13.12.1960
Neðri deild: 36. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 490 í B-deild Alþingistíðinda. (313)

134. mál, efnahagsmál

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Af því að síðasti ræðumaður, hv. 4, þm. Austf., vék meira að efnisatriðum þessa frv., sem hér liggur fyrir, heldur en sá, sem talaði á undan honum, hv. 1. þm. Austf., skal ég byrja á því að fara nokkrum orðum um ræðu hv. síðasta ræðumanns, hv. 4. þm. Austf.

Hann skipti máli sínu í tvennt til að byrja með. Hann ræddi fyrst um greiðslu vátryggingariðgjalda og síðar nokkuð um stöðu útflutningssjóðs, áður en hann kom inn á sama svið og hv. fyrri ræðumaðurinn, að ræða um efnahagsmálin almennt.

Um greiðslu vátryggingariðgjalda virtist honum, að ekki væri neinn vafi á, að því hefði verið lýst yfir, að ríkisstj. hefði heitið því að greiða öll vátryggingariðgjöldin 1960, og hafði það eftir nefnd, að mér skildist, sem hefði farið á fund ríkisstj. og fengið þessar upplýsingar þar. Ég skal taka það fram hér, eins og ég hef tekið fram oft áður, að þessar yfirlýsingar hef ég a.m.k. aldrei gefið, heldur þvert á móti hið gagnstæða. Í ræðu, sem ég flutti á fundi Landssambandsins í nóvembermánuði s.l., kom ég nokkuð inn á útflutningssjóðinn og tók þar fram, að af rekstri hans mundi vera nokkur afgangur, sem ég taldi þá rétt að rynni til útvegsmanna sjálfra, sem hefðu greitt þetta fé, en á hvern hátt það yrði notað, orðaði ég ekki, og ég ætla, að ég hafi ekki þar minnzt einu orði á þann möguleika, að féð yrði notað til greiðslu vátryggingaiðgjalda. Hins vegar kom til mín ósk frá Landssambandinu um það, að ég staðfesti þá yfirlýsingu, að féð yrði notað í þágu sjávarútvegsins, og því fylgdi ósk um það, líka frá Landssambandinu, að féð mætti notast á þann hátt að greiða vátryggingariðgjöldin. Á þetta féllst ríkisstj, og skrifaði Landssambandinu bréf, dags. 17. nóv., áður en þingi L.Í.Ú. lauk, sem ég — með leyfi hæstv. forseta vil lesa upp. Bréfið er svo hljóðandi:

„Ráðuneytið hefur móttekið bréf Landssambands íslenzkra útvegsmanna, dags. 15. þ.m., varðandi ráðstöfun á væntanlegum eftirstöðvum útflutningssjóðs, þegar lögboðnar greiðslur hafa verið inntar af hendi. Í því sambandi vill ráðuneytið taka fram eftirfarandi, og skírskotast í því efni til viðtala við forráðamenn Landssambands íslenzkra útvegsmanna:

Ríkisstj. er því samþykk, að eftirstöðvum útflutningssjóðs skv. lögum nr. 4/1960 verði ráðstafað í samráði við fulltrúa útvegsmanna, og hefur fyrir sitt leyti ekkert á móti því, að þær verði notaðar til greiðslu vátryggingariðgjalda fiskiskipa.“ Ég vil nú skjóta því hér inn í, ef þetta á að skilja sem loforð um að greiða vátryggingariðgjöld ársins 1960, þá kann ég ekki mál að skilja, því að hér er það staðfest fyrst og fremst, að rekstrarafgangur útflutningssjóðs verði notaður til greiðslu vátryggingariðgjaldanna, en ekkert sagt um það, hvort það mundi nægja, eða neinar skuldbindingar gefnar um að borga þann mismun, sem þarna kunni á að vera. — Síðan heldur bréfið áfram þannig: „Ráðuneytið getur einnig fallizt á, að haldið verði áfram innheimtu 21/2% útflutningsskattsins af allri framleiðslu ársins 1960 og féð notað í þessu skyni. Nánari reglur um greiðslu vátryggingariðgjaldanna verði ákveðnar síðar, en það skal þó tekið fram, að hér er eingöngu um eðlileg eða „normal“ iðgjöld að ræða og verði greiðslurnar við það miðaðar.“

Í þessu bréfi, sem var afhent fundi L.Í.Ú. þann 17. nóv., sama daginn og það er skrifað, er því slegið föstu og því einu, að rekstrarafgangur útflutningssjóðs verði notaður til greiðslu vátryggingariðgjaldanna fyrir 1960, og annað ekki. Hitt er svo staðfest í bréfinu, að Landssambandið hefur óskað eftir því, að 21/2 % gjaldið verði framlengt fram á árið 1961, eða óákveðið, þangað til útfluttar hafa verið allar framleiðsluvörur ársins 1960, og gjaldið einungis af þeim tekið og látið renna í þennan sjóð.

Í þessu sambandi vildi ég geta um þann mismun í tölum, sem komið hefur fram og verið undirstrikaður af ræðumönnum, — þann mismun, sem er á milli þeirrar áætlunar um rekstrarafgang útflutningssjóðs, sem ég minntist á á fundi Landssambandsins, og þess, sem komið hefur fram nú, þar sem ég á fundi Landssambandsins minntist á, að rekstrarafgangurinn mundi vera í kringum 40 millj., en nú er talið upplýst, að hann mundi verða á milli 80 og 90 millj. Þetta liggur í því fyrst og fremst og sennilega aðallega, að þegar ég nefndi töluna 40 millj. á fundi L.Í.Ú., var við það miðað, að 21/2% gjaldið félli þegar niður, en þegar Landssambandið óskar eftir því, að 21/2% gjaldinu verði haldið áfram, þá hækkar vitanlega rekstrarafgangur útflutningssjóðs. Hvort hann hækkar upp í þá tölu, sem hér hefur verið nefnd, nákvæmlega eða ekki, skal ég ekki segja, svolítið hef ég dregið það í vafa, þó að stjórn útflutningssjóðsins hafi talið það líklegt. En annars verð ég um tölur, sem gefnar hafa verið upp um stöðu útflutningssjóðs fyrr og síðar, að segja það, að þær tölur hafa verið nokkuð á reiki. Stjórn sjóðsins og alveg sérstaklega sjóðsstjórnarformaðurinn, sem hefur staðið að þessari uppgjöf, hefur ekki virzt geta gefið þær upplýsingar á hverjum tíma, sem fullkomlega kæmu heim við raunveruleikann, enda ekki gott að gera, — ég skal viðurkenna það. En ég vil benda á, að allar tölulegar upplýsingar, sem komið hafa, hafa frá þessu fólki komið, sem hv. 4. þm. Austf. þekkir sjálfsagt til, hvernig er störfum sínum vaxið, því að ég velt ekki betur en hann hafi skipað það til starfsins. En það er alveg rétt, að það hefur bæði fyrr og síðar verið nokkuð á huldu um hag sjóðsins, og ég gæti bent á nokkur dæmi um það. En þegar efnahagsráðunautar ríkisstj. gera áætlun um, hvað mikið muni þurfa, til þess að sjóðurinn geti staðið við sínar skuldbindingar í nóvembermánuði 1959, þá er ekki gott fyrir þá að segja nákvæmlega til um, hver þessi upphæð muni verða, vegna þess að það veltur á mjög miklu, hvort útflutningsvörurnar fara fyrir eða eftir þann tíma, sem gengisfellingin skellur á. Það er algerlega útilokað fyrir þessa menn eða forsvarsmenn sjóðsins, að segja fyrir um það í nóvembermánuði, hvað mikið muni vera flutt út af vörunum fyrir skurðarpunktinn, fyrir þann tíma, þegar gengislækkunin kemur til framkvæmda. Það, sem er flutt út fyrir þann tíma, krefst meðlags úr sjóðnum. En það, sem er flutt út eftir þann tíma, gefur sjóðnum tekjur. Á þessu getur þess vegna oltið mjög mikið, hvort útflutningurinn fer fram fyrir eða eftir þennan dag, og það er vitaskuld alveg ómögulegt að segja um nokkrum vikum eða mánuðum fram í tímann.

Ég held þess vegna, að þar sem deilt hefur verið á fyrir miður góðar upplýsingar, eigi það fyrst og fremst rætur sínar að rekja til stjórnar sjóðsins, — ég verð að segja það, — en ég vil líka segja það þeim til afbötunar og afsökunar, ef þarna fer á milli mála, að það hafa alla tíð verið í þessari áætlunargerð um afkomu útflutningssjóðs svo mörg óákveðin matsatriði, að það hefur verið ákaflega erfitt að gera þetta upp nákvæmlega. Þess vegna held ég, að það sé ekki hægt að lá þessum aðilum, þó að til nokkurs mismunar hafi dregið á milli áætlananna og þess, sem síðar hefur orðið raunin á, og um mismuninn á þessum tölum, sem komið hafa fram á landssambandsfundinum í nóvember og aftur núna, þá er það greinilega ástæðan til mismunarins, að í síðara tilfellinu hefur verið reiknað með 21/2% gjaldinu áfram, en áður ekki.

Hvort svo aftur tekst að greiða öll vátryggingariðgjöldin með þessum rekstrarafgangi útflutningssjóðs, skal ég ekkert segja um. Ég hygg, og það er mitt mat á þeim hlutum, að þetta muni fara nokkuð langt, en ég efast að það muni nægja að fullu. Og út yfir rekstrarafgang útflutningssjóðs er ríkissjóðurinn ekki skuldbundinn. Þó er rétt að geta þess, að ég hef nokkra ástæðu til þess að ætla, að sum vátryggingariðgjöld af íslenzkum fiskiskipum séu undarlega há, hvað sem valda kann, bæði vátryggingarupphæð og jafnvel líka iðgjaldaprósenta. Ég hafði þess vegna hugsað mér framkvæmdina á þessu þannig, að það yrðu fengnir sérstakir menn til þess að fara í gegnum hverja einustu tryggingu og meta hana, ef ég svo má segja, til normalverðs, alveg eins og tekið er fram í bréfinu, sem ég skrifaði Landssambandinu. Og fyrirheitið, sem gefið er um greiðslur upp í vátryggingarnar, er miðað við þetta verð eingöngu, og má vera, að á þann hátt komi fram einhver mismunur á því, sem eðlilegt kann að teljast og verður þess vegna greitt úr útflutningssjóðnum eða af tekjuafgangi hans, og svo á hinu, sem er skráð iðgjald viðkomandi skips. En hvernig þessu lýkur öllu saman, skal ég ekkert segja um á þessu stigi málsins, því að hvoruga hliðina á dæminu er raunverulega búið að gera upp, hvorki endurskoða vátryggingariðgjöldin né heldur gera upp endanlega, hver verður rekstrarafgangur sjóðsins.

Hv. 1. þm. Austf. vildi halda því fram, að ríkisstj. hefði lofað að greiða allt vátryggingariðgjaldið, og taldi, að það væri óhreint mjöl í pokanum, ef svo yrði ekki gert. Það væri eitthvað verið að fela. En ég vil segja honum, að það hefur verið komið algerlega hreint og klárt fram í þessu efni og undirstrikað mjög greinilega, að hér væri einungis um rekstrarafgang sjóðsins að ræða, sem gengi upp í vátryggingariðgjöldin, en ekki hitt, að ríkissjóður tæki að sér greiðslu iðgjaldanna, eins og þau nú væru. Ég veit af viðtölum við fjölda fulltrúa útvegsmanna, sem til mín hafa komið, að það er enginn þeirra í vafa um þetta. Hvað svo kann að hafa valdið misskilningi, ef einhver er, í þessu efni, þori ég ekki að segja, en ég held, að þetta hafi verið tekið mjög skýrt fram. Hér var minnzt á fullyrðingu hæstv. fjmrh. í þessu sambandi, þegar fjárlögin voru afgreidd til 2. umr., og hann hefur sagt mér, hvað hann sagði við það tækifæri, og ég get staðfest, að það, sem hann þar sagði, er fullkomlega rétt.

Auk þessara atriða, sem náttúrlega eru meginatriðin í sambandi við þetta frv., sem hér liggur fyrir, og raunverulega ættu að vera þau aðalatriði, sem hér væru til umr., hefur það nú snúizt svo hjá þessum hv. þm., sem hér hafa tekið til máls, að þeirra aðalmálflutningur hefur beinzt að öðru, þ.e.a.s. því, að þetta efnahagskerfi, sem sett var á s.l. vori, sé ástæðan fyrir því, að nú sé mjög illa komið hag sjávarútvegsins á Íslandi. Það er þetta, sem þeir voru báðir að reyna að sanna. Báðir sögðu þeir, eins og rétt er, að sjávarútvegurinn ætti í erfiðleikum, en báðir vildu þeir slá því föstu fyrst og fremst, og til þess var þeirra mál flutt, að það væri hægt að kenna þeim ráðstöfunum, sem gerðar voru á öndverðu þessu ári með efnahagsráðstöfununum, um þá erfiðleika, sem sjávarútvegurinn ætti nú í.

Ég held, að ég verði að eyða nokkrum mínútum í það að fara nokkrum orðum um þessa kenningu og þau rök, sem flutt voru fram í því sambandi, þó að það heyri strangt tekið ekki beint þessu frv. til, a.m.k. þá ekki nema óbeint.

Hv. 1. þm. Austf. hélt því fram, að með þeim aðgerðum, sem fólust í efnahagsaðgerðunum, hafi beinlínis verið ráðizt að atvinnuvegunum í landinu og að mér skildist með ráðnum hug af hálfu ríkisstj. reynt til þess að koma þessum atvinnuvegum í sem mestan vanda. Hann nefndi í því sambandi þrennt. Hann nefndi vaxtahækkun, hann nefndi lánsfjártakmörkun, og hann nefndi verðlagshækkun sem afleiðingu af gengislækkun. Það er alveg rétt, þessi þrjú atriði hafa komið til framkvæmda öll sem afleiðing af efnahagsmálaráðstöfununum. En hvers vegna komu þau til framkvæmda? Hver var ástæðan til þess, að það þurfti að grípa tii þessara efnahagsráðstafana? Hvernig var ástandið í árslok 1958, þegar þessir herrar báðir, bæði 1. og 4. þm. Austf., hlupu úr þáv. ríkisstj. og treystu sér ekki til þess að horfa framan í vandann? Þá blasti samkv. umsögn forsrh. þáv. ekkert annað við en hyldýpið fram undan og að hollskefla verðbólgunnar mundi keyra allt í kaf. Það ástand var afleiðing af stjórnarháttum undanfarinna ára. Það ástand var afleiðing af því að eyða á hverju ári meira en aflað var, taka lán, draga ekki úr lánsfjárnotkuninni, halda vöxtunum óeðlilega lágum og af vitlausu gengi. Allt þetta voru ástæður til þess, að þeir voru komnir fram á hengiflugsbrún og holskeflan var skollin yfir. Það var ekkert óeðlilegt, að þegar úr átti að bæta þessu erfiða ástandi, þá þyrfti til einhverra aðgerða að grípa, sem komu einhvers staðar við. Það hlaut að gerast, og það var gert m.a. með þessum þremur ráðstöfunum.

Gengi íslenzku krónunnar var fært til réttara horfs, vil ég segja, þó að nokkur ágreiningur sé um það nú, hvort gengi krónunnar hafi verið breytt nægilega mikið. Það eru til menn, — ég veit það, — sem halda því fram, að erfiðleikar sjávarútvegsins stafi m.a. af því, að genginu hafi ekki verið breytt nóg. En það var sannfæring ríkisstj. og bjargföst sannfæring hennar, að það mætti ekki breyta genginu meira en minnst væri nauðsynlegt, til þess að það væri nokkur von um, að það gæti borið árangur. Eftir því sem genginu var breytt meira, eftir því voru minni líkur til þess, að fólkið í landinu mundi sætta sig við þá kjaraskerðingu, sem nauðsynlega hlaut að koma á eftir gengisbreytingunni, en var alveg nauðsynleg, til þess að þessar læknisaðgerðir gætu heppnazt. M.ö.o.: þessir menn, sem gagnrýna ástandið nú, gleyma því, að orsökin til þessa ástands liggur lengra aftur í tímann. Og það væri engar ráðstafanir hægt að gera, það fullyrði ég, sem kæmu minna við þjóðina í heild, bæði launþega og aðra, heldur en þær, sem gerðar voru, ef þær áttu að ná tilætluðum árangri og ef átti ekki að halda lengra út í ófæruna. Þetta er það, sem stundum gleymist í sambandi við umr. um þessi efni. En þetta má ekki gleymast, ef rétt mynd á að fást.

Hv. þm. sagði, að aflinn á árinu 1960 hefði eiginlega verið vel í meðallagi og hv. 4. þm. Austf. áréttaði þetta með því að segja, að það hefði ekki verið aflaleysi á síldveiðunum miðað við það, sem hefði verið á undanförnum árum, og togaraaflinn hefði eiginlega litið orðið minni en eðlilegt væri, þar sem togararnir hefðu verið miklu meira í siglingum í ár en á undanförnum árum. Ég skal ekki ræða þessi atriði við þessa hv. þm., því að þeir mæla þetta hvort tveggja gegn betri vitund. Það efast enginn maður á Íslandi, sem nokkuð þekkir til útgerðar í dag, um það, að aflinn á togaraflotann, hvort sem siglt er með hann til útlanda eða í frystihús hérlendis, er miklum mun minni en hann var t.d. í fyrra, sem var þó ekkert sérstakt aflaár. Og að bera það fram, að aflinn sé svona lítill vegna þess, að það sé siglt með hann og þess vegna fari nokkur tími í siglingar á móti því, sem áður hafi verið notað til veiða, þegar aflað var fyrir heimámarkað, þá er það svo fjarri lagi, að það skýri nokkurn hluta af þessum mismun, sem tillit er takandi til. Það er eftirtektarvert, að aflinn um næstsíðustu mánaðamót skuli vera aðeins 2/3 af því, sem hann var á sama tíma í fyrra og var þá lítill. Ég efast ekki um, að ef togaraútgerðin á Íslandi fengi 50% meiri tekjur en hún hefur fengið, vegna þess að aflinn er 2/3 í ár miðað við s.l. ár; — ef hún fengi þessi 50% í viðbót, þá mundi afkoman reynast mjög sæmileg. En það er aflinn hjá togurunum, sem hefur gert þetta, ásamt með því verðfalli, sem orðið hefur á þeim vörum, sem gera mjög mikinn hluta af aflanum, þegar um hraðfrystingu er að ræða og verulegur hluti aflans fer í fiskimjölsvinnslu, þ.e.a.s. verðfallíð á fiskimjölinu. Verðfallið á lýsi hefur líka orðið mjög tilfinnanlegt. En hv. 4. þm. Austf. kunni skil á því. Það var, þetta verðfall á lýsinu, komið til strax á árinu 1959 og átti þess vegna að vera öllum kunnugt í ársbyrjun 1960, þegar efnahagslögin voru sett. Það er nú svo. Þetta er að segja hálfan sannleikann, eins og ýmsum mönnum er títt að gera. Það er rétt, að það var komið verðfall 1959, en verðfallið hélt áfram fram eftir árinu 1960 og náði ekki hámarki fyrr en á miðju því ári, þannig að verulegur hluti af framleiðslu síldarverksmiðjanna t.d. er seldur á lægra verði en áætlað var, þegar síldarverðið var ákveðið, og var þó þá komið langt fram á árið 1960. M.ö.o.: þó að nokkur hluti verðfallsins væri kominn á árinu 1959, varð mjög tilfinnanlegt verðfall frá áramótum 1959–60 og fram undir mitt ár, eða fram eftir ári 1960, þannig að ég tel, að það megi fullyrða, að erfiðleikar sjávarútvegsins á árinu 1960 eigi fyrst og fremst rót sína að rekja til minni aflabragða og til lækkaðs verðs á verulegum hluta af framleiðsluvörum. Þessu þýðir ekki að mótmæla og því er ekki hægt að halda fram í alvöru, að hér séu ekki atriði, sem hafi haft úrslitaáhrif.

Það er alveg rétt, að vextir hafa hækkað, og það er líka rétt, að það hefur ekki verið lánað út eins takmarkalítið og áður var gert, og það er einnig rétt, að rekstrarvörur útgerðarinnar hafa hækkað nokkuð. En hvaða möguleikar voru til þess að komast hjá því að gera þetta? Þegar miðað er við ástandið, eins og það var áður, þá eru ekki nema tveir möguleikar til. Það varð annaðhvort að halda áfram uppbótakerfinu og sökkva svo djúpt ofan í fenið, að við hefðum aldrei náð okkur upp úr því aftur, eða snúa við, standa upp og rísa á fætur og sjá, hvort við gætum ekki staðið upp eins og menn, eftir að aðgerðirnar voru gerðar; þó að þær væru erfiðar.

Þá vildi hv. 1. þm. Austf. halda því fram, að þær aðgerðir, sem gerðar hefðu verið af núverandi ríkisstj. til þess að aðstoða sjávarútveginn, væru allar í þá átt að taka upp aftur einhvers konar aðstoðarkerfi við útveginn, og sýndi það bezt, að þessi stefna, sem ríkisstj. hefði nú komið á og barizt fyrir, væri algerlega gjaldþrota. Hv. þm. taldi upp þær aðgerðir nokkrar, sem ríkisstj. hefði gert, og ég skal nefna a.m.k. nokkrar þeirra, — ég er ekki viss um, að ég hafi náð þeim öllum, — svipað kom fram líka í ræðu hv. 4. þm. Austf., sem var inni á sömu hugsuninni.

Þeir nefndu lán til nótakaupa. Ég veit ekki betur en það hafi verið borin fram ósk um þetta af útvegsmönnum, löngu áður en núverandi ríkisstj. kom til valda, og ég man a.m.k. eftir, að einn af samkomulagsliðunum í janúarmánuði 1959 var um það að aðstoða útvegsmenn við útvegun á 3—5 ára lánum út á veiðarfæri, og þá var mér tjáð, að þessi ósk og raunverulegur samningur um þetta hefði líka verið í gildi í tíð vinstri stjórnarinnar, þannig að útvegsmenn hefðu þá fengið loforð fyrir því, að þáverandi ríkisstj. beitti sér nákvæmlega fyrir þessu sama, þó að það hafi ekki tekizt að koma því í gegn fyrr en í tíð núverandi ríkisstj., enda er það út af fyrir sig ekkert sérstakt, þó að útgerðin fái lán til þess að kaupa veiðarfæri og alveg sérstaklega síldveiðarfæri, vegna þess að það hefur núna á mjög stuttu árabili orðið bylting í síldveiðarfærum, þannig að það hefur verið skipt um tæki hjá langsamlega flestum skipum og keypt miklu dýrari og verðmeiri tæki en áður var, sem hefur orðið mörgum útvegsmönnum algerlega ofviða. Og til þess að bjarga þessu var veitt þessi aðstoð, sem var ekki fólgin í öðru en því að fá bankana til þess að lána þetta á venjulegan hátt með veði í veiðarfærunum.

Annað atriði, sem nefnt var, var hlutatryggingasjóðurinn, og nefndu báðir hv. ræðumenn þær ráðstafánir, sem gerðar hefðu verið í því sambandi. Um hlutatryggingasjóðinn er það að segja, að ég ætla, að það hafi verið í gildi ýmsar reglur um það, hvernig framkvæmdar yrðu bótagreiðslur úr sjóðnum. Síðustu árin, það er rétt, hefur verið miðað við, að aflamagnið á síldinni næði kauptryggingu háseta. Og ef miðað er við þá aðferð; þá rétt slapp meðalaflamagnið nú upp fyrir þetta mark. Þar var ekki mikill munur á, eins og hv. 4. þm. Austf. sagði. Hitt er svo annað, að með þeim aukna tilkostnaði, sem orðið hefur nú á síldveiðunum, er ekkert vit í því að halda áfram með þessa sömu viðmiðun, og ef sú viðmiðun var notuð, sem tekin var upp, þ.e.a.s. að taka tillit til hinna nýju og dýru veiðarfæra, þá fékkst bótaskylda, sem tekin var til greina af stjórn sjóðsins, að vísu ekki að fullu, en að verulegu leyti, og gerði ríkisstj. það að fallast á tillögur stjórnar hlutatryggingasjóðs um þetta efni. Að vísu var það svo, að síldveiðideild hlutatryggingasjóðs átti ekki neitt fé til ráðstöfunar í ár. En hún fékk lán hjá almennu deildinni; og fyrir það lán voru síldveiðimönnum greiddar þessar uppbætur, eins og lögin um hlutatryggingasjóð ætlast til, þegar aflinn er lítill.

Ég skal nú ekki aftur minnast á síldaraflann í ár og síldáraflann 1959 og síldaraflann allt frá 1944, eins og hv. 4. þm. Austf. var að gera. En ég vil segja það, að þegar hann er að bera saman síldaraflann í ár og síldaraflann á fyrri árum, þá verður hann að taka það með, að bátaflotinn, síldveiðiflotinn, er allur annar nú en hann hefur verið á fyrri árum og að tækin, sem notuð eru nú til veiðanna, eru allt önnur og betri en þau hafa áður verið, þannig að miðað við þá aukningu, sem orðið hefur bæði í skipastól og tækni, þá er um geysílega afturför að ræða.

Þá var minnzt á þessar vátryggingar, sem hér hafa verið til umr., og ég get nú sleppt þeim, því að það hef ég þegar rætt með þeirri grein, sem ég hef gert fyrir sjálfu frv.

Þá minntust þessir hv. þm. á ný lán, sem ríkisstj. hefði tekið að sér að útvega, og það er rétt, að það hefur verið til umr. hjá ríkisstj. að freista þess að fá breytt stuttum lánum útgerðarfélaga í löng lán. Það er það, sem um hefur verið rætt. En það mál er ekki komið á það stig, að ég geti sagt frá því nánar hér nú, en ég get aðeins upplýst, að að þessu er unnið, og unnið af kappi til þess að reyna að koma í veg fyrir stöðvun hjá útvegsmönnum af rekstrarfjárskorti, ef þeir eiga nægilegar eignir, en vantar aðeins lausafé. Að þessu er unnið, og ég vænti, að út úr því komi eitthvað það, sem dugir til þess að leysa úr rekstrarfjárvandanum.

Þá var minnzt á frest á afborgunum af fjárfestingarlánum og vátryggingargjöldum: Það er rétt, við höfum óskað eftir því í ríkisstj. við þá aðila, sem þessar upphæðir eiga hjá sjávarútvegsmönnum, að þeir frestuðu innheimtu, þangað til séð yrði fyrir um þessar lánveitingar. Ég verð að segja, að þá er nú flest tínt til, ef það á að vera ljóður á þeim aðgerðum, sem uppi hafa verið hafðar, að reyna að fá samninga um greiðslu á lánum sjávarútvegsins, þegar viðurkennt er, að hann er í miklum vanda.

Ég man nú ekki, hvort það er miklu meira, sem ég þarf að segja í þessu sambandi. Það hefur orðið niðurstaðan hjá þessum hv. þm., sem talað hafa, að þeir hafa ekki haft mikið á móti þessari ráðstöfun, sem hér er efnislega gert ráð fyrir með frv., og meira að segja hv. 4. þm. Austf. skýrði frá því, að hann væri frv. meðmæltur. En það, sem hefur verið aðalatriðið og uppistaðan í ræðum þessara hv. þm., var það að reyna að sanna, að það væru aðgerðir ríkisstj„ en ekki utanaðkomandi aðstæður, sem hefðu valdið þeim erfiðleikum, sem sjávarútvegurinn á nú í. Þessu hef ég lítillega reynt að svara. Ég tel ekki, að ég þurfi þar miklu við að bæta, skal aðeins minnast á vextina, sem hér voru nefndir áðan. Það var aldrei ætlazt til þess, að þessir vextir, sem settir voru í sambandi við efnahagsaðgerðirnar, stæðu að eilífu, heldur átti einungis með þeim að skapa nokkurt aðhald um lántökur — og fjárfestingu alveg sérstaklega, en þegar jafnvægi væri komið á og líkur til þess, að kerfið. gæti verkað eins og ætlazt var til, þá var gert ráð fyrir því að lækka vextina aftur. Ég get gjarnan skýrt frá því, að við höfum talað um það í ríkisstj. að lækka vextina aftur, og ég get endurtekið það, sem ég sagði á fundi Landssambands ísl. útvegsmanna í nóvembermánuði, að þá teldi ég fyrir mitt leyti geta komið til mála, að sú lækkun yrði gerð í áföngum. En það hefur um þetta engin ákvörðun verið tekin, og ég get þess vegna ekki upplýst um það frekar.

Ég skal svo ljúka máli mínu, en ég get ekki stillt mig um, það í sambandi við tilraun hv. 1. þm. Austf. til þess að vera fyndinn, þar sem hann talaði um, að ríkisstj. væri alveg eins og fluga í flösku, að þá vantaði mig bara það eitt, að hann syngi á eftir: „Ó, að ég væri orðinn lítil fluga.“