08.02.1961
Sameinað þing: 37. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1155 í D-deild Alþingistíðinda. (3137)

176. mál, aðild ríkisstofnana að Vinnuveitendasambandi Íslands

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Spurt er: „Hvaða ríkisstofnanir og ríkisfyrirtæki eru aðilar að Vinnuveitendasambandi Íslands?” Og í öðru lagi: „Hvert hefur verið tillag þessara stofnana og fyrirtækja til Vinnuveitendasambandsins seinustu 10 árin?“

Mér hefur þótt eðlilegast að fá um þetta svör beint frá Vinnuveitendasambandi Íslands og hef óskað eftir því að fá þau þaðan, og með bréfi, dags, í gær, hef ég fengið þau. Þetta bréf Vinnuveitendasambandsins hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Samkvæmt munnlegum tilmælum leyfum vér oss að gefa yður eftirfarandi upplýsingar um þær ríkisstofnanir og fyrirtæki, sem eru félagsmenn í Vinnuveitendasambandi Íslands, og hvert tillag þeirra nefur verið til sambands vors s.l. 10 ár.

Félagsmenn vorir, sem hér um ræðir, eru: Áburðarsala ríkisins, Landssmiðjan, allar síldarverksmiðjur ríkisins, þ.e.a.s. S.R.P. á Siglufirði, S.R. á Siglufirði, S.R.N. á Siglufirði og S.R. 46 á Siglufirði, síldarverksmiðjan á Skagaströnd, síldarverksmiðjan á Húsavík og síldarverksmiðjan á Raufarhöfn. Auk þess Skipaútgerð ríkisins og Tunnuverksmiðjur ríkisins, bæði á Akureyri og Siglufirði.“

„Framangreindir aðilar hafa,“ segir í bréfi Vinnuveitendasambandsins áfram, „greitt oss samtals á árunum 1951–1960, bæði árin meðtalin, kr. 1198462.66, eða sem svarar rétt rúmum 100 þús. kr. frá öllum fyrirtækjunum árlega samtals.

Til frekari upplýsinga sendum vér hér með afrit af bréfi forsrh. til sambands vors, dags. 30. apríl 1951, varðandi aðild ríkisstofnana að Vinnuveitendasambandi Íslands.“

Þetta bréf er undirritað af Vinnuveitendasambandi Íslands, Björgvin Sigurðsson.

Ég tel rétt til frekari skýringar að lesa upp þetta fylgiskjal. sem vitnað er til í bréfi Vinnuveitendasambands Íslands og er frá forsrh. til Vinnuveitendasambandsins, dags. 30. apríl 1951, en bréf rn. er svo hljóðandi:

Ríkisstj. hefur ákveðið, að þessar stofnanir skuli gerast aðilar að Vinnuveitendasambandi Íslands: 1) Grænmetisverzlun ríkisins og áburðarsala. 2) Skipaútgerð ríkisins. 3) Tunnuverksmiðjur ríkisins á Siglufirði og Akureyri. Landssmiðjan og síldarverksmiðjur ríkisins eru nú þegar aðilar að samtökunum. Þar sem samtök prentsmiðjueigenda eru ekki innan Vinnuveitendasambandsins, mun ríkisstj. taka til athugunar um þátttöku ríkisprentsmiðjunnar Gutenberg, þegar prentsmiðjueigendur kynnu að gerast aðilar. Áfengis- og tóbakseinkasölurnar munu eigi hafa í þjónustu sinni fólk, er verkföll taka til, og því ekki ástæða til, að þær gerist aðilar.“

Þetta bréf er undirritað af þáverandi forsrh., Steingrími Steinþórssyni og ráðuneytisstjóranum, Birgi Thorlacius.

Fleira hef ég svo ekki um þetta að segja, vænti, að þessi svör fullnægi hv. fyrirspyrjanda. Um það, hvort rétt sé eða ekki rétt, að ríkið taki þátt í þessum samtökum eða fyrirtæki þess eða ekki, skal ég ekki ræða hér, enda tel ég það ekki eiga heima í þessum fyrirspurnatíma.