22.02.1961
Sameinað þing: 41. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1159 í D-deild Alþingistíðinda. (3144)

956. mál, niðurgreiðslur á vöruverði

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Fyrri fsp. er um það, hvaða vörutegundir hafi verið greiddar niður á s.l. ári og hversu miklu niðurgreiðslan hafi numið á hverri vörutegund. Sem svar við þessari fsp. vil ég gefa eftirfarandi upplýsingar, sem eru tæmandi skrá um þær niðurgreiðslur, sem í gildi voru um s.l. áramót:

Niðurgreiðsla á dilka- og geldfjárkjöti nam 7.80 kr. á kg, á ærkjöti 3.40 kr. á kg, en auk þessa er að geta um geymslu- og vaxtakostnað á kjöti, en þar er um að ræða mánaðarlega hækkun, sem nemur 30 aurum á kg frá 1. nóv. 1960. Á mjólk, — og er þar miðað við mjólk frá mjólkurbúum og heimamjólk, sem seld er frá viðurkenndum mjólkurbúðum, — er niðurgreiðslan 2.72 kr. á lítra. Niðurgreiðsla á heimamjólk, sem seld er utan mjólkurbúða beint til neytenda, nemur 1.80 kr. á litra. Auk þess er greiddur niður hluti af flöskugjaldi, sem nemur 5 aurum á lítra. Niðurgreiðsla á smjöri nemur 34.35 kr. á kg. Niðurgreiðsla á kartöflum nemur 2.36 kr. á kg, og er þá miðað við fyrsta flokks kartöflur, en auk þess er greiddur niður geymslukostnaður kartaflna, og var sú niðurgreiðsla 24 aurar á kg frá 1. nóv. s.l. til 1. febr. þegar hún hækkaði upp í 50 aura. Niðurgreiðsla á smjörlíki nemur 7.99 kr. á kg. Niðurgreiðsla á saltfiski nemur 9.15 kr. á kg. Niðurgreiðsla á nýjum þorski nemur 1.90 kr. á kg og nýrri ýsu 1.60 kr. á kg. Niðurgreiðsla á kaffi er ekki miðuð við kg, heldur er ákveðinn hundraðshluti af fob-verði hins innflutta kaffis, og nemur sá hundraðshluti 16.8% af fob-verðinu. Sama gildir um innfluttar fóðurvörur og innfluttan áburð, að niðurgreiðslan er miðuð við fob-verð í innflutningi, og nemur niðurgreiðslan á innfluttum fóðurbæti 18.61% af fob-verði og á innfluttum áburði sömu tölu, 18.61%. Er með þessu svarað fyrri fsp., um uppnæð niðurgreiðslnanna á vörueiningu.

Síðari fsp. er um það, hvað áætlað sé, að heildarniðurgreiðslan á hverri vörutegund muni nema miklu samtals á því ári, sem nú er nýbyrjað, árinu 1961. Til þess að geta svarað þeirri fsp. þarf að áætla það magn, sem gert er ráð fyrir að seljist af hverri einstakri vörutegund á yfirstandandi ári. Þá áætlun, sem ég nú get um, hefur hagstofan gert eftir nýjustu og beztu fáanlegum upplýsingum og hefur endurskoðað þá áætlun, sem gerð var á sínum tíma í sambandi við undirbúning fjárlaga, og tekið tillit til þeirrar reynslu, sem fengizt hefur síðan, og þeirrar nýjustu vitneskju, sem nú liggur fyrir. Ég ætla að geta um hvort tveggja, bæði vörumagnið, sem gert er ráð fyrir að selt verði, þó að ekki sé um það beinlínis spurt, og svo líka heildarniðurgreiðsluupphæðina á hverri vörutegund, og hygg ég, að með því verði svarið við spurningunni ljósast eða komi það greinilegast fram, sem fyrir hv, fyrirspyrjendum hefur vakað.

Áætlað magn af dilka- og geldfjárkjöti til sölu á yfirstandandi ári er 7600 tonn, þannig að heildarniðurgreiðsla er áætlað að munu verða 59 millj. 280 þús. Magn af ærkjöti er áætlað að munu verða 350 tonn. þannig að heildarniðurgreiðslan verður 1 millj. 190 þús. kr. En niðurgreiðslan af geymslu og vaxtakostnaðinum, sem ég gat um aðan, 30 aurar á mánuði á kg. mun kosta 11 millj. 500 þús. Mjólkurmagnið, sem gert er ráð fyrir frá mjólkurbúum, og heimamjólk, seld úr viðurkenndum mjólkurbúðum, er áætlað að munu nema 40 millj. lítra, þannig að niðurgreiðsla á þessari mjólk mun kosta 108 millj. 800 þús. kr. Magn af heimamjólk seldri utan mjólkurbúða beint til neytenda er áætlað 2 millj. lítra, og er sú niðurgreiðsla talin kasta 3.6 millj. 5 aura niðurgreiðslan á flöskugjaldinu á 20 millj. lítra er talin munu kosta 1 millj. kr. Smjörsalan er áætluð 1200 tonn, þannig að smjörniðurgreiðslan mun kosta 41.2 millj. kr. Kartöflurnar eru áætlaðar 10 þús. tonn, þannig að kartöfluniðurgreiðslan mun kosta 23.6 millj. kr. Auk þess kemur sú niðurgreiðsla á geymslukostnaði kartaflna, sem ég gat um áðan og er áætlað að munu kosta 1 millj. kr. Smjörlíkismagnið er talið munu nema 2100 tonnum, þannig að smjörlíkisniðurgreiðslan er áætlað að munu nema 16 millj. 779 þús. kr. Saltfisksmagnið er talið munu vera 950 tonn, svo að saltfisksniðurgreiðsla er áætluð 8 millj. 693 þús. kr. Magnið af nýjum þorski er áætlað 2200 tonn, svo að sú niðurgreiðsla nemur 4 millj. 180 þús. kr., og magn af nýrri ýsu 4400 tonn, þannig að ýsuniðurgreiðslan er áætluð 7 millj, og 40 þús. kr. Kaffiinnflutningurinn er áætlaður 1350 tonn, svo að kaffiniðurgreiðslan verður 6.5 mill. kr. Fóðurvöruinnflutningurinn er áætlaður 18500 tonn, svo að fóðurvöruniðurgreiðslan nemur 12 millj, kr. Og áburðarinnflutningurinn er áætlaður 12 þús. tonn, þannig að áburðarniðurgreiðslan nemur 4.5 millj. kr. Kostnaður á yfirstandandi ári við allar þessar niðurgreiðslur — og listinn er tæmandi — er því áætlaður 310 millj. 862 þús. kr. Hér er um eilítið hærri upphæð að ræða en gert er ráð fyrir í gildandi fjárlögum, en þar er gert ráð fyrir 302.9 millj. kr. í niðurgreiðslur, og stafar þessi mismunur af því, að hagstofan hefur framkvæmt endurskoðun á því magni, sem væntanlega muni koma til sölu og niðurgreiðslu af öllum þessum vörutegundum, samkv. þeirri reynslu, sem fengízt hefur, síðan hagstofan gerði sína áætlun í sambandi við undirbúning fjárl., og samkv. nýjustu upplýsingum, sem fyrir liggja. En hér skakkar í raun og veru mjög litlu.

Þá vil ég að síðustu geta þess, að niðurgreiðsla á unnum mjólkurvörum, öðrum en smjöri, var felld alveg niður frá og með 16. sept. s.l., og enn fremur er rétt, að það komi fram, að á árinu 1960 var hætt að greiða niður verð á ull, gærum og skinnum.

Með þessu vona ég, að fyrirspurnin hafi fengið tæmandi svar.