13.12.1960
Neðri deild: 37. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 507 í B-deild Alþingistíðinda. (317)

134. mál, efnahagsmál

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Hæstv. sjútvmrh. ræddi hér nokkuð um þau orð, sem féllu hjá mér varðandi yfirlýsingar, sem ég skýrði frá að gefnar hefðu verið á fundi L.Í.Ú. varðandi greiðslu á vátryggingariðgjöldum þessa árs, og í því tilefni las hæstv. ráðh. hér upp bréf, sem hann sendi þessum fundi þann 17. nóv., en í bréfinu var skýrt frá því, eins og greinilega fram kom, að hann eða ríkisstj. lofaði því að greiða vátryggingariðgjöld fiskiskipaflotans 1960 með afgangi þeim, sem kynni að reynast í útflutningssjóðnum, og ég tók eftir, að hæstv. ráðh. sagði: Ef þetta á að skilja sem yfirlýsingu um það, að ríkisstj. hafi lofað að greiða öll iðgjöldin fyrir 1960, þá get ég ekki skilið það. Jú, rétt er nú það. Þetta bréf barst einmitt þessum fundi Landssambandsins, sem ég var að skýra frá. Ég gat einmitt nokkuð um það hér í minni ræðu. Útvegsmennirnir á landssambandsfundinum skildu ekki þetta bréf þannig, að það þýddi loforð um það, að greiða ætti vátryggingariðgjöldin að fullu og öllu fyrir árið 1960. Þeir litu einmitt á þetta sömu augum og hæstv. ráðh. túlkaði hér. Þetta var ekki loforð um það að greiða iðgjöldin að öllu leyti, heldur aðeins með eftirstöðvum þeim, sem voru í útflutningssjóði og hann hafði sjálfur gert grein fyrir að mundu vera í kringum 40 millj.

Svo tók ég eftir því, að hæstv. ráðh. yfirgaf málið á þessu stigi og vildi láta líta svo út, að lengra hefði þetta mál ekki gengið, frekari loforð hefðu ekki frá honum komið. En ég minntist einmitt á það í minni ræðu og skal gera það nokkru frekar nú, að þegar þetta bréf, sem hæstv. ráðh. las hér upp, barst fundi Landssambandsins, voru fulltrúarnir þar svo óánægðir með þetta fyrirheit, sem þarna var gefið, að fundi var beinlínis slitið eða frestað, tekið fundarhlé í líklega fulla 3 klukkutíma, fulltrúar frá fundinum sendir á fund ríkisstj. og ekki minna, eins og ég sagði, en þrír af framámönnum Landssambandsins komu svo til fundarins aftur með yfirlýsingu um það, að hæstv. sjútvmrh. teldi öruggt, að í útflutningssjóði væru nægilegar tekjur til þess að greiða iðgjöldin að fullu og öllu, og forustumenn Landssambandsins undirstrikuðu það við fundinn, að þetta jafngilti því, að lofað væri að greiða vátryggingariðgjöldin. Því var það, að fundarmenn á þessum fundi einmitt undirstrikuðu það fleiri en einn, að þessi yfirlýsing jafngilti því, að lofað væri að greiða vátryggingariðgjöldin. Eins og ég kom svo hér að, sem er vitanlega aðalatriðið í málinu, hefur þetta líka verið meiningin, því að nú er komið á daginn, og ég fann ekki, að hæstv. sjútvmrh. mótmælti því, — nú er komið á daginn, að það er nægilegt fé fyrir samkv. nýjustu upplýsingum í útflutningssjóði til þess að greiða iðgjöldin að fullu, og þetta virðist því allt saman standast. En það, sem ég var að benda á í þessum efnum, var aðeins þetta, að hæstv. ráðh. hafði áður sagt það, sem mér þótti miklu nær lagi, að eftirstöðvarnar í útflutningssjóði mundu verða kringum 40 millj., en ekki þessar 88, sem nú er talað um að verði eftir í sjóðnum og þarna var fullyrt að mundu verða til staðar til þess að greiða þetta allt saman.

Hæstv. ráðh. reyndi að gefa nokkra skýringu á því, hvernig á þessum mismun stæði. Hann sagði, að þessi mismunur skýrðist með því, að í fyrra tilfellinu, þegar hann nefndi 40 millj. eftir í útflutningssjóði, hefði hann ekki reiknað með því, að útflutningsskatturinn, 21/2%, stæði nema fram að áramótum, en nú væri hins vegar gert ráð fyrir því að innheimta hann á næsta ári af allri framleiðslu ársins 1960. En nú veit ég, að hæstv, sjútvmrh, minnist þess, að í ræðu sinni á landssambandsfundinum sagði hann, um leið og hann nefndi töluna 40 millj., sem mundu verða eftir í sjóðnum, að tekjur af útflutningssjóðsgjaldinu væru taldar 50 millj. kr. Þetta er skráð eftir honum í Alþýðublaðinu, — ég var einmitt að líta eftir því. Hann getur því ekki skýrt þennan mismun á þennan hátt, vegna þess að heildartekjurnar af 21/2% gjaldinu voru áætlaðar miðað við eins árs útflutning, og það fer mjög nærri réttu lagi, í kringum 60 millj. Hann sagði sjálfur í sinni ræðu, að reiknað væri með tekjum af þessu gjaldi upp á 50 millj. kr., og þá mætti búast við því, að niðurstaðan í sjóðnum yrði 40 millj. í afgang. Og þó að nú eigi að samþykkja að framlengja 21/2% gjaldið áfram aðeins yfir framleiðsluna 1960, þá gæti það aðeins munað í kringum 10 millj. frá þeirri tölu, sem hann hafði sjálfur reiknað með, og því getur hann ekki skýrt þennan mismun á þennan hátt.

Nei, það, sem hér hefur gerzt, er það, að eftirstöðvarnar í útflutningssjóði reynast vera miklu meiri en hæstv. ráðh. hafði gert grein fyrir, og þær virðast vera ótrúlega miklar, verð ég að segja, miðað við alla fyrri útreikninga um hag útflutningssjóðs.

Þá kom hin skýringin hjá hæstv. ráðh., að það væri ekki gott að deila á einn eða neinn fyrir ranga útreikninga í sambandi við hag útflutningssjóðs, því að það hefði sýnt sig, að upplýsingar frá stjórn sjóðsins áður hefðu verið mjög ófullkomnar eða óáreiðanlegar. Og hann vildi vísa þeim röngu áætlunum, sem fram hefðu komið um hag útflutningssjóðs í sambandi við viðreisnarlöggjöfina, til stjórnar útflutningssjóðs. Þetta er alveg rangt. Stjórn útflutningssjóðs hafði ekki gefið neinar upplýsingar um það, að skuldahali hans væri sá, sem sagt var í grg. fyrir viðreisnarfrv., það er mér vel kunnugt um. Stjórn útflutningssjóðs hafði ekki gefið neinar upplýsingar um það, að skuldahali sjóðsins væri á annað hundrað millj. kr. Það var ríkisstj. sjálf eða sérfræðingar hennar í efnahagsmálum, sem slógu þeirri tölu fastri, svo að það er ekki hægt að skjóta sér neitt á bak við upplýsingar frá sjóðsstjórninni. Mín skoðun er sú, og mín reynsla var sú, að þær upplýsingar, sem stjórn útflutningssjóðs gaf um hag sjóðsins á hverjum tíma, væru mjög nærri réttu lagi, eftir því sem hægt er að gefa þær upp og áætla þær. En slík reginskyssa, sem þarna kemur fram, eða skekkja, sem sýnilega sveiflast nokkuð yfir 200 millj. kr., — það átti að vera skuldahali upp á mikið á annað hundrað millj. kr., en reynist hafa verið innistæða í sjóðnum upp á um 60 millj. kr., eftir því sem nú er gert upp, — sú mikla sveifla fær ekki staðizt á neinn hátt, nema þá að þeir, sem þetta hafa reiknað út, hafi farið hér gersamlega villir vegar, eða þá hitt, að útflutningssjóður sé nú farinn að fá einhverjar tekjur, sem hefur ekki verið reiknað með áður.

Um vátryggingariðgjöldin segi ég því aðeins það: Því hefur verið lýst yfir, að úr útflutningssjóði skuli vátryggingariðgjöldin greidd, og það getur ekki borið mikið á milli þessa og þess, sem hæstv. sjútvmrh. segir nú. Ég gat ekki skilið orð hans á annan veg en þann, að hann viðurkenndi, að nú væri áætlað, að eftir yrðu í sjóðnum í kringum 88 millj. kr., sem mun vera mjög nærri því að duga fyrir öllum iðgjöldum ársins.

Það var annars mjög áberandi í ræðu hæstv. sjútvmrh., hvernig hann streitist við að neita þeim staðreyndum, sem liggja fyrir um það, að ríkisstj, hafi orðið að grípa til þess vegna bágs hags sjávarútvegsins að taka upp stuðnings- eða uppbótakerfi að meira og minna leyti á nýjan leik. Ja, hvað er annars uppbótakerfið? Við skulum t.d. taka togarana. Það er engin smáræðis fúlga, sem þeir fá nú á þessu ári samkv. því, sem þegar má heita ákveðið. Eftir að viðreisnin var samþ., voru togaraflotanum greiddar í kringum 30 millj. kr. úr útflutningssjóði í beinan styrk. Nú er ráðgert að greiða vátryggingariðgjöld togaraflotans á þessu ári. Ég hygg, að sú upphæð muni vera fyllilega í kringum 40 millj. kr., — fyllilega það. Hér er því um að ræða, að greiða á togurunum í landinu í kringum 70 millj. kr. á þessu fyrsta viðreisnarári. Það mun vera nærri því að vera 1.7–2 millj. kr. á hvert skip. Ég efast um það, að í annan, tíma hafi togararnir fengið öllu meira í beinar uppbætur á einu ári en þetta. Hér er um beinar peningagreiðslur sem styrk til þeirra að ræða, og ber vitanlega að afsaka að verulegu leyti vegna þess, hvernig rekstur þeirra hefur gengið núna. En hér er vitanlega um uppbótagreiðslur að ræða, það þýðir ekkert að neita því. Og hið sama er vitanlega að segja um þá aðra liði, sem hér hafa verið gerðir að umtalsefni og snúa eins mikið að bátaflotanum og öðrum þáttum sjávarútvegsins. Hér er um beinar uppbótagreiðslur að ræða eða fyrirgreiðslu fjármálalegs eðlis, sem var eitt megininntakið í sambandi við uppbótakerfið.

Það var mjög eftirtektarvert í þessum efnum, sem hæstv. sjútvmrh. minntist hér á um nótakaupalán síldveiðiflotans. Eitt af kröfuatriðunum á hverju ári um nokkurra ára skeið frá hálfu útvegsmanna í sambandi við þá fyrirgreiðslu, sem þeir vildu semja um fyrir hver áramót á undanförnum árum, var einmitt krafan um þetta, að ríkisstj. hlutaðist til um það, að síldarútvegsmenn fengju sérstök lán til kaupa :á síldarveiðarfærum. Og árið, sem hæstv. sjútvmrh. var forsrh. og þurfti að semja við útvegsmenn á grundvelli uppbótaskipulagsins, kom þetta atriði líka fyrir. Þá kröfðust útvegsmenn þess á nýjan leik að fá þessa fjárhagslegu fyrirgreiðslu. Og þá hét hann útvegsmönnum því, að hann skyldi reyna að beita áhrifum sínum til þess að koma þessum lánum í gegn, en það tókst ekki. Nú, þegar allt uppbótakerfið átti að vera úr sögunni, kom þetta atriði aftur af hálfu útvegsmanna. Þeir ítrekuðu þessa kröfu sína frá gamla uppbótatímabilinu, og nú, þegar engar fyrirgreiðslur eða uppbætur átti að veita, var þetta samþykkt. Til viðbótar við venjuleg rekstrarlán, sem flotinn fékk, áður en hann fór á síld, fékk hann þessi lán til þess að leysa sig út úr vandræðum, þegar hann kom af síldveiðunum. Ég er ekki að segja þetta til þess að ámæla ríkisstj. á nokkurn hátt, að hún hafi þetta gert. Síður en svo. Ég álít fyrir mitt leyti, að þetta hafi verið næstum að segja óhjákvæmilegt, eins og komið var. Ég er ekki heldur að ásaka ríkisstj. fyrir það að samþykkja að greiða öll vátryggingariðgjöld flotans á þessu ári. Ég álít, að það hafi verið óhjákvæmilegt, eins og komið var. En mér kemur ekki til hugar þrátt fyrir viðkvæmni hæstv. ráðh. að kalla þetta öðrum nöfnum nú en þeir kölluðu þetta, — ég kallaði þetta og allir aðrir kölluðu. þetta fyrir einu ári. Þetta eru alveg sams konar ráðstafanir nú og það voru þá. Á þeim er enginn munur. Og nú hefur þurft að grípa til þessa vegna þess, að hagur sjávarútvegsins er svona aumur, eins og raun er á. Hitt er svo annað mál, ef ríkisstj. vill kalla þetta einhverjum öðrum nöfnum, þá hún um það.

Það er enginn vafi á því, að það, sem er aðalatriði þessa máls, er það, að hagur sjávarútvegsins er lakari nú en hann hefur verið um margra ára skeið. Þetta ber forustumönnum útvegsmanna saman um. Ég minnist þess t.d., þegar formaður útvegsbændafélagsins í Vestmannaeyjum, kunnur og þekktur sjálfstæðismaður þaðan, sagði á landssambandsfundinum fyrir nokkru, að nú væri ástand sjávarútvegsins, eins og hann þekkti það, hið lakasta, sem hann hefði nokkurn tíma vitað. Stuðningsmenn ríkisstj. að öðru leyti segja þetta vitanlega ekki hver um annan þveran nema vegna þess, að þetta er svona. Og þegar ástandið er svona, þá þurfa ráðherrarnir að átta sig á því, að það er ekki hægt að halda að sér höndum, það þarf að gera tilteknar ráðstafanir, til þess að í algert óefni lendi ekki. Og það er auðvitað enginn vafi á því, að ein þýðingarmesta ráðstöfunin, sem gerð yrði til þess að lagfæra þetta, eins og nú standa sakir, er að lækka vextina mjög verulega.

Það er fullkomlega rétt, sem ég hef bent á áður, af því að það er tekið beint upp úr bókhaldi eins fyrirtækis, að vaxtahækkunin hjá einu meðalfrystihúsi í landinu, vaxtahækkunin, sem ákveðin var með viðreisnarlöggjöfinni eða fylgiráðstöfunum hennar, hækkaði útgjöld þessa meðalfrystihúss um rúmlega 700 þús. kr. á árinu, en það jafngilti því, að öll laun í þessu meðalfrystihúsi, öll laun hárra sem lágra, hefðu verið hækkuð um 22%. Hér. er vitanlega ekki um neinn smáræðisskatt að ræða, sem leggst á framleiðsluna með þessum okurvöxtum. Ef slakað væri til á vöxtunum verulega, mætti vitanlega koma hér fram mikilli breytingu, og það er alveg furðulegt að heyra það, að hæstv. ríkisstj. skuli áfram halda í þessa háu vexti. Mér fannst furðulegt að heyra hæstv. sjútvmrh. segja það hér, að eitt af því, sem hér hefði verið öfugt og óviðunandi árið 1958, hefðu verið óeðlilega lágir vextir. Vextirnir voru þó hærri hér á landi en í flestum löndum í kringum okkur og hjá þeim löndum, sem við t.d. keppum einna mest við í sambandi við okkar aðalútflutningsvöru. Þó að okkar vextir væru mun hærri en vextirnir þar, þá telur hæstv. sjútvmrh., að það hafi verið einn af stórágöllunum, sem hér ríktu árið 1958, að þá hafi verið hér óeðlilega lágir vextir.

Það er vitanlega alveg. þýðingarlaust fyrir hæstv. ríkisstj., þegar hún stendur nú frammi fyrir þessum erfiðleikum, að ætla að afsaka allan vandann nú með því, að það hafi verið komið í óefni um það leyti, sem vinstri stjórnin lét af völdum seint á árinu 1958. Það er vitanlega engin skýring á þeim vanda, sem við stöndum frammi. fyrir nú í dag. Sannleikur málsins er sá, að árið 1958 eða í árslok þá, þá stóðum við betur að vígi en við höfðum staðið um langan tíma. Á því er enginn vafi. Á því ári náðum við raunverulega fullkomnum greiðslujöfnuði í viðskiptum okkar við útlönd. Bókhaldslega var talið, að greiðsluhallinn hefði numið samkv. skýrslum hagstofunnar 90 millj. kr., en jafnframt sýndi okkar bókhald það, að birgðaaukning var í landinu upp á rúmar 90 millj. kr. af útflutningsvörum. Og ef við tökum tillit til þessarar birgðaaukningar, þá náðum við raunverulega hér fullkomnum greiðslujöfnuði á því ári þrátt fyrir allt það mikla fé, sem á því ári var varið til kaupa á skipum og varanlegum verðmætum fyrir framleiðslulíf þjóðarinnar. Og um það er auðvitað ekkert að villast heldur, að hagur bæði útflutningssjóðs og ríkissjóðs var þá góður. Það sýndi sig líka, hvernig á málum var haldið árið 1959 í sambandi við tekjuöflun, að hagur bæði ríkissjóðs og hagur útflutningssjóðs var góður í árslok 1958.

Ég hefði gaman af að heyra það, að einhver úr röðum framleiðenda eða útvegsmanna héldi því fram, að framleiðslan hafi búið við skarðan hlut eða léleg kjör hér árið 1958. Skýrslur þær, sem nú liggja fyrir frá reikningaskrífstofu sjávarútvegsins, opinberar skýrslur, sýna það, að árið 1958 var hagnaður á rekstri bátaflotans í landinu. Þá varð hagnaður af rekstri bátanna á aðalvertíðinni, þegar fullt tillit var tekið til afskrifta. Þetta sýna niðurstöður reikningaskrifstofu sjávarútvegsins, enda varð framleiðslan þá með mesta móti og meiri þátttaka í útgerð en við höfðum áður þekkt, nýting flotans varð þá betri.

Nú aftur á móti hefur orðíð veruleg breyting í þessum efnum. Það er vitanlega ekkert geðfellt að horfa upp á sum af þeim miklu og dýru frystihúsum í landinu, þessum fullkomnu tækjum, sem hér var komið upp, m.a. á árinu 1958 og árunum þar á undan, við skulum t.d. taka jafnglæsilegt atvinnufyrirtæki og hið mikla frystihús togaraútgerðarinnar á Ísafirði, — ætli það sé ekki búið að vera með slagbrand fyrir aðaldyrum í 3–4 mánuði, — að þetta stóra og mikla frystihús, sem ríkið aðstoðaði við að koma upp, hefur verið fullkomlega lokað. Hið mikla frystihús á Akureyri hefur verið lokað nú um langan tíma líka. Og hér við Faxaflóa hafa hin stóru frystihús aðeins verið notuð að litlu leyti og mikill hlutinn af fólkinu verið hér atvinnulaus.

Opinberar skýrslur sýna það líka, að okkar aðalfiskiðnaður, hraðfrystingin, mun falla niður að magni til um 10–15% á þessu ári. Hraðfrystingin dregst saman, fiskvinnslan minnkar. Þetta gerist á sama tíma sem aflinn hefur ekki minnkað. En það, sem hér er um að ræða, er það, að meira og meira af fiskiskipum okkar neyðist til þess blátt áfram að reyna að koma sér undan okurvöxtunum hér innanlands og undan lánsfjárkreppunni hér og hallarekstrinum, sem eru raunverulega búin til af opinberum aðilum, — neyðist til þess sumpart að sigla með fiskinn óunninn á erlendan markað. Við vitum mætavel, hvernig þetta raunverulega gerist. Það er ekki vegna þess, að bátaeigendurnir og togaraeigendurnir telji sig raunverulega fá meira út úr rekstrinum með því að sigla með aflann á erlendan markað heldur en með því að leggja hann upp hér innanlands. En ef þeir legðu aflann upp innanlands, hvað þá? Þá yrðu þeir að fá lánað úr bönkum landsins allt verðmæti fisksins og verðmæti þeirra vinnulauna, sem þarf að setja í fiskinn, ef á að fullvinna hann. En það er ómögulegt að fá þessi lán. Það stendur allt fast. Og þó að menn gætu pínt þau út, þá eru vextirnir svo ógurlegir, að það vilja allir komast undan því, sem mögulega geta, að liggja undir þessum vöxtum. Vegna þess sveigjast menn meira og meira inn á þá braut að sneiða hjá vaxtaokrinu og lánsfjárkreppunni og sigla út með fiskinn, þar sem þeir geta fengið hann borgaðan út í hönd í erlendri höfn, þó að við séum á þennan hátt að flytja út vöruna óunna og okkur vitanlega til þjóðhagslegs tjóns.

Ég er ekki í nokkrum vafa um það, að þetta ástand allt leiðir til þess, að þjóðartekjurnar minnka. Það getur ekki orðið þjóðhagslegur hagnaður af því að hafa byggt milljónafrystihús og láta þau standa lokuð mánuðum saman. Það getur ekki orðið þjóðhagslegur hagnaður af því að hafa hér í vaxandi mæli fólk, sem hefur ekkert að gera, en hefur áður unnið að fiskiðnaði. Þetta eru m.a. afleiðingarnar, sem verða af rangri stefnu í efnahagsmálunum, og vextirnir eiga þarna stærri þátt í en flesta grunar, hygg ég, enda má það vera mönnum ljóst, að það, sem mér sýnist vera raunverulega verið að reyna að sanna Íslendingum, þegar litið er á heildina í þessum efnum, það er alveg hið furðulegasta. Út úr þessu öllu kemur það, að hið almenna kaupgjald á Íslandi er lægra en í öllum löndum í kringum okkur. Verkamaðurinn hér á að hafa lægra kaup en verkamaðurinn í Noregi og á að hafa lægra kaup en verkamaðurinn í Danmörku: Kennarar voru nýlega að birta opinbera skýrslu um það, að þeir teldu sitt kaup vera um 50% lægra en stéttabræðra þeirra á Norðurlöndum. Og allir aðrir launaflokkar hér skýra frá þessu sama: kaupið á að vera lægra. Við höfum svo dæmin fyrir okkur um það, að hér þarf að borga miklu lægra fiskverð en t.d. hægt er að borga í Noregi. Sjómenn okkar og útgerðarmenn verða þarna að búa við lakara verð en í okkar samkeppnislandi. Hvernig stendur á þessu? Af hverju þarf kaupgjaldið að vera lægra á Íslandi, og af hverju þarf fiskverð til frameiðendanna að vera lægra hér en annars staðar? Til þess að þetta sé rétt, þá er verið að reyna að sanna mönnum það, að við hér á Íslandi framleiðum raunverulega minna miðað við hvern einstakling heldur en hinir gera, að okkar þjóðartekjur séu hlutfallslega minni en þeirra þjóðartekjur. Það er það, sem er verið að sanna. Það á að reyna að halda því fram, að okkar þjóðartekjur séu hlutfallslega lægri en annarra. En allar opinberar skýrslur segja alveg öfugt: Það hefur verið margviðurkennt af hagfræðingunum, að þjóðartekjur okkar væru hærri en nágrannaþjóða okkar, þegar tekið er tillit til íbúafjöldans. En ef, eins og við vitum mætavel, við framleiðum tiltölulega meira, miðað við hvern einstakling; hvernig stendur þá á því, að það er nauðsynlegt að þrýsta niður lífskjörunum á þennan hátt? Hvernig stendur á því, að það er nauðsynlegt, að meðalstórt hraðfrystihús á Íslandi, sem kaupir í kringum 3000 tonn af fiski á ári og skilar út 1000 tonnum af flökuðum fiski, — hvernig stendur á því, að það þarf að kaupa þennan afla af bátunum fyrir verð, sem nemur 3.5 millj. kr. lægra verði en sams konar frystihús í Noregi? Hvernig stendur á því? Af hverju fær einn meðalvertíðarbátur hjá okkur um 700 þús. kr. minna fyrir sinn afla en norskur bátur fær fyrir jafnmikinn afla? Af hverju? Ekki er það vegna þess, að launin hjá fólkinu, sem vinnur í frystihúsunum, séu hærri hér. Opinberar skýrslur sýna, að launin eru lægri hér. Nei, það, sem m.a. gerir það, er hið stórkostlega vaxtaokur. Mér reiknast til, að bara vaxtamismunurinn einn, sá munur, sem er á vöxtum, sem við verðum að greiða, hjá meðalfrystihúsinu hér á landi og vextirnir, sem meðalfrystihúsið í Noregi þarf að borga, að þar skakki hvorki meira né minna en í kringum 1.4 millj. kr. Það er vitanlega fljótt að fara út í svona liði. En hæstv. ríkisstj. heldur dauðahaldi í skipulag eins og þetta, að okra svona á vöxtunum, taka svona stóran hluta af framleiðslunni, leggja hann fyrir í gróðabunka í Seðlabankanum. En svo er staðið upp á eftir, þegar búið er að skattleggja framleiðsluna á þennan hátt, og sagt: Fiskverðið getur ekki verið hærra en þetta, bátarnir verða bara að bera sig með þessu. — Kaupgjaldið getur ekki verið hærra en þetta. Það verður að vera lægra en annars staðar, því að það er ekki meira eftir að skipta.

Nei, það gefur auga leið, að hér hefur verið snúið við hlutunum, hér er tekið af framleiðslunni og því fólki, sem vinnur að framleiðslustörfunum, allt of mikið og lagt til hliðar. Það verður gróði hins dauða kapítals. En þrátt fyrir þá reynslu, sem hæstv. ríkisstj. er búin að fá af þessu nú á þessu ári, virðist hún enn þá lemja hausnum við steininn og segist ekki vilja lækka afurðavextina. Það hafi hún gert upp við sig. Áfram skuli framleiðslan þurfa að borga þessa okurvexti.

Á því getur ekki verið nokkur vafi, að ef ríkisstj. ætlar sér að halda í það áfram, að núverandi skipun efnahagsmálanna skuli standa óbreytt, þá hlýtur það að leiða til minnkandi þjóðartekna eða minnkandi framleiðslu, almennt séð. Það er ómögulegt annað.

Það er svo í rauninni kátbroslegt að þurfa að standa hér og annars staðar og vera að deila við t.d. hæstv. sjútvmrh. um það, hverjar séu orsakir þess, að svo er komið eins og komið er í sambandi við okkar sjávarútveg. Hann þrástagast hér á því enn, að erfiðleikarnir séu, eins og hann sagði, fyrst og fremst af aflaleysi og verðfalli á afurðum. Ja, hvaða aflaleysi er þetta? Ég hef hér fyrir framan mig tímarit Fiskifélagsins, Ægi, og það hittist nú svo á, að þetta hefti, sem ég er hér með, er einmitt miðað við aflann í maílok, einmitt rétt upp úr vetrarvertiðinni, í maílok. Þar kemur í ljós, að bátaflotinn, sem hér skiptir alveg yfirgnæfandi máli, hefur nú á þessu ári, 1960, til maíloka, sem sagt á vetrarvertíðartímanum hefur hann veitt 190 þús. tonn. En hvað mikið í fyrra? 168 þús. tonn. Dettur nú nokkrum manni í hug, að sjútvmrh. geti komið hingað og staðið upp og sagt, að ástæðan fyrir erfiðleikum þessa bátaflota og því, að allt er að reka í strand, sé aflaleysi? Nei, það er ekki um það að ræða. Alveg sama er um hitt, sem ég sagði í minni fyrri ræðu, ef maður lítur á síldveiðarnar um hvorki meira né minna en 16 ára tímabil, frá 1944 og fram á þetta ár. Í 16 ár hefur síldveiðin að vísu alltaf gengið illa hjá okkur, borið saman við okkar miklu og góðu síldarár, sem voru þar næst á undan. En aðeins eitt ár af þessum 16 var með meiri afla af síld en árið í ár. Það var árið 1959. Þá var aflinn nokkru meiri. En næsthæsta árið með afla á síldveiðum á þessu 16 ára tímabili var árið í ár. Hvað þýðir nú að vera að koma og segja mönnum, að þetta sé vegna aflaleysis? Og það er ekki heldur vegna þess, þó að mjög óhöndulega hafi tekizt til í sumar, að við höfum saltað of lítið af síld, sem var stjórnleysi á margan hátt. Mörg árin þar á undan söltuðum við miklu minna. Því er ekki heldur til að dreifa.

En hitt er rétt, sem ég sagði, og mig undra nokkuð þau orð, sem féllu hjá hæstv. sjútvmrh. út af því, sem ég sagði, — það er alveg augljóst, að það hefur orðið aflabrestur hjá togurunum. Það sagði ég og margendurtók. Ég sagði aðeins hitt, og það mætti hann sjálfur athuga til þess að leiðrétta sín orð, að þær tölur, sem ýmsir hafa verið að nefna um það, hvað afli togaranna væri miklu minni í ár en hann var í fyrra, eru rangar. Það hefur verið gert allt of mikið úr aflamuninum. Og hann nefndi þar rangar tölur líka. Þessar tölur liggja fyrir og því ástæðulaust að þræta um þær. Ég benti á, að það er ekki réttur samanburður, þegar maður lítur á afla togaranna í ár og afla togaranna í fyrra, að taka ekki eitthvert tillit til þess, að í ár hafa þeir siglt miklu meira á erlendan markað með aflann, og það er ómögulegt að fá út úr einum togara jafnmörg tonn veidd, ef hann siglir með aflann, eins og þegar hann landar heima. Fram til 1. okt. núna í ár lönduðu togararnir erlendis í 98 túrum á móti 32 á sama tíma árið á undan. Þetta vitanlega kemur nokkuð fram í aflanum, og þegar menn hafa verið að gera samanburð á milli ára í sambandi við veiðar togaranna, þá hafa allir þeir, sem kunnugir eru þessum efnum, tekið fullt tillit til þessa og leiðrétt tölurnar eftir því. En þó að þær séu leiðréttar samkvæmt þessu, þá er eigi að síður um aflaleysi hjá togurunum að ræða í ár, — það hef ég sagt og mér kemur ekki til hugar að halda neinu öðru fram. Ég játa því, að togaraútgerðin stendur frammi fyrir sérstökum vanda. En það er, eins og ég sagði í minni fyrri ræðu, óþarft að blanda sérstöku vandamáli togaranna vegna aflatregðu hjá þeim svo saman við afkomu bátaútvegsins í landinu og fiskiðnaðarins almennt séð, að menn geti ekki gert sér grein fyrir því, hvernig stendur á þeim erfiðleikum, sem þar er við að glíma. Það er með öllu óþarft að blanda þessu saman. Nei, það er miklu betra að reyna að gera sér grein fyrir vandanum alveg hleypidómalaust heldur en að reyna að slá fram einhverri skýringu, sem alls ekki fær staðizt.

Sannleikurinn er líka sá, að ef menn væru á því, að hér væri fyrst og fremst um aflaleysi að ræða, t.d. hjá bátaflotanum, þá væri engin ástæða til þess að gera nokkurn skapaðan hlut, nema þá kannske bæta bátaflotanum eitthvað upp það aflaleysi, sem orðið hefði núna, en breyta í engu rekstrargrundvellinum fyrir næsta ár, því að það er vitanlega engin ástæða til að búast alltaf við eilífu aflaleysi.

Það er alveg augljóst mál, að það þarf einmitt að breyta grundvellinum, því að það er engin leið að reka útgerðina á þeim rekstrargrundvelli, sem þar er við að búa nú. Það þarf að bæta þar rekstraraðstöðuna, vegna þess að það hefur orðið halli þrátt fyrir sæmilega góðan afla.

Ég sagði það hér áður líka, að það er rétt, að það hefur orðið verðfall á afurðunum, og það ber vitanlega að taka tillit til þess. Það verðfall er þó nokkuð tilfinnanlegt. En menn gera hér miklu meira úr því en rétt er í sambandi við rekstur sjávarútvegsins í heild. Og svo vitanlega þýðir ekki að stökkva með öllu fram hjá því, að þetta verðfall var skollið á löngu, löngu áður, mörgum mánuðum áður en viðreisnarlöggjöfin var sett og að í grg. fyrir viðreisnarfrv. var það skýrlega tekið fram, að búið væri að taka tillit til verðfalls á mjöli og lýsi. Þetta stóð í grg. frv., og það var því fyllilega tekið tillit til þess. Það má vel vera, að ekki hafi verið tekið tillit til þess nægilega og það skakki einhverju. En ég hef ekki trú á því, að þarna sé nein stór skýring á þeim erfiðleikum, sem sjávarútvegurinn á við að búa, þó að þarna megi kannske finna einhvern lítinn þátt í sambandi við erfiðleikana.

Ég sagði hér áður, að ég tel, að þau ákvæði, sem felast í þessu frv., séu í rétta átt. Þau miða að því út af fyrir sig að létta hér nokkuð á sjávarútveginum, rétta rekstrinum nokkra hjálparhönd í sambandi við greiðslu vátryggingariðgjalda og létta af 21/2% gjaldinu á næsta ári. En þetta nær vitanlega allt of skammt. Vandinn er ekki leystur með þessu, og því þarf hæstv. ríkisstj. að gera sér grein fyrir — og einnig því, að hún getur ekki látið þessi mál afskiptalaus. Hún verður að gefa sig að því að reyna að koma þessum málum þannig fyrir, að framleiðslan geti gengið með eðlilegum hætti allt næsta ár. Ég vil líka benda hæstv. ríkisstj. á það, að jafnvei þó að það skref sé nú stigið að létta þessum útflutningsskatti af, sem aldrei hefði átt að leggjast á, — og það sannast nú, að það voru í rauninni engin rök fyrir því að leggja hann á, — að jafnvel þótt þetta skref sé stigið og jafnvel þótt einhver vaxtalækkun yrði ákveðin síðar, þá dugir það ekki til. Það þarf þá um leið að tryggja, að sá bætti hagur, sem við þetta skapast hjá fiskframleiðslunni, komi einnig fram í hækkuðu fiskverði til fiskiskipanna, því að málin liggja þannig við, að um leið og þessi gjöld eru lækkuð, þá verður það allt saman hagur fiskvinnslunnar, frystihúsanna og annarra fiskkaupenda. Þetta rennur allt fyrst í vasa þeirra. Og það er ákaflega hætt við því, að svo geti farið aftur eins og fór að verulegu leyti á síðastliðinni vertíð, að bátarnir eigi erfitt með að sækja sinn hluta af þeim bótum, sem kynnu að verða veittar þarna, ef ríkisvaldið stuðlaði ekki að því á beinan eða óbeinan hátt að koma þessum bótum einnig út í fiskverðið til þeirra, sem fiskinn framleiða. Ég held, að það sé alveg óhjákvæmilegt, að hæstv. ríkisstj. hafi þetta atriði einnig í huga, þegar hún gerir sínar ráðstafanir til þess að styðja útflutningsframleiðsluna. Hún verður að sjá til þess, að þær bætur, sem veittar verða, komist alla leið eða a.m.k. að þeim verði skipt réttlátlega á milli þeirra, sem fiskinn vinna, og hinna, sem veiða hann. En til þess þarf auðvitað ríkisstj. að brjóta odd af oflæti sínu í sambandi við sínar yfirlýsingar um það, að hún skipti sér ekkert af þessum málum. Hún veit það sjálf, að hún er búin að gera það í framkvæmd. Hún hefur þurft að vera að semja við útvegsmenn að undanförnu. Hún hefur þurft að vera að gera alls konar ráðstafanir, sem eru hliðstæðar þeim ráðstöfunum, sem gerðar voru hér á uppbótatímabilinu. Ríkisstj, hefur unnið þetta verk þrátt fyrir sínar yfirlýsingar um það, að hún ætli ekki við menn að tala og nú verði þeir að eigast við einir, og eins verður hún að fara að í sambandi við ákvarðanir um fiskverð. Og ég vænti þess, að hæstv. sjútvmrh. sjái, að það er jafnnauðsynlegt að vinna að því eins og þeim öðrum bráðabirgðaráðstöfunum til stuðnings framleiðslunni, sem hann hefur verið að vinna að að undanförnu, sem er þó svo undarlegt, að þó að hann hafi verið að vinna að því að koma þessum ráðstöfunum fram, þá vill hann helzt ekkert við það kannast.