01.03.1961
Sameinað þing: 43. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1167 í D-deild Alþingistíðinda. (3156)

199. mál, lánveitingar úr ræktunarsjóði og byggingarsjóði sveitabæja

Halldór Ásgrímsson:

Herra forseti. Það er rétt, sem hæstv. ráðh. gat um í svari sínu, að fyrirspurn um þetta sama atriði bar hér að 1 hv. Nd. fyrir nálega viku. Þá gat hann þess, sem hann gerði nú, að þetta lánamál yrði leyst í marz eða ef til vill drægist það eitthvað fram í apríl. En hann gat þess þá, sem hann vék ekki að núna, hæstv. ráðh., að hann gerði ráð fyrir, að það þyrfti engrar, fjáröflunar til deildanna, byggingarsjóðs eða ræktunarsjóðs, í þessu skyni, vegna þess að þessir sjóðir ættu á tímabilinu frá janúar til marz eða í lengsta lagi til apríl að geta verið sjálfbjarga í þessu efni vegna þá innkominna afborgana og vaxta af lánum, sem hefði ekki um áramót verið búið að greiða.

Ég vil ekki efa það, að hæstv. ráðh. telur sig ekki vita betur en að þetta mál leysist á þeim tíma, sem hann talar um. En ég óttast, að hæstv. ráðh. sé of bjartsýnn í því efni, ef svo er, að þessar lánadeildir bankans eigi að leysa málið algerlega með eigin handbæru fé. Ég tel það ákaflega veika von og reyndar mjög hæpna, að hægt sé að treysta því, að ræktunar- og byggingarsjóðum verði

á tímabilinu jan.-marz eða jafnvel fram í apríl búnir að fá inn í vexti og afborganir af lánum nálægt 9 millj. kr., sem hægt sé svo að verja til nýrra lána. Hæstv. ráðh. hlýtur að vera það jafnljóst og öðrum, að bændur eru almennt verr settir nú en verið hefur um langt árabil í því efni að geta staðið í skilum, og það er ekki sennilegt, að þeir, sem ekki gátu greitt af lánum sínum fyrir áramót, geti það almennt í stórum stíl á þessu umrædda tímabili, ekki sízt þegar á það er að líta, að í marz og apríl er mikill útgjaldatími fyrir bændur vegna áburðarkaupa, sáðvara o.fl., o.fl.

Ég vil þess vegna vænta þess. að hæstv. ráðh. íhugi þetta nánar og geri ráðstafanir til, að bætt verði við fé til deildanna, ef með þarf. Og einnig vænti ég þess, að ekki dragist lengur en fram í þennan nýbyrjaða mánuð, að umrædd lán verði öll afgreidd. Hér er um mjög aðkallandi mál að ræða, sem þolir ekki lengri bið en orðin er, eins og hv. fyrirspyrjandi vék að.