16.12.1960
Neðri deild: 41. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 604 í B-deild Alþingistíðinda. (340)

134. mál, efnahagsmál

Frsm. 1. minni hl. (Skúli Guðmundsson):

Ég vil aðeins segja örfá orð út af síðari ræðu hæstv. sjútvmrh. — Hann er að reyna að finna einhverjar skýringar á þeim geysilega mun, sem er á upplýsingunum, sem komu í febrúarmánuði og svo aftur núna, um stöðu útflutningssjóðs, og vill halda því fram, að það muni stafa af því, að það hafi meira en gert var ráð fyrir verið flutt út af vörubirgðum, sem voru þá til, eftir að gengisbreytingin var gerð. En ég vil vekja athygli á því, að þetta fær alls ekki staðizt, því að samkvæmt lögunum voru það aðeins vörur framleiddar fyrir miðjan febrúar, eða 16. febr. 1960, sem útflutningssjóður átti að greiða bætur á eftir gömlu reglunni og átti að fá gengishagnaðinn af, og það var vitanlega vandalaust fyrir ríkisstj. eða einhverja starfsmenn hennar að áætla þetta, svo að það væri nokkuð nærri lagi, svo að það munaði ekki meira en helmingi, eins og nú er komið á daginn. Þeir hlutu að vita, hvað búið var að framleiða og hvað var til af vörum, enda þeirra útreikningar í sambandi við gengisbreytinguna byggðir á skýrslum um þetta. Ég get ekki séð, að þessi skýring fái staðizt. Útflutningssjóður átti aðeins að fá gengismuninn af vörum, sem voru framleiddar fyrir þennan tíma, áður en gengisbreytingin var gerð, og það var vandalaust að vita það nokkurn veginn, hvað mikið þar var um að ræða.