13.12.1960
Neðri deild: 37. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 517 í B-deild Alþingistíðinda. (318)

134. mál, efnahagsmál

Sigurður Ágústsson:

Herra forseti. Ég undrast nokkuð málflutning hv. 4. þm. Austf. (LJós), ekki sízt þegar hann talar um hið ágæta árferði, eitt það bezta, sem komið hefur yfir landið. Átti hann við árið 1958, — og þrátt fyrir þessa árgæzku var hann og aðrir hæstv. ráðherrar í vinstri stjórninni komnir að því að gefast upp vorið 1958 og gáfust fullkomlega upp í desemberbyrjun sama ár með þeim ummælum þáv. hæstv. forsrh., að allt efnahagslíf þjóðarinnar væri að komast í kaldakol. Það er undravert, að þessir menn skuli koma nú, hver af öðrum þessara hv. fyrrv. ráðherra, og lýsa hér yfir, að aldrei hefði ástandið verið betra en í tíð vinstri stjórnarinnar. Ég vil einnig vekja athygli á þeim málflutningi hv. 4. þm. Austf., að verðfall hafi verið nokkuð á afurðum. Ég viti slíkan málflutning. Hann veit það, að fiskimjöl hefur fallið um nær helming, og það má teljast að sé meira en nokkurt verðfall á afurðum. Hann veit, að fiskimjöl var selt seint á árinu 1959 á 20 sh. og 6 pence pr. proteineiningu, en meginið af framleiðslunni frá því í vetur, því fiskimjöli, sem þá féll til, hefur verið selt fyrir 11 sh. pr. proteineiningu — eða nær helmings verðfall. Og það telur þessi hv. þm. að sé raunar nokkurt verðfall. Þá tel ég, að hann hafi ekki farið alveg rétt með málflutning hæstv. atvmrh., þegar hann var mættur á aðalfundi L.Í.Ú. nýverið. Þar var ég staddur ásamt fjölda annarra meðlima innan L.Í.Ú., og ég minnist þess glöggt, að hæstv. ráðherra sagði, að í útflutningssjóði væru eftirstöðvar, sem tilheyrðu útveginum, rúmar 40 millj. kr., sem vitað væri um eða þá væru fyrir hendi. Geri ég ráð fyrir, að allur þingheimur, sem þar var saman kominn, muni þetta jafnt og ég. En mér virðist nú, að hv. 4. þm. Austf. vilji halda allt öðru fram, sem hæstv. atvmrh. hafi sagt í þeirri ræðu og síðar í samtali við nefnd, sem var send af fundinum til að eiga tal við hæstv. ráðherra, í sambandi við að fá þetta fé, sem hæstv. ráðherra var raunar búinn að lýsa yfir, að þessi samtök útgerðarmanna mundu fá heimild til að ráðstafa„ eftir því sem þau teldu heppilegast. Nefnd sú, sem fór á fund hæstv. ráðherra, minnist ég ekki að hafi nokkru sinni lýst yfir á aðalfundinum, að ráðherrann hafi lýst yfir við nefndina, að ríkisstj. mundi fallast á að borga öll iðgjöld fyrir bátaflotann og togaraflotann fyrir árið 1960. Ég hef margsinnis rætt þetta mál við hæstv. ráðherra, og hann hefur ávallt sagt það sama, að þeirri upphæð, sem kynni að verða umfram í útflutningssjóði af þessu 21/2 % útflutningsgjaldi, sem hefur verið lagt á íslenzkar sjávarafurðir, yrði ráðstafað eftir ósk samtaka útgerðarmanna eða félags þeirra, L.Í.Ú.

Ég vil aðeins leiðrétta þetta, því að mér finnst það ekki rétt, og ég skil ekkert í hv. 4. þm. Austf. að koma með slíkan málflutning hér fund eftir fund í þessari hv. deild, og það er ekki laust við, að það hvarfli að manni, að hér sé um afbrýðisemi að ræða. Þessi hv. þm. var atvmrh. á undan þeim hæstv. ráðherra, sem nú skipar það sæti, og hann vegur ótt og títt að eftirmanni sínum í þessu starfi — og það ekki með neinni sanngirni.

Ég get lýst yfir, að það er rétt hjá þessum hv. þm., að það er að sjálfsögðu ósk allra útvegsmanna að geta komizt einhvern veginn létt af með greiðslu á iðgjöldum báta sinna fyrir yfirstandandi ár, en ég fullyrði jafnframt, að það séu fáir útgerðarmenn, sem séu þeirrar skoðunar, að það liggi loforð fyrir frá hæstv. ríkisstj. um, að það verði greitt fyrir hennar atbeina. Ég get einnig sem útvegsmaður lýst því yfir, að það væri mjög æskilegt, að vextirnir yrðu lagfærðir eitthvað frá því, sem þeir eru nú. Þetta er óskhyggja allra, sem þurfa á miklu lánsfé að halda og þykir vaxtabyrðin þung, og ég efast ekki um, að hæstv. ríkisstj. hafi fullan vilja á að sinna þeim málum, eftir því sem hún telur fært. Og ég geri ráð fyrir, eins og fram kom í ræðu Sverris Júlíussonar. formanns L.Í.Ú., sem birt var í blöðunum í morgun, að það séu einhverjar áætlanir frammi um það að lækka vaxtabyrði á næsta ári.

Ég taldi rétt að flytja hér það, sem ég vissi réttast í þessum málum, og eins og ég tók fram áðan, tel ég, að hv. 4. þm. Austf. hafi hér talað meira og djarfara um þetta mál og ekki af mikilli sanngirni.