19.12.1960
Efri deild: 43. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 621 í B-deild Alþingistíðinda. (351)

134. mál, efnahagsmál

Frsm, meiri hl. (Ólafur Björnsson):

Herra forseti. Fjhn. hefur haft þetta frv. til meðferðar og afgreiðsla málsins í n. orðið sú, að allir nm. eru sammála um að mæla með frv., en tveir hv. nm., þeir 1. og 5. þm. Norðurl. e., hafa áskilið sér rétt til þess að flytja frekari brtt. og munu skila sérálitum.

Eins og fram kemur í grg. fyrir frv., er um að ræða aðallega þrjár efnisbreytingar frá núgildandi lögum um þetta efni: Í fyrsta lagi, að heimilað er að fella útflutningsskattinn niður af afurðum, sem framleiddar verða eftir næstu áramót. Í öðru lagi er gert ráð fyrir lækkun útflutningsskattsins niður í 1/2 % af niðursuðuvörum. Og svo í þriðja lagi, að heimilað er að ráðstafa eftirstöðvum útflutningssjóðs til þess að greiða vátryggingaiðgjöld skipa.

Nú er það öllum hv. þdm. kunnugt, frá því að efnahagsmálalöggjöfin var til meðferðar á sínum tíma, að útflutningsskatturinn var aldrei hugsaður sem almenn tekjuöflunarleið fyrir ríkissjóðinn, heldur var tilgangur þess að leggja hann á sá að afla fjár til þess að standa straum af þeim kröfum, sem þá hvíldu á útflutningssjóði, svo að hægt væri að gera hann upp. Eins og fram kom í ræðu hæstv. sjútvmrh. fyrir frv. við 1. umr. hér í hv. d., hefur það nú orðið svo, að það fé, sem útflutningssjóður þurfti til þess að standa undir skuldbindingum sínum, hefur safnazt á skemmri tíma en gert var ráð fyrir að orðið gæti á s.l. vetri, svo að eftir það, að hann hefur staðið við allar sínar skuldbindingar um greiðslu uppbóta á útfluttar afurðir, sem framleiddar voru fyrir efnahagsmálalöggjöfina, verður nokkurt fé til umráða í sjóðnum, og þar sem það er eindregin ósk útgerðarmanna, að því fé verði varið til þess að greiða vátryggingaiðgjöldin, hefur hæstv. ríkisstj. talið, að rétt væri að koma til móts við það sjónarmið og heimila slíka ráðstöfun eftirstöðvanna. Um þetta er n. út af fyrir sig sammála, en eins og ég tók fram, þá óska tveir hv. nm. eftir að flytja frekari brtt., sem ég geri ráð fyrir að þeir geri grein fyrir í framsöguræðum sínum á eftir.