08.02.1961
Sameinað þing: 37. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1156 í D-deild Alþingistíðinda. (3139)

176. mál, aðild ríkisstofnana að Vinnuveitendasambandi Íslands

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Í framhaldi af því, sem ég sagði áðan, og sem svar við þessum athugasemdum hv. fyrirspyrjanda skal ég segja það, að ég hafði skilið síðari setninguna í hans fyrirspurn þannig, að þar væri einungis átt við heildarframlögin frá þessum fyrirtækjum til Vinnuveitendasambands Íslands. Það stendur, með leyfi hæstv. forseta, orðað þannig í fyrirspurninni: „Hvert hefur verið framlag þessara stofnana og fyrirtækja til Vinnuveitendasambandsins seinustu 10 árin?“ Skildi ég það svo, að þar væri átt við framlagið í heild. Annars mun að sjálfsögðu vera hægt að fá það nánar upplýst og sundurliðað, ef hv. fyrirspyrjandi kynni að óska eftir því, en slíka sundurliðun hef ég ekki við höndina.

En hvað því viðvíkur, að þessi framlög séu lág, — eða hann vildi næstum því telja, að þau væru tortryggilega lág, skildist mér, þar sem þau væru frá öllum þessum stofnunum samanlagt árlega rúmar 100 þús. kr. að meðaltall yfir þetta 10 ára tímabil, þá hef ég ekki annað svar við því að gefa en að bréfi Vinnuveitendasambandsins fylgir yfirlýsing frá endurskoðanda sambandsins, Hirti Péturssyni, löggiltum endurskoðanda, sem ég skal leyfa mér að lesa upp og er svo hljóðandi:

.,Vinnuveitendasamband Íslands, Fríkirkjuveg 3, Reykjavík.

Að beiðni yðar hef ég yfirfarið greiðslur ríkisfyrirtækja þeirra, sem nú eru meðlimir í samtökum yðar, en þau eru: Áburðarsala ríkisins, Landssmiðjan, Síldarverksmiðjur ríkisins, Skipaútgerð ríkisins og Tunnuverksmiðjur ríkisins. Samkvæmt bókum yðar hafa téð fyrirtæki greitt á árunum 1951–1960, að báðum árunum meðtöldum, samtals kr. 1198462.66“, eins og ég las upp áðan, þannig að upphæðin liggur fyrir vottuð af löggiltum endurskoðanda.