16.12.1960
Neðri deild: 41. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 567 í B-deild Alþingistíðinda. (330)

134. mál, efnahagsmál

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Mér virðist nú sem umr. við þessa umr. ætli að falla mjög í sama farveg og við 1. umr., þ.e.a.s. um efnahagsmálin almennt, en minna um það frv., sem hér liggur fyrir að afgreiða.

Þetta frv., sem hér .liggur fyrir, fer aðeins fram á tvennt, þ.e.a.s. að afnuminn verði 21/2% útflutningsskatturinn, sem lagður hefur verið á allar útfluttar afurðir, og að heimilað verði að nota þann afgang, sem í útflutningssjóði er, þegar öllum skuldbindingum hans er lokið, í þágu þeirra atvinnugreina, sem hafa lagt fé fram í sjóðinn, þ.e.a.s. að langmestu leyti til sjávarútvegsins og þá í samráði við landssamtök útvegsmanna til þess að greiða vátryggingargjöld skipanna, svo langt sem hann nær. Ég skal ekki fara að rifja upp það, sem um þetta var sagt við 1. umr. En aðeins finnst mér, að ég geti ekki komizt hjá því að minnast á eitt atriði, sem þá bar mjög á góma og kannske mest, að mér er sagt, þegar ég gat ekki verið hér viðstaddur í gærkvöld, ætla ég, að það hafi verið, og í sambandi við söluskattinn hefur þetta líka komið fram, þ.e.a.s. það, að því hefur verið haldið fram, að staða útflutningssjóðs hafi í árslok 1959 verið svo góð, að ekki hafi þurft til neins útflutningsskatts að grípa.

Og meira að segja hafa sumir ræðumenn, að því er mér er tjáð, reiknað sig upp í það, að afgangurinn af útflutningssjóði verði nú miklu meiri en nemur þeim útflutningsskatti, sem greiddur hafi verið, og þeim, sem eftir er að greiða.

Út af þessu vil ég aðeins taka fram, að ég held, að allar tölur, sem notaðar hafa verið um stöðu útflutningssjóðs fyrr og síðar, séu ekki undan rifjum ríkisstj. runnar, heldur allar komnar frá stjórn útflutningssjóðsins og þess vegna fyrst og fremst á hennar ábyrgð. Ég segi þetta ekki stjórn útflutningssjóðs til neins vansa, en ég vil aðeins geta þess, að þessar tölur eru alls ekki á neinn hátt búnar til eða fundnar af ríkisstj., heldur þarna frá komnar.

Í nóvembermánuði 1959, þegar drögin voru lögð að efnahagsmálalöggjöfinni, var talið, að staða útflutningssjóðsins væri þannig, að það mundi vanta 270 millj: kr. á, að endarnir gætu náð saman, þegar hann hefði staðið við sínar skuldbindingar. Gert var svo ráð fyrir, að 150 millj. af þessari upphæð fengjust með gengishagnaði, en 120 millj. yrðu teknar með útflutningsskatti. Ég held, að þessi tala, 270 millj., hafi verið mjög nálægt því að vera rétt og hali útflutningssjóðs vissulega þetta mikill, þó að nú hafi komið á daginn, að meira verði eftir í sjóðnum en gert hafði verið ráð fyrir, þegar þetta yfirlit var gert. Og þetta er auðskýranlegt og auðskiljanlegt, ef maður vill líta á málið með sanngirni og ekki reyna að vefja það inn í einhverjar umbúðir, sem mér virðist nú hafa verið gert þannig í umr., að það sé helzt til þess fallið að reyna að torvelda mönnum að skilja stöðu sjóðsins. Það, sem skeði í árslok 1959, þegar þessi áætlun var gerð, var það, að stjórn útflutningssjóðs reyndi að mynda sér skoðun um það, hvað mikið af þeim vörubirgðum, sem til voru í landinu og áætlað var að mundu verða til um áramótin, mundi seljast á gamla genginu fyrir 15. febr. 1960 og hvað mikið eftir. Og það var náttúrlega nauðsynlegt að gera þetta, því að með hverju krónuverðmæti, sem út var flutt á fyrra tímabilinu, varð útflutningssjóðurinn að borga 80% úr sjóðnum. En fyrir hverja krónu, sem út var flutt, eftir að gengisbreytingin var gerð, þurfti sjóðurinn ekki að borga neitt, heldur fékk hann um það bil 50% tekjur. Í þessu liggur sá munur, sem orðið hefur á stöðu sjóðsins þá og nú. Það er að segja, við það, að það dregst meira en gert hafði verið ráð fyrir að flytja út þessar vörur, þannig að þær eru fluttar út á hinu nýja gengi, þá fær sjóðurinn tekjur af þeim í staðinn fyrir að borga með þeim úr sjóðnum. Þetta er það, sem hefur skeð, og þetta er það, sem hefur bætt hag sjóðsins þannig, að hann getur nú átt við uppgjör þessar tiltölulega háu upphæðir, sem ekki hafði verið reiknað með í upphafi eða á þessu tímabili. Það er þess vegna eingöngu fyrir efnahagsaðgerðirnar, sem sjóðurinn hefur orðið eins öflugur og reynslan sýnir í dag. Það er vegna gengislækkunarinnar, að sjóðurinn hefur eignazt það fé, sem hann hefur eignazt; og eingöngu þess vegna, því að hagur sjóðsins og halli um áramótin eða rétt fyrir áramótin 1959–60 var vissulega, eins og sagt hefur verið, um 270 millj. kr., þó að hann sé nú orðinn það miklu minni, að hann geti skilað aftur þeim fúlgum, sem nú er gert ráð fyrir, þ.e.a.s., þegar allt er innheimt, um eða yfir 80 millj. kr. Það er annað líka, sem framkvæmdastjóri sjóðsins hefur tjáð mér í dag við eftirgrennslan. Ég spurði hann um þetta mál: Hann sagði, að þegar vara er flutt út til Ameríku, hraðfrystur fiskur, þá er hún seld í umboðssölu og gjaldeyrisskilin eru ekki gerð fyrr en miklu síðar. En úr sjóðnum er greitt, um leið og umboðsvaran fer úr landi, 75% af áætluðum uppbótum, eða um það bil 60% af andvirði vörunnar. Í staðinn fyrir að þurfa nú að bæta við á þessa uppbótargreiðslu, þessi 60%, 20% í viðbót til þess að komast upp í 80%, þá fær sjóðurinn við gengisbreytinguna framlag, sem nemur 133% vegna gengisbreytingarinnar. Það er því gengisbreytingin og gengisbreytingin ein, sem hefur framkallað þá stöðubreytingu, sem orðið hefur á útflutningssjóðnum. Og það er hún, sem hefur gert honum mögulegt að skila aftur þessum upphæðum, þessum 80–88 millj. kr., sem gert er ráð fyrir að hann geti skilað, þegar hann verður endanlega gerður upp og hefur greitt allar sínar skuldbindingar og fengið alla sína peninga. Þetta er nauðsynlegt að hafa í huga fyrir þá, sem með sannleiksleit fyrir augum vilja reyna að komast að botni í málinu. Ég veit að vísu ekki, hvort allir hafa það fyrir augum, sem um þetta mál hafa fjallað hér. Í þessu og þessu einu liggur orsökin.

Efni þessa litla frv. er ekki mikið né flókið, eins og ég sagði í upphafi, aðeins um þetta tvennt, að afnema skattinn og nota afganginn í þessu skyni, sem ég hef líka nefnt. En ég get ekki látið hjá líða að geta þess, að mér hefur í dag borizt bréf frá Landssambandi ísl. útvegsmanna, þar sem farið er fram á það, að þessum skatti verði haldið áfram, — útflutningsskattinum, 21/2%, verði haldið áfram og hann innheimtur eins og áður og notaður til áframhaldandi greiðslu vátryggingariðgjalda. Ég hef svarað þeim því, sem þetta mál fluttu við mig, að ég teldi ekki rétt að blanda því saman við þessa afgreiðslu hér, vegna þess að það hefur engin tengsl við efnahagsmálaafgreiðsluna í sjálfu sér, heldur er þetta aðeins fyrirkomulagsatriði um greiðslu á vátryggingariðgjöldum og ætti því að takast upp sérstaklega, ef það verður gert: Ég vildi aðeins skýra frá, að þetta hefði komið fram, ef út í það verður farið síðar að gera einhverjar ráðstafanir í þessa átt eftir ósk útvegsmanna sjálfra, því að þetta hefur ekkert samband við það frv., sem hér er verið að afgreiða. Það er aðeins fyrirkomulagsatriði um greiðslu vátryggingariðgjalda útvegsmanna, hvort sem það verður nú tekið upp í þessu formi eða öðru eða þeir gera það sjálfir, ef þeir óska. Það er einungis þeirra mál. En ég vildi, að þetta kæmi hér fram.

Um frv. sjálft hef ég svo ekkert frekar að segja, en vænti, að það geti fengið að ganga fram nokkurn veginn með eðlilegum hætti og hraða, a.m.k. verði afgreiðslu þess lokið, áður en þinginu er frestað nú eftir nokkra daga, til þess að það verði hægt að taka þá sjóðseign útflutningssjóðs, sem handbær er, eða verulegan hluta af henni til þess að nota í því skyni, sem frv. gerir ráð fyrir. En eins og ég sagði í upphafi, hafa þessar umr, nú fallið mikið til í sama farveginn og við 1. umr., og ég hef heyrt hér þá tvo þm. Austf, hv. 1. og hv. 4. þm. þess kjördæmis, flytja hér nokkurn veginn sömu ræðuna og þeir fluttu við 1. umr., og skal ég þess vegna ekki elta ólar mikið við það. Ég get þó ekki stillt mig um að rifja upp, hversu fráleit fullyrðing hv. 4. þm. Austf. er um það, að eiginlega hafi aflabrögðin á árinu 1960 verið góð og lítið eða ekkert verri en þau voru árið áður. Hann sagði að vísu, að aflabrögð togaranna hefðu verið ögn lakari, en það væri ekki svo mikið, að orð væri á gerandi, og hann vildi skýra mismuninn í aflabrögðum fyrst og fremst með því, að togararnir hefðu farið fleiri söluferðir til útlanda og þar af leiðandi verið skemur á veiðum en árið áður, og mismunurinn í aflabrögðum væri kannske ekki mjög miklu meiri en sem svaraði þeim tíma, sem tapazt hefur við þessar söluferðir. Ég man nú ekki nákvæmlega, hvaða tölur hann nefndi um fjölda söluferðanna, og ég hef ekki sannprófað, hvort þær eru réttar, en ég held, að hann hafi nefnt, að þær væru 66 ferðum fleiri á árinu 1960 en þær voru á árinu 1959 til 1. okt., þ.e.a.s. þann hluta ársins, sem við er miðað, þegar við höfum rætt um breytingu í aflabrögðum togaranna á þessu ári, því að lengra ná skýrslur ekki. Ef gengið er út frá því, að þessi tala sé rétt, að togararnir hafi farið 66 ferðum oftar til útlanda en á árinu 1959 á sama tíma, og ef gert er ráð fyrir, að það fari upp undir hálfur mánuður í ferð fram og til baka, þá svarar það til 33 mánaða veiðitíma fyrir einn togara. En hv. þm. tekur ekki með á móti þá togveiðimánuði, sem nýju skipin hafa lagt fram í þessa „púlíu“, sem þó eru áreiðanlega margir. Það er að vísu svo, að nýju skipin komu flest síðari hluta ársins, þó að eitt hafi komið a.m.k. á miðju sumri, og það kemur þó alltaf þarna til frádráttar. Enn fremur má geta þess, að á árinu 1959 voru veiðiferðirnar til Nýfundnalands miklu fleiri en þær voru á árinu 1960 á sama tíma, og ferðalagið frá Nýfundnalandi til Íslands og til baka er nú ekki miklu styttra en frá Íslandi til Þýzkalands, sem togararnir helzt hafa farið til. Ég ætla þess vegna, að ef ferðatíminn á árinu 1960 er tekinn og borinn saman við ferðatímann 1959, þá sé ekki þar neinn verulegur munur á, og ef nokkur er, þá sé hann heldur meiri 1959 en hann var á árinu 1960, þannig að togtímarnir hjá togurunum á árinu 1960 eru sízt færri en þeir voru á árinu 1959. Þetta verður að taka með, ef á að gera upp aflann miðað við togtíma, sem sjálfsagt er sá réttasti grundvöllur, sem hægt er að hafa til samanþurðar. En hver er svo mismunurinn í afla á þessum 3/4 úr ári, sem samanburðurinn nær yfir? Hann er hvorki meira né minna en í kringum 40 þús. tonn. Og ef gert er ráð fyrir því, að aflinn sé svona upp og ofan um kr. 2.50 kg, þá eru þetta hvorki meira né minna en 100 millj. kr. Það eru 100 millj. kr., sem togararnir hafa haft minna í afla 1960 en þeir hafa haft 1959. Og segi hann svo, þessi hv. þm., að hér sé mjög litill munur á. Ætli togarana munaði ekki um það, ef þeir hefðu fengið hver talsvert mikið á þriðju millj. kr. meira fyrir afla sinn á þessum þremur ársfjórðungum heldur en þeir hafa raunverulega fengið? Ég ætla það.

Þá þrástagast báðir þessir hv. þm. á því, að aflinn á síldveiðunum í sumar hafi nú aldeilis ekki verið klénn, hann hafi verið sá næsthæsti á undanförnum 16 árum. Þetta er út af fyrir sig gott og blessað. Það er hægt að standa við þetta. Þetta er sjálfsagt rétt í tölum tekið. En hver reginmunur er ekki á þeim skipastól, sem hefur átt við þessar síldveiðar í ár, og á þeim útgerðarkostnaði, sem orðið hefur með öllum þeim nýtízkutækjum, sem fengin hafa verið, að því ógleymdu, að næstum því hver einasti bátur hefur með tilkomu hinna nýju nælonnóta orðið að gera upp allan sinn veiðarfæraútbúnað? Það er þetta, sem gerir það að verkum, að afkoma síldveiðanna í ár er svo miklu, miklu verri en reiknað hafði verið með og eðlilegt hefði verið. Síldarleitartæki hafa verið sett í fjölmörg skip og nýjar nætur í þau öll, og hvort tveggja kostar mörg hundruð þúsunda króna. Ég held þess vegna, að það sé fullkominn misskilningur að reyna að telja manni trú um það, að vegna þess að heildaraflinn 1960 er sá næstmesti, sem fengizt hefur síðustu 16 ár, sé afkoman við þessar veiðar eitthvað sérstaklega góð. Nei, það er vissulega ekki.

Bátaútvegurinn hefur fengið eins mikið og í fyrra, sagði hv. þm., og jafnvel meira. Já, þetta er rétt. En hvað mörg skip hafa bætzt við í flotann á þessu tímabili? Hvað mörg ný skip og dýr skip hafa bætzt við flotann? Hvað hefði aflamagnið með eðlilegum hætti átt að aukast mikið við það? Nær aukningin, sem orðið hefur, því, sem þessi skip hefðu átt að afla? Það er síður en svo. Útkoma bátanna, þó að þeir hafi í heild fiskað örlítið meira en í fyrra, verður, miðað við skipatölu og útbúnað, miklu lakari en áður. Það er þetta fyrst og fremst, sem valdið hefur því, að afkoma útvegsins er verri í ár en hún var í fyrra, og vissulega einnig verðfallið á mjöli og lýsi. Það er hald fróðustu manna, að það sé a.m.k. 150 millj., sem sú sala gefi verri útkomu en hún hefði átt að gera, ef verðið hefði haldizt eins og það var í fyrra. Ég held, að þessar staðreyndir, 150 millj. kr. minna vegna lækkaðs vöruverðs og 100 millj. kr. minna vegna minnkaðs afla togaranna og verulega minna vegna síldveiðanna, þetta geri sannarlega svo mikið strik í reikninginn, að það sé nóg til að skýra þá erfiðleika, sem orðið hafa á hag útvegsmanna í ár, miðað við það, sem var í fyrra.

Þegar gengisbreytingin var gerð, var hún miðuð við það, að hagur útvegsins yrði eins og áður, eins og árið 1959, eða ekki lakari en árið 1959, að óbreyttum afla og óbreyttu söluverði á afurðunum. Ef þetta hefði staðizt hvort tveggja, aflinn orðið óbreyttur og vöruverðið líka haldizt, þá er óhætt að fullyrða, að afkoma útvegsins hefði ekki orðið lakari en hún var í fyrra. Ég held því, að það sé óhætt að slá föstu því, sem þessir menn eru alltaf að reyna að hrekja, að versnandi hagur útgerðarinnar stafi ekki af þeirri kerfisbreytingu, sem gerð hefur verið á efnahagsmálum þjóðarinnar, hann stafi ekki af henni, heldur eingöngu af minnkandi aflabrögðum og lægra verði á afurðum.

Hv. 1. þm. Austf., sem talaði hér næst á undan mér, sagði, að nú væri verið að grípa til nýrra ráðstafana til þess að bæta upp þau mistök, sem unnin hefðu verið með setningu efnahagslaganna. Það er rétt, að það hefur verið talað um það að endurgreiða afgang útflutningssjóðs til útvegsins. Hvað nemur það miklu? Það nemur kannske í hæsta lagi 80 millj. kr. Það hefur verið talað um að lækka eitthvað vextina. Um það er ekkert afráðið enn þá. Þó að það verði gert, nemur það ekki nema kannske í hæsta lagi tveimur tugum millj. króna. En þó að þetta væri greitt til útvegsins hvort tveggja, þá nægir það ekki nema til þess að borga í kringum þriðjunginn af þeim skakkaföllum, sem útvegurinn hefur orðið fyrir af völdum aflatregðu og verðfalls. Og hvar er þá það, sem verið er að leggja fram vegna þess, að kerfið hafi gert þeim erfitt fyrir? Þessi ef ég má kalla það aðstoð — eða þessi endurgreiðsla á afgangi útflutningssjóðs og breyting vaxta er ekki nema lítill hluti af þeim skakkaföllum, sem þessi atvinnuvegur hefur orðið fyrir af aflatjóni og verðfalli. Það er því síður en svo, að það sé verið að greiða nokkuð upp í mistök hins nýja kerfis, og því miður ekki einu sinni hægt að bæta sjávarútveginum upp þau skakkaföll, sem hann hefur orðið fyrir af þessum tveim ástæðum, sem ég hef nú lýst.

Þá kom hv. síðasti ræðumaður nokkuð inn á gjaldeyriseign bankanna og það, sem hæstv. fjmrh. hafði sagt um aukningu á gjaldeyríseign þeirra, og fór um það mjög einkennilegum orðum, að því er mér fannst. Hann flutti þá alveg nýju og nýstárlegu kenningu, a.m.k. hef ég aldrei heyrt hana fyrr, að með því að safna gjaldeyrisinnstæðu erlendis eða bæta gjaldeyrisstöðuna værum við að éta út eigur þjóðarinnar. Mér finnst þetta afar skrýtin kenning af manni, sem hefur verið fjmrh. helminginn af sinni pólitísku ævi. Hún var svona, nákvæmlega svona: að það væri verið að éta út eigur þjóðarinnar með því að bæta gjaldeyrisstöðuna. Ég sannast sagna er ýmsu vanur úr þessari átt, en þetta á ég algerlega ómögulegt með að skilja með mínum bezta vilja. Ég hélt þvert á móti, að það væri verið að geyma — til þess að geta étið síðar — verulegan hluta af tekjum þjóðarinnar, sem þarna væri lagður fyrir. Og það er auðvitað það, sem er verið að gera. En að það beri vott um einhverja sérstaka eyðslu að safna fyrir gjaldeyrisforða, það er svo fráleitt, að tekur engu tali. Ég vil segja, að einhver veikasti punkturinn í öllu okkar efnahagskerfi sé, að við höfum aldrei getað eignazt neinn gjaldeyrissjóð, — aldrei. Við höfum verið með negatívan verzlunarjöfnuð í fjöldamörg ár, og það ætti þessi hv. þm. að þekkja vel úr sinni ráðherratíð. Þeir erfiðleikar, sem því eru samfara að slá út lán til næsta dags, en geta aldrei farið í sinn eigin vasa og borgað af innstæðu, það eru þeir erfiðleikar, sem hafa verið einna verst viðráðanlegir hjá öllum stjórnum upp á síðkastið. Ég held, að það sé eitt af því allra nauðsynlegasta, sem við þurfum að gera, Íslendingar, að eignast einhvern gjaldeyrissjóð, sem við getum notað, ef í harðbakka slær. Það er þess vegna það fyrsta, sem við þurfum að gera, að reyna að koma pósitívum greiðslujöfnuði við útlönd til þess að geta farið að safna svolitið í þennan sjóð eða mynda vísi að slíkum sjóði. Fyrst er auðvitað að borga upp þann lausaskuldahala, sem við erum með og höfum verið með allt of lengi, og stefna síðan að hinu, að mynda gjaldeyrissjóð.

Ég skal ekki fara út í það frekar, þó að það væri freistandi, hvernig þessi staða var orðin og hversu erfitt það var fyrir þjóðina að slá lán frá degi til dags til þess að geta aflað sér hinna brýnustu nauðsynja. Það var komið svo langt á niðurleið, að það var komið alveg á mörkin, að við gætum slegið nægilega mikla peninga til þess að geta borgað okkar brýnustu nauðsynjar. Það hélt við, að bankarnir þyrftu að loka um áramótin 1959 og 1960, og þess vegna voru þessar ráðstafanir nauðsynlegar, — fyrir utan það, að það kostar líka meira að lifa á þennan hátt. Vaxtagreiðslurnar eru gífurlegar og afborganir á stuttum lánum eru líka gífurlegar. Það er nú vitað, að við erum ekki í tölu þeirra þjóða, sem mesta gjaldabyrði hafa, heldur erum við komnir upp fyrir þær hæstu. Gjaldabyrðin á árinu 1961 er áætluð talsvert á fimmta hundrað millj. kr. Það verður þarna að spyrna við fótum, ef ekki á að fara allt úr skorðum hjá okkur.

Hv. þm. sagði, að það væri nú meiri hörmungin, ef gjaldeyrisaðstaðan gæti ekki batnað nú. En vissulega var stefnt að því að bæta gjaldeyrisstöðuna, og það hefur tekizt. Það hefur tekizt að bæta hana. Það er einn þátturinn af þeirri viðleitni, sem uppi var höfð með setningu efnahagslaganna, að bæta gjaldeyrisstöðuna, og það hefur tekizt. Það hefur að vísu orðið á kostnað almennings í landinu að nokkru leyti, það skal viðurkennt. En það er bara ekki hægt að gera það öðruvísi en það sé gert á kostnað almennings í landinu. Ég held, að ríkisstj. hafi tekizt að deila þeim byrðum, þótt erfiðar séu, ekki óréttlátlega, því að ég hef engan heyrt nefna neinn hóp manna í þessu þjóðfélagi, sem þurfi ekki að taka á sig einhverja slíka byrði. Það er nauðsynlegt, til þess að fólkið uni við þær, að nokkuð hlutfallslega jafnt sé lagt á herðar hvers og eins, og það verður ekki gert öðruvísi en einhverjar byrðar séu lagðar á herðar hvers og eins. Hitt er svo allt annað mál, að þær byrðar, sem nefndar hafa verið í þessu sambandi af hv. stjórnarandstöðu, eru svo miklu meiri en rétt er. Þeir segja, að verð á vörum og þjónustu skeri alveg úr um þetta. En verð á vörum og þjónustu er ekki það eina, sem þarna kemur til greina. Þær ráðstafanir, sem gerðar hafa verið við hliðina á og ætlaðar eru til að draga úr erfiðleikunum hjá almenningi, verða vissulega að teljast með, ef rétt mynd á að fást. Bætur almannatrygginganna koma hér náttúrlega fyrst og fremst til greina. Og ef þær eru teknar með í reikningsdæmið, þá er ekki hækkun framfærslukostnaðar, eins og stjórnarandstaðan vill vera láta, kannske 15, 16 stig, heldur er hún aðeins í kringum 4 stig. Og það er það, sem ríkisstj. hafði vonað, að þjóðin mundi sætta sig við, á meðan jafnvægi væri að komast á og á meðan þessi nauðsynlega læknisaðgerð væri að fara fram.

Ég tel svo ekki ástæðu til, að ég ræði um þetta frekar að sinni. Ég vildi aðeins láta það koma fram, hvers vegna útflutningssjóðurinn hefur getað orðið þess megnugur að skila þessum afgangi, sem hann hefur gert, sem ég tel vera beina afleiðingu af þeim ráðstöfunum, sem gerðar hafa verið, og ef þær hefðu ekki verið gerðar, þá hefði skuld útflutningssjóðs verið enn í dag um 270 millj. kr., sem hann væri að basla með. Ég vildi líka láta það koma fram, að útvegsmennirnir hafa óskað eftir, að þessum skatti yrði fram haldið. En hvað sem um það verður, þá tel ég ekki rétt að blanda því saman við þetta, heldur verði það að takast upp sérstaklega.