01.03.1961
Sameinað þing: 43. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1168 í D-deild Alþingistíðinda. (3157)

199. mál, lánveitingar úr ræktunarsjóði og byggingarsjóði sveitabæja

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra. forseti. Hv. síðasti ræðumaður hefði eiginlega ekki þurft að taka í árina með flokksbróður sínum, hv. 5. þm. Austf., í sambandi við þetta og bæta við þessum athugasemdum. Hv. þm. átti að vera það nóg, að ég lýsti því hér yfir áðan, að þessi lán mundu fara fram í marz og apríl. Hvort það verður af því fé, sem bankinn innheimtir í vöxtum og afborgunum vegna útistandandi lána á þessu tímabili, eða af öðru fé þá skiptir það vitanlega ekki aðalmáli, og bændurnir, sem lánin eiga að fá, spyrja ekki að því. Þeir spyrja ekki að því, hvort það sé nýtt fé, sem ríkisstj. hefur útvegað bankanum, eða hvort það séu vaxtatekjur og afborganagreiðslur, sem bankinn hafi. Þeir spyrja að því, hvort þeir fái lánin, og þeir hafa fengið svar við því, og það eru alveg óþarfar vífilengjur hjá þessum hv. þm. eftir þau svör, sem ég hafði gefið hér áðan. Enda þótt hann sé nú orðinn bankastjóri og ætti að vera kunnugur bankarekstri þá er alveg óþarfi fyrir hann að vera að vekja alveg sérstaklega athygli á því hér við þessa umræðu.

Það má benda á. að ræktunarsjóður fær fé á fjárlögum, það er lítið, en það er 1.6 millj., sem hann má þó nota í þessu skyni. Byggingarsjóður far 2.5 millj. kr. á fjárlögum, sem eitthvað mætti gera við, en ógreiddar voru úr byggingarsjóði 2.3 millj. kr.

Vaxtatekjur af útistandandi skuldum ræktunarsjóðs og byggingarsjóðs og afborganir á þessum tíma hljóta að verða talsverðar. Ég vek athygli á því. Að vísu eiga þessi árgjöld að greiðast fyrir áramót, en bankinn gerir sérstakar ráðstafanir, ef ekki er greitt fyrir marzlok, sendir út sérstakar rukkanir með sérstökum áminningum og vekur athygli á því, að það þurfi að greiðast í síðasta lagi fyrir marzlok. Að því leiðir að menn, sem greiddu ekki fyrir áramót, munu keppast við að greiða fyrir marzlok til þess að verða ekki vanskilamenn. Það getur verið, að einhverjum finnist, að ég ætti að þakka fyrir þær ráðleggingar, sem hv. þm. gaf mér hér áðan, en ég ætla nú að láta það vera, og ég ætla, að flestum öðrum hv. þm. nægi það svar, sem ég gaf áðan.