16.12.1960
Neðri deild: 41. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 584 í B-deild Alþingistíðinda. (333)

134. mál, efnahagsmál

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Ég skal nú ekki blanda mér inn í þær almennu umr., sem hér hafa fram farið, og lengja með því fundartímann. Það er aðeins eitt atriði, sem ég vildi ræða um og vekja athygli á, og koma á framfæri nokkrum leiðréttingum, sem mér sýnast nauðsynlegar. Það er vegna þess, sem fram kemur í nál. 1. minni hl. fjhn. um sparifjáraukninguna í landinu og hæstv. fjmrh. vék að í sinni ræðu hér síðdegis í dag. Ég skal ekki fara neitt út í þann þátt, sem hann ræddi og fól í sér vissar ábendingar, en aðeins vekja athygli á því, hvernig þessu dæmi um sparifjáraukninguna er stillt upp í nál., því að það fær að mínum dómi ekki staðizt, eins og það er.

Hv. 1. þm. Norðurl. v. gerði grein fyrir því, að hann hefði sínar tölur úr hagskýrslunum, þar sem birtar væru tölur um veltuinnlánin í bönkunum og sparifjárinnlánin sundurliðaðar, og hann tæki þessar tölur saman, það lá sem sagt fyrir. Og út frá því sjónarmiði eru þessar tölur sennilega réttar eða alveg réttar. Ég hef þó eina litla aths. að gera, sem skiptir ekki máli. En eftir að hafa upplýst þetta, talaði hv. þm. alltaf í ræðu sinni um sparifjáraukningu landsmanna í sambandi við þessar tölur. Og hann dregur þá niðurstöðu í nál. sínu, að af þessum samanburði sjáist, að síðustu 12 mánuðina fyrir 1. nóv. þetta ár hafi sparifjáraukningin í bönkum og sparisjóðum orðið tiltölulega langtum minni en næstu tvö árin þar á undan þrátt fyrir vaxtahækkunina. Og blað flokks þessa þm., Tíminn, hefur um það stóra fyrirsögn yfir alla forsíðuna í dag, að sparifjáraukningin sé nær helmingi minni en 1958, og byggir það á þeim upplýsingum, sem fram komu í ræðum hv. þm. og fram koma í þessu nál.

Nú eru spariinnlög og veltuinnlög í bönkum og sparisjóðum alveg sitthvað, og ég skal koma að því síðar, og það er mikill eðlismunur á þessum tveimur þáttum innlána. Ef tölurnar, sem notaðar eru, eiga að sýna annaðhvort minnkun eða vöxt spariinnlaganna, verður að nota spariinnlánin ein og tölurnar, sem segja til um þau. Nú hefði mátt ætla, að þetta væri hægur vandi fyrir hv. þm., jafnglöggskyggn og hann er og ekki sízt á tölur, enda hafði hann fyrir sér, eins og hann sagði sjálfur, sundurliðun á þessu, annars vegar sparlinnlánunum og hins vegar veltuinnlánunum. En ef við tökum sparlinnlánin á þessu sama tímabili og alveg við nákvæmlega sömu tímamót og hv. þm. gerir, þ.e.a.s. við októberlok 1958, 1959 og 1960, þá verður niðurstaðan þessi, að sparlinnlögin hafa vaxið frá 1957 til 1958 um 110.4 millj. í bönkunum; eða 10.5%, frá 1958 til 1959 um 178.7 millj., eða 15.4%, en frá október 1959 og til októberloka 1960 um 18.3%. Og þá segja þessar tölur, sem þm. hefur haft fyrir sér, ekki, að sparifjáraukningin sé nær helmingi minni á þessu árí en 1958, heldur er sparifjáraukningin frá október 1959 til októberloka 1960 57.5% meiri en sparifjáraukningin frá októberlokum 1957 til októberloka 1958. Í sparisjóðunum lítur þetta öðruvísi út, því að þar er hlutfallsleg minnkun á spariinnlögunum miðað við árin á undan. Hlutfallstölurnar eru 20.4% 1957–1958 og næsta ár 24% og 12% frá 1959–1960. Í sambandi við þennan mismun þykir mér ekkert ólíklegt, að það hafi haft sín áhrif, sem þm. vék að, sú ákvörðun Seðlabankans að binda helming sparifjáraukningarinnar í sparisjóðunum og í bönkunum í Seðlabankanum. Ég er hv. þm. sammála um og hef alltaf talið, að þetta væri mjög hæpin ráðstöfun, eins og hún var framkvæmd, og ég tel nauðsynlegt að endurskoða gaumgæfilega þær reglur, sem Seðlabankinn hefur fylgt í Sambandi við frystingu hluta sparifjárins, enda hygg ég, að það sé til endurskoðunar. Þetta hefur allmikið verið rætt á milli viðskiptabankanna og Seðlabankans, og ég held einmitt, að þessi mismunandi niðurstaða á sparlinnlögum í bönkum og sparisjóðum, sem þarna kemur fram, bendi til þess, að töluvert að sparifjáraukningunni eða sparifjármynduninni úti um landið, þar sem sparisjóðirnir eru, hafi farið fram hjá sparisjóðunum að nokkru leyti af þessum ástæðum. Ég er þm. efnislega sammála um það.

En þá komum við að hinu, að þegar innlögin í heild, veltuinnlánin og sparlinnlánin, eru lögð saman, þá koma hins vegar fram þær niðurstöður, sem í nál. eru birtar og hv. þm. fór með í sinni ræðu. Þar kemur fram þessi mynd, sem er athyglisvert að líta á sérstaklega, að veltuinnlánin eða innlán á hlaupareikningi aukast í bönkunum 1957–58 um 202 millj. kr., eða 44.7%, 1958–59 um 167.4 millj., eða 25.5%, en 1959–60 um 67.9 millj., eða ekki nema 8.2%, og það er þessi litla aukning á hlaupareikningsinnlánunum og veltuinnlánunum, sem leiðir til þeirrar niðurstöðu, sem hv. þm. fær, þegar hann tekur saman spariinnlánin og veltuinnlánin. Þessi mynd er líka töluvert öðruvísi um sparisjóðina, og til fróðleiks ætla ég að nefna þær tölur líka. Frá 1957 til 1958, miðað við októberlok, aukast veltuinnlánin í sparisjóðunum hlutfallslega um 30.9%, 1958–59 um 22.9%, en 1959–60 um 23.4%.

Ég skal nú víkja nokkuð að því, hver eðlismunur er á þessum tveimur innlánsþáttum. Sparifjáreigendurnir í landinu eru fyrst og fremst almenningur í þessu landi. Það eru hinir mörgu, sem spara. Það hefur verið svo, og það er svo, og ég hygg, að það muni þannig verða. Veltuinnlánin eru hins vegar þeir fjármunir, sem atvinnureksturinn hefur lausa á milli handa, stundum meiri og stundum minni, auk þess sem veltuinnlánin í bönkunum verða fyrir stórkostlegum sveiflum af alveg sérstæðum atvikum, og það er vegna innistæðu margvíslegra sjóða, eins og fiskveiðasjóðs, landbúnaðarsjóðanna og ýmissa annarra sjóða, sem við vitum að stundum hafa átt töluvert í pokahorninu, en aðra stundina sáralítið. Og þannig er það t.d. í Útvegsbankanum, þar sem fiskveiðasjóðurinn er, að meginið af þeim veltufjármunum, sem hafa farið út úr bankanum á þessu ári, eða það, sem veltuinnlögin hafa lækkað um, er úr fiskveiðasjóði, sem átti 40 millj. kr. innistæðu í bankanum um áramótin síðustu, en það fer allt saman út á þessu ári, og miðað við þetta tímabil, 30. október, hafa farið út 30 millj, kr. af veltuinnlánunum. Þetta á auðvitað ekkert skylt við almenna sparifjármyndun í landinu, hvort þessi liður vex eða minnkar. Nú minnkar hann vegna hinna miklu skipakaupa á undanförnum árum. Stundum hefur hann hlaðizt upp, þegar hlé hefur orðið á bátakaupum, eins og var veturinn 1947 og 1948 um tíma. Sjóðurinn hefur fastar tekjur af útflutningnum, sem eru langveigamestar, fyrir utan sínar vaxtatekjur, sem eru orðnar nokkrar, af því að hann á orðið töluverðan höfuðstól. Og ég vil t.d. benda á það, að öll innlánsaukningin á hlaupareikningum í bönkunum, öllum bönkum landsins, er 67.9 millj. frá okt. 1959 til okt. 1960. En á sama tíma hafa hlaupareikningarnir í Útvegsbankanum lækkað um 30 millj. bara vegna fiskveiðasjóðs. Og þá sjáum við, hvað mikil áhrif þetta getur haft.

Svo er annað, sem hefur auðvitað veruleg áhrif á veltuinnlánin, og það er útlánapólitíkin, sem rekin er í landinu, útlánastarfsemi bankanna fyrst og fremst. Og jafnvel getur það haft áhrif á sparifjármyndunina líka, því að mikil útlán — hvort við viljum orða það óeðlilega mikil útlán — geta auðvitað leitt til sparifjármyndunar, sem í sjálfu sér er kannske ekki eðlileg, og sérstaklega til innlánsaukningar á hlaupareikningum atvinnurekstrarins. En þegar útlánin eru verulega takmörkuð, eins og gert hefur verið, þá leiðir það auðvitað til þess, að kaupsýslumenn, iðnrekendur og kannske sjávarútvegsmenn, er líkt stæði á um, verði að nota allar þær innstæður á hlaupareikningum, sem þeir hafa haft, þeim mun meira sem haldið er í útlánin, á sama tíma sem mikil gengisbreyting hefur farið fram og krefur þess vegna miklu meira rekstrarfjár.

Útlánaaukningin er þess vegna atriði, sem ber að hafa í huga alveg sérstaklega, þegar við erum að tala um veltuinnlán, þróun veltuinnlána í peningastofnunum. Og hún hefur sannarlega haft í þessum efnum veruleg áhrif, og þess vegna er rétt að líta á hana líka. Útlánaaukning bankanna hefur verið á þessum sama tíma — ég nota alltaf sömu tímamót — frá lokum október 1957 til 1958 396.6 millj., útlánaaukningin það ár, eða 14,7%, 1958–1959 530.5 millj. kr., eða 17.1%, en 1959–60 aðeins 9.8%. Og útlánaaukningin er líka minni úr sparisjóðunum, fyrsta tímabilið 27.8%, annað tímabilið 19.4% og síðasta árið 15.8%. Nú má deila um, hvort hér sé um heilbrigða og eðlilega þróun í útlánaaukningu að ræða, og ég skal engan dóm á það leggja hér. En eins og þetta er, hefur þetta gífurlega mikil áhrif í sambandi við veltufjármunina, og þegar veltufjármununum er blandað saman við sparlinnlögin, þá verður auðvitað myndin um sjálf sparlinnlögin algerlega röng og í raun og veru furða ég mig nokkuð á því, að menn hafi geð í sér til þess að reyna að stilla upp svona villandi myndum, því að þess ætti ekki að vera minnsta þörf.

Ég skal nú ekki lengja þetta miklu meir, nema í sambandi við útlánaaukninguna vil ég aðeins geta eins, og það hefur margsinnis komið fram hér í umr., að það væri ómögulegt að reka sjávarútveginn — það hefur mest verið talað um hann — vegna þeirrar lánsfjárkreppu, sem sköpuð hefði verið og mynduð hefði verið. En þetta er rangt. Útlánalækkunin hefur fyrst og fremst bitnað á verzlun og iðnaði og langmest á verzlun, en lítið eða ekkert á sjávarútveginum. Það er t.d. þannig í Útvegsbankanum, sem ég þekki til, að árið 1959 fóru 78.7% af útlánaaukningu bankans til sjávarútvegs, en 1960, frá áramótum til septemberloka, eru þessar tölur, sem ég miða við, 92.1%, og það hækkar stórlega hluti útlánaaukningarinnar til sjávarútvegs miðað við það, sem hefur áður verið. Og í aðalbankanum er þetta svo, að af útlánaaukningunni fékk sjávarútvegurinn 1959 68.8%, en 112.13% það sem af er þessu ári, frá ársbyrjun til septemberloka, þ.e.a.s. meira en öll útlánaaukningin er til sjávarútvegsins, sem þýðir það, að það er samdráttur í útlánum til annarra atvinnugreina, sem eru fyrst og fremst verzlunin og iðnaðurinn. Það er langsamlega mest, sem útlánasamdrátturinn hefur bitnað á verzluninni, og það skýrir líka alveg sérstaklega áhrifin, sem þessi útlánastarfsemi hefur haft á veltuinnlánin. Þess vegna er það í framkvæmdinni þannig, að þó að Seðlabankinn hafi takmarkað endurkaup sín, eins og hv. þm. er kunnugt, þá hefur verið lánað sem sagt ekki minna og í sumum tilfellum hlutfallslega miklu meira til sjávarútvegsins, þessarar undirstöðuatvinnugreinar, á þessu líðandi ári heldur en áður, og það hefur bara gerzt með því móti, að það hefur verið lögð miklu þyngri byrði á viðskiptabankana heldur en Seðlabankann. En það hefði hins vegar verið óframkvæmanlegt nema með því móti, að Seðlabankinn lánaði viðskiptabönkunum meira en áður í öðru formi en endurkeyptum víxlum.

Ég skal svo ekki hafa þessi orð fleiri, en vildi aðeins reyna að draga upp þessa heildarmynd í sambandi við það, sem fram hefur komið um sparlinnlögin.