25.01.1961
Sameinað þing: 34. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1148 í D-deild Alþingistíðinda. (3119)

154. mál, framlag frá Bandaríkjunum

Fyrirspyrjandi (Eysteinn Jónsson):

Það er engum blöðum um það að fletta, að það nefur orðið stórfelld uppbygging og miklar framfarir hér í landinu á síðustu áratugum, og þeirri uppbyggingu verður að halda áfram. Á þeim fáu mínútum, sem ég hef til að tala fyrir þessari fsp., verður ekki gerð mikil grein fyrir ýmsum möguleikum, sem eru á því að byggja upp íslenzkt atvinnulíf, en höfuðáherzlu ber auðvitað að leggja á, að það verði sem fjölbreyttast.

Alls staðar blasa möguleikarnir við, og má nefna í því sambandi t.d. framleiðslu fjölbreytilegra sjávarafurða, sem fluttar verði út tilbúnar til neyzlu, aukinn landbúnað og margvíslega vinnslu úr framleiðsluvörum landbúnaðarins, bæði til neyzlu innanlands og útflutnings. Þá má nefna fóðurbætisframleiðslu, fiskrækt, hagnýtingu jarðhita, etnaiðnað, vinnslu byggingarefna, skipa- og bátabyggingar og margvíslegan iðnað annan, sem jöfnum höndum byggist á góðri verkmenningu og nægilegri orku, en undirstaðan er að sjálfsögðu hagnýting sjálfra orkulindanna. Í þessum greinum eru verkefnin nánast áþrjótandi, sem eiga að geta orðið undirstaða að áframhaldandi framförum og nægilegri atvinnu allra, sem búa hér á landinu, um ófyrirsjáanlega framtíð. Standa Íslendingar alveg óvenjulega vel að vígi í þessu tilliti, þegar litið er til hinna mörgu ónotuðu möguleika.

Til þess að vel fari í þessum stórmálum og allir möguleikar nýtist svo sem hægt er, veltur á miklu, hvaða verkefni eru látin sitja fyrir stuðningi ríkisvaldsins og sitja fyrir því fé, sem til umráða er, hvort sem það er eigið fé eða fengið erlendis frá.

Það er sérstaklega þýðingarmikið, að það fé, sem fæst erlendis frá, verði ekki að eyðslueyri, heldur gangi til framkvæmda, sem verði undirstaða velmegunar í framtíðinni. Mótvirðisfé vegna gjafa frá Bandaríkjunum, á meðan Marshallaðstoðin stóð var að mestu lagt til Framkvæmdabankans og er lánað þaðan til fjárfestingarlána í margar aðkallandi framkvæmdir, og er þetta fjármagn þegar orðið undirstaða mikilla framfara í landinu og verður framvegis aftur og aftur, jafnóðum og féð innheimtist og er lánað út aftur. Þannig þarf þetta að verða um sem allra mest af því fé, sem þjóðinni áskotnast, að það geti orðið undirstaða framkvæmda og framfara, en verði ekki að eyðslueyri.

Nú hefur komið tilkynning um, að Bandaríkjamenn hafi lagt fram 6 milljón dollara gjafafé, sem mundi samsvara sem allra næst 230 millj. ísl. kr., og hefur þá vaknað sú spurning hjá mörgum, eins og eðlilegt er, hvað hyggilegt muni vera að gera við mótvirðisfé þessarar fjárhæðar, sem kemur til með að safnast hér fyrir. Ég vil mega vona, að þetta fé geti orðið hér til ráðstöfunar á hliðstæðan hátt og annað mótvirðisfé hefur verið. Þessi fsp. lýtur að meðferðinni á þessu mótvirðisfé, þessum um það bil 230 millj. íslenzku kr. með núverandi gengi, sem ættu að verða til ráðstöfunar á næstunni, jafnóðum og þetta fé kemur inn í landið. Fsp. er því þannig: „Til hvers er ætlunin að verja mótvirði þeirra 6 millj. dollara, sem Bandaríkjastjórn lætur Íslandi í té samkv. tilkynningu ríkisstj., dags. 30. des. 1960?“