskilegt.

Til þess að sýna, hver hlutur ríkisvaldsins hefur verið í þessum málum, hef ég látið taka saman skýrslu um fjárveitingar á fjárlögum til rannsóknarmála síðan í stríðslok. Ég mun ekki rekja þá skýrslu í einstökum atriðum, heldur aðeins skýra frá nokkrum niðurstöðum. Heildarútgjöld til rannsóknarmála voru 1945 1.9 millj., 1955 18.3 millj. og 1960 48.2 millj. Það er um að ræða 25-földun síðan í stríðslok. Til almennra rannsókna hefur verið varið sem hér segir: 1945 0.2 millj., 1955 0.9 millj., 1960 3.5 millj. Um er að ræða 23-földun. Til rannsókna í þágu sjávarútvegsins: 1945 1/2 millj., 1955 6.1 millj., 1960 17.6 millj. Þar er um að ræða 35-földun síðan í stríðslok. Rannsóknir í þágu landbúnaðarins: 1945 0.5 millj., 1955 5.9 millj.. 1960 9.9 millj. 19-földun. Rannsóknir í þágu iðnaðarmála: 1945 0.2 millj., 1955 1.4 millj., 1960 2.7 millj. 27-földun. Orkumál: 1945 ekki neitt, 1946 0.7 millj., 1955 2.5 millj., 1960 11.9 millj. Um það bil 118-földun. Læknisfræði: 1945 0.5 millj., 1955 1.6 millj., 1960 2.7 millj. Um það bil 6-földun. Hér verður að sjálfsögðu að taka tillit til verðlagsbreytinga. Einkum hefur kaupgjald breytzt mjög verulega, en kaupgjald er stærsti kostnaðarliðurinn í þessum tölum. Þess vegna hef ég látið umreikna kaupgjaldsliðina til núgildandi kaupgjalds. Niðurstaðan verður þá þessi: Til almennra rannsókna: 1945 151 þús., 1955 422 þús., 1960 906 þús. Sexföldun miðað við óbreytt kaup. Rannsóknir 4 sjávarútvegi: 633 þús. 1945, 1955 1 millj. 415 þús., 1960 1 millj. 952 þús. Þreföldun. Rannsóknir í landbúnaði: 1945 490 þús., 1955 1 millj. 550 þús., 1960 2 millj. 348 þús. Fimmföldun. Rannsóknir í iðnaði: 1945 518 þús., 1955 1 millj. 29 þús., 1960 1 millj. 494 þús. Þreföldun. Orkurannsóknir: ekkert 1945, 1955 203 þús., 1960 275 þús. Rannsóknir í læknisfræði: 1945 785 þús., 1955 968 þús., 1960 1 millj. 586 þús. Heildarframlög til rannsóknarstarfsemi, launakostnaðurinn: 1945 2 millj. 577 þús., 1955 5 millj. 588 þús., 1960 8 millj. 560 þús. Um það bil þrefaldað.

Af þessum tölum er ljóst, að ríkisvaldið hefur aukið framlag sitt til rannsóknarmála mjög verulega eftir stríð, þótt ég vilji engan veginn segja, að þar hafi verið nóg að gert. Aftur á móti er ástæða til að skýra frá því einnig og undirstrika, að deildir atvinnudeildar háskólans hafa tekið við öllum sérfræðingum, hver á sínu sviði, sem á annað borð hafa verið falir til starfa, jafnharðan og þeir hafa lokið námi, og að þeim hefur einatt verið veitt leyfi frá störfum á talsverðum hluta launa til þess að ljúka framhaldsnámi. Má því segja, að aukning rannsóknarsbarfanna hafi a.m.k. einnig takmarkazt af skorti á sérfræðingum, en ekki eingöngu af fjárveitingum hins opinbera.

Meginatriði þessa máls og það, sem ég vildi sérstaklega undirstrika, er, að það, sem einkum skortir nú hér á landi til eflingar rannsóknarmálanna, eru framlög íslenzkra atvinnuvega sjálfra til rannsóknarmálanna, til jafns við það eða eitthvað í áttina við það, sem tíðkast með öðrum þjóðum. Það er á þessu sviði, sem Íslendingar eru sérstaklega eftirbátar annarra þjóða, en ekki hvað snertir framlög ríkisvaldsins til þessara mála. Með þessu er ég þó ekki að segja, að þau framlög eigi ekki og verði ekki að auka. Mér er þetta þvert á móti kærkomið tilefni til að lýsa því yfir, að ég tel framlög hins opinbera til rannsóknarmála eiga að aukast frá því, sem nú er. Í ríkisstj. er fullur skilningur á þessu máli svo sem m.a. kemur fram í því, að á fjárlagafrv. fyrir 1961, sem Alþ. er elnmitt nú að fjalla um, er m.a. 900 þús. kr. ný fjárveiting til eðlisfræðistofnunar háskólans, til sérstakra rannsókna, sem auk þess hefur fengizt fé til frá Alþjóðakjarnorkumálastofnuninni í Vín. Rannsóknarmálin í heild eru til athugunar hjá ríkisstj., og ég segi það aftur, að ríkisstj. er ljós nauðsyn þess að efla íslenzkar rannsóknir í þágu atvinnuveganna.