16.12.1960
Neðri deild: 41. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 556 í B-deild Alþingistíðinda. (328)

134. mál, efnahagsmál

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Það var í tilefni af ummælum, sem hér féllu nú hjá hæstv. fjmrh. varðandi aflabrögðin á þessu ári.

Ég hafði nokkuð vikið að því áður í umr., að sú tilraun hæstv. ríkisstj. að afsaka erfiðleika- sjávarútvegsins nú á þessu ári með aflaleysi væri dæmd til að mistakast, því að þar væri raunverulega rangt með farið. En enn þá heldur hæstv. fjmrh. þessu sama fram hér og virðist ekki taka tillit til þess, sem honum hefur verið bent á í þessum efnum, varðandi alveg augljósar skýringar, Ég hafði sagt hér áður, að það væri rétt, aflí togaranna á þessu ári er óvenjulítill. Hann er með minnsta móti. Hins vegar er ómögulegt fyrir nokkurn mann, sem þekkir inn á rekstur togara, að gera slíkan samjöfnuð á milli ára, eins og hæstv. fjmrh. gerði hér, og sýnist engin ástæða til þess, að hann geri það, eftir að búið er að benda honum á það áður, að slíkur samanburður fær ekki staðizt. Það er vitanlega alveg rangt að tala um það, að aflamagn togaranna nú hafi fallið um einn þriðja, borið saman við veiðina í fyrra, en hlaupa algerlega fram hjá því, að rekstri togaranna á þessu ári hefði verið háttað með allt öðrum hætti en var árið á undan. Þeir hafa nú siglt miklu meira á erlendan markað og þar af leiðandi ekki getað verið eins marga daga að veiðum og vitanlega ekki getað fiskað eins mörg tonn af þeim ástæðum. Það er vitanlega tilgangslaust að ætla að halda því fram hér í sífellu, að afli togaranna hafi raunverulega rýrnað um 40 þús. tonn, miðað við október í ár og október í fyrra. Slíkur samanburður er út í hött. Þá verður um leið að taka tillit til þess, að á þessum sama tíma í ár sigldu togararnir 98 söluferðir á erlendan markað með afla sinn, en á sama tíma í fyrra aðeins 32 ferðir. Þegar þetta er tekið með í reikninginn, er vitanlega aflarýrnun togaranna hvergi nærri eins mikil og hæstv. fjmrh vildi hér láta vera. En það er alveg rétt, eins og ég hef margsinnis bent hér á áður, að jafnvel þó að tekið sé tillit til þessa, þá er um nokkra aflarýrnun hjá togurunum í ár að ræða. Hitt er einnig vitað, að þegar togararnir eru þannig gerðir út, að þeim er ætlað að fiska meira fyrir erlendan markað og minna fyrir innlendan, þá fellur ævinlega aflamagnið, fyrir utan það, sem ég var að greina hér, að skipin erg auðvitað langan tíma í siglingum á milli landa. Það leiðir hins vegar af því, að það er leitað eftir öðrum fiski fyrir erlenda markaðinn heldur en þeim, sem innlendi markaðurinn tekur gjarnan við. Það verður oft og tíðum meiri gæðafiskur, sem leitað er eftir fyrir erlenda markaðinn, og þá fellur líka alltaf aflamagnið af þeim sökum.

Það, sem ég vildi aðeins draga fram í þessum efnum, er þetta: Það er algerlega rangt að halda því fram, að aflabresturinn hjá togurunum nú, sem að vissu leyti er, sé svona mikill, borið saman við árið í fyrra, eins og þessar tölur segja. Það er rangt.

Viðvíkjandi svo hinu, að nú séu fleiri togarar en áður voru í gangi, þá leyfi ég mér að efast um, að það hafi verið svo í framkvæmd, að þeir hafi verið fleiri. Nú hefur hins vegar borið miklu meira á því en áður, að togararnir lægju og væru ekki reknir. Ætti m.a. hæstv. fjmrh. að þekkja eitthvað til þess, því að ríkið sjálft á einn togara, sem er búinn að vera bundinn hér í líklega meira en hálft ár og héfur ekki verið rekinn og ryðgar niður, þar sem hann liggur hér í höfninni, en hafði verið rekinn áður. Einn af þessum fimm nýju togurum, — en þeir voru að koma seint á árinu og koma tiltölulega lítið inn í þetta magn, sem hér er um að ræða, — einn þeirra fór víst eina veiðiferð og svo lagðist hann. Ég hef að vísu ekki fyrir mér skýrslur um það hér, hvernig þátttaka togaranna hefur verið í veiðum á þessu ári og svo aftur á árinu á undan, en ég dreg það mjög í efa, að hægt sé að tala um, að það hafi verið stærri veiðifloti togara að veiðum í ár en í fyrra.

En svo komu hinir þættirnir. Mér fannst, að hæstv. ráðh. hagaði orðum sínum þannig hér, að hann vildi láta í það skína, að nú væri á þessu ári um almennan aflabrest að ræða, það væri hér um minni afla að ræða hjá bátaflotanum og togaraflotanum samanlagt. Þetta er rangt. Ef hann tekur þann hluta aflans, sem er vitanlega sambærilegur og rætt er um sérstaklega, sem er heildarafli fiskibátanna og togaranna á öðru en síldveiðum, — en síldveiðarnar eru hér alveg sér á blaði, — og taki hann einnig tillit til þessa, sem ég var að segja áðan í sambandi við rekstrarform togaranna, þá er auðvitað enginn vafi á því, að heildaraflamagn bátaflotans í landinu og togaranna er mun meira í ár en það var í fyrra. En bezt sýnir það þó, hve þessi samanburður allur er rangur hjá hæstv. ráðh., að virða aðeins fyrir sér sjálfa aðalvertíðina á bátaflotanum, sem er vetrarvertíðin, en það liggur þó alveg óumdeilanlega fyrir og hefur verið lesið upp hér í þessum umr., að afli bátaflotans á vetrarvertíðinni, sem hér skiptir mestu máli, var um 14% meiri en hann var árið á undan og sá mesti, sem við höfum haft á vetrarvertíð. Og strax að lokinni vetrarvertíðinni töldu útvegsmenn engan rekstrargrundvöll vera fyrir rekstri bátaflotans, svo að ekki gat þar verið sú afsökun í gildi, að erfiðleikar bátaflotans stöfuðu af aflaleysi, þeir erfiðleikar, sem bátaflotinn stóð frammi fyrir strax að vetrarvertíðinni lokinni. Nei, erfiðleikar bátaflotans í landinu verða ekki heldur skýrðir með því, þó að afli togaranna sé nokkru minni en hann var í fyrra. Erfiðleikar bátaflotans verða ekki skýrðir á þann hátt. Það er rétt, að síldaraflinn er nokkru minni en hann var árið á undan. En hvorki þessi hæstv. ráðh. né aðrir hafa getað hnekkt því, sem ég hef hér sagt, að það var ekki meira eða sérstakara aflaleysi á síldveiðum nú í sumar en svo, að borið saman við það, sem við höfum haft við að búa um margra ára skeið, þá er þetta næsthæsta aflaár á síldveiðum um 16 ára skeið. Það er aðeins árið 1939, sem var nokkru hærra, en næst kemur árið 1960, svo að hér var ekki um frekara aflaleysi að ræða á síldveiðum en það aflaleysi, sem við höfum haft við að glíma um margra ára skeið. Aflinn á síldveiðunum afsakar því ekki á nokkurn hátt þá sérstöku erfiðleika, sem nú er við að glíma hjá okkar útvegi.

Ég held, að hæstv. ríkisstj. ætti að hætta að reyna að villa sjálfri sér og öðrum sýn í sambandi við þau alvarlegu vandamál, sem þjóðin stendur nú frammi fyrir varðandi afkomu sjávarútvegsins í landinu, með því að þrástagast á því, að þessir erfiðleikar stafi af aflaleysi. Sá, sem trúir því, að erfiðleikar sjávarútvegsins nú stafi af aflaleysi, miðar líklega allar sínar gerðir nú við það að gera ekki neitt til stuðnings framleiðslunni, vegna þess að hann reiknar með því, að ekki verði aflaleysi á næsta ári. Hann heldur, að það sé hægt að búa við óbreytt ástand. Þeir menn virðast ekki hafa skilið, að hér þurfi neinna aðgerða við. En ég er hræddur um, að ríkisstjórnin og þjóðin öll eigi eftir að finna það, að ef slíkt skilningsleysi verður ríkjandi, þá geti orðið þröngt fyrir dyrum, þá finni menn, að það vanti eitthvað í okkar þjóðarbúskap, þá verði ekki allt í gangi á næsta ári, ef menn daufheyrast við því að gera nauðsynlegar ráðstafanir. Nei, hið sanna er það, að erfiðleikar bátaflotans í landinu, sem nú er við að glíma, eru þrátt fyrir það, að afli bátaflotans er betri en hann hefur verið um langan tíma. Hitt játa ég, að togaraflotinn á við nokkra sérstaka erfiðleika að etja nú, vegna þess að afli hans er óvenjulítill, minni en hann var í fyrra, þegar hann var þó lélegur.

Svo kemur hin afsökunin, sem mjög er haldið á lofti, en það er verðfall á mjöli og lýsi. Það er rétt, það hefur oft verið tekið hér fram, þar er tvímælalaust um nokkurt áfall að ræða. En það er líka mesti misskilningur að halda því fram, að það sé þetta, sem sé meginorsök vandamálsins, sem við er að glíma. Það hefur verið bent á það hér áður, að þetta verðfall var komið, áður en viðreisnarlöggjöfin var sett, og það var tekið fram um það leyti, sem sú löggjöf var samþ. hér á Alþingi, að með þessu verðfalli væri reiknað, og það er enginn vafi á því, að það er rétt, að með því hefur verið reiknað af þeim, sem undirbjuggu viðreisnarlöggjöfina, að meira eða minna leyti. Það hefur ekki fengizt upplýst, hvaða verð þeir hafa lagt til grundvallar á mjöli og lýsi, en þeir gáfu það upp sjálfir, að þeir hefðu þegar reiknað með verðfallinu, enda var það skollið á fyrir löngu. Það er svo aftur annað mál, að ráðstafanir ríkisstj. hafa orðið þess valdandi, að þetta verðfall hefur á margan hátt orðið miklu þungbærara fyrir framleiðsluna en það hefði þurft að verða. Í fyrsta lagi var það, að ríkisstj. meinaði útflytjendum beinlínis framan af að flytja t.d. mjöl og lýsi á þá markaði, sem gáfu hæst verð. Og menn voru beinlínis knúðir til þess að selja á þá markaði, sem borguðu lægra verð, — beinlínis knúðir til þess. Auk þess var það, að hinir háu vextir, sem samþykktir höfðu verið, gerðu það að verkum, að menn gátu ekki legið með afurðirnar yfir þann tíma, þegar verðið lá langlægst, — það var allt of dýrt að liggja með afurðirnar og bíða eftir nokkurri hækkun, — og flestir seldu síðan á þeim tíma, sem verðið var einna lægst, en síðan átti verðið eftir að hækka og hefur verið að hækka. En það gefur vitanlega auga leið, að þegar vextirnir eru svo gífurlega háir eins og þeir eru nú, þá er líka mikill vandi að liggja með afurðirnar og bíða eftir einhverri breytingu á erlendum mörkuðum.

Á móti þessu hefur svo líka margt fleira komið, eins og alltaf gerist, þegar svona mál ber við. Það hefur orðið hjá okkur einmitt nú, þegar verðlækkun hefur orðið á fiskimjöli, stórkostleg breyting með nýtinguna á því hráefni, sem annars fór í mjölframleiðsluna. Ég sé, að samkv. síðustu útflutningsskýrslum okkar erum við búnir að flytja út nú yfir 10 þús. tonn af hraðfrystum fiskúrgangi, aðallega selt sem refa- og minkafóður á tiltölulega mjög góðu verði, sem skilar fyllilega jafnmiklu hráefnisverði og við fengum fyrir hráefnið, þegar það fór í mjölframleiðsluna og mjölið var á hæsta verði. Þetta hefur vitanlega komið sem verðuppbót raunverulega á hráefnið á móti verðlækkuninni, sem varð á mjöli. Þessa framleiðslu þekktum við varla áður. Þá varð svo að segja allur fiskúrgangur að ganga til mjölframleiðslu. Þetta hefur líka komið á móti.

Ég fullyrði það, að þessar afsakanir hjá hæstv. ríkisstj. í sambandi við þá erfiðleika, sem menn nú standa frammi fyrir hjá sjávarútveginum, fá ekki heldur staðizt. Verðfallið var skollið á, löngu áður en viðreisnarlöggjöfin var sett. Sérfræðingar ríkisstj. segjast hafa tekið tillit til verðfallsins í samþandi við sínar ráðstafanir. Og vissar aðrar verðhækkanir hafa komið hér á móti eða framleiðslugreinar, sem gefa verðhækkun og draga aftur úr þessu.

Þetta er ekki heldur orsökin fyrir erfiðleikunum í ár. Orsökina er vitanlega auðvelt að sjá og auðvelt að finna. Ég skal nefna hér dæmi, sem mætti sýna mörgum manni þetta. Orsökin í sambandi við erfiðleikana, sem menn standa frammi fyrir í sjávarútvegsmálunum nú, er m.a. sú, að með þeim ráðstöfunum, sem gerðar hafa verið nú í gjaldeyrismálum þjóðarinnar, með gengislækkuninni og því, sem henni fylgdi, þá fór það svo, að verð á meðalfiskibát, sem oftast var í kringum 3–4 millj., þaut skyndilega upp í 5–6 millj. á slíkum bát. Verð á nýtízku togara, sem gat verið, miðað við fyrra verðlag. 20–25 millj., þaut skyndilega upp í um 40 millj. kr. Og menn tala gjarnan nú um þessa gífurlega dýru báta, 6 millj, kr. báta og 40 millj. kr. togara. Á þennan endann kom öll hækkunin fram að fullu, áhrif gengisbreytingarinnar og ráðstafanir ríkisstj. í efnahagsmálum. Þarna komu þær fram að fullu. En hvernig komu þær aftur fram hinum megin, í sambandi við tekjuhliðina hjá þessum sömu aðilum, sem nú þurftu að reka svona miklu dýrari skip en áður? Hvernig kom það fram í sambandi við tekjuhliðina? Jú, það kom þannig fram, að það var almennt talið, að fiskverð til bátaflotans með þeim hlunnindum, sem fylgdu og voru felld niður með gengislækkuninni, — að fiskverðið væri í kringum kr. 2.40–2.50 á kg. Og hvað hækkaði svo fiskverðið mikið? Það fór upp í kr. 2.53 fyrir meginið af fiskinum yfir vetrarvertíðina og upp í kr. 2.63 hæst, og mjög víða var fiskverðið meginhluta ársins, yfir sumarið og haustið kr. 2.20–2.47 eða lægra en það var áður. Það varð því engin hækkun á tekjuhliðinni hjá útgerðinni, á sama tíma sem hún mátti nú standa undir miklum mun dýrari skipum en áður og á sama tíma sem rekstrarkostnaður útgerðarinnar almennt stórhækkaði. Það var þetta, sem olli erfiðleikum útvegsins, og það er þarna, sem er að finna þann vanda, sem er við að glíma. Vextirnir voru hækkaðir stórkostlega, og það vitanlega olli útgerðinni stórauknum útgjöldum.

Ég álít, að það sé alveg nauðsynlegt, að hæstv. ríkisstj. geri sér grein fyrir því, að þessar afsakanir, sem hún og ýmsir hennar menn hafa verið að færa fram fyrir því, hvernig komið er, eru að verulegu leyti rangar. Ég viðurkenni, að nokkuð af erfiðleikum togaranna, en þeir eru alveg óvenjulegir í ár, sé vegna minni afla en áður. Ég veit líka, að nokkur vandi er á höndum í sambandi við lækkað verð á vissum útflutningsvörum, sem þó vitanlega hafa alltaf skilað miklum minni hluta af heildartekjunum, mjöli og lýsi. Þar er líka um nokkurt áfall að ræða; það er rétt. En afli bátaflotans hefur verið miklu meiri en í meðallagi á þessu ári, þó að erfiðleikarnir séu svona yfirgnæfandi eins og raun ber vitni um.

Þetta vildi ég leggja á áherzlu, hef gert það áður og vil endurtaka það nú með þessum orðum mínum í sambandi við það, sem hæstv. fjmrh. sagði hér, af því að ég álít, að það sé eitt meginatriðið, til þess að ráðið verði nú fram úr þessum erfiðleikum, að hæstv. ríkisstj. fáist til þess að viðurkenna það, hvernig stendur raunverulega á þessum vanda, en sé ekki alltaf að hlaupa út undan sér á þennan hátt og bera því við, sem ekki á hér við nema þá að sáralitlu leyti.