13.12.1960
Neðri deild: 36. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 481 í B-deild Alþingistíðinda. (312)

134. mál, efnahagsmál

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Eins og hér hefur verið skýrt frá, er hér um tvö efnisatriði að ræða í þessu frv. Annars vegar það að ákveða að fella niður 21/2% útflutningsskattinn á framleiðslu næsta árs; en samkvæmt lögum átti að innheimta þennan 21/2% útflutningsskatt um óákveðinn tíma. Hitt atriðið er svo það, að verja megi eftirstöðvum útflutningssjóðs til greiðslu á vátryggingariðgjöldum fiskiskipaflotans fyrir yfirstandandi ár.

Þetta frv. gefur að mörgu leyti tilefni til þess að rifja nokkuð upp það, sem gerzt hefur áður í þessum málum varðandi uppgjör útflutningssjóðs og greiðslur á vátryggingariðgjöldum. Ég vil fyrst víkja hér nokkrum orðum að greiðslu vátryggingariðgjalda og því, sem fram hefur komið í þeim efnum.

Á aðalfundi Landssambands ísl. útvegsmanna, sem hér hófst í Reykjavík 10. nóv. s.l., komu fram mjög ákveðnar. kröfur um það af hálfu útvegsmanna að krefjast þess, að ríkið sæi um greiðslu á vátryggingariðgjöldum fiskiskipa fyrir yfirstandandi ár vegna hinnar mjög svo lélegu afkomu hjá útgerðinni. Á þessum fundi var því lýst yfir; að ríkisstj. hefði heitið því að sjá um greiðslu á vátryggingariðgjöldum flotans fyrir árið 1960. Fyrr á fundinum hafði hæstv. sjútvmrh. upplýst í ræðu, að telja mætti öruggt, að eftirstöðvar í útflutningssjóði mundu verða um 40 millj. kr., þegar hann hefð. greitt sína síðustu greiðslu. Þessi ummæli hæstv. ráðh. voru svo birt í báðum stjórnarblöðunum mjög greinilega, svo að það fór ekki á milli mála, hvað hæstv. ráðh. hafði sagt í þessum efnum. Þegar þessi mál voru rædd á fundi Landssambandsins, kom fyrst fram loforð frá ríkisstj. um það, að hún héti því, að eftirstöðvarnar í útflutningssjóði yrðu notaðar til þess að greiða vátryggingariðgjöld ársins 1960. En útvegsmönnum þótti þetta ekki nóg, og vegna þess var tekið sérstakt fundarhlé á þessum fundi og sérstök n. manna send á fund ríkisstj. með kröfu um það að fá skýlausa yfirlýsingu um, að vátryggingariðgjöldin fyrir árið 1960 yrðu öll greidd, og þrír menn komu síðan með mjög ákveðin skilaboð, sem þeir þuldu upp á fundinum til þess að sætta fundarmenn á það í sambandi við þeirra kröfur, að ríkisstj, hefði lofað því að sjá um, að útflutningssjóður greiddi iðgjöldin að öllu leyti fyrir árið 1960. Þegar á það var bent á fundinum, að hæstv. sjútvmrh. hefði sagt í ræðu sinni á landssambandsfundinum, að það væri ekki að búast við nema kringum 40 millj. kr. sem eftirstöðvum í útflutningssjóði, sem gætu gengið til þessa, og að þetta mundi hvergi nærri dugi til þess að greiða öll vátryggingariðgjöld ársins, þá var því lýst yfir sérstaklega sem ummælum hæstv. sjútvmrh., að það væri hans álit eftir athugun á málinu, að útflutningssjóður mundi geta greitt þetta að fullu og öllu og þannig yrðu ársgjöldin öll greidd úr útflutningssjóði. Og við þetta sætti fundurinn sig.

Þetta virðist ætla að standast á hinn bezta hátt. Ég hlýddi á það, sem fram fór á þessum fundi, og veit það mætavel, að hér fór ekkert á milli mála. Menn fögnuðu því út af fyrir sig, að þetta loforð hafði verið veitt og að þetta mundi geta orðið greitt. Nú hefur þetta aftur nýlega á fundi Landssambandsins verið staðfest með yfirlýsingum um það, að nú hafi farið fram nánari athugun á því, hve mikil þessi vátryggingariðgjöld muni vera, sem þarf að greiða fyrir fiskiskipaflotann fyrir árið 1960, og talið er samkvæmt fyrirliggjandi útreikningum, að þessi iðgjöld muni nema rétt rúmlega 101 millj. kr., þ.e.a.s. öll ársiðgjöld togaraflotans frá ársbyrjun til ársloka og iðgjöld bátaflotans frá 16. febr. og til ársloka, en bátaflotinn hafði samkvæmt gamla kerfinu samning um það, að útflutningssjóður átti að greiða vátryggingariðgjöldin frá áramótum til 16. febr., þar til viðreisnarlöggjöfin tók við.

Nú hafði alltaf verið reiknað með því að vísu, að þessi brúttóiðgjöld gætu lækkað nokkuð vegna legu skipa í höfn á tímabili og eins vegna þess, að eitthvað af iðgjöldunum kynni að vera hærra en góðu hófu gegndi. Vegna þess að tryggingarnar eru mjög breytilegar, gat vel komið til mála, að eitthvað yrði þetta lækkað í framkvæmd. Á landssambandsfundinum, sem haldinn var í gær, var það upplýst, að útflutningssjóður mundi eiga alveg örugglega 84–88 millj. kr. sem eftirstöðvar til þess að greiða þessi iðgjöld, og mætti því teljast nokkurn veginn alveg öruggt, að staðið yrði við loforðið, að útflutningssjóður greiddi gjöldin að fullu.

Mér þykir því alveg sýnt, að það sé rétt, sem hér hefur verið skýrt frá í umr. við afgreiðslu fjárlaga áður, að loforð voru gefin um það að greiða iðgjöldin að fullu og það upplýst á fundi Landssambands ísl. útvegsmanna, og það var líka rétt, að þar lágu fyrir upplýsingar um það frá hæstv. sjútvmrh., að hann teldi, að eftirstöðvarnar í útflutningssjóði yrðu í kringum 40 millj., en hins vegar mátti telja nokkurn veginn víst, að iðgjöldin yrðu varla undir 90 millj. kr. Það var því mjög eðlilegt, að á það var bent við afgreiðslu fjárlaga, að sennilega vantaði hér upp undir 50 millj. kr. Hæstv. fjmrh lýsti því hér yfir með mjög sterkum orðum í umr. um afgreiðslu fjárlaga, að engin slík loforð hefðu verið gefin af ríkisstj. að greiða vátryggingariðgjöldin, og kom mönnum mjög á óvart að heyra það úr ráðherramunni hér á Alþ., þeim sem höfðu hlustað á yfirlýsingarnar á fundi Landssambands ísl. útvegsmanna. Líklega vegna þess komu svo þessar leiðréttingar aftur í gær á landssambandsfundinum, að öruggt væri, að vátryggingariðgjöldin yrðu greidd að fullu, enda væri sýnilegt, að nægir peningar væru í útflutningssjóði til þess að borga þetta.

Í sambandi við þetta verður mönnum svo aftur hugsað til þessa dæmalausa útflutningssjóðs, sem 11. nóv., þegar hæstv. sjútvmrh. flutti sína ræðu á landssambandsfundinum, var talinn eiga í kringum 40 millj. kr. eftir, þegar öll gjöld sjóðsins væru greidd samkvæmt lögum, en nú nokkrum dögum síðar virðist hann eiga í kringum 88 millj. kr., af því að það var sú upphæð, sem hann þurfti til þessarar greiðslu. Ef lengra er farið aftur í tímann til þess að athuga þetta, kemur auðvitað að hinum frægu útreikningum hagfræðinga ríkisstj. eða sérfræðinga ríkisstj. í efnahagsmálum. Þegar viðreisnarlöggjöfin var sett á s.l. vetri, höfðu þessir frægu menn reiknað út hag útflutningssjóðs. Þá efuðust þeir ekki um það og létu skrá hér í þingplagg, sem fylgdi með viðreisnarlöggjöfinni, að hagur útflutningssjóðs væri hinn bágasti og þar vantaði mikið fé. Sú tala, sem þeir nefndu í plagginu, var, að miðað við árslokin 1959 væri hallinn líklega í kringum 270 millj, kr. En þar sem áætla mætti útflutningssjóði nokkrar tekjur vegna þess mismunar, sem fengist á þeim afurðum, sem framleiddar hefðu verið fyrir gengisbreytinguna og áttu að greiðast með uppbótum úr útflutningssjóði samkv. gamla kerfinu, en hins vegar yrðu þær afurðir seldar samkv. hinu nýja gengi og þarna skapaðist nokkur gengismunur, þá mætti þó telja, að eftir stæði allmikið á annað hundrað millj. kr. sem óumdeilanlegur halli á útflutningssjóði, sögðu þessir frægu reiknimeistarar. Til þess nú að reyna að afla tekna upp í þennan halla á útflutningssjóði lögðu þeir til, að lagt yrði á sérstakt útflutningsgjald, 5% af öllum útfluttum vörum, sem áætlað var að mundi nema, eins og sagði í grg. viðreisnarfrv., 120 millj. kr. á ári, og er það mjög nærri réttu lagi, miðað við það, sem útflutningurinn hefur verið á hverju ári að undanförnu, — 5% af öllu útflutningsverðmæti. Í grg., sem fylgdi, var að vísu gerð nokkur grein fyrir þessum sérstaka skatti, sem nú ætti að leggja á útflutninginn. En þörfin var mikil. Það varð að bæta hallann af útflutningssjóði, og sagt var á þessa leið, þegar ríkisstj. hafði gert grein fyrir því, að hún teldi, að útgerðin gæti borið þetta:

„Ríkisstjórnin telur eigi að síður, að útflutningsatvinnuvegunum öllum sé það kleift að greiða 5% útflutningsskatt um eins til tveggja ára skeið.“

Þennan útflutningsskatt átti að innheimta vegna þess, að gert var ráð fyrir því, að halli á útflutningssjóði yrði í kringum 180 millj. kr. M.ö.o.: skattur, sem átti að gefa 120 millj. kr. á ári, átti að standa um eins til tveggja ára skeið til þess að greiða upp þennan halla. Nú hefur þetta farið svo, eins og allir hv. alþm. vita, að 5% skatturinn var ekki innheimtur. Hann var strax í upphafi færður niður í 21/2%. Hann var því aðeins innheimtur sem 21/2% og hefði því átt að gefa í kringum 60 millj. kr. miðað við eins árs framleiðslu eða eins árs útflutning.

En hvað hefur svo gerzt að öðru leyti í sambandi við útflutningssjóð? Jú, hann hefur fengið þessar 60 millj. Ef við miðum við alla framleiðslu eins árs, fær hann 60 millj. af þessum skatti eða mjög nærri því. Útflutningssjóður á að eiga til þess að greiða vátryggingariðgjöld bátanna í kringum 88 millj. kr., er nú upplýst, en áður var búið að greiða úr útflutningssjóði til togaranna 30 millj. kr., eftir að viðreisnarlöggjöfin var samþ. og eftir að útreikningar hagfræðinganna lágu hér fyrir, eða m.ö.o. 88 millj. til vátryggingariðgjalda, 30 millj. til togara, alls um 118 millj. kr., og ekki hefur hann þó fengið meiri tekjur inn en í kringum 60 millj. af þessu 21/2% gjaldi, miðað við ársframleiðsluna 1960. Það er því alveg augljóst mál, að samkvæmt þessum útreikningi hefur ekki verið í útflutningssjóði neinn skuldahali, heldur sjóður upp á 58–60 millj. kr., og það þurfti því ekki að leggja á 5% útflutningsskatt og ekki 21/2 % útflutningsskatt, það þurfti ekki að leggja neitt á, því að þessi upphæð hefur þá verið í sjóðnum, samkvæmt þessum útreikningi nú, þó að hinir vísu hagfræðingar hafi reiknað út og sannað Alþ, það með þeirri grg., sem lögð var fram með viðreisnarlöggjöfinni, að þarna væri halli, sem yrði að vinna upp með sérstöku útflutningsgjaldi, sem átti að gefa í tekjur 120 millj. kr. á ári, og skatturinn átti að standa í eitt til tvö ár.

Um það er auðvitað ekkert að efast, að annað hvort er, að útreikningar hinna vísu sérfræðinga hafa verið með fádæmum vitlausir í þessum efnum, þegar þeir voru lagðir fyrir Alþ. sem rökstuðningur fyrir viðreisnarlöggjöfinni, fádæma rangir og vitlausir, eða þá að búið er að taka upp alveg nýjan reikningsstokk nú og nú er reiknað á allt annan hátt og nú eru reiknaðar með alls konar kúnstum tekjur inn í útflutningssjóð. Ég fyrir mitt leyti lét orð um það falla hér á sínum tíma í sambandi við þessa fyrri útreikninga um skuldahalann hjá útflutningssjóði, að mér þætti hann ósennilega mikill, en gæti þó ímyndað mér, að þar væri um einhvern smávægilegan halla að ræða, 40–50 millj. En ég er nú jafnhissa á þessum síðari útreikningum, að í sjóðnum skuli hafa fundizt í kringum 60 millj. án nokkurra nýrra tekna í sjóðinn, en með þessum nýju tekjum skuli vera þar fyrir í kringum 120 millj. kr. En hvað um það, aðalatriðið er það, að peningarnir eru þarna og þeir eru til og það á að nota þá í tilteknu skyni, sem búið er að lofa ákveðnum mönnum. Það er aðalatriðið.

Hitt er svo líka jafnmikið atriði, að hæstv. ríkisstj. hefur lagt á það mikla áherzlu að segja jöfnum höndum við útvegsmenn: Iðgjöldin verða greidd, — og hún segir við Alþ. og þjóðina: Ekki eru þau greidd úr ríkissjóði. Þau eru greidd úr útflutningssjóði. — Ef hægt er með einhverjum klókum ráðum að láta buna inn í útflutningssjóð einhverjar aukatekjur annars staðar frá og borga allt þaðan, þá kemur það allt að sama gagni. En það er svo aftur á móti í fullu samræmi við það, sem ríkisstj. lýsti yfir á sínum tíma, að fella niður útflutningsskattinn, 21/2% af framleiðslu ársins 1961, því að hún lofaði því að taka ekki þennan skatt lengur en hún þyrfti til þess að jafna hallann á útflutningssjóði, svo að þegar svona er nú komið með hag útflutningssjóðs, sýnist ekki ástæða til þess að halda skattinum öllu lengur.

Það er hins vegar í þessu sambandi aðeins eðlilegt, að á það sé minnzt, að hér er auðvitað um það að ræða, að hæstv. ríkisstj. hefur neyðzt til þess, þegar hún hefur mætt hinum kalda veruleika, að viðurkenna staðreyndir í sambandi við afkomu sjávarútvegsins. Hún hefur séð það, að þau kjör, sem sjávarútvegurinn býr nú við eftir hina nýju skipan í efnahagsmálunum, eru þannig, að hann fær ekki staðið á eigin fótum. Það þarf að koma honum til hjálpar. Þó að mörg og stór orð væru látin fylgja í grg. viðreisnarfrv. á sínum tíma um það, að hið nýja gengi og hinar nýju ráðstafanir ættu að tryggja sjávarútveginum hallalausan rekstur „án styrkja og án uppbóta“, eins og sagt var, þá er löngu komið svo, að ríkisstj. hefur orðið að grípa til aukaráðstafana. Ég skal minnast hér á nokkra helztu þættina í þessu.

Það er ekkert um að villast, að það fyrsta, sem ríkisstj. gerði í þessum efnum, var það, að hún ákvað eftir síldveiðarnar nú í sumar að borga útvegsmönnum úr hlutatryggingasjóði 10 millj. kr. rösklega, úr síldveiðideild hlutatryggingasjóðs, og það þó að það lægi skýrt fyrir, að sumarveiðarnar voru ekki bótaskyldar samkvæmt reglum, sem gilt hafa um langan tíma. Veiðin var miklu meiri en svo, að þessi síldveiði í sumar væri bótaskyld. Eigi að síður ákvað ríkisstj. það vegna þess, hvað útgerðin stóð höllum fæti almennt séð, að setja styrktarsjóðinn í gang og borga útgerðinni þarna út rúmar 10 millj. kr. Hér var vitanlega um styrkjafyrirkomulag að ræða, en bara í þessu formi.

Í öðru lagi beitti ríkisstj. sér fyrir því, að síldarútvegsmönnum voru veitt sérstök lán, síldarnótakaupalán, sem þeir hafa verið að sækja um í mörg ár í sambandi við samninga sína. Þegar uppbótafyrirkomulagið var í gangi, var venjulega eitt af kröfuatriðum útvegsmanna að fá fram slík lán. Því var ekki sinnt þá, en nú hins vegar hlutaðist ríkisstj. til um það, að bankarnir veittu útgerðinni sérstök viðaukalán í sambandi við síldveiðarnar, og ég hygg, að þau lán muni nema á milli 30 og 40 millj. kr., tveggja til þriggja ára lán í sambandi við síldarnótakaup. Hér var vitanlega um sams konar aðstoð og fyrirgreiðslu að ræða og samið var um á uppbótatímabilinu áður.

Þá er þetta, sem hér hefur aðallega verið rætt um að þessu sinni, að ríkisstj. hefur ákveðið að borga úr útflutningssjóði á þessu ári í kringum 118 millj. kr.: 30 millj. sérstaklega til togaranna, eftir að viðreisnarlöggjöfin var samþ., og um 80–90 millj. í vátryggingariðgjöld vegna bæði togara og báta. Hér er vitanlega um alveg sams konar uppbótafyrirkomulag að ræða og áður var í gildi.

Þá hefur ríkisstj. gefið fyrirheit um það og aðstoðað í þeim efnum að veita bátaflotanum greiðslufrest á afborgunum og vaxtagreiðslum af lánum. og þær tilkynningar, sem borizt höfðu um, að bjóða ætti upp fiskiskipaflotann vegna vanskila, voru teknar til baka, vegna þess að ríkisstj. hafði þar skorizt í leikinn og veitt aðstoð sína á þann hátt, en þetta var einmitt mjög algengt að gera áður, á meðan uppbótafyrirkomulagið var í gildi.

Svo er vitanlega hitt, sem lofað hefur verið og hæstv. sjútvmrh. tók fram í ræðu sinni á fundi Landssambandsins í nóvembermán., að í ráði er að veita útgerðinni í landinu 200–300 millj. kr. ný lán eða framlengingu eldri lána, að einhverju leyti með lægri vöxtum, til þess þannig að létta ýmsum skuldaböggum af framleiðslunni.

Þetta hefur allt saman þurft að gera þrátt fyrir viðreisnarlöggjöfina — og ekki aðeins þrátt fyrir hana, heldur einmitt vegna hennar, vegna þess að það er dómur þeirra, sem við framleiðslustörf fást, t.d. til sjávarins, að þar sé hagurinn núna miklu lakari en hann hefur nokkru sinni áður verið, hallinn meiri. Þessu er lýst yfir af forustumönnum útvegsmanna, hverjum á fætur öðrum, og af því hefur m.a. þurft að grípa til þessara ráða.

En þetta hefur auðvitað ekki gilt aðeins í sambandi við sjávarútveginn. Landbúnaðurinn hefur verið í gangi í þessum efnum líka. Þar voru samþ. sérstakar útflutningsuppbætur á útfluttar landbúnaðarafurðir, á sama tíma, sem verið var að lýsa því yfir, að engar uppbætur skyldu greiddar, og niðurgreiðslur voru stórkostlega auknar á ýmsum nauðsynjavörum landbúnaðarins og í sambandi við vöruverð í landinu, svo að allt þetta hefur vitanlega þurft að taka upp og vera hér í fullum gangi þrátt fyrir allar yfirlýsingarnar í sambandi við setningu viðreisnarlöggjafarinnar.

Hæstv. ríkisstj. hefur í sambandi við þessi mál, fremur en að viðurkenna það hreinlega, hvernig málin standa og hvernig komið er, gripið til þess að vera með alls konar, — mér liggur við að segja afkáralegar skýringar á því, hvernig stendur á því, að svona er komið. Hún hefur verið að bera sérstaklega við aflaleysi. Auðvitað er þessi fyrirsláttur með aflaleysið algerlega rangur. Það er augljóst, að hægt er að átta sig á því, að afli bátaflotans á aðalvertíðinni, vetrarvertíðinni, var mun meiri nú á síðustu vertíð en hann hefur verið áður. Um þetta er ekki hægt að deila. Aflinn var þá meiri. En síldveiðarnar? Það var ekkert aflaleysi á síldveiðum fremur nú en það hefur verið um 16 ára skeið. Sá, sem vill líta í opinberar skýrslur um þetta, sér, að um 16 ára skeið, eða frá 1944, hefur aðeins eitt einasta ár, þ.e. árið 1959, verið með meiri síldarafla en árið í ár. Árið í ár er næsthæsta aflaárið á síldveiðum um 16 ára skeið. Það var því ekkert aflaleysi fremur en allan þann tíma, sem uppbótakerfið hefur verið í gangi, og hefur þurft að glíma þá vitanlega við sams konar vanda, nema oft miklu meiri. Nei, það var ekki aflaleysið, sem olli hér sérstaklega. Eini þátturinn, sem þar er um að ræða, er togaraflotinn. Það er alveg rétt, að þar hefur aflinn verið allmiklu minni en árið á undan, og þó var árið á undan fremur lélegt aflaár hjá togurum. Hins vegar er það auðvitað alls fjarri, sem maður hefur. séð í blöðunum að undanförnu; þar sem hafa verið nefndar hinar fáránlegustu tölur um það, hvað afli togaránna í ár sé miklu minni en hann var í fyrra, vegna þess að það er ekki tekið tillit til þess, að togaraflotinn í ár hefur verið rekinn með allt öðrum hætti en hann var rekinn árið á undan. Það er rétt, aflinn er minni. En þess ber vitanlega að gæta, að nú í ár hefur togaraflotinn siglt miklu meira með afla sinn á erlenda markaði en áður, og við það vitanlega fellur tonnatalan niður, sem hvert skip veiðir. Það vita allir, sem nokkuð þekkja til þessara mála. Nú 1. okt. stóðu t.d. tölur þannig, að miðað við 1. okt. í fyrra höfðu togararnir siglt 32 túra á erlenda markaði með afla, en núna 98, eða fyllilega þrefalt fleiri. Vitanlega dregur þetta nokkuð tonnatöluna niður. En þrátt fyrir það hefur verið aflaleysi hjá togurunum, mjög léleg afkoma hjá þeim, og þeirra vandi er vitanlega alveg sérstakur. En það er ástæðulaust að ætla að láta þann sérstaka vanda, sem þar er við að glíma, villa sér sýn í því, hvernig ástatt er hjá bátaflota landsmanna og fiskiðnaði í landinu, sem að verulegu leyti hefur byggzt á rekstri bátanna.

Svo hefur auðvitað verið mikið gert úr því hjá hæstv. ríkisstj. að afsaka það ástand, sem nú hefur skapazt, með verðfalli á erlendum mörkuðum. Vissulega hefur hér orðið alltilfinnanlegt verðfall á nokkrum af okkar útflutningsvörum, en þetta verðfall hafði staðið um margra mánaða skeið, þegar viðreisnarlöggjöfin var samþ. á Alþ., og í grg. fyrir viðreisnarlöggjöfinni er það beinlínis tekið fram hvað eftir annað, að tekið hafi verið tillit til verðfallsins á mjöli og lýsi við útreikningana í sambandi við hið nýja gengi, svo að það var vitanlega búið að taka tillit til þess, a.m.k. að verulegu leyti. Ég vil t.d. benda á það, að hv. þm. hafa flestir fengið í sínar hendur skýrslu frá stjórn síldarverksmiðja ríkisins yfir rekstur verksmiðjanna árið 1959. Í þessari skýrslu frá síldarverksmiðjum ríkisins er það greinilega tekið fram, að verðfall hafi þegar verið komið á mjöl og lýsi, áður en sumarsíldveiðarnar hófust árið 1959, og menn voru búnir að standa frammi fyrir þessu verðfalli í marga mánuði, þegar viðreisnarlöggjöfin var samþ. í febr. 1960, svo að það er vitanlega á engan hátt fullnægjandi skýring hjá sérfræðingum ríkisstj. eða henni sjálfri að reyna að halda því fram nú, að þetta verðfall á mjöli og lýsi valdi hér öllum erfiðleikum. En vissulega er það rétt, að þar var um nokkurn vanda að ræða, og hann var þegar á skollinn 1959 og skall að verulegu leyti á framleiðslu 1959.

Nei, það sem er nauðsynlegast að hæstv. ríkisstj. geri í þessum málum, það er það, að hún átti sig til fullnustu á því, hvernig ástandið er núna í sambandi við aðalatvinnuvegi landsmanna, t.d. sjávarútveginn. Það frv., sem hér liggur fyrir, sem miðar að því að fella niður útflutningsskattinn á framleiðslunni á næsta ári, er að vísu spor í rétta átt, og einnig þær ráðstafanir, sem ríkisstj. hefur lofað útvegsmönnum að gera í sambandi við greiðslu á vátryggingariðgjöldum, það er líka spor í rétta átt, það er óhjákvæmilegt eins og komið er. En það þarf meira til. Það eru blátt áfram engar líkur til þess að mínum dómi, að útgerð geti hafizt með eðlilegum hætti nú um áramót, ef ekki kemur miklu meira til frá hálfu ríkisstj. og það í tæka tíð. Það liggur fyrir núna, að fiskkaupendur í landinu hafa lýst því yfir, að þeir vilji ekki einu sinni greiða sama verð fyrir fiskinn og þeir gerðu á þessu ári. Það liggur fyrir, að þeir telja óhjákvæmilegt að lækka fiskverðið, vegna þess að þeirra hagur sé svo lélegur. En hins vegar telja bátaútvegsmenn, að óhjákvæmilegt sé að hækka fiskverðið til verulegra muna, svo að bátaútvegurinn fái borið sig. Þessu verður ríkisstj. að mæta á einn eða annan hátt, og hún verður hér að aðstoða við það að gera kleift, að útgerð geti hafizt á réttum tíma, og það þarf miklu meira til en fram kemur í þessu frv., miklu meira. Svo er ástandið alvarlegt.

Það er enginn vafi á því, að vaxtalækkun mundi geta komið hér að verulegu haldi, og virðist flestum sem einmitt vaxtalækkun á afurðalánum útvegsins væri hér eðlilegust, vegna þess að það er óumdeilt, að eins og nú er haldið á þeim málum, þá blátt áfram hrúgar Seðlabankinn upp stórgróða. Vegna þess, hve vextirnir eru hafðir háir á afurðalánum, hrúgar Seðlabankinn upp stórgróða, á sama tíma sem útvegurinn fær ekki staðizt sinn kostnað, og eigi að halda honum þannig, að hann fái ekki risið undir útgjöldum, þá hlýtur að leiða af því minnkandi rekstur, samdrátt í útflutningi og samdrátt í þjóðartekjum. Það er ómögulegt, að það leiði til annars.

Ég verð að segja það, að mér þótti alveg furðulegt að heyra það á þessum landssambandsfundi, sem haldinn var hér í borginni í gær og ég hér vitna nokkuð til, að þar var því lýst yfir, að þó að enn hefðu fengizt mjög ógreið og óljós svör hjá hæstv. ríkisstj. um það, hvað gert yrði í þessum málum til viðbótar við það, sem búið er að gera, þá væri hún alveg ákveðin í því og gæti svarað því alveg strax, að hún mundi ekki samþykkja að lækka afurðalánsvexti sérstaklega nokkurn skapaðan hlut. Það yrði ekki um neina sérstaka lækkun að ræða, nema þá það, sem fælist í almennri vaxtalækkun, ef hún yrði einhver. Þetta er að mínum dómi alveg furðulegt, hvað það getur verið, sem mælir sérstaklega með því að hrúga upp þessum gróða í Seðlabankanum, vitanlega á kostnað útflutningsframleiðslunnar.

Um þetta frv. að öðru leyti hef ég ekki margt að segja. Eins og hefur komið fram í minni ræðu, er ég samþykkur efni þess. Ég álít, að það beri að létta þessum 21/2% skatti af sem fyrst. Það er sýnilegt, að það hefði aldrei átt að leggja hann á. Ég vona, að þær upplýsingar, sem gefnar hafa verið samkvæmt viðtölum við hæstv. ríkisstj. af forustumönnum Landssambandsins um greiðslu á vátryggingariðgjöldum og ég hef hér að nokkru lýst eða flutt á þann hátt, sem ég hef hlýtt á þær yfirlýsingar, — ég vonast til þess, að þær standi og að það sé rétt eftir haft og að það sé talið öruggt, að útflutningssjóður muni hafa langt til 90 millj. til þess að greiða þessi gjöld nú fyrir yfirstandandi ár. En það er alveg sýnilegt, að ríkið verður að hlaupa undir bagga á einn eða annan hátt til þess að greiða þau gjöld. Það er alveg óhjákvæmilegt. Það er vitanlega engin nauðsyn að bókfæra það, að slík greiðsla sé greidd úr ríkissjóði. Það má vitanlega alveg eins bókfæra það, að hún sé greidd úr útflutningssjóði, ef útflutningssjóði er séð fyrir tekjum í því skyni. Ég vænti að það standi, því að ekki mun af veita í sambandi við þær ráðstafanir, sem óhjákvæmilegt er að gera fyrir útgerðina fram yfir það, sem felst í þessu frv.