17.12.1960
Efri deild: 42. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 607 í B-deild Alþingistíðinda. (345)

134. mál, efnahagsmál

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Þetta frv. til l. um breyt. á l. nr. 4 20. febr. 1960, um efnahagsmál, var samþ. shlj. í Nd. s.l. laugardag. Í þessu frv. eru tvö efnisatriði, sem ég vildi leyfa mér að fara um nokkrum orðum. Hið fyrra er það, að gert er ráð fyrir, að útflutningsskatturinn, sem ákveðinn var f efnahagslögunum, fyrst 5% og síðan 21/2%, verði felldur niður af framleiðslu ársins 1961 og síðan, en haldið verði áfram að innheimta skattinn af þeim vörum, sem framleiddar voru á árinu 1960, og hann renni eins og áður í útflutningssjóð. Síðara atriðið er, að því fé, sem verður afgangs í útflutningssjóði, þegar hann hefur lokið við sínar skuldbindingar, verði ráðstafað í þágu þeirra útflutningsatvinnuvega, sem hafa greitt skattinn. Það er að langsamlega mestu leyti sjávarútvegurinn, sem hefur greitt þessi gjöld, en þó landbúnaðurinn að nokkru leyti, og verði eftirstöðvunum af útflutningssjóðsgjaldinu skipt í því hlutfalli, að hvorum aðila verði afhent sitt.

Þegar efnahagsmálalögin voru sett í upphafi þessa árs, var gert ráð fyrir því, að til þess að geta greitt þann halla, sem á útflutningssjóði var þá áætlaður, þyrfti að leggja nokkurn skatt á útflutningsframleiðsluna. Þessi skattur var í fyrstu ákveðinn, eins og ég hef áður sagt, 5%, en síðar lækkaður niður í 21/2%. Þessum skatti var líka ætlað annað hlutverk. Honum var ætlað það hlutverk, að ef eitthvað þrengdi að hjá útflutningsatvinnuvegunum, þá mætti létta undir með því að afnema skattinn. Nú hefur það orðið, eins og öllum er kunnugt, að erfiðleikar hafa steðjað að og alveg sérstaklega að sjávarútveginum á þessu ári vegna aflabrests á árinu og verðfalls á afurðum, sem út hafa verið fluttar. Er af þeim sökum eðlilegt og nauðsynlegt, að þessi skattur verði felldur niður.

Það hefur líka komið í ljós, að hagur útflutningssjóðs hefur orðið betri en reiknað hafði verið með, þar sem gengishagnaðartekjur sjóðsins hafa orðið verulega meiri en reiknað var með í upphafi vegna dráttar á sölu útflutningsafurðanna fram yfir þann tíma, þegar gengisbreytingin varð, og gengisbreytingin þannig valdið því, að afkoma sjóðsins er nú talin miklu betri en hún var, þegar þessi áætlun var gerð.

Það hefur verið rætt við landssamtök útvegsmanna um það, hvernig þessum hagnaði eða afgangi yrði varið, og það hefur orðið að samkomulagi, að hann gangi, eftir því sem hann hrekkur til, til greiðslu á vátryggingariðgjöldum fiskiskipa fyrir árið 1960. Hvort hann hrekkur til eða að hve miklu leyti hann hrekkur til að greiða þessi gjöld, er ekki að fullu vitað enn þá, þar sem afkoma sjóðsins er ekki alveg vituð. En líkur eru til, að þessi afgangur muni ná nokkuð langt til þess að greiða þessi gjöld, þó að kannske verði þar eitthvert bil á milli, sem þá vátryggjendurnir eða báta- og fiskiskipaeigendurnir sjálfir verða að greiða. Þegar næstsíðasti fundur L.Í.Ú. var haldinn í nóvembermánuði s.l., var gert ráð fyrir því, að eignir sjóðsins, að greiddum öllum skuldbindingum, mundu verða kringum 40 millj. kr., en þá var ekki gert ráð fyrir áframhaldi á 21/2% gjaldinu nema til októberloka eða til þess tíma, sem þessi skýrsla var gefin. Nú hefur verið gert upp, hvað eignir sjóðsins munu verða, þegar öllum greiðsluskuldbindingum hans er lokið og með því að innheimta þennan 21/2% skatt af allri framleiðslu ársins 1960, og hefur þá komið í ljós, að líklegt er, að hann muni eiga einhvers staðar á milli 80 og 88 millj. kr. í þessu skyni, þegar yfir lýkur. Af þessari upphæð mun landbúnaðurinn hafa greitt rúmar 4 millj., og er að sjálfsögðu eðlilegt, að hann fái þær þá upp bættar.

Ég held, að þegar þetta frv. er tekið eitt út af fyrir sig, þá sé ekki meira, sem um það þarf að segja, heldur en þetta. Út í almennar umr. um efnahagsmálin yfirleitt skal ég ekki fara, nema tilefni gefist til, og mun þess vegna láta þetta nægja.

Ég vildi leyfa mér að vænta þess, að sú n., sem málið fær til meðferðar, freisti þess að flýta svo störfum, að málið verði afgreitt fyrir þinghlé, þannig að ákvæði frv. geti komið til framkvæmda fyrir eða um áramótin, og vildi óska þess, að hæstv. forseti léði sítt til þess, að svo mætti verða.

Ég vildi svo leyfa mér að leggja til, að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til hv. fjhn.