13.12.1960
Neðri deild: 37. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 519 í B-deild Alþingistíðinda. (319)

134. mál, efnahagsmál

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Ég hafði vonað, að þetta frv. mundi geta komizt til nefndar á þessum fundi, og þess vegna mun ég reyna að vera eins stuttorður og ég get, enda hefur hvort tveggja skeð, að hv. 2. þm. Vesturl. hefur glögglega hnekkt þeim áburði, sem hv. 6. þm. Sunnl. var hér að bera á mig og raunar hv. 4. þm. Austf. einnig, og svo hefur hitt skeð um leið, að í ræðum þeirra hv. Austurlandsþingmanna, 1. og 4., hefur lítið komið nýtt fram frá því, sem kom fram í þeirra frumræðu fyrst hér í kvöld. En ég skal samt leyfa mér að minnast ögn á ræðu hv. 6. þm. Sunnl., því að hann vék að mér alveg sérstaklega persónulega og vildi endilega reyna, hvað sem raulaði og tautaði, að sanna upp á mig ósannindi. Og hann fór bæði aftur í tímann og kannske fram í tímann til þess að reyna að finna þessum orðum sínum stað. Hann vildi halda því fram, að hvað sem í bréfi mínu til L.Í.Ú. stæði og hvað sem ég hefði sagt þar á fundi, þá hefðu samt fulltrúarnir á fundi Landssambandsins skilið það svo, að ríkisstj. hefði skuldbundið sig til að greiða allt vátryggingariðgjaldið 1960. Ég get ekkert að þessu gert, annað en það að segja, að það er fráleitt, eins og ég hef sagt áður, að þetta hafi nokkurn tíma komið fram við nokkurt tækifæri frá mér, eins og hv. 2. þm. Vesturl. hefur líka staðfest. Þetta er hreinn tilbúningur frá upphafi til enda frá þeim mönnum, sem því hafa haldið fram.

Ég hirði svo ekki að fara út í að rekja aðrar umsagnir þessa hv. þm, um það, að ég hafi átt að bera rangt mál. Hann fór aftur í umræðurnar í janúar 1959, þegar samið var um fiskverðið til bátanna. Ég ætla, að það hafi komið skýrt fram þá um mína afstöðu í því máli, að hún hafi ekki verið vefengd þegar allt kom til alls, og hafi verið gerð nákvæmlega grein fyrir henni.

Hann vildi líka draga það fram, að ég hefði lýst því yfir að hafa stöðvað dýrtíðina 1959, en hann gleymdi að geta þess, sem ég sagði alltaf við þau tækifæri, þegar um dýrtíðina var talað og stöðvunina á því ári, að vandi framtíðarinnar þar væri óleystur, þannig að það er fullkomlega óeðlilegt og rangt að halda því fram, að þetta hafi verið loforð um fullkomna stöðvun.

Síðast klykkti hann út með því að halda því fram, að ég hafi talið Sjómannasamband Íslands vera minn sérstaka skjólstæðing. Nú er mér algerlega ókunnugt um, hvar ég á að hafa látið þau orð falla, en kannske veit hv. þm. það líka. Þetta er vísast af því, að hann kann sjálfsagt illa við ónákvæmni í orðalagi og vill, að þar sé allt slétt og fellt og satt og rétt, og það get ég ekki láð honum, og sjálfsagt hugsar hann í því efni til fyrirrennara míns í embættinu.

Ég skal annars ekki fara lengra út í að ræða þetta, að öðru leyti en því, að mig langar til að víkja örfáum orðum að þeirri algerlega nýju skýringu, sem hv. 6. þm. Sunnl. kom með um eignarhaldið á þessum peningum, sem hér er verið að ræða. um. Hann vildi nefnilega halda því fram, að því er mér skildist, að þessir peningar væru ekki eign útvegsmanna, heldur væru þeir eign sjómannanna sjálfra, sem hafa unnið við að afla fisksins. Í því sambandi vil ég minna hann á, að þó að ég fyrir mitt leyti hefði talið, að það væri ekki óeðlilegt, að sjómennirnir gætu fengið meira fyrir sinn afla, þá er ekki hægt að koma þessari skýringu að í þessu tilfelli. Í lögunum um efnahagsráðstafanirnar er þess nefnilega getið, að fiskverðið til sjómanna skuli vera hið sama og það var 1959 í febrúarmánuði, þangað til um annað verði samið. Og þetta er fram komið vegna þess, að í efnahagslögunum er gert ráð fyrir því, að bæði verkamenn, sjómenn og aðrir launamenn í landinu taki, a.m.k. fyrst um sinn, ekki hækkun á sín laun, á meðan kerfið getur ekki greitt meira. Það var alveg sams konar hugsun, sem lá til grundvallar fyrir þessu, að sjómennirnir skyldu á árinu 1960 fá sama verð fyrir sinn afla og þeir fengu 1959, eins og þegar gengið var út frá því, að það yrði ekki til að byrja með, á meðan kerfið væri að festast, möguleiki á því að hækka laun til verkamanna eða annarra launþega. Ég tel þess vegna, að þeir, sem hafa misst í, séu útgerðarmenn bátanna, því að þeir hafa fengið 10 aurum lægra verð fyrir hvert fiskkíló hjá vinnslustöðvunum en þeir mundu hafa fengið, ef 21/2% skatturinn hefði ekki verið til. Það eru þess vegna þeir og þeir einir, sem í þessu sambandi hafa tapað við það, að skatturinn hefur verið á lagður, og þess vegna þeír og þeir einir, sem mér finnst að eigi að endurgreiða, þegar um það er að ræða að endurgreiða þetta fé, sem umfram er í útflutningssjóði.

Allar hugleiðingar um efnahagskerfið og ágalla þá, sem á því eru, skal ég láta niður falla, þar sem fundartími er nú á enda. En óneitanlega finnst mér það eðlilegt að spyrja hv. 1. og hv. 4. þm. Austf., hvernig á því geti staðið, að það var rokið til að slíta vinstri stjórninni haustið 1958, ef allt var í svona stöku og fínu lagi þá. Alþfl. skrifaði Framsfl., þegar það heyrðist, að það stæði til að slíta þessari stjórnarsamvinnu, og lagði til, að efnahagsmálin og þeirra afgreiðsla yrði lagt fyrir Alþingi, eftir að þáv. forsrh., Hermann Jónasson, hafði fengið hryggbrot hjá Alþýðusambandinu. Það yrði sem sagt reynt að halda áfram og reynt að freista að leysa málið. En samt sem áður, það næsta, sem gerist, er það, að hæstv. þáv. forsrh., Hermann Jónasson, fer hingað inn í Alþingi og tilkynnir, að það sé útilokað að leysa vandann. Hann talar um holskefluna og bergbrúnina og allt þetta, sem frægt er, og það sé engin samstaða innan þáv. ríkisstj. um lausn vandans, sjálfsagt vegna þess, að vandinn hefur verið svo stór og mikill, að það væri ekki hægt að leysa hann eftir þeim leiðum, sem hægt væri að koma sér saman um. Og það leynist engum, sem um þessi mál hugsar, að sá vandi, sem þá var fyrir dyrum, var æði mikill.

Þegar hv. 1. þm. Austf, segir, að það sé með öllu rangt að bera saman núverandi ástand og það, sem var 1958, þá er ég út af fyrir sig því samþykkur. Það, sem á að bera saman er núverandi ástand og það, sem orðið hefði, ef ekki hefðu verið gerðar þær ráðstafanir, sem gerðar hafa verið. Og um það er ég ekki í neinum vafa, að það ástand, sem nú er í efnahagsmálunum hjá okkur, er hátíð á móti því, sem hefði orðið, ef ekki hefði þarna verið spyrnt við fótum.